Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Brotlending gegn FH í síðari hálfleik - Akureyri Handboltafélag
FH vann sanngjarnan sigur á liði Akureyrar í gær 19-27 eftir að spenna hafði verið í fyrri hálfleiknum. RÚV mætti í Höllina og sýndi aðeins frá leiknum ásamt því að taka Atla Hilmars sem og Akureyrska þjálfara FH, Halldór Jóhann Sigfússon, í viðtöl.
Næst kíkjum við á viðtöl Einars Sigtryggssonar, blaðamanns Morgunblaðsins sem ræddi við markvörðinn Bjarka Símonarson sem átti magnaða innkomu í leikinn og einnig Andra Berg Haraldsson, leikmann FH.
Bjarki: Sverre er að verða fimmtugur
Kom Bjarki í mark Akureyringa í slæmri stöðu og með góðri markvörslu kom hann sínu liði aftur inn í leikinn. Dugði það skammt því leikur Akureyringa hrundi í síðari hálfleiknum. Bjarki var nú ekki beint hress í leikslok en það var stutt í spaugið. „Það skiptir mig engu máli þó að ég hafi varið þessi skot. Við töpuðum leiknum og þótt ég hefði varið 100 skot í tapi þá hefði ég líka verið fúll. Á þessum kafla small vörnin og mér gekk vel. Sóknarleikurinn varð líka beittari og við söxuðum á þá. Síðan var eitthvað allsherjar andleysi sem fylgdi okkur inn í seinni hálfleikinn.“
Telur þú að það hafi haft áhrif á leikmenn að liðið spilaði síðast á laugardag og menn hafi ekki náð að hvílast nóg, sérstaklega í ljósi þess að það eru nokkrir eldri leikmenn í hópnum? „Nei alls ekki. Það er engin afsökun. Öll liðin lenda í þessu einhvern tímann á tímabilinu og takast bara á við það. Sverre er að verða fimmtugur en samt berst hann alltaf eins og ljón og á nóg á tanknum. Þetta var bara ákveðin prófraun. Okkur hafði gengið vel í síðustu leikjum en fórum alveg með þetta í kvöld. Það er bara næsti leikur. Við ætlum að vinna hann“ sagði Bjarki Sím að lokum.
Bjarki með flotta vörslu í leiknum
Andri Berg: Duttum í eitthvað ástand
Andri Berg Haraldsson hefur verið að gera góða hluti sem sóknarmaður í liði FH í fjarveru sterkra leikmanna liðsins. Sá gamli var flottur gegn Akureyri í kvöld þegar FH vann sannfærandi sigur fyrir norðan í Olís-deild karla. Andri Berg var með þrjú mörk og náði þvílíku flugi þegar hann skoraði eitt þeirra. Hann var að sjálfsögðu sáttur með sigur FH. „Ég er búinn að spila meira í sókninni en ég hef vanist núna eftir áramótin, enda eru alltaf einhverjir meiddir. Nú var Ási ekki með og það er bara skemmtilegt að sjá að maður getur þetta ennþá. Ég nýt þess bara að spila sóknina á meðan ég fæ það og er alltaf klár ef þjálfarinn vill nota mig.“
Nú virtist það ekki há FH-ingum nokkurn skapaðan hlut að tvo lykilmenn vantaði í hópinn hjá þeim í kvöld, þá Ásbjörn Friðriksson og Benedikt Reyni Kristinsson. „Við vorum bara ótrúlega tilbúnir í þennan leik og við erum með fullt af mönnum sem berjast fyrir liðið. Það var þvílíkur kraftur í okkur og á tímabili duttum við í eitthvað ástand þar sem allt gekk upp í vörn og sókn. Við vorum að spila upp á heilmikið í þessum leik og eigum enn séns á þriðja sætinu sem við stefnum á að ná. Það kom aldrei neitt annað til greina en sigur og það sýndi sig bara á okkar leik. Nú er bara að klára dæmið í síðasta leiknum, sem verður gegn ÍBV. Maður veit reyndar aldrei upp á hvað þeir munu bjóða en við hugsum bara um okkur“ sagði hinn mikli öðlingur, Andri Berg að lokum.
Andri Berg horfir á eftir Þrándi svífa inn af línunni
Næst liggur leiðin á visir.is þar sem Birgir H. Stefánsson ræðir við þjálfara liðanna, Atla Hilmarsson og Halldór Jóhann Sigfússona (sem Atli reyndar þjálfaði hér á árum áður með KA).
Atli: Í fyrsta sinn sem ég sé mitt lið ekki berjast
„Við ætluðum að halda okkur í þeim gír sem við höfum verið í síðustu tveimur leikjum þar sem við höfum verið mjög góðir og við ætluðum að halda því áfram,“ sagði Atli Hilmarsson mjög ósáttur strax eftir leik kvöldsins.
„Við byrjuðum mjög illa en fáum svo séns til að komast inn í þetta aftur. Það gekk alveg ágætlega, vorum búnir að ná þessu niður í tvö mörk í hálfleik og síðan niður í eitt. Svo bara gerist eitthvað sem ég kann enga skýringu á. Við erum að gefa boltann frá okkur, við grípum ekki boltann, við erum ekki að taka fráköst og við erum ekki að berjast í vörn. Þeir eru að fá frítt skot hvað eftir annað en samt erum við með einhverja nítján bolta varða, markmennirnir voru að standa sig mjög vel en það sem við buðum upp á hér í seinni hálfleik var algjör skandall.
Ótrúlega mikið af glötuðum boltum, lélegum sendingum og lélegum skotum. Það sem mér finnst eiginlega verst er að við vorum ekki einu sinni að berjast um fráköst og það sýnir eiginlega í hvaða standi við vorum í hér í dag. Ef menn eru ekki til í að fórna sér í alla bolta þá bara gengur þetta ekki upp.“
Núna var stutt milli leikja eins og verður í úrslitakeppninni og liðið virkaði mjög þreytt líkamlega. „Við lögðum þetta upp eins og í úrslitakeppni, við eigum núna leik aftur á fimmtudag. Einhvernvegin virðast menn hafa orðið værukærir eftir sigurinn á móti Haukum. Það verður samt ekkert tekið af FH-ingum sem voru mjög góðir hér í dag og börðust eins og ljón. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé mitt lið ekki berjast, sérstaklega hér í seinni hálfleik þá vantaði alveg fullt upp á það.“
Atli tekur leikhlé og reynir að hressa menn við
Halldór Jóhann: Sýndum gríðarlega karlmennsku
„Frábær sigur“, sagði Halldór Jóhann þjálfari FH strax eftir leik. „Að koma hingað norður og vinna með átta mörkum með svona fáliðaðan hóp eins og við erum með. Ég á fá orð bara, ég er bara virkilega stoltur. Við sýndum gríðarlega karlmennsku, það er bara þannig.
Þetta var í raun mjög svipað leiknum sem fór fram hér 16. október, við vorum með tögl og haldir frá fyrstu mínútu, hann fór minnir mig 20-27 á meðan þessi fór 19-27. Við vorum virkilega góðir varnarlega og einnig sóknarlega, mjög skynsamir og sérstaklega þar sem við vorum svona fáliðaðir.“
Ísak verið frá vegna meiðsla en kemur öflugur inn í leikinn í kvöld. „Ísak er frábær strákur og það hefur verið erfitt að halda honum frá þessu undanfarið. Hann hefur talið sig vera tilbúinn eiginlega bara frá fyrstu viku en við höfum reynt að vera skynsamir með hann. Hann spilaði aðeins lengur en við ætluðum í dag en þetta er Ísak, hann kemur inn í leiki, leggur sig 110% fram og gefur liðinu gríðarlegan styrk.“
Halldór Jóhann messar yfir sínum mönnum
Í lokin eru viðtöl sem Siguróli Magni Sigurðsson tók við Sverra Andreas Jakobsson og Halldór Jóhann Sigfússon en þau birtust bæði á fimmeinn.is og sport.is:
Sverre: Sorglegt að bjóða fólkinu okkar upp á svona
Sverre sagðist lítið geta gefið upp hvers vegna liðið hefði ekki t.d skorað í margar mínútur. Hann sagði það einfaldlega sorglegt að liðið hafi sýnt svona leik þegar fólki hefði verið boðið frítt í höllina á einhverja skemmtun sem svo hefði alls ekki verið raunin.
Halldór: Sigur í einum leik gefur ekki sigur í þeim næsta
Halldór Jóhann þjálfari FH var sáttur með góðan sigur á erfiðum útivelli og sagði að strákarnir væru að stíga upp í erfiðum meiðslum annarra leikmanna.
Alltar fjör þegar þessi lið mætast
30. mars 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Afar mikilvægur leikur í Höllinni í kvöld
Því miður eru allar horfur á því að við höfum ekki tök á að vera með textalýsingu frá leiknum á eftir. Við bendum þess í stað á textalýsingar á visir.is eða mbl.is.
Næstsíðasti leikdagur Olís-deildar karla er runninn upp með með tilheyrandi spennu og taugatitringi. Endanleg röð liðanna í deildinni ræður hvaða lið mætast í átta liða úrslitakeppninni og til að tryggja að allir aðilar sitji við sama borð þá skulu allir leikir síðustu tveggja umferða spilaðir samtímis. Þess vegna hefjast allir leikirnir klukkan 19:30 í kvöld.
Liðin sem mætast í dag eru: Stjarnan - Valur Afturelding - ÍR Akureyri - FH ÍBV - HK Fram - Haukar
Stjarnan berst fyrir lífi sínu í kvöld, með tapi fyrir Val fellur Stjarnan og sömuleiðis fellur Stjarnan ef Fram vinnur Hauka. Valsmenn geta á sama hátt tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri á Stjörnunni og einnig verður Valur deildarmeistari ef Afturelding tapar gegn ÍR.
Það er einnig fjör um miðbik deildarinnar og ýmislegt sem getur gerst þar. Eftir magnaðan sigur Akureyrar á Haukum síðasta laugardag er staðan sú að Akureyri og FH eiga möguleika á fjórða sætinu. FH stendur betur að vígi. Ef Akureyri vinnur í kvöld ræðst það í lokaumferðinni hvort liðið hreppir sætið. Tapi Akureyri leiknum er fimmta sætið reyndar í hættu þar sem bæði Haukar og ÍBV eru alveg á næstu grösum.
Það er allavega augljóst að það er mikið undir í leiknum og hægt að lofa áhorfendum í Íþróttahöllinni að það verður barist til síðasta blóðdropa.
Vonandi fær enginn á kjaftinn í kvöld
Fari svo að Akureyri og FH endi í 4. og 5. sætinu eins og nú er raunin þá munu liðin einmitt mætast í átta liða úrslitunum sem eykur enn á mikilvægi leiksins í kvöld. Ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum þá minnum við enn og aftur á að það er frítt á leikinn – Áfram Akureyri!
Beggi og félagar þurfa þinn stuðning á morgun!
29. mars 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Síðasti heimaleikurinn í deildinni, frítt inn!
Akureyri leikur sinn síðasta heimaleik í Olís Deildinni á morgun þegar FH kemur í heimsókn. FH situr í 4. sæti deildarinnar á meðan Akureyri er í 5. sæti, þrjú stig skilja liðin að. Það verður frítt inn á leikinn og því um að gera að fjölmenna í Höllina og upplifa magnaðan handboltaleik.
Akureyri sigraði Hauka í gær og fór þá upp fyrir Hauka og ÍBV í deildinni, en það er stutt á milli í þessari baráttu. Sigri Akureyri FH á morgun verður liðið aðeins einu stigi á eftir FH fyrir lokaumferðina, en tapist leikurinn þá er líklegt að Haukar eða ÍBV fari upp fyrir liðið á ný. Það er því mikið undir í leiknum á morgun. Hér má sjá stöðuna í deildinni þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.
Efstu 8 lið deildarinnar fara í úrslitakeppni þar sem barist verður um Íslandsmeistaratitilinn. 8-liða úrslitin raðast upp svona: 1. sæti gegn 8. sæti 2. sæti gegn 7. sæti 3. sæti gegn 6. sæti 4. sæti gegn 5. sæti
Efstu fjögur liðin hafa heimaleikjarétt í einvíginu en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki fer áfram í undanúrslit. Það getur því verið ansi mikilvægt að hafa heimaleikjaréttinn.
Með Akureyrskum sigri á morgun er enn möguleiki á að taka 4. sætið af FH og þar með ná heimaleikjaréttinum. Tapist leikurinn hinsvegar mun liðið líklega detta neðar í deildinni og fá þá andstæðing í úrslitakeppninni sem endar ofar í deildinni.
Akureyrarliðið þarf á þínum stuðning að halda, Akureyri - FH hefst klukkan 19:30 í Íþróttahöllinni og við viljum sjá troðfulla Höll! Akureyrarliðið er á góðu skriði og hefur náð í 9 stig af síðustu 12 mögulegum og á stuðninginn svo sannarlega skilinn!
Oddur fékk að finna fyrir því frá Hirti
29. mars 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Kjaftshögg í úrslitaleik Deildarbikarsins gegn FH
Akureyri fær FH-inga í heimsókn annað kvöld í Höllinni í síðasta heimaleik deildarinnar. Með sigri myndi Akureyri vera einungis einu stigi frá FH sem er í 4. sæti deildarinnar sem og ná að halda sér í 5. sætinu. Það er því mjög mikilvægt að Akureyri nái sigri á morgun og þar sem það er frítt inn á leikinn hvetjum við alla til að mæta og styðja okkar lið!
Akureyri og FH hafa mæst oft og mörgum sinnum á síðustu árum og hefur myndast töluverður rígur á milli liðanna. Liðin mættust meðal annars í úrslitaleik Deildarbikarsins tímabilið 2010-2011 þar sem Hjörtur Hinriksson leikmaður FH sló Odd Gretarsson í andlitið með boltanum áður en FH-ingar sigruðu að lokum.
Þess má geta að þetta er ekki í eina skiptið sem leikmaður Akureyrar hefur fengið að kenna á kjaftshöggum frá Hirti, Magnús Stefánsson var laminn tvisvar af Hirti í leik Akureyrar og Fram á sínum tíma áður en Hjörtur fékk loksins rautt spjald. Það má sjá hér:
Handboltaveisla framundan
25. mars 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Taktu mánudaginn frá - þér er boðið á leik Akureyrar og FH
Það er rétt að koma þeim skilaboðum á framfæri strax að öllum er boðið í Íþróttahöllina á mánudagskvöldið þegar Akureyri tekur á móti FH í síðasta heimaleiknum í Olís-deildinni. Við vonumst að sjálfsögðu til að fá troðfullt hús og dúndrandi stemmingu enda er hart barist um að klifra upp stigatöfluna í Olís-deildinni.
Það er rétt að ítreka það að Akureyri er öruggt í úrslitakeppnina og getur ekki hafnað neðar en í 7. sæti deildarinnar en á fræðilegan möguleika á að ná upp í 4. sæti ef allt fer á besta veg.
Leikurinn á mánudagskvöldið hefst klukkan 19:30 en hann er einmitt liður í næstsíðustu umferð deildarinnar en það er krafa að allir leikir í tveim síðustu umferðunum fari fram á sama tíma.
Áður en kemur að ofangreindum leik gegn FH fer Akureyrarliðið í Hafnarfjörð á laugardaginn og spilar þar við Hauka og hefst sá leikur klukkan 16:00 í Schenkerhöllinni. Lokaumferð Olís-deildarinnar verður svo fimmtudaginn 2. apríl en þá fara strákarnir suður og mæta ÍR í Breiðholtinu.
Það er sem sé þétt prógram framundan hjá Akureyrarliðinu, þrír leikir á sex dögum og til mikils að vinna í þeim öllum. Þeir sem komu í Íþróttahöllina síðasta laugardag og sáu sigurleikinn gegn ÍBV urðu vitni að stórkostlegri skemmtun og frábærum leik Akureyrarliðsins. Vonandi var það forsmekkurinn að því sem er framundan.
Haukaleikurinn á laugardaginn
Það er óhætt að segja að leikir Akureyrar og Hauka hafa í gegnum tíðina boðið upp á hasar og spennu. Liðin hafa mæst tvisvar í vetur, í fyrri leiknum sem var heimaleikur Hauka unnu þeir eins marks sigur 24-23 en hér í Höllinni vann Akureyri frækinn sjö marka sigur, 28-21.
Hér að neðan er einmitt hægt að skoða meðfylgjandi myndband af æsilegum lokasekúndum í leik liðanna frá 8. desember 2011. Þegar aðeins ein og hálf mínúta er eftir af leiknum eru Haukar yfir 18-19 en Akureyri hinsvegar gafst ekki upp og kláraði leikinn með stæl! Bjarni Fritzson skoraði magnað mark í horninu áður en Hörður Fannar skoraði af línunni á lokasekúndunni og allt gjörsamlega tryllist í Höllinni! – Sjón er sögu ríkari!
2. flokkur með úrslitaleik í Höllinni á laugardaginn
Strákarnir í 2. flokki eru í hörðum slag um að ná 2. sætinu í sinni deild og þurfa nauðsynlega á stigi eða stigum að halda þegar þeir mæta Stjörnunni klukkan 12:30 í Íþróttahöllinni. Stjarnan hefur þegar tryggt sér efsta sæti deildarinnar en Grótta og Akureyri eru jöfn að stigum í 2.-3. sæti, Grótta á eftir einn leik en Akureyri á tvo eftir, Stjörnuleikinn og frestaðan leik gegn KR.
Hamrarnir með úrslitaleik á föstudaginn
Það er líka fjör í 1. deildinni en þar fara liðin sem hafna í 2.-5. sæti í umspil um sæti í úrvalsdeild næsta ár. Hamrarnir sitja sem stendur í 5. sætinu en KR í því 6. með sama stigafjölda. Þessi lið mætast einmitt í KR heimilinu á föstudaginn klukkan 19:30 og ljóst að sigurvegarinn í þeim leik fær sæti í umspilinu. Við gerum ráð fyrir að verða með beina textalýsingu frá leiknum hér á heimasíðunni á föstudaginn.
Þrír heimaleikir hjá KA/Þór um helgina
Konurnar eru ekki heldur aðgerðalausar um helgina. Á dagskrá eru þrír heimaleikir. Meistaraflokkur KA/Þór tekur á móti toppliði Gróttu á laugardaginn klukkan 13:30. 3. flokkur KA/Þór spilar tvo leiki, fyrst gegn Haukum klukkan 19:30 á föstudaginn og síðan gegn Gróttu klukkan 12:30 á sunnudaginn. Allir þessir leikir eru í KA heimilinu.
Fullt af leikjum hjá strákunum í 3. og 4. flokki
Dagur
Tími
Mót
Flokkur
Völlur
Leikur
Fös. 27.mars
14.00
3.ka 2.deild
3.fl.ka
KA heimilið
KA 1 - ÍR
Fös. 27.mars
15.30
3.ka 3.deild
3.fl.ka
KA heimilið
KA 2 - ÍR 2
Fös. 27.mars
17.15
4.ka Y 2.deild
4.fl.ka.
Síðuskóli
Þór - ÍR 2
Fös. 27.mars
18.45
4.ka Y 1.deild
4.fl.ka.
Íþróttahöllin
KA 1 - ÍR 1
Lau. 28.mars
10.00
3.ka 3.deild
3.fl.ka
KA heimilið
KA 2 - ÍR 2
Lau. 28.mars
11.30
3.ka 2.deild
3.fl.ka
KA heimilið
KA 1 - ÍR
Lau. 28.mars
14.30
4.ka Y 3.deild
4.fl.ka.
Síðuskóli
KA 2 - ÍR 3
Þannig að það er af nógu að taka hjá handboltaáhugamönnum á Akureyri næstu dagana.