Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Karaktersstig á Seltjarnarnesinu - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Svavar Ólafur Pétursson og Arnar Sigurjónsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Bergvin og Sverre voru þokkalega sáttir í leikslok
18. mars 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir jafntefli Gróttu og Akureyrar
Það var mikið undir í leikjum gærkvöldsins og fór svo að niðurstaða fékkst í hvaða lið falla úr Olís deildinni. Akureyri gerði vel í að krækja í stig gegn Gróttumönnum en ÍR-ingar áttu von um að halda sæti sínu með því að krækja í fleiri stig gegn Víkingum. Það voru hins vegar Víkingar sem hirtu bæði stigin úr þeim leik og þar með tóku þeir ÍR-inga með sér. Blaðamenn visir.is og fimmeinn.is fyldust með leik Gróttu og Akureyrar og hafa birt eftirfarandi viðtöl en þess ber að geta að þau eru tekin áður en leik Víkinga og ÍR lauk þannig að þegar þau eru tekin var ekki útséð um að Akureyri væri öruggt með sæti í úrslitakeppninni.
Gefum Ingva Þór Sæmundssyni, blaðamanni visir.is orðið en hann ræddi við þjálfara liðanna sem voru missáttir í leikslok:
Sverre: Vorum í mótvindi allan leikinn
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var nokkuð sáttur með stigið sem hans menn fengu á Nesinu í kvöld. „Þetta er unnið stig. Við komum auðvitað hingað til að vinna og taka bæði stigin en miðað við hvernig leikurinn þróaðist vorum við í mótvindi allan tímann,“ sagði Sverre.
„Við náðum ekki að klukka þá í vörninni í fyrri hálfleik en spiluðum mjög góðan sóknarleik sem hefur verið okkar vandamál í nokkurn tíma. Við héldum fókus út leikinn og það er jákvætt að skora 30 mörk gegn tveimur mismunandi varnarafbrigðum. Vörnin kom í seinni hálfleik en þetta var rosalega erfitt. Við vorum alltaf að synda á móti straumnum en ég er gríðarlega ánægður með liðið að koma alltaf til baka.“
Tomas Olason átti góða innkomu í mark Akureyrar en hefði Sverre átt að setja hann fyrr inn á? „Það eru alltaf þessar helvítis ákvarðanir sem maður þarf að taka. Alltaf þegar við ætluðum að taka Hreiðar út af tók hann eitt og eitt skot og hélt sér á lífi,“ sagði Sverre. „En svo kom að því að við þurftum að prófa eitthvað nýtt. Tomas er flottur, þeir eru báðir flottir, og þetta er lúxusvandamál.“
Akureyri á þrjá leiki eftir og getur enn náð heimavallarrétti í úrslitakeppninni. „Möguleikinn er til staðar en við verðum bara að taka einn leik fyrir í einu. Við höfum gert það í allan vetur,“ sagði Sverre að lokum.
Gunnar: Vorum í dauðafæri til að klára leikinn
Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, var ósáttur að fá ekki bæði stigin gegn Akureyri í kvöld. „Ég er ansi svekktur, mér fannst þetta vera tapað stig. Við erum fimm mörkum yfir og með alla stjórn á leiknum en við spiluðum það einhvern veginn frá okkur,“ sagði Gunnar eftir leik.
Grótta fékk upplagt tækifæri til að tryggja sér sigurinn, einum fleiri og með boltann á lokamínútunni. En lokasóknin fór illa, Aron Dagur Pálsson átti slaka línusendingu og boltinn tapaðist. „Við erum í dauðafæri til að klára leikinn, einum fleiri, en þá kom hörmungar línusending. Það var ekki nógu góð ákvörðun og ég held að Aron viti alveg af því. Þeir áttu lokasóknina og hefðu getað stolið þessu,“ sagði Gunnar sem var ekki nógu sáttur við vörn og markvörslu hjá Seltirningum í kvöld en þeir söknuðu varnarjaxlsins Þráins Orra Jónssonar.
„Við skoruðum 30 mörk og sóknarleikurinn var ekki vandamálið. Það var varnarleikurinn, við fengum of mörg klaufamörk á okkur. Við töluðum um það fyrir leikinn en leystum það ekki. Svo fengum við ekki markvörslu eins og við höfum fengið að undanförnu,“ sagði þjálfarinn.
Grótta hefur aðeins fengið tvö stig úr síðustu fjórum leikjum sínum, eða eftir bikarúrslitaleikinn gegn Val. Finnst Gunnari eins og sínir menn séu að bíða eftir úrslitakeppninni sem er handan við hornið? „Ég hreinlega veit það ekki. Ég spurði mig reyndar þessarar spurningar í klefanum fyrir leikinn því mér fannst andrúmsloftið frekar rólegt. Við höfum ekkert efni á því. Við erum í dauðafæri til að koma okkur ofar í deildinni og það er eitthvað að ef við ætlum ekki að nýta það tækifæri,“ sagði Gunnar að lokum.
Lúther Gestsson tók viðtöl við Bergvin Þór Gíslason og einnig þjálfara liðanna, Sverre og Gunnar. Viðtölin birtust á fimmeinn.is og fara hér á eftir:
Bergvin: Ég sjálfur búinn að vera í lægð undafarna leiki
Bergvin Þór Gíslason leikmaður Akureyrar ræddi við okkur í kvöld áður en ljóst var hvort Akureyri hefði tryggt þáttökurétt sinn í deildinni og sagði menn vera að fylgjast grannt með inn í klefa. Hann var sæmilega sáttur með að hafa fengið eitt stig í kvöld gegn Gróttu og sagði að úr því sem komið var hefði þetta verið gott stig. Bergvin sagði sóknarleikinn hafa verið jákvæðan en hann hefði bitnað á vörninni og 30 mörk væri með því meira sem menn liðið hefði fengið á sig í vetur. Hvað frammistöðu lykilmanna sagði hann jákvætt að menn væru að stíga upp en hann sjálfur hefði til dæmis verið í lægð undanfarið og það væri kannski sjálfstraustinu um að kenna.
Sverre: Nei, nei, nei Ég ætla að treysta á mína menn ekki Bjarna Fritzson
Sverre Jakobsen var sáttur með leik sinna manna í kvöld og var sammála um að sóknarleikur liðsins sérstaklega í fyrri hálfeik hefði verið með þeim betri í vetur. Þegar viðtalið var tekið var ekki orðið ljóst hvort jafnteflið myndi duga Akureyringum til að halda sér uppi en leikur ÍR og Víkings var þá ekki lokið. Hann var sáttur með liðið að hafa komið til baka eftir mikinn barning og þeir hefðu verið á móti straumnum allan leikinn frá A-Ö. og það hefði verið rosalega erfitt. Enn á ný hefðu menn sýnt mikinn karakter og það væri ekki hægt sem þjálfari að biðja um meiri baráttu frá leikmönnum.
Gunnar Andrésson: Ég er bara helvíti fúll
Gunnar Andrésson þjálfari Gróttu var svekktur vegna jafnteflisins gegn Akureyri í kvöld og sagði að hann liti á þetta sem eitt tapað stig og hans menn hefðu verið með undirtökin í leiknum nánast allan tímann. Í stöðunni 20-15 þá hefðu menn bara átt að gera betur til að loka þessum leik og þeir hefðu hleypt Akureyringum of auðveldlega inn í leikinn. Mesta gremjan hefði verið að þeir hefðu ekki verið nægilega klókir til að loka þessum leik. Þetta væri einfaldlega dýrt tapað stig og hann væri bara helvíti fúll.
Sóknarleikurinn gekk vel á Nesinu
18. mars 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Myndbandsumfjöllun um Gróttuleikinn
Akureyri sótti stig eftir hörkuleik gegn Gróttu á Seltjarnarnesinu í gær. Við ákváðum að prófa nýjan hlut hér á síðunni en það er að setja saman okkar eigið myndband frá leiknum og segja frá gangi mála.
Endilega kíkið á afraksturinn en hér má sjá helstu tilþrif leiksins.
Gróttumenn búnir að vera sterkir í vetur
16. mars 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Útileikur gegn Gróttu á fimmtudaginn
Eftir að veðrið setti strik í reikninginn um síðustu helgi má segja að það sé þétt prógram framundan hjá Akureyri næstu dagana. Ballið byrjar með heldur betur mikilvægum leik á Seltjarnarnesinu á fimmtudaginn. Akureyri sækir þá Gróttu heim en með sigri í leiknum tryggir Akureyri sér áframhaldandi veru í deildinni og þar með sæti í úrslitakeppninni.
Liðin hafa mæst tvisvar í vetur og unnið sitt hvorn útileikinn. Grótta fór illa með Akureyri hér fyrir norðan en Akureyri vann aftur gríðarlega mikilvægan baráttusigur þegar liðin mættust á Nesinu.
Gróttumenn eru baráttujaxlar og hafa gert ýmsum liðum skráveifu í vetur. Þeir fóru í úrslitaleikinn í Coca Cola bikarnum en töpuðu þar fyrir Val með tveggja marka mun. Eftir bikarúrslitin hafa þeir spilað þrjá leiki í Olís deildinni. Töpuðu óvænt fyrir ÍR á heimavelli en voru síðan óheppnir að missa útileik gegn ÍBV niður í jafntefli. Síðasta fimmtudag lék Grótta útileik gegn Haukum þar sem þeir áttu slakan fyrri hálfleik en bitu nokkuð frá sér í þeim seinni. Leiknum lauk með átta marka sigri Hauka sem tryggðu sér þar deildarmeistaratitilinn.
En það er til mikils að vinna fyrir Akureyri í leiknum og afar dýrmæt stig í boði. Við hvetjum alla sem mögulega geta til að mæta og styðja liðið til sigurs, áfram Akureyri!
Það er svo stutt í næstu leiki því á sunnudaginn verður leikinn frestaður leikur gegn ÍBV og er hann tímasettur klukkan 16:30. Á miðvikudaginn mæta Mosfellingar norður en sá leikur hefst klukkan 19:30 eins og allir leikir í næstsíðustu umferð Olís deildarinnar.