Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Svakaleg sveifla kostaði Akureyri sigurinn - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2015-16

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - ÍBV  26-27 (14-10)
Olís deild karla
KA heimilið
Sun. 20. mar. 2016 klukkan: 16:30
Dómarar: Bóas Börkur Bóasson og Hörður Aðalsteinsson
Umfjöllun

Hreiðar og Ingimundur áttu báðir fínan leik í gær



21. mars 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar

Svakaleg sveifla kostaði Akureyri sigurinn

Akureyri tók á móti ÍBV í frestuðum leik í KA-Heimilinu í gær. Það var búist við hörkuleik enda höfðu liðin skilið jöfn í báðum leikjum tímabilsins en einnig eru bæði lið í harðri baráttu um sem best sæti í úrslitakeppninni.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að bæði lið ætluðu sér sigurinn og var jafnt á öllum tölum fyrsta fjórðung leiksins. Þá small vörn okkar manna betur og í kjölfarið komu nokkur ódýr mörk úr hröðum sóknum og Akureyri virtist ætla að stinga af.

Gestirnir bitu hinsvegar frá sér og náðu muninum niður í eitt mark áður en annar kafli Akureyrar kláraði fyrri hálfleikinn vel og staðan 14-10 þegar flautað var til hálfleiks.

Mikil stöðubarátta einkenndi svo upphafsmínútur síðari hálfleiksins, Eyjamenn reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn á sama tíma og heimamenn reyndu að bæta í.

Þegar 20 mínútur lifðu leiks var útlitið heldur betur gott hjá Akureyri en þá var staðan 19-14 og spilamennska liðsins mjög sannfærandi. ÍBV sem er þekkt fyrir sína framliggjandi vörn hafði ekki náð að stöðva sóknarleik Akureyrar nægilega vel og var í miklum vandræðum með að finna opnanir í sókninni.

En þá kom allt í einu ótrúlegur kafli, sóknarleikur Akureyrar gjörsamlega fraus og missti liðið boltann trekk í trekk. Gestirnir refsuðu með ótal hraðaupphlaupum og á furðufljótum tíma höfðu gestirnir skorað 11 mörk gegn 1 og staðan breyst úr 19-14 yfir í 20-25.

Þrátt fyrir að hafa þarna upplifað einhvern versta kafla sem sést hefur í sögu handboltans á Akureyri þá býr það mikill karakter í Akureyrarliðinu að menn náðu áttum og komu sér aftur inn í leikinn, því miður var tíminn ekki nægur og lokatölur urðu 26-27 og leikmenn ÍBV stigu trylltan dans enda tókst þeim á ótrúlegan hátt að ná sigrinum.

Heiðar Þór Aðalsteinsson og Kristján Orri Jóhannsson áttu báðir fínan leik og skoruðu talsvert úr hornunum tveim. Bergvin Þór Gíslason skoraði einungis eitt mark í leiknum en hann var algjör lykilmaður í Akureyrarliðinu og átti fjölmargar stoðsendingar.

Í vörninni voru Ingimundur Ingimundarson og Róbert Sigurðarson öflugir í þristunum eins og svo oft áður í vetur. Þeir gátu hinsvegar lítið gert við hröðum sóknum gestanna en þegar Akureyrarliðið gat stillt upp í vörn var ákaflega erfitt að finna opnanir á vörninni.

Hreiðar Levý Guðmundsson átti stórfínan leik í markinu en hann kom inn í fyrri hálfleik þar sem Tomas Olason var ekki að finna sig.

Mjög svekkjandi að fá ekkert úr þessum leik enda var Akureyrarliðið betri aðilinn nær allan leikinn, það var einungis þessi stutti kafli sem gjörsamlega fór með leikinn. Enn eru þó tveir leikir eftir og enn er von um betra sæti fyrir úrslitakeppnina. Leikurinn gegn Aftureldingu á miðvikudaginn skiptir sköpum og ljóst að þar verður sigur að nást.

Tengdar fréttir

Heiðar Þór átti magnaðan leik á sunnudaginn

22. mars 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar

Viðtöl eftir leik Akureyrar og ÍBV

Eftir dramatískan leik Akureyrar og ÍBV á sunnudaginn voru tíðindamenn mbl og visis.is mættir á gólfið til að ná mönnum í viðtöl. Að þessu sinni áttu blaðamennirnir það sameiginlegt að hafa báðir verið markverðir í liði Akureyrar.
Byrjum á Siguróla Magna Sigurðssyni sem tók viðtöl fyrir mbl.is:

Heiðar Þór: Urðum ragir í lokin

„Við fórum að gera það sem er bannað að gera á móti ÍBV, við urðum ragir og hættum að sækja á,“ sagði niðurlútur Heiðar Þór Aðalsteinsson við mbl.is eftir eins marks tap gegn ÍBV á Akureyri.
„Við vorum betra liðið í 40 mínútur í dag en þeir þrífast á því sem við gerum síðustu 20 mínúturnar, að ætla að klára allar sóknir á mettíma og flýta okkur allt of mikið,“ bætti hann við. Heiðar var, að öðrum ólöstuðum, besti leikmaður Akureyrar í dag en hann skoraði 8 mörk, þar af þrjú af vítalínunni.

Akureyringar eiga eftir að naga sig í handarbökin eftir þennan slæma kafla í síðari hálfleiknum: „Við vorum hræðilegir síðustu 20 mínúturnar. Við vorum hrikalega skynsamir og flottir framan af en það breyttist algjörlega í seinni hálfleik og við fundum engar lausnir. Við spörkuðum svo aðeins frá okkur undir restina, þegar pressan var farin,“ sagði Heiðar og spurður um úrslitakeppnina sagðist hann stefna upp töfluna: „Við teljum okkur í fullum séns að taka fjóra punkta í síðustu tveimur leikjunum og stefnum á þetta 6. sæti.“


Heiðar Þór Aðalsteinsson fagnar einu af átta mörkum sínum

Kári Kristján: Það small bara eitthvað hjá okkur

„Það snerist allt við. Við lokuðum,“ sagði sigurreifur Kári Kristján Kristjánsson við mbl.is eftir eins marks sigur ÍBV á Akureyri í dag. Ekki var útlit fyrir að ÍBV fengi eitt né neitt út úr leiknum þegar að 20 mínútur voru eftir, en annað kom á daginn.
„Við fengum náttúrlega klikkaða markvörslu og þéttum pakkann vel. Hornamennirnir stóðu sig gríðarlega vel og stálu fullt af boltum. Við fórum að velja betri færi og þeir eiginlega koxuðu,“ bætti hann við en Kári skoraði 6 mörk í dag og fiskaði eitt víti.

Aðspurður hvað Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, hefði sagt við liðið í leikhléinu í stöðunni 19:14 fyrir Akureyri varð lítið um svör: „Er þetta ekki bara sportið? Það small bara eitthvað hjá okkur. Þeir gengu bara í gildruna hjá okkur og við settum þá í erfiða aðstæður.“
Nú þegar líða fer að úrslitakeppni eru markmið Eyjamanna skýr: „Það er fullt að bæta hjá okkur og við vinnum að því. Það er ekkert lengur „give-me-five“ í þessu hjá okkur. Við ætlum okkur þetta þriðja sæti,“ sagði Kári Kristján að lokum og fór svo upp á efri hæð KA-heimilisins að snæða dýrindis flatböku.


Kári Kristján er erfiður viðureignar á línunni


Blaðamaður visir.is á leiknum hefur sömuleiðis staðið í markinu hjá Akureyri en það var enginn annar en Stefán Guðnason. Hann ræddi sömuleiðis við Heiðar Þór Aðalsteinsson og einnig við Theodór Sigurbjörnsson en þeir voru valdir bestu leikmenn liða sinna í leiknum:

Heiðar Þór: Urðum stressaðir

Þrátt fyrir að Akureyringar hafi spilað frábæran sóknarleik fyrstu 40 mínúturnar í leiknum köstuðu þeir leiknum frá sér á korterskafla. Heiðar Þór Aðalsteinsson hafði fá svör þegar hann var inntur eftir því hvað hefði eiginlega gerst á 41. mínútu leiksins.

„Við erum frábærir hérna í 40 mínútur, síðan síðustu 20 mínúturnar hættum við að gera það sem lagt var upp með. Hættum að sækja inn í svæðin og fórum að taka sendingar sem við áttum ekki að taka. Þeir refsuðu okkur fyrir hver mistök og svo fór sem fór. Því miður fundum við engar lausnir á þessum kafla og grófum okkur alltaf lengra og lengra ofan í holuna sem við vorum í. Þú vinnur ekki leik þegar þú tapar boltanum tíu sinnum á jafn mörgum mínútum. Það er bara ekki hægt.“

Sóknarleikur Akureyrar var framan af með þeim betri sem þeir hafa sýnt í vetur og fjöldinn allur af dauðafærum komu upp úr uppstilltum sóknarleik. Heiðar fékk hvert færið á fætur öðru og nýtti þau vel en hann skoraði alls sex mörk í fyrri hálfleik. Hins vegar hættu færin að koma í síðari hálfleik og endaði Heiðar með alls 8 mörk, þar af þrjú úr vítum.
„Við lögðum upp með að opna hornin gegn þessari vörn þeirra, það var að ganga vel og erfitt að útskýra hvað veldur því að við hættum því. Þeir ná að loka á mig en fyrir vikið opnast fyrir Krissa hinum megin. Stephen kemur síðan gríðarlega sterkur inn og þau skot sem hann er að verja nagar af okkur sjálfstraustið sem verður síðan til þess að við hreinlega missum hausinn og þeir keyra yfir okkur.“

Akureyri á nú tvo leiki eftir í deildinni gegn Aftureldingu heima og Fram á útivelli. Með sigri í báðum leikjunum geta þeir híft sig aðeins upp töfluna fyrir úrslitakeppnina en þeir sitja sem stendur í 8. sæti deildarinnar.
„Við stefnum bara á að spila í næstu tveimur leikjum eins og við gerðum framan af í dag. Þá erum við til alls líklegir, við spiluðum flott í 40 mínútur í dag og við þurfum bara að framkalla þetta hjá okkur í næstu tveimur leikjum og halda út. Þá er aldrei að vita hvað gerist.“


Heiðar Þór kominn í úrvalsfæri á línunni

Theodór: Langt síðan ég hef þurft að fara út af til að pústa

„Þetta var bara frábær sigur. Mikill baráttusigur. Við vorum í miklum vandræðum framan af leik bæði í sókn og vörn en þegar það kviknaði á 5-1 vörninni okkar var þetta aldrei spurning. Við vinnum boltann aftur og aftur og skorum nánast öll okkar mörk úr hraðaupphlaupum á þessum kafla.Breytum stöðunni úr 19-14 í 20-25, það segir sitt.
Það er samt langt síðan ég hef þurft að fá mér sæti á bekknum til að aðeins að ná andanum en þetta voru bara svo margir sprettir hjá mér. Samt er ég alveg í góðu formi.“

Eyjamenn virtust ekki getað stigið feilspor á þessum kafla sama hvað. Meðal annars skoraði línutröllið Kári Kristján ákaflega fallegt mark utan af velli með kringluskoti. Hávær smellur heyrðist í húsinu þegar skotið kom en óljóst hvaðan það hljóð kom.
„Þegar Kári skoraði þetta mark var ljóst hvernig færi. Það er ekki hægt að tapa leik ef drengurinn skorar svona mark. Algjört match winner mark.“

ÍBV nær með sigrinum að koma sér upp í 3. sætið með jafn mörg stig og Afturelding. Næsti leikur Eyjamanna er á heimavelli gegn Víkingum en lokaleikurinn er gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ. „Við erum bara brattir fyrir framhaldið. Við sýndum það í dag að við erum drulluflottir þegar við náum upp okkar vörn og það er í raun ekkert lið sem við hræðumst í augnablikinu. Við förum í þessa tvo leiki með það markmið að tryggja okkur þriðja sætið fyrir úrslitakeppnina og ef við spilum eins og í dag sé ég ekkert því til fyrirstöðu að það takist.“


Theodór með viðurkenninguna fyrir að vera maður ÍBV liðsins



Báðum leikjum liðanna í vetur lauk með jafntefli

18. mars 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar

Baráttuleikur gegn ÍBV á sunnudaginn

Eftir leiki gærdagsins fá leikmenn Akureyrar og ÍBV ekki langa hvíld því að liðin mætast á sunnudaginn í KA heimilinu. Það er leikurinn sem var frestað um síðustu helgi vegna óveðurs. Nú eru allar horfur á að veðurguðirnir verði til friðs og er leikurinn settur á klukkan 16:30.

Eyjamenn máttu sætta sig við tap í gær á heimavelli gegn Val og sitja sem stendur í 5. sæti deildarinnar með 24 stig en Akureyri í því 8. með 21 stig en bæði lið eiga þennan leik til góða á keppinauta sína.

Bæði lið eru búin að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni en fyrir liggur hörð barátta um að komast ofar til að tryggja sér vænlegri stöðu í úrslitarimmunum en þar er stutt á milli liðanna í 3. til 8. sætis.

Akureyri og ÍBV hafa mæst tvisvar í vetur og í báðum leikjum var um sannkallaða háspennu að ræða þar sem báðum leikjum lauk með jafntefli! Liðin mættust hér á Akureyri í síðasta leik ársins 2015 þar sem allt ætlaði að ganga af göflunum í lokin en Eyjamenn jöfnuðu þá andartaki fyrir leikslok.

Við getum því gert ráð fyrir að bæði lið leggi allt í sölurnar í þessum leik og það verði háspenna til síðustu stundar.



Leikir liðanna í vetur hafa verið háspennuleikir

11. mars 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leiknum gegn ÍBV frestað um viku - til 20. mars

Nú er búið að ákveða að fresta leik Akureyrar og ÍBV sem vera átti í KA-Heimilinu sunnudaginn 12. mars um viku. Það þykir útséð að ekki verði ferðaveður á sunnudaginn og þess í stað gert ráð fyrir að leikurinn fari fram sunnudaginn 20. mars klukkan 16:30.

Liðin hafa mæst tvisvar í vetur og í báðum leikjum var um sannkallaða háspennu að ræða þar sem báðum leikjum lauk með jafntefli! Liðin mættust hér á Akureyri í síðasta leik ársins 2015 þar sem allt ætlaði að ganga af göflunum í lokin en Eyjamenn jöfnuðu þá andartaki fyrir leikslok.


Allt á suðupunkti undir lok leiks liðanna í desember

Nú er svo sannarlega mikilvægt að okkar menn mæti einbeittir til leiks og berjist fyrir stigunum því það er stutt á milli liða bæði upp á við og niður á við í deildinni.

Eyjamenn eru í 3. sæti Olísdeildarinnar eftir jafntefli í gær við Gróttu á heimsvelli sínum, fjórum stigum á undan Akureyri sem er í 8. sætinu.
Vestmannaeyingar endurheimtu stórskyttuna Agnar Smára Jónsson frá Danmörku núna í janúar en misstu hins vegar Hákon Daða Styrmisson til Hauka í staðinn. Báðir hafa látið til sín taka með sínum nýju liðum, Agnar Smári með 33 mörk í fimm leikjum og Hákon Daði með 20 mörk í jafnmörgum leikjum með Haukum.

En eins og maðurinn sagði þá er næsta víst að bæði lið ætla sér stigin í þessum leik og þar verður barist til þrautar fram á síðustu sekúndu leiksins.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson