Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Akureyri náði jafntefli á Ásvöllum (umfjöllun) - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2006-07

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla
Deild kvenna
Leikmenn meistarafl. kvenna




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Haukar - Akureyri  34-34 (18-15)
DHL deild karla
Ásvellir
15. október 2006 klukkan: 18:00
Dómarar: Helgi Rafn Hallsson og Sigurjón Þórðarson
Umfjöllun

Jankovic var góður gegn Haukum og þá var vörnin mjög öflug



16. október 2006 - ÁS skrifar

Akureyri náði jafntefli á Ásvöllum (umfjöllun)

Karlalið Akureyrar sótti sterkt lið Hauka heim að Ásvöllum í gær. Fyrir leikinn mátti búast við hörkuleik og það rættist svo sannarlega. Eftir að hafa elt Hauka nær allan leikinn þá náðu leikmenn Akureyrar að rífa sig upp undir lokin og tryggja sér dýrmætt jafntefli. Við skulum skoða aðeins hvernig leikurinn spilaðist.

Til að byrja með voru liðin stirð en Haukar náðu fyrr að komast í takt við leikinn og leiddu því. Akureyrarliðið spilaði sem fyrr verulega öfluga vörn en liðsmenn Hauka náðu þó reglulega að finna glufur á vörninni. Sóknin hinsvegar var virkilega lengi í gang og reglulega náðu Haukar boltanum eftir sóknarmistök og skoruðu auðveld hraðaupphlaupsmörk.

Haukar leiddu en lið Akureyrar var aldrei of langt undan í fyrri hálfleiknum og jöfnuðu leikinn af og til. Þrátt fyrir að vörnin hafi verið að skila sér vel þá vildi maður sjá hana enn betri. Sóknarleikurinn var þó það sem skildi liðin að í hálfleik en staðan var 18-15 í hálfleik. Á meðan Haukar voru að skora mikið af ódýrum hraðaupphlaupsmörkum eða þegar þeir voru að ná frákasti og skora þá þurfti lið Akureyrar að hafa miklu meira fyrir hlutunum.

Í seinni hálfleik byrjaði lið Akureyrar mjög svipað eins og það lék í þeim fyrri. Það komu nokkrir kaflar þar sem liðið lék flottan sóknarleik en þar á milli var sóknin hreinlega slök. Eftir að liðið lenti heilum 6 mörkum undir þá rifu leikmenn sig upp og fóru að spila af sínum alvöru krafti. Smám saman minnkaði munurinn og á síðustu mínútunum var komin alvöru spenna í leikinn. Leikmenn Hauka fóru að pirra sig á leiknum og það nýttu leikmenn Akureyrar sér.

Akureyri jafnaði í 32-32 og Haukar voru einum leikmanni færri. Haukar mega eiga það að þeir kunna að eyða tímanum þegar liðið er einum færra og liðið græddi mikið á því í gegnum allan leikinn. Haukar komust í 33-32 og svo í 34-33. Akureyri var með boltann þegar ein mínúta og fimmtíu sekúndur voru eftir af leiknum og spilaði langa sókn. Höndin kom upp þegar ein mínúta var eftir og þá gekk boltinn frá hægri vængnum alveg yfir í vinstra hornið og allan tímann bjóst maður við að boltinn yrði dæmdur af liðinu. Andri Snær sem var í vinstra horninu fékk boltann að lokum og náði að jafna leikinn.
Síðasta sókn leiksins var Hauka og má með sanni segja að hún hafi verið afdrifarík. Er 9 sekúndur voru eftir af leiknum braut Rúnar spilandi þjálfari Akureyrar harkalega á Andra Stefan og uppskar rautt spjald. Andri Stefan var ekki sáttur og sparkaði í Hörð Fannar, Andri Stefan fékk því líka rautt spjald. Hörður Fannar á að hafa gert eitthvað við Andra Stefan og fékk rautt spjald.
Rauðu spjöldin voru litrík og spurning hvort að dómararnir hafi verið alveg 100% vissir í sinni sök enda fór langur tími hjá þeim í að tala saman um málið og róa leikmenn og þjálfara niður. Er leikurinn fór aftur í gang, Haukar með 5 menn, Akureyri með 4, þá stimpluðu Haukar boltanum yfir í hægra hornið þar sem Samúel Ívar fór inn en Sveinbjörn varði og tryggði Akureyri stig.

Að ná stigi á Ásvöllum er mjög gott og á liðið mikið hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu í leiknum, þrátt fyrir að sóknin hafi tekið dágóðan tíma að fara í gang. Liðið er því með 3 stig eftir þrjár umferðir í DHL-Deildinni.

Það er í raun ótrúlega skrýtið að vera ósáttur með sókn liðsins þegar liðið skorar 34 mörk. Hugsanlega er það málið að trú manns á liðinu er það mikil að maður vill alltaf sjá meira og meira frá liðinu.

Nikolaj Jankovic nýtti færin sín ákaflega vel í leiknum og var því valinn maður leiksins af heimasíðunni. Hinsvegar áttu allir leikmenn liðsins góðan dag og má benda á frábæran varnarleik, góða vítanýtingu hjá Goran, skot fyrir utan hjá Magga eða hvað sem er. Sveinbjörn varði 18 bolta í leiknum og stóð sig með prýði.

Leikurinn var þrælskemmtilegur og sér pikkari svo sannarlega ekki eftir að hafa eytt deginum í að fara suður til að horfa á leikinn.

Ég bendi lesendum eindregið á frábæra Beina Lýsingu frá leiknum.

Næsti leikur liðsins fer fram á Selfossi á miðvikudaginn en leikurinn er liður í 32-liða úrslitum SS-Bikarsins.

Umfjöllunin kom ekki strax inn vegna langrar rútuferðar frá Reykjavík til Akureyrar.

Tengdar fréttir

Andri Snær jafnaði fyrir Akureyri í restina en leikurinn var ótrúlega spennandi

15. október 2006 - SÁ skrifar

Akureyri nær stigi í ótrúlegum leik

Leik Akureyrar og Hauka var að ljúka fyrir stuttu en leikurinn var æsispennandi í lokin. Haukar höfðu frumkvæðið allan leikinn og komust mest í 6 marka forystu 25-19 þegar rúmar 20 mínútur voru til leiksloka. Akureyri kemur þá með eftirminnilega endurkomu þar sem Þorvaldur Þorvaldsson fór mikinn, meðal annarra, í restina og náði Akureyri að jafna 34-34 með marki frá Andra Snæ þegar 45 sekúndur voru eftir. Haukar náðu ekki að skora það sem eftir var og niðurstaðan því 34-34 jafntefli.
Svo sannarlega gríðarlegur karakter hjá Akureyrarliðinu en umfjöllun um leikinn er væntanleg síðar í kvöld sem og tölfræði.

Þá minnum við á Beina Lýsingu sem var ótrúlega spennandi að þessu sinni en þar er hægt að lesa um allt það sem gerðist í leiknum.


Stórleikur í dag, allir að fylgjast með

15. október 2006 - ÁS skrifar

Bein Lýsing: Haukar - Akureyri

Leikur Hauka og Akureyrar Handboltafélags fer fram í dag á Ásvöllum klukkan 18:00. Þetta er sannkallaður stórleikur en Rúnar þjálfari Akureyrar mun mæta sínu gamla liði sem og litla bróður sínum. Heimasíðan býður upp á beina textalýsingu frá leiknum og hvetur hún alla til að fylgjast grannt með þegar leikurinn hefst ef það kemst ekki á leikinn. Mjög auðvelt er að fylgjast með í gegnum Beinu Lýsinguna.

Smellið hér til að opna Beina Lýsingu

Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist af sjálfu sér á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 18:00 en við hvetjum alla til að fylgjast vel með.


Þorvaldur á æfingu

14. október 2006 - SÁ skrifar

Valdi: Mjög góður andi í liðinu

Á morgun fer Akureyri, sem kunnugt er, suður og leikur þriðja leik sinn á Íslandsmótinu. Við spjölluðum við Þorvald Þorvaldsson og spurðum hann nokkurra spurninga varðandi nútíðina en Þorvaldur og félagarar hafa verið að leika hreint út sagt rosalega vörn það sem af er þessu tímabili.

SÁ: Þorvaldur, hvernig er andinn í hópnum eftir fyrsta sigurleikinn í deildinni?
Þorvaldur: Hann er mjög góður. Þetta var mjög góður leikur og mjög sætt að sigra svona á heimavelli með fullt af fólki að horfa á.

SÁ: Hvað ert þú ánægðastur með í fyrstu tveimur leikjunum?
Þorvaldur: Vörnin er búin að vera mjög góð og Bubbi (Sveinbjörn) búinn að vera fínn í markinu. Við fengum svo hraðaupphlaup í síðasta leik sem var mjög gott en við vorum ekki að fá þau á móti Val og skiptir það miklu máli.

SÁ: Það hlýtur að muna að hafa svona mikið af fólki að horfa á?
Þorvaldur: Þetta var bara næstum því eins og í gamla daga. Fullt af fólki, öskur og læti.

SÁ: Nú leggið þið leið ykkar suður um helgina og leikið gegn Haukum, hvernig leggst það verkefni í þig?
Þorvaldur: Mjög vel. Haukarnir eru erfiðir og með góða leikmenn en við eigum alveg að geta unnið þá.

SÁ: Hverja telur þú vera mestu styrkleika Haukaliðsins?
Þorvaldur: Sammi er góður í horninu, Árni góður í skyttunni, Andri góður á miðjunni og Kári góður á línunni þannig að þessir fjórir eru mjög góðir. Við höfum stoppað þá áður og eigum alveg að geta stoppað þá á sunnudaginn.

SÁ: Hvað þarf Akureyri helst að gera til að ná að vinna leikinn?
Þorvaldur: Við þurfum að fá sömu vörn og síðast, sömu markvörslu og hraðaupphlaup. Við þurfum svo aga í sóknarleiknum.

Við þökkum Valda kærlega fyrir þetta og óskum honum góðs gengis í leiknum gegn Haukum sem er 18:00 á morgun, sunnudag, og að sjálfsögðu í Beinni Lýsingu hér á síðunni.


Andri hefur gengið með lepp á undanförnum dögum

14. október 2006 - SÁ skrifar

Andri frá æfingum vegna augnsýkingar

Andri Snær Stefánsson, vinstri hornamaður Akureyrar, er frá æfingum þessa stundina en hann fékk einhverskonar sýkingu í hægra auga. Andri lenti í augnvandræðum á seinasta tímabili en menn héldu að það væri ekki alvarlegt, en hann fékk putta liðsfélaga í augað. Þau meiðsli hafa hins vegar tekið sig upp aftur og hefur sýkta augað truflað sjón hans verulega og gengur hann því með lepp eins og sést á myndinni hér til hliðar.

Aðspurður var Andri hins vegar bjartsýnn varðandi þessi meiðsli og var viss um að hann myndi ná sér fljótt að fullu og vonast til að geta byrjað að æfa sem allra fyrst.

Þrátt fyrir meiðslin mun Andri fara með liðinu suður á morgun og tekur vonandi þátt í leiknum við Hauka.


Hvað gerist á Ásvöllum eftir tvo daga?

13. október 2006 - ÁS skrifar

2 dagar í leik: Haukar-Akureyri í beinni lýsingu

Nú eru einungis tveir dagar í leik Hauka og Akureyrar í 3. umferð DHL-Deildar karla. Leikurinn verður að sjálfsögðu eins og fyrstu tveir leikir tímabilsins í beinni lýsingu hér á síðunni. Eftir tap í fyrsta leik tímabilsins gegn Val þá vann lið Akureyrar virkilega sannfærandi 9 marka sigur á ÍR. Mjög spennandi verður að fylgjast með gengi Akureyrar í leiknum gegn Haukum.

Leikurinn fer fram á Ásvöllum klukkan 18:00 á sunnudaginn. Heimasíðan hvetur alla að mæta á leikinn. Þið sem ekki komist á leikinn hvetjum við náttúrulega til að fylgjast með beinu lýsingunni á síðunni.


Samúel leikur í hægra horni hjá Haukum
Mynd: Haukar.is

13. október 2006 - SÁ skrifar

Samúel Árna: Titillinn raunhæft markmið fyrir Hauka

Á sunnudaginn klukkan 18:00 leikur Akureyri við Hauka á Ásvöllum en leikurinn er þriðji leikur liðsins þetta tímabil. Í tilefni af því höfðum við samband við Akureyringinn Samúel Ívar Árnason, sem lék árum áður með Þór, og spurðum hann spjörunum úr.

SÁ: Jæja Samúel, hvernig fer tímabilið af stað hjá Haukum?
Samúel: Mér sýnist þetta fara alveg þokkalega af stað. Við köstum að vísu frá okkur 2 dýrmætum stigum í fyrsta leik en vinnum svo góðan útisigur á Fram í öðrum leiknum. Liðið lítur vel út og í hópnum eru strákar sem eru tilbúnir að leggja á sig ýmislegt aukalega til að ná árangri í greininni sem er mjög jákvætt.

SÁ: Nú misstuð þið Birki Ívar og Halldór Ingólfsson fyrir þetta tímabil. Verður það mikil blóðtaka fyrir liðið?
Samúel: Flestir myndu segja já án þess að hika. Birkir búinn að vera einn besti ef ekki besti markmaður landsins síðustu árin og Dóri er náttúrulega bara Dóri, ég efast um að það finnist annar eins og hann. Hins vegar höfum við fengið Magga í markið og hann er náttúrulega ekkert annað en snillingur (eins og svo margir örvhentir eru). Í stað Dóra eru komnir inn í hópinn 2 ungir strákar sem voru lítið sem ekkert með í fyrra og eru báðir mikið efni þannig að þó þetta hafi kannski verið blóðtaka að vissu leiti þá vorum við fljótir að setja plástur á sárið og það mun gróa.

SÁ: Ykkur Haukamönnum var spáð 3. sæti í deildinni. Hvað finnst þér um það en lið eins og Haukar hlýtur að ætla sér ofar í vetur?
Samúel: Maður á ekkert að vera að nenna þessu ef stefnan er ekki sett á að bæta sig sem leikmaður og vinna til þeirra verðlauna sem í boði eru. Við ætlum okkur klárlega að vera með í baráttunni, en gerum okkur á sama tíma grein fyrir því að það er aldrei auðveld leið að titlinum. Hvort við höfum getuna og þrekið til að fara þá leið verður svo bara að koma í ljós en það er alveg á hreinu að við munum ekki hætta fyrr en síðasta leik er lokið.

SÁ: Hver eru ykkar markmið fyrir tímabilið, er Íslandsmeistaratitill raunhæfur fyrir Hauka?
Samúel: Já ég myndi segja að titillinn sé alveg raunhæft markmið fyrir lið eins og Hauka. Mér sýnist á þessum fyrstu leikjum að deildin komi til með að vera jöfn og skemmtileg í vetur þannig að við erum ekkert eina liðið sem getur sagt að það setji stefnuna á titilinn án þess að líta út eins og veruleikafirrtur brjálæðingur. En já, við setjum stefnuna á þá titla sem eru í boði og förum í keppnir til að vinna þær.

SÁ: Færum okkur norðar. Hvernig líst þér á sameiningu KA og Þórs?
Samúel: Mér lýst bara vel á sameininguna. Akureyri er allt annað bæjarfélag þegar það er lið í bænum sem fólkið getur hópað sér á bak við. Brjóstkassinn þenst um svona 10 sentímetra per mannsbarn að meðaltali. Þetta er leið til að ná til breiðari hóps en áður, það eru ekki nema kannski 5 Þórsarar og 6 KA menn sem fóru í fýlu við þetta og ætla sér að vera það áfram.
Restin af íþróttaáhugamönnum bæjarins eru þarna. Þeir koma samt ekki hlaupandi og það þarf að mínu mati að leggja pening og vinnu í að kynna þetta almennilega. Ég frétti til dæmis af blaðamannafundi um daginn og það hafði enginn haft rænu á því að hringja í blaðamenn til að bjóða þeim á fundinn. Þá er þetta ekkert blaðamannafundur og betra að ná í spjöldin og kúlurnar og halda bingóskemmtun. Svona hlutir verða að vera á hreinu til að koma þessu verkefni almennilega af stað því Akureyri er bæjarfélag sem á að vera með lið í fremstu röð ár eftir ár.

SÁ: Nú var tveimur liðum steypt saman í eitt. Hvernig telur þú liðið vera leikmannalega séð? Og hvar heldur þú að liðið verði að berjast í deildinni?
Samúel: Ég veit svo sem ekkert hvernig þeim sem mynda stjórnina gengur að vinna saman. Ef það gengur vel þá mun aðlögunartími liðsins vera styttri. Leikmannalega séð tel ég liðið líta nokkuð vel út. Þeir geta stillt upp ógeðis 6-0 vörn sem hámar í sig andstæðinginn. Það verður sennilega þeirra sterkasta hlið í vetur og ef hraðaupphlaupin verða vel útfærð eiga þeir möguleika á að detta í baráttuna en gætu líka lent í ströggli ef svo verður ekki. Hvort sem verður þá tel ég að ekkert lið geti bókað sigur gegn liðinu og margir munu þakka fyrir að komast með eitt stig til baka úr gömlu heimahögunum mínum. Mín spá er því eins og stolin frá bæjarstjóranum, gefur ýmislegt í skyn en lofar engu.

SÁ: Á sunnudaginn leikið þið Haukar svo gegn Akureyri. Hvernig leggst leikurinn í þig?
Samúel: Leikurinn leggst vel í mig. Ég á ekki von á öðru en að bæði lið mæti stemmd til leiks og tilbúin að fórna sér fyrir málstaðinn þannig að ég segi bara Rokk og Ról.

SÁ: Hvað telur þú að Haukar þurfi að gera til að ná að landa sigri á Akureyri?
Samúel: Við þurfum að mæta með okkar leik á hreinu og leggja okkur alla fram til að ná hagstæðum úrslitum. Ég á ekki von á öðru en að það verði raunin.

Við þökkum Samúel innilega fyrir og minnum á að leikurinn er 18:00 á sunnudaginn á Ásvöllum.


Haukar unnu Íslandsmeistara Fram í síðustu umferð, hvað gerist í leik Hauka og Akureyrar?

12. október 2006 - ÁS skrifar

3 dagar í leik: Allt um lið Hauka

Á sunnudaginn klukkan 18:00 leikur karlalið Akureyrar sinn leik í 3. umferð DHL-Deildarinnar. Leikið verður gegn Haukum á heimavelli þeirra Ásvöllum. Haukar hafa verið ótrúlega sterkir á undanförnum árum og tímabilið í ár er engin undantekning. Eftir slæmt tap í fyrstu umferð þá unnu Haukar góðan sigur á Íslandsmeisturum Fram í síðasta leik og verður gaman að sjá hvernig leikur Hauka og Akureyrar mun spilast. Við skulum kíkja aðeins á Haukaliðið.

Haukum var spáð þriðja sæti DHL-Deildarinnar fyrir tímabilið á sama tíma og Akureyri var spáð því sjötta. Þó spáin geti gefi einhverja mynd af deildinni þá segir hún ekki neitt. Akureyrarliðið er komið í gang eftir glæsilegan sigur á ÍR á heimavelli.

Árangur Hauka á síðustu leiktíð
Haukar enduðu í öðru sæti í deildinni en þeir voru jafnir Fram að stigum en þurftu að sætta sig við 2. sætið vegna innbyrðisviðureigna.
Í SS-Bikarnum komst liðið alla leið í úrslitin en tapaði þar fyrir Stjörnunni.
Haukarnir kláruðu svo Deildarbikarinn eftir að hafa slegið út Val og unnið Fylki í úrslitum keppninnar.

Tímabilið til þessa
Í fyrstu umferð deildarinnar mættu leikmenn Hauka upp í Austurberg og léku gegn ÍR. Fyrirfram mátti búast við nokkuð öruggum sigri Hauka en allt kom fyrir ekki og ÍR vann 6 marka sigur á Haukum. Sigurinn var í raun aldrei í hættu.

Næsti deildarleikur var gegn Íslandsmeisturum Fram í Safamýri. Haukar spiluðu betur nær allan leikinn og leiddu nánast allan tímann. Forysta þeirra var 3-5 mörk í leiknum en lokatölur voru þó 29-30 fyrir Hauka. Það er gríðarlega sterkt að sigra Fram á þeirra eigin heimavelli og segir okkur það að Haukar eru öflugir í ár.

Þá komust Haukarnir áfram í EHF keppninni eftir að hafa slegið út ítalska liðið Conversano. Lið Conversano er mjög öflugt og vann fyrri leikinn úti í Ítalíu 32-31 en Haukarnir unnu svo 28-26 heimasigur og slógu þar með lið Conversano úr leik. Í næstu umferð leikur liðið gegn franska liðinu Paris Handball.

Helstu leikmenn liðsins
Árni Þór Sigtryggsson, litli bróðir Rúnars þjálfara Akureyrar leikur með Haukum. Árni er lykilmaður í liði Hauka en hann er gríðarlega öflug skytta. Á síðustu leiktíð var hann markahæsti leikmaður Hauka með 143 deildarmörk. Árni er leikmaður sem Akureyri þarf að stöðva á sunnudaginn til að ná tveim stigum.

Andri Stefan Guðrúnarsson er leikstjórnandi í liði Hauka. Spil Hauka gengur nánast allt í gegnum hann og því mikilvægt til að hægja á leiknum að trufla Andra. Andri er bæði öflugur í að skora sjálfur og setja upp fyrir aðra, hann skoraði 102 deildarmörk á síðustu leiktíð.

Guðmundur Pedersen og Jón Karl Björnsson leika í vinstra horni Hauka og eru þeir ólíkir leikmenn en báðir miklir skorarar. Guðmundur getur skorað mikið úr hröðum sóknum á meðan Jón Karl klárar nánast öll færin sem hann fær í leiknum. Í fyrra skoraði Guðmundur 73 deildarmörk en Jón Karl gerði 107.

Samúel Ívar Árnason leikur í hægra horni Hauka og er bæði snöggur upp í hraðaupphlaupum og hann nýtir færin sín vel í horninu. Samúel er sonur Árna Jakobs Stefánsson fyrrum þjálfara hjá KA og Þór og er því með skapið í lagi.

Kári Kristjánsson er línumaður Hauka, hann er stór og sterkur og getur verið illviðráðanlegur. Hann gerði 93 deildarmörk á síðustu leiktíð og leikur stórt hlutverk einnig í að byggja upp færi fyrir aðra leikmenn liðsins. Ef vörn Akureyrar nær að stöðva Kára verður mun erfiðara fyrir útileikmenn Hauka að spila sóknina.

Magnús Sigmundsson er markvörður Haukaliðsins, Magnús er mjög reyndur markvörður og hefur unnið marga titla með Haukaliðinu. Hann spilaði þó fyrir FH á síðustu leiktíð en kom aftur til Hauka eftir brottför Birkis Ívars. Magnús hefur verið að verja vel það sem af er tímabilsins og er maður sem má ekki fara of vel í gang í leiknum á sunnudaginn.

Til að Akureyri nái tveimur stigum gegn Deildarbikarmeisturum Hauka á Ásvöllum á sunnudaginn þarf vörn liðsins að halda og sóknin að ganga líkt og í leiknum við ÍR.

Haukar - Akureyri, Ásvellir 15. október 2006 klukkan 18:00.

Heimasíðan hvetur alla sem geta farið á leikinn endilega að drífa sig á Ásvelli á sunnudaginn klukkan 18:00. Þið sem komist ekki á leikinn hinsvegar hvetur heimasíðan til að fylgjast með beinni lýsingu frá leiknum hér á síðunni.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson