Það er ekki léttasta verkefni í heimi sem býður Akureyrar í DHL-Deild karla en næstu andstæðingar okkar manna eru sjálfir Valsmenn sem trjóna á toppi deildarinnar. Leikurinn verður háður í Laugardalshöllinni klukkan 16:00 á sunnudaginn.
Okkar menn hafa svo sannarlega ekki farið vel af stað eftir hlé og verið langt frá því að komast í fyrra form sem var orðið ansi gott. Maður hefur hins vegar verið að bíða í heila þrjá leiki að liðið finni þetta form og verður það hreinlega að fara að gerast. Akureyri er komið í slæma stöðu og ljóst að hver puntkur hér eftir sem ekki verður tekinn með í hús mun skipta gríðar miklu þegar upp er staðið.
Akureyri er þremur stigum á undan Fylki sem er í fallsæti og má því alls ekki mikið út af bregða. Ljóst er að það er ekki það auðveldasta í heimi að vinna Val um helgina sérstaklega eins og Akureyri hefur verið að leika en hins vegar hefur liðið áður gert það í vetur. Í annari viðureign liðanna þennan veturinn vann Akureyri afar góðan sigur á heimavelli 25-22 eftir að Valsmenn hafi unnið þá fyrstu 26-22 í fyrsta leik tímabilsins.
Þessi sigur Akureyrar á Val var svo sannarlega verðskuldaður en þá einkenndi lið okkar nákvæmlega það sem vantar í dag, eða frábær vörn, barátta, samheldni og kraftur. Það fer samt að verða ansi gömul rulla að minnast á þessa hluti aftur og aftur sem Akureyri vantar en þetta sport er ekki mikið flóknara en það. Ef þú hefur þessa fjóra þætti þá getur þér ekki gengið illa, það er bara þannig. Nái Akureyri þessum hlutum aftur í gang eru þeir að fara að gera afar sterka hluti gegn Val.
Valsmenn þarf vart að kynna mikið frekar. Þar er fjöldi manna sem hefur verið í íslenska landsliðinu og ber þar auðvitað fyrstan að nefna Markús Mána Michaelsson sem svo sannarlega stóð sig frábærlega með Íslandi á HM í Þýskalandi. Í hornunum eru svo Akureyringarnir Arnór Gunnarsson og Baldvin Þorsteinsson en á góðum degi eru þeir báðir með bestu mönnum landsins í sinni stöðu. Jókerinn Sigurður Eggertsson er fyrir utan hjá Valsmönnum en hann er einn sneggsti leikmaður deildarinnar. Þá eru fjölmargir ungir leikmenn sem hafa verið í unglingalandsliðum Íslands ár eftir ár að leika stórt hlutverk hjá Val svo sem Ernir Hrafn Arnarson sem kom frá Aftureldingu fyrir tímabilið. Breidd Valsmanna er einnig mikil og eru þeir líklega eina lið deildarinnar sem getur leyft sér þann munað að skipta eins og þeir vilja og líða lítið sem ekkert fyrir það.
Þrátt fyrir sterkan hóp er þetta Valslið alls ekkert óvinnandi vígi, það sýndi Akureyri meðal annars fyrr í vetur. Það hlýtur að vera kominn tími á góðan leik hjá okkar mönnum og ef menn ná að mæta og berjast og leggja sig fram verður gaman að horfa á leikinn í Laugardalshöllinni. Alla vega set ég þá kröfu á okkar menn að sýna Akureyringum úr hverju þeir eru gerðir.