Heimasíðan ákvað eftir sigurleik Akureyrar á ÍR í gær að ræða við Einar Loga Friðjónsson. Einar sem kom til liðs við liðið eftir að hafa verið í atvinnumennsku í Þýskalandi var að vinna sín fyrstu stig með liðinu en eftir slæma byrjun á árinu 2007 er Einar fullviss um að liðið muni leika vel gegn Haukum á laugardaginn.
ÁS: Jæja Einar, þetta tókst og þetta voru gríðarlega mikilvæg stig Já, þetta voru mjög mikilvæg stig, loksins kom sigurleikur á árinu
ÁS: Og þetta voru þín fyrstu stig Einar Logi: Jú það er rétt, svolítill léttir!
ÁS: Búið að vera erfitt eftir áramót, væntanlega léttir að sigra núna Einar Logi: Já, þetta liggur núna bara upp á við, mjög mikilvægt að vinna þennan leik í dag og nú stefnum við ótrauðir á að vinna á laugardaginn.
ÁS: Hvernig líst þér á þann leik gegn Haukum? Einar Logi: Bara mjög vel, mér finnst að við eigum góðan séns á móti þeim. Ef við bætum það sem klikkaði í dag þá mun ganga vel á laugardaginn, sérstaklega ef ég bæti mig persónulega líka.
ÁS: Nú voruð þið að spila hörkuvörn í dag en sóknarleikurinn mistækur, þið farið væntanlega yfir hann á næstunni? Einar Logi: Jú við þurfum að fara að vinna í sókninni, vörnin er komin og við þurfum að taka sóknina í kjölfarið.
ÁS: Er búið að setja eitthvert markmið fyrir síðustu leiki vetrarins? Einar Logi: Við förum í alla leiki til að vinna og vonandi kemur það okkur ofar í töflunni.
Við þökkum Einari kærlega fyrir spjallið og minnum á sjónvarpsleik Hauka og Akureyrar á RÚV að Ásvöllum laugardaginn kemur klukkan 16:15.
Akureyri Handboltafélag leikur í dag gríðarlega mikilvægan leik og er leikurinn gegn ÍR og byrjar klukkan 16:00. Það verður gaman að sjá hvernig liðið kemur tilbúið til leiks en liðið þarf á sigri að halda til að komast aftur í gang. Leikur dagsins er gegn ÍR en ÍR er á botni deildarinnar og verður einnig að sigra. Heimasíðan býður upp á beina textalýsingu af leiknum sem hún hvetur fólk til að fylgjast með ef það kemst ekki á leikinn, en það er frítt inn á leikinn. Það er virkilega auðvelt að fylgjast með leiknum í gegnum Beinu Lýsinguna.
Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist af sjálfu sér á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 16:00 en við hvetjum alla til að fylgjast vel með.
Akureyri þarf stuðning á sunnudaginn, hjálpum liðinu aftur í gang!
Akureyri fær ÍR í heimsókn á sunnudaginn klukkan 16:00 í KA-Heimilið í einhverjum mikilvægasta leik þessa nýsameinaðs liðs. Hreinlega allt er undir um helgina og þurfa okkar menn svo sannarlega á stuðningi að halda.
Akureyri er í 6. sæti deildarinnar eða seinasta sætinu sem tryggir sæti í efstu deild að ári. Baráttan um sæti í deildinni að ári er orðin gríðarleg en Akureyri, Haukar og Fylkir eru öll í einum pakka. Með sigri á sunnudaginn gæti ÍR svo blandað sér hressilega í þá baráttu svo leikurinn er afar mikilvægur fyrir bæði lið.
ÍR hélt lífi í þessu tímabili hjá sér í seinasta leik er liðið vann Hauka sannfærandi á heimavelli og koma þeir heitir í þennan leik. Þetta er því seinasti séns fyrir þá á sunnudaginn þegar þeir koma til Akureyrar að spila. Um gengi okkar manna þarf lítið að segja að okkar menn hafa alls ekki farið vel af stað eftir áramót en hins vegar var margt jákvætt gegn Val um seinustu helgi og verður liðið hreinlega að ná toppleik á sunnudaginn.
Akureyri og ÍR hafa mæst tvívegis í vetur. Í fyrri leiknum á Akureyri unnu okkar menn afar sannfærandi sigur í klassaleik 33-24. Í seinni leiknum vann ÍR svo 34-28 eftir að Akureyri hafi leitt 15-18 í hálfleik.
Í liði ÍR er Björgvin Hólmgeirsson lang markahæstur með 105 mörk en hann minnir nokkuð á Einar bróðir sinn, Björgvin er á tuttugusta aldursári. Annar ungur leikmaður Davíð Georgsson hefur verið að skora mikið fyrir liðið en ÍR er með lang yngsta lið deildarinnar. Þeir byggja lang mest á leikmönnum sem hafa komið uppúr yngri flokkunum en fyrrum leikmaður KA Ólafur Sigurgeirsson leikur meðal annars með liðinu.
Eitthvað er um meiðsli hjá Akureyri og örugglega er eitthvað svipað í gangi hjá ÍR en staðreyndin er einfaldlega sú að í svona mikilvægum leikjum þá skipta svoleiðis hlutir engu máli. Ef að menn koma stemmdir til leiks tilbúnir að leggja allt á sig fyrir liðið þá munu þeir vinna leikinn. Svona leikir snúast ekkert endilega um hvað leikmennirnir inni á vellinum heita og hvað þeir geta heldur hvað þeir gera á vellinum. Það er því fyrst og fremst spurning um það hvernig liðin koma tilbúin til leiks á sunnudaginn og hvet ég fólk að mæta á leikinn og styðja okkar menn.
Akureyri - ÍR, sunnudaginn klukkan 16:00 í KA-Heimilinu.