Í dag lék karlalið Akureyrar við Selfoss í 32-liða úrslitum SS-bikarkeppni HSÍ. Bein lýsing var ekki í gangi en hér að neðan eru þær upplýsingar sem við fengum meðan á leiknum stóð.
Leiknum er lokið með vægast sagt afar naumum sigri Akureyrar, 27-25. Akureyri er því komið áfram í 16-liða úrslit bikarkeppninnar og óskum við liðinu til hamingju með það.
Þegar tvær mínútur eru eftir af leiknum er staðan jöfn 25-25.
Þegar tæpar tuttugu mínútur eru eftir af leiknum er Akureyri yfir 20-18.
Þegar stutt er í lok fyrri hálfleiks er staðan jöfn 13-13.
Bikarleikur í dag
7. október 2007 - Akureyri handboltafélag skrifar
Selfoss í dag – Ekkert vanmat í gangi
Akureyri mætir liði Selfoss í dag í 32-liða úrslitum Bikarkeppni HSÍ á útivelli. Leikurinn hefst kl. 18.00. Liðin mættust einnig í fyrra í sömu umferð keppninnar og þá sigruðu okkar menn með ellefu marka mun, en eftir mikla baráttu.
"Selfyssingar eru með hörkulið, marga unga og efnilega stráka, og við höfum ekki efni á neinu vanmati. Alls ekki. Þegar við spiluðum við þá í fyrra náðum við ekki að hrista þá af okkur fyrr en í lokin og þess vegna engin hætta á að við vanmetum þá," sagði Rúnar Sigtryggsson þjálfari og leikmaður Akureyrar í samtali við Heimasíðuna.
Úrslitin í fyrra urðu 41:30 en staðan í hálfleik var 19:16.
Eftir leikinn sl. vetur var honum lýst svona hér á Heimasíðunni:
"Akureyri komst strax yfir gegn ungu liði Selfoss en allir leikmenn liðsins að þremur undanskildum eru í Unglingaflokki og 2. flokki. Þessir ungu strákar þeirra léku mjög vel nær allan leikinn og lofuðu afar góðu fyrir framtíðina en Selfoss er með eitt öflugasta yngri flokka starf á landinu. Þeir eiga samkvæmt okkar heimildum mikið lof skilið fyrir framgöngu sína þennan daginn.
Akureyri leiddi ýmist með 3-4 mörkum lengst af í fyrri hálfleik en þegar ein og hálf mínúta var eftir af hálfleiknum minnkaði Selfoss í 16-18 og fá tækifæri á að minnka muninn enn frekar í næstu sókn. Akureyri skoraði svo seinasta mark hálfleiksins og staðan 16-19.
Framan af seinni hálfleik komst Akureyri ekki lengra frá ungum Selfyssingum en 3-4 mörk en staðan var 23-26 fyrir Akureyri þegar rúmar 13 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þá fer Akureyri að hlaða á mörkum og var eins og Selfyssingar væru hættir á köflum. Lokatölur voru svo 11 marka sigur Akureyrar, 41-30."
Svo mörg voru þau orð. Þess vegna má búast við hörkuleik í dag en krafan er auðvitað að liðið leiki af sama baráttukraftinum og gegn Haukum í síðasta heimaleik.