Leikur dagsins: Valur - Akureyri í beinni textalýsingu
Í dag verður leikin næstsíðasta umferð N1-deildarinnar að þessu sinni. Leikmenn Akureyrar halda suður og mæta stórliði Vals klukkan 16:00. Leikurinn er mikilvægur fyrir bæði liðin, Valsmenn eru í baráttu við Hauka um deildarmeistatitilinn en Akureyri vill tryggja eigin stöðu í deildinni.
Að sjálfsögðu verður heimasíðan með leikinn í beinni lýsingu fyrir þá sem ekki eiga kost á að mæta á leikinn. Það er virkilega auðvelt að fylgjast með leiknum í gegnum Beinu Lýsinguna.
Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist sjálfvirkt á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 19:00 og við hvetjum alla til að fylgjast vel með.
Valsarar hafa verið erfiðir heim að sækja í vetur
26. mars 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Útileikur gegn Val á sunnudaginn
N1 deildin byrjar að rúlla aftur um helgina en á sunnudaginn klukkan 16:00 verður leikin næstsíðasta umferðin og fara allir leikirnir fram á sama tíma. Akureyri fær verðugt verkefni en liðið fer í Vodafone höllina og leikur gegn heimamönnum í Val. Heimavöllurinn hefur reynst Val dýrmætur en þeir hafa sigrað í öllum heimaleikjum tímabilsins enda með frábært lið.
Liðin hafa mæst tvisvar í vetur, fyrri leikinn vann Akureyri hér í Íþróttahöllinni en Valur náði fram hefndum á heimavelli. Það er því verðugt markmið fyrir Akureyrarliðið að verða fyrsta liðið til að leggja Val í Vodafone höllinni og ekki spillir að í boði eru dýrmæt stig til að gulltryggja sig í deildinni.
Það eru nokkrir góðkunningjar okkar Akureyringa í Valsliðinu og skal þar fyrstan telja Heimi Örn Árnason sem var valinn leikmaður deildarinnar tímabilið 2007-2008. Þar eru einnig kapparnir Baldvin Þorsteinsson og Arnór Þór Gunnarsson sem allir eru burðarásar í Valsliðinu sem enn eiga von um deildarmeistaratitilinn.
Í síðasta leik var Rúnar Sigtryggsson í banni en hann verður klár í leikinn á sunnudaginn eins og allt liðið, í liði Vals mun Elfar Friðriksson hins vegar sitja í áhorfendastúkunni en fékk eins leiks bann í síðustu umferð.
Hreinn tekur hraustlega á Heimi Árnasyni í síðasta leik liðanna.
Eins og áður segir er þetta næstsíðasta umferð deildarinnar sem lýkur með heimaleik gegn Fram í Íþróttahöllinni sunnudaginn 5. apríl klukkan 16:00.