Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Auðveldur sigur Akureyrar á Gróttu - myndir - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2009-10

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Grótta  33-19 (17-10)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
Mán 8. febrúar 2010 klukkan: 19:00
Dómarar: Brynjar Einarsson og Vilberg F. Sverrisson
Umfjöllun

Árni Sigtryggsson átti frábæran leik í kvöld
Flóki var drjúgur í markinu



8. febrúar 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Auðveldur sigur Akureyrar á Gróttu - myndir

Leikur Akureyrar og Gróttu í Íþróttahöllinni kvöld var vel sóttur af áhorfendum að vanda og hlýtur megnið af áhorfendum að hafa farið ánægður heim eftir stórsigur heimamanna 33-19. Þó verður að segja að spennuleysið í leiknum hafi dregið örlítið úr skemmtanagildi hans en við stuðningsmenn AHF kvörtum nú samt ekki yfir því.

Strákarnir okkar í Akureyri gáfu tóninn strax í byrjun og komust í 5-1. Munurinn hélst næstu mínútur en þegar um 10 mín voru til hálfleiks kom ákveðinn vendipunktur þegar gestirnir minnkuðu muninn í tvö mörk 10-8. Akureyri setti þá í hærri gír og hreinlega keyrði yfir ráðalausa og þunga Gróttumenn á síðustu mínútum fyrri hálfleiksins og var staðan 17-10 í hálfleik.


Árni lék Gróttumenn grátt í fyrri hálfleik og fékk líka að kenna á því

Óþarfi er að hafa mörg orð um seinni hálfleikinn, þar hélt einfaldlega sama sagan áfram, Akureyri mun fremra gestunum á öllum sviðum og mestur varð munurinn 16 mörk í stöðunni 30-14. Rúnar þjálfari leyfði yngri strákunum að spreyta sig síðustu mínútur leiksins og stóðu þeir ágætlega fyrir sínu en lokatölur urðu 33-19 fyrir Akureyri.

Árni Sigtryggsson var að leik loknum valinn maður leiksins, hann skoraði alls 8 mörk, þar af 7 í fyrri hálfleik og átti nokkrar glæsilegar stoðsendingar á félaga sína. Oddur Gretarsson spilaði einnig frábærlega (að vanda liggur manni við að segja) og var markahæsti maður liðsins með 9 mörk. Hörður Flóki var með um 20 bolta varða í markinu og stóð að vanda fyrir sínu. Raunar átti allt Akureyrarliðið fínasta leik, jafnt í vörn sem sókn og verður það ekki tekið af þeim þrátt fyrir að andstæðingurinn í kvöld hafi ekki sýnt mikla mótspyrnu.

Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 9 (3 víti), Árni Þór Sigtryggsson 8, Heimir Örn Árnason 4, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Hreinn Þór Hauksson 2, Jónatan Þór Magnússon 2 (1 víti), Andri Snær Stefánsson, Bjarni Jónasson, Geir Guðmundsson, Guðlaugur Arnarsson og Guðmundur Hólmar Helgason 1 mark hver.


Tvö stig í hús og fagnað að hætti hússins

Sjá fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum

Næsti leikur er gegn Stjörnunni á útivelli fimmtudaginn 18. febrúar nk. og vonandi halda Akureyringar áfram á sömu braut þá.

Tengdar fréttir

Rúnar og Gulli voru kampakátir eftir góðan sigur á Gróttu



9. febrúar 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir Gróttuleikinn?

Það var að vonum misjafnt hljóðið í mönnum eftir leikinn í gærkvöldi, heimamenn að vonum kátir en Gróttumenn heldur súrir.

Hjalti Þór Hreinsson, fréttaritari Vísis.is ræddi við Rúnar Sigtryggsson þjálfara Akureyrar: „Sem betur fer fyrir okkur þegar það er svona stutt á milli leikja er þetta bara spurning um hvaða karakter menn hafa að geyma.

Þrátt fyrir að vera komnir með stórt forskot spiluðum við handbolta áfram og við kláruðum þetta vel. Við höfum talað um það áður en við höfum komist í góða forystu og við glutrum því stundum niður á þremur mínútum. Við höfum verið að vinna í þessu og strákarnir gerðu þetta vel í dag.

Það var sama hvað Grótta reyndi, þeir prófuðu að breyta um vörn en við gáfum okkur bara tíma og leystum verkefnið,“
sagði Rúnar sem lagði upp með að spila hratt.

„Við sýndum úr hverju við erum gerðir. Við stóðum í vörn eflaust um 80 prósent leiksins og samt var alltaf 100 prósent einbeiting á báðum endum vallarins. Það voru allir einbeittir. Menn voru að finna sig vel.

Þetta er vonandi á réttri leið. Fyrst og fremst var þetta mikilvægt af því leikurinn á móti FH var eins og mjög slæmur draumur. Þegar það kemur svona pása í mótið og liðið spilar svona eftir það spyr maður sig hvað er í gangi. En sem betur fer var þetta bara slys, fyrst og fremst hugarfarslegt slys, og við fórum á botninn en nú vinnum við okkur þaðan,“
sagði Rúnar.

Hjalti ræddi einnig við Guðlaug Arnarsson leikmann Akureyrar: „Þetta er aldrei auðvelt. Þetta kostaði mikla vinnu og mikla baráttu. Við þurftum að brjóta okkur út úr skelinni eftir síðasta leik gegn FH og við gerðum það. Það var ekki erfitt að koma sér í gírinn eftir það tap, við flugum beint heim eftir þann leik, fórum ekki eini sinni í sturtu og hefðum verið klárir í annan leik strax um kvöldið,“ sagði Guðlaugur sem tók undir með blaðamanni að hinir farþegar flugvélarinnar hafi eflaust hugsað leikmönnum þegjandi þörfina.

„Þegar við dettum í þennan gír að spila góða vörn með góða markmenn þá erum við öflugir. Skipunin í dag var massífur varnarleikur og að spila hratt. Það hefur virkað best fyrir okkur og það virkaði í dag. Við keyrðum vel á þá og það var góðan árangur.

Þetta var lífsnauðsynlegt fyrir framhaldið. Ef við hefðum tapað hér hefðum við lent langt á eftir og við viljum vera í þessari toppbaráttu, þar ætlum við okkur að vera,“
sagði Guðlaugur.

Hjalti ræddi einnig við þá félaga, Halldór Ingólfsson og Jón Karl Björnsson úr Gróttu: „Þetta var enginn leikur að okkar hálfu. Við mættum ekki tilbúnir til leiks og vorum ekki að spila alvöru handbolta,“ sagði Halldór Ingólfsson, þjálfari Gróttu sem segir að Akureyri hafi ekki komið sér neitt á óvart.

„Nei, við mættum bara ekki hérna. Það er ekki mikið meira um það að segja.“

Halldór átti engin svör við af hverju liðið var svona lélegt. „Nei. Ég veit ekki hvort að við séum að hugsa um bikarleikinn og að við séum að gleyma því að spila í deildinni. Ég þarf að leita mjög lengi að jákvæðum punkti úr þessum leik. Gísli var reyndar góður í markinu, það er vonandi að það sé komið til að vera. Ég ætla rétt að vona að það verði ekki erfitt að rífa sig upp því neðar getum við ekki farið. Ég er alls ekki sáttur með þennan leik,“ sagði hinn spilandi þjálfari.

Jón Karl Björnsson kallaði leikinn þann lélegasta sem hann hefur tekið þátt í á löngum ferli. „Já ég er ekki frá því að það sé eins hjá mér. Eins og ég segi, þetta var enginn handbolti af okkar hálfu.“


Heimir Örn er að koma til eftir meiðsli

8. febrúar 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Akureyri – Grótta klukkan 19:00 (lýsing)

Þá er komið að fyrsta heimaleika ársins hjá Akureyri Handboltafélagi. Andstæðingurinn í dag er hið spræka lið Gróttu frá Seltjarnarnesi sem hafa reynst öllum liðum erfiðir í vetur. Okkar menn áttu afspyrnudapran dag í síðasta útileik og eru staðráðnir í að koma til baka í dag og sýna hvað býr í liðinu.

Fyrsta leik þessara liða sem fram fór á Seltjarnarnesinu í haust lauk með eins marks sigri Akureyrar, 21-22 eftir æsispennandi lokakafla. Grótta lék í síðustu viku gegn Val á heimavelli sínum og þar máttu Valsmenn þakka fyrir að fara með sigur af hólmi en sigurmarkið kom úr víti eftir að leiktíma lauk.

Fremstur í flokki Gróttumanna er Anton Rúnarsson sem lék síðasta tímabil með Akureyri og hefur átt mjög gott tímabil með Gróttu í vetur. Eins og við greindum frá í síðustu viku er Heiðar Þór Aðalsteinsson í láni hjá Gróttu út þessa leiktíð en hann mun ekki leika með liðinu í kvöld.


Heimir og Oddur stöðva Anton Rúnarsson í leik liðanna í haust

Síðastliðinn laugardag var smá handboltasprell á Glerártorgi þar sem fjöldi krakka fékk að taka vítakast á Hafþór Einarsson markvörð Akureyrar. Um það bil tuttugu krakkar skoruðu mark og verður nafn einnar vítaskyttunnar dregið út í hálfleiki og fær viðkomandi afhentan skemmtilegan vinning.

Fjöldi fólks spáði fyrir um úrslit leiksins og verður dregið úr hópi þeirra getspöku eftir leikinn og nafn viðkomandi birt hér á heimasíðunni.

Leikurinn hefst eins og áður segir klukkan 19:00 og verður í beinni textalýsingu hér á síðunni.

Þú smellir hér til að fylgjast með beinu lýsingunni sem opnast í sérstökum glugga og uppfærist síðan sjálfkrafa á 20 sekúndna fresti.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson