Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Stórsigur Akureyrar gegn HK í Digranesinu - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2010-11

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    HK - Akureyri  29-41 (10-17)
N1 deild karla
Digranes
Fim 30. september 2010 klukkan: 18:30
Dómarar: Arnar Sigurjónsson og Svavar Pétursson
Umfjöllun

Bjarni Fritzson er mættur til leiks af fullum krafti










30. september 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Stórsigur Akureyrar gegn HK í Digranesinu

Lið Akureyrar gerði góða ferð í Kópavoginn í kvöld þegar það vann sannfærandi tólf marka sigur á heimamönnum í HK. Upphafsmínútur leiksins voru þó ekki sannfærandi og HK gekk á lagið og skoraði fyrstu þrjú mörkin í leiknum. En þar með hrökk lið Akureyrar í gang, jafnaði í 3-3 og eftir að hafa komist yfir í stöðunni 4-5 var ekki litið til baka og HK ingum ekki gefin nein grið.

Varnarleikurinn var frábær og Sveinbjörn Pétursson átti stórleik í markinu og punkturinn yfir var flottur sóknarleikur. Þar fór Bjarni Fritzson fyrir okkar mönnum, öryggið uppmálað í hægra horninu auk þess sem varnarvinnan skilaði fjölmörgum hraðaupphlaupum sem Bjarni kláraði af snilld.

Munurinn í hálfleik var sjö mörk, 10-17 fyrir Akureyri, þar af var Bjarni með átta mörk og Sveinbjörn kominn með 10 varin skot. HK getur þakkað Birni Inga, markverði sínum að vera ekki enn meira undir í hálfleik en hann varði þó nokkur dauðafæri þar sem okkar menn voru einir á móti honum.

Yfirburðir Akureyrar héldu áfram í seinni hálfleik, munurinn varð fljótlega tíu mörk, 12-22 en HK saxaði það niður í sex mörk 17-23 áður en Akureyrarhraðlestin fór af stað að nýju.

Bjarni færði sig í hægri skyttuna en nýliðinn, Daníel Einarsson kom í hægra hornið og sýndi að hann kann ýmislegt fyrir sér og skoraði fimm mörk í seinni hálfleiknum. HK reyndi að taka Bjarna og Heimi Örn Árnason úr umferð en þá stigu Guðmundur Hólmar Helgason og Oddur Gretarsson upp, skoruðu að vild og munurinn jókst jafnt og þétt upp í fjórtán mörk 24-38.

Seinustu mínúturnar skipti Atli reynsluboltunum útaf og ungu strákarnir, Bergvin Gíslason, Hlynur Matthíasson og Halldór Logi Árnason kláruðu leikinn. Sömuleiðis kom Stefán Guðnason í markið við mikinn fögnuð áhorfenda. Stefán sýndi glæsitilþrif, varði sex skot og kórónaði sinn leik með því að verja vítakast með tilþrifum.

Lið Akureyrar virkaði feykisterkt í þessum leik, Heimir Örn Árnason stjórnaði sóknarleiknum eins og hershöfðingi og bar boltann upp í sóknarleiknum. Sveinbjörn átti sem fyrr segir stórleik í markinu og þessi góði sigur gefur góð fyrirheit um skemmtilegt tímabil.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 14, Guðmundur Hólmar Helgason 7, Oddur Gretarsson 6, Daníel Einarsson 5, Hörður Fannar Sigþórsson 4, Geir Guðmundsson 2, Heimir Örn Árnason 2 og Bergvin Gíslason 1.

Í markinu varði Sveinbjörn Pétursson 21 skot, þar af 1 vítakast og Stefán Guðnason varði 6 skot, sömuleiðis eitt vítakast.


Leikurinn var í beinni útsendingu á SportTV.is og hér er Sveinbjörn Pétursson í viðtali við SportTV.is eftir leikinn.

Lið HK komst lítt áleiðis gegn Akureyrarliðinu, Ólafur Bjarki Ragnarsson var þeirra langatkvæðamestur með 12 mörk og þar á eftir kom Atli Ævar Ingólfsson með 5 mörk.

Það er full ástæða til að óska liðinu til hamingju með magnaða byrjun, nú treystum við því að Akureyringar flykkist í Höllina næstkomandi fimmtudag og standi með sínum mönnum þegar lið Aftureldingar kemur í heimsókn.

Að lokinni fyrstu umferð er staðan í N1 deild karla þannig
Nr. FélagLeikir U J TMörkHlutfallStig-
1. Akureyri110041 : 29122:0
2. FH110034 : 2592:0
3. Fram110033 : 2762:0
4. Haukar110030 : 2642:0
5. Valur100126 : 30-40:2
6. Selfoss100127 : 33-60:2
7. Afturelding100125 : 34-90:2
8. HK100129 : 41-120:2

Á sport.is er umfjöllun um leikinn og þar má meðal annars sjá eftirfarandi myndir sem Pétur Hjörvar Þorkelsson, ljósmyndari Sport.is tók á leiknum.


Halldór Logi Árnason í baráttu við Atla Ævar Ingólfsson á línunni


Sveinbjörn og Guðlaugur Arnarsson leggja á ráðin


Bjarni Fritzson skorar eitt af fjórtán mörkum sínum


Tengdar fréttir

Atli Hilmarsson getur verið sáttur með árangur kvöldsins

30. september 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir leikinn í kvöld?

Blaðamenn mbl.is og Vísis.is tóku viðtöl við leikmenn og þjálfara liðanna í kvöld. Eins og gefur að skilja voru menn miskátir í leikslok. Bjarni Fritzson var tekinn tali af Sindra Sverrissyni blaðamanni mbl:

Bjarni Fritzson: Liðsfélögunum að þakka
„Ég er mjög ánægður með þetta,“ sagði Bjarni Fritzson sem skoraði fjórtán mörk í sigri Akureyrar á HK í N1-deild karla í handknattleik í kvöld, 41:29.

„Auðvitað er fullt af atriðum sem við getum bætt en ég var rosalega ánægður með samheldnina í liðinu, hvernig menn einbeittu sér að því að finna „fría manninn“ í staðinn fyrir að gera hlutina upp á eigin spýtur. Svo var ég mjög ánægður með hvernig við nýttum hraðaupphlaupin þar sem Heimir bar boltann vel upp og menn voru fljótir fram völlinn,“ sagði Bjarni sem vildi ekki gera mikið úr eigin framlagi þrátt fyrir mörkin fjórtán.

„Strákarnir gáfu boltann á mig í góðum færum og þá reynir maður bara að skora. Þetta var þeim að þakka,“ sagði Bjarni sem kom til Akureyrar frá FH í sumar en FH er spáð Íslandsmeistaratitlinum. Geta Akureyringar ekki allt eins náð í hann?
„Við erum kannski ekki með neina brjálaða breidd í liðinu en blandan er góð og við erum klárlega ekki í þessu bara til að vera með,“ sagði Bjarni léttur.

Guðmundur Egill Gunnarsson fréttaritari sport.is ræddi sömuleiðis við Bjarna Fritzson sem var að vonum mjög ánægður eftir leikinn og hrósaði liðinu fyrir góða vinnu inni á vellinum.
„Já mér fannst liðið mjög gott, strákarnir spiluðu ótrúlega vel, þeir voru að spila mjög hátt uppi og við vorum bara heppnir í dag. Mér fannst liðið virkilega gott, hraðaupphlaupin mjög góð, vörnin var góð en við duttum reyndar í eitthvað kjaftæði þarna í lokinn en það er bara svoleiðis.“

Bjarni lék sér hreinlega að varnamönnum HK og komu mörkin hans úr öllum áttum, af vítalínunni, úr horninu og hraðaupphlaupum.
„Þetta féll með mér í dag en það er bara einhver annar sem fær færin næst en það skiptir engu máli.“

Bjarni var ánægður með innkomu ungu strákanna hjá Akureyri sem og liðið í heild.
„Já mér líst rosalega vel á liðið, hér eru allir að leggja sig fram og vinna saman og það er frábært“

Við spurðum Bjarna svo út í lífið fyrir norðan og hafði hann ekkert nema gott að segja um dvöl sína í höfuðstað Norðurlands.
„Lífið fyrir norðan er afskaplega gott, ég hef það ákaflega fínt og er mjög ánægður þar.“

Bjarni var þar með rokinn inn í klefa en Akureyringar voru að flýta sér á flugvöllinn til að ná síðustu vél norður.

Elvar Geir Magnússon blaðamaður visis.is ræddi við Atla Hilmarsson sem var að vonum ánægður með sína menn í leikslok:

Atli Hilmarsson: Bjarni er markagráðugri en allir
„Það var smá skrekkur í okkur í byrjun og menn á hálfum hraða. Sá skrekkur fór fljótt úr okkur og við fengum þessi mörk úr hraðaupphlaupum sem hjálpa manni að komast inn í leikinn. Eftir það var ekki aftur snúið og er ánægjulegt hvernig liðið spilaði úr þessu.

Við eigum fljóta hornamenn og við vorum að finna þá vel í dag. Eina sem ég er ósáttur við er að við fáum 29 mörk á okkur sem ég tel of mikið miðað við hvað við eigum að geta varnarlega. En þetta er fyrsti leikur og við erum ánægðir með að fara svona af stað."


Bjarni Fritzson skoraði alls fjórtán mörk fyrir Akureyri í leiknum úr sextan tilraunum. „Hann er náttúrulega markagráðugri en allir. Það er bara fínt," sagði Atli og brosti. „Hann er maður sem er í þessum klassa."

„Sveinbjörn var flottur í markinu og ungu strákarnir sýndu að þeir eru tilbúnir. Það er gott að nota svona leiki til að leyfa öllum að spila. Ég er með alla mína menn heila og vonandi helst það þannig."


Erlingur Richardsson þjálfari HK var ekki eins kátur í viðtali við Elvar Geir Magnússon hjá visir.is:
„Þetta tap var alltof stórt tap. Við byrjuðum ágætlega en svo var eins og það væri slökkt á liðinu," sagði Erlingur Richardsson, þjálfari HK, eftir að liðið fékk skell gegn Akureyri í 1. umferð N1-deildarinnar í kvöld.

„Fyrsti æfingaleikurinn var skárra en þetta af okkar hálfu. Akureyringarnir voru bara betur stemmdir og við verðum að vera klárir ef við ætlum að vera með í þessu móti."

„Ég vill meina að það sé ekki svona mikill munur á liðunum. Við ætluðum að sýna það í dag en þeir voru með undirtökin í leiknum allan tímann."

„Við höfum unnið ágætis vinnu og teljum okkur vera komnir lengra en þetta í undirbúningnum. Það verður bara að sýna það á fimmtudaginn gegn Fram að við getum betur en þetta,"
sagði Erlingur.

Kristinn Guðmundsson, hinn þjálfari HK var ekki heldur kátur þegar Guðmundur Egill Gunnarsson fréttaritari sport.is ræddi við hann. Kristinn sagði að liðið hefði stefnt að því að vinna sigur á Akureyri í kvöld og það séu vonbrigði að það hafi ekki tekist. HK byrjaði leikinn þokkalega en missti svo öll tök á honum og staðreyndin stórt tap.
„Við náttúrulega töldum okkur vera jafnoka Akureyrarliðsins að mestu leyti áður en við mættum í þennan leik og ætluðum okkur auðvitað sigur hér í dag. Mér fannst við byrja þetta ágætlega fyrstu mínúturnar, héldum hraðanum ágætlega uppi og stóðum vörnina fínt. Þetta leit allt saman ágætlega út en svo koma Akureyringarnir inn í leikinn og þá förum við að einbeita okkur að einhverjum allt öðrum hlutum heldur en við ætluðum okkur að gera“

Töluvert var um mistök bæði í varnar- og sóknarleik HK liðsins og margir tapaðir boltar kostuðu hraðaupphlaupsmörk trekk í trekk.
„Við töpum boltanum ódýrt bæði í vörn og sókn og það er náttúrulega vonlaust á móti Akureyri. Ég held að við höfum fengið á okkur 7 mörk af 17 úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik og það er rosalega dýrt. Eftir það áttum við á brattann að sækja og vorum einfaldlega númeri og litlir fyrir þá í dag“


Loksins byrjar handboltinn að rúlla fyrir alvöru



30. september 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: HK – Akureyri sýndur beint á SportTV.is

Í dag leikur lið Akureyrar Handboltafélags sinn fyrsta leik í N1-deildinni þegar strákarnir fara í Kópavoginn, nánar tiltekið í Digranesið og leika gegn HK. Leikurinn hefst klukkan 18:30 og verður sýndur beint á SportTV.is þannig að við getum fylgst með gangi mála hér þrátt fyrir allt.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með þessari frumraun Atla Hilmarssonar með liðið og að sjálfsögðu hvetjum við alla stuðningsmenn og velunnara liðsins á höfuðborgarsvæðið að drífa sig á leikinn og láta duglega til sín taka á pöllunum.

Lið HK er nokkuð óskrifað blað þar sem miklar breytingar hafa orðið á hópnum frá síðasta vetri og þar er, líkt og hjá Akureyri, einnig nýtt þjálfarateymi við stjórnvölinn, Erlingur Richardsson og Kristján Guðmundsson. Við vitum allt um markvörðinn Sveinbjörn Pétursson sem er kominn í raðir Akureyrar frá HK en auk hans er Valdimar Fannar Þórsson genginn til liðs við Val, stórskyttan Sverrir Hermannsson fór aftur úr láni til Víkings, Brynjar Þór Hreggviðsson gekk sömuleiðis til liðs við Víkinga.

Leikstjórnandinn Ólafur Víðir Ólafsson fluttist til Noregs og leikur með Haugasundi HK, Lárus Helgi Ólafsson fór heim til ÍR á nýjan leik og Ragnar Þór Ægisson skipti yfir í Val. En menn hafa komið í manns stað og klárt að HK liðið mun ekkert gefa eftir frekar en fyrri daginn.

Smelltu hér til að opna útsendinguna á SportTV.is

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson