Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Magnaður útisigur á Íslandsmeisturum HK - Akureyri Handboltafélag
14. október 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hvað sögðu menn eftir leik HK og Akureyrar?
Eftir ævintýralegan leik HK og Akureyrar í Digranesinu í gær er við því að búast að skoðanir séu skiptar, eftir því hvort menn fóru með sigur eða ekki. Að þessu sinni fundust viðtöl við Heimi Örn Árnason, Odd Gretarsson og Kristinn Guðmundsson þjálfara HK á rituðu máli en fleiri viðtöl eru á formi vídeóviðtala.
Það var Guðmundur Marinó Ingvarsson sem tók eftirfarandi viðtöl við Heimi og Kristinn og birtust á Vísir.is
Heimir Örn Árnason: Ljótur sigur
„Þetta var snilld. Við vorum vængbrotnir sóknarlega því okkur vantaði 10 mörk í hægra hornið. Bjarni er búinn að vera sjóðandi heitur en Beggi (Bergvin Gíslason) leysti þetta vel af,“ sagði Heimir Örn Árnason annar þjálfara Akureyrar í leikslok.
„Við unnum boltann trekk í trekk og fengum einhverjar sjö, átta seinni bylgjur í seinni hálfleik þar sem við misstum boltann og skutum heimskulega. Við hefðum átt að vera komnir þremur, fjórum mörkum yfir. Við vorum alveg með þá varnarlega fannst mér.
Þessi mörk hjá Eyþóri og Atla á 17 metrum drápu aðeins taktinn í okkur en þetta var karakter sigur, glæsilegur sigur.
Þetta var eins Atli Hilmars sagði stundum, þetta var ljótur sigur. Þetta verður gleymt eftir viku þegar næsti leikur byrjar, hvernig við unnum þetta. Þetta var ekki fallegur leikur. ÍR leikurinn heima var allt annar handbolti en mér er alveg sama um það. Ég er bara ánægður með stigin tvö.
Þetta var flott hjá kynninum í upphafi að espa okkur aðeins upp með að segja að þeir höfðu ekki tapað í ellefu leikjum. Ég hafði gaman að því.“
Heimir vinnur boltann í vörninni og grýtir honum fram völlinn. Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Kristinn: Okkur að kenna að við töpum
„Það var klárlega tvígrip hér í restina og það var klárlega mark sem Atli Karl skorar í stöðunni 21-20. Þeir voru engan vegin í takt við eitt né neitt í dag en við töpum einhverjum 20 boltum sjálfir og sköpum okkur okkar vandræði sjálfir og það er okkur að kenna að við töpum,“ sagði reiður Kristinn Guðmundsson þjálfari HK.
Það var barátta sem einkenndi þennan leik. Bæði lið vildu vinna hann en gæði handboltans voru ekki upp á marga fiska. Það voru margir tæknifeilar og það er margt að laga og einbeita okkur að. Menn eru að berjast eins og ljón og gefa sig í þetta þannig að það er margt jákvætt í þessu.
Þetta eru hlutir sem hafa ekkert að segja og ef maður er að hugsa um þetta þá ertu að einbeita þér að einhverju sem þú átt ekki einbeita þér að og hugsanlega vorum við að einbeita okkur meira að leiknum í dag og minna að dómurunum. Svona lagað skiptir ekki máli nema þú látir það skipta máli sjálfur,“ sagði Kristinn um það að vallarþulurinn hafi tilkynnt fyrir leik að HK hafi ekki tapað í 11 leikjum.
Vídeóviðtöl
Við byrjum á viðtölum Þráins Guðbrandssonar sem birtust á Sportvarpinu sem er hluti af sport.is. Þráinn ræðir við Odd Gretarsson, Bjarna Fritzson og Kristinn Guðmundsson.
Oddur Gretarsson:
Bjarni Fritzson
Kristinn Guðmundsson
Á handbolti.org ræddi Þorvaldur Einarsson einmitt við nákvæmlega sömu aðila.
Bjarni: Virkilega góð liðsheild
Oddur: Mjög gott að spila í Digranesinu
Kristinn: Fullt af vafaatriðum ansi skrautleg
Á mbl.is var það Kristján Jónsson sem ræddi við Odd Gretarsson og þjálfarana Bjarna Fritzson og Kistinn Guðmundsson.
Oddur: Alltaf sætast að vinna með einu
Oddur Gretarsson var í hlutverki hetjunnar að þessu sinni. Oddur skoraði sigurmarkið með gegnumbroti á síðustu sekúndum leiksins og kórónaði þar með flottan leik. Oddur var markahæstur með níu mörk en var auk þess mjög góður sem fremsti maður í vörn Akureyrarliðsins. „Þetta var að sjálfsögðu mjög sætt enda er alltaf sætast að vinna leiki með eins marks mun og skora á síðustu sekúndunni. Sérstaklega á erfiðum útivelli og þessi tvö stig eru gríðarlega mikilvæg,“ sagði Oddur í samtali við Morgunblaðið í Digranesinu.
Akureyri tók leikhlé í stöðunni 21:21 og voru þá sjö sekúndur eftir af leiknum. Eftir nokkur skoðanaskipti í hléinu sagði Heimir Örn Árnason, annar þjálfari Akureyrar, að Oddur ætti að klára dæmið maður á móti manni. „Oddur, þetta er easy,“ sagði Heimir og Oddur gat því tekið af skarið í síðustu sókninni með fullt traust þjálfaranna. „Menn voru eitthvað ósammála í leikhléinu um hvaða leikkerfi skyldi nota. Við ákváðum að gera þetta einfalt. Ákveðið var að skapa pláss fyrir mig til að vera maður á móti manni og það gekk 100% upp. Ég held að þeir hafi búist við einhverju öðru því ég fékk mikið pláss,“ sagði Oddur.
Akureyri gat ekki teflt fram öðrum þjálfaranum, Bjarna Fritzsyni, sem er tognaður á kálfa. Hann stjórnaði meistaraflokksliði í fyrsta skipti á hliðarlínunni á laugardaginn. Samstarfsmaður hans Heimir Örn er ekki kominn á fulla ferð en gat þó tekið þátt í leiknum og skoraði mikilvægt mark undir lokin. Það er mikið styrkleikamerki hjá Akureyrarliðinu að vinna meistarana á útivelli án þess að Bjarni og Heimir séu tilbúnir í slaginn.
„Þetta er gríðarlega sterkt og sýnir að við erum með unga leikmenn sem geta fyllt upp í þessar stöður. Þó við séum ungir þá byrjuðum við flestir mjög snemma og höfum fína reynslu úr efstu deild. Við erum alltaf að bæta okkur auk þess sem 2. flokkurinn okkar varð Íslandsmeistari síðasta vor,“ sagði Oddur Gretarsson.
Bjarni: Þetta var ekkert eðlilega sætt
Kristinn Guðmundsson: Drullusvekktur að vera ekki með 7 stig
HK eru ríkjandi Íslandsmeistarar
10. október 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Stórleikur HK og Akureyrar á laugardaginn
Leikur Akureyrar Handboltafélags í 4. umferð N1 deildarinnar verður laugardaginn 13. október og er um að ræða útileik gegn ríkjandi Íslandsmeisturum, HK í Kópavogi. Eins og mönnum er í fersku minni þá voru HK menn ógnvekjandi sterkir í úrslitakeppninni síðastliðið vor þegar þeir byrjuðu á því að sópa deildarmeisturum Hauka úr úrslitakeppninni í þrem leikjum og kórónuðu síðan þá frammistöðu með því að kjöldraga FH-inga, sömuleiðis í þremur leikjum og krækja þannig í Íslandsmeistaratitilinn.
HK liðið missti ákaflega mikilvæga menn í sumar, Ólafur Bjarki Ragnarsson og Atli Ævar Ingólfsson héldu erlendis og hornamaðurinn Sigurjón sneri í Breiðholtið, til liðs við ÍR. Auk þess hætti annar þjálfari liðsins, Erlingur Richardsson en hann þjálfar nú lið ÍBV. Fyrir vikið hafa ýmsir orðið til að tala HK liðið niður sem kom best í ljós þegar forráðamenn liðanna í N1-deildinni spáðu HK mönnum falli úr deildinni.
HK menn hafa svo sannarlega blásið á þessar hrakspár og sýnt frábæra spilamennsku, gjörsigruðu Hauka í leik um meistara meistaranna og eru taplausir eftir fyrstu þrjár umferðirnar. Í fyrstu umferðinni vann HK sannfærandi sigur á Val 29 – 23, í annarri umferð unnu þeir Aftureldingu 24-23 og í þeirri þriðju gerðu þeir jafntefli við sterkt liða Hauka, 22 – 22.
Það er því ljóst að HK er með frábært lið og Kristinn Guðmundsson þjálfari kann sitt. Í liðinu eru nefnilega hörku handboltamenn sem svo sannarlega vita út á hvað leikurinn gengur. Hornamaðurinn Bjarki Már Elísson er einfaldlega frábær leikmaður enda viðloðandi íslenska landsliðið. Bjarki Már er einmitt markahæstur þeirra með 20 mörk það sem af er í þrem leikjum. Í hægra horninu hjá HK er enginn annar en góðvinur okkar, Daníel Einarsson sem hefur farið á kostum í síðustu tveim leikjum HK og skorað í þeim 13 mörk.
Aðstoðarþjálfari HK er varnartröllið Vilhelm Gauti Bergsveinsson sem lætur sér ekki duga varnarhlutverkið heldur skorar hann mikilvæg mörk og er þegar kominn með 8 mörk í deildinni. Annar reynslubolti og gríðarmikilvægur leikmaður er leikstjórnandinnn Ólafur Víðir Ólafsson sem hefur blómstrað í sóknarleik HK í haust og skorað drjúgt af mörkum.
Bjarki Már Elíasson, Daníel Einarsson, Vilhelm Gauti Bergsveinsson
Ólafur Víðir Ólafsson, Arnór Freyr Stefánsson og Kristinn Guðmundsson
Í vinstri skyttunni er ungur piltur, Eyþór Magnússon sem kom frá Stjörnunni. Eyþór er kominn með 9 mörk það sem af er.
Línumaðurinn Bjarki Már Gunnarsson lék mjög vel á Opna Norðlenska mótinu hér í haust auk þess sem Atli Karl Bachmann hefur verið drjúgur fyrir HK í síðustu leikjum.
Í markinu hjá HK hefur Arnór Freyr Stefánsson farið mikinn en hann var ekki síst maðurinn á bak við frábæran árangur HK á lokasprettinum í vor.
Eftir að N1 deildin hófst fengu HK menn til liðs við sig Serbann Vladimir Ðuric og þar auki hefur skyttan Tandri Konráðsson verið meiddur það sem af er mótsins.
Lið HK er sem sé feikna sterkt og leikur afar skynsamlegan og árangursríkan handbolta. HK menn hafa svo sannarlega sýnt og sannað að enginn skyldi vanmeta þá eða koma með hangandi hendi til leiks í Kópavoginn.
Leikurinn hefst klukkan 15:45 á laugardaginn í Digranesi en verður jafnframt sýndur í beinni útsendingu á RÚV. Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi þess að stuðningsmenn Akureyrar fjölmenni á leikinn og styðji duglega við sína menn. Fyrir umferðina eru liðin, ásamt Haukum á toppi deildarinnar með 5 stig og því ljóst að þetta er einn af úrslitaleikjum N1-deildarinnar.
Akureyri sækir Íslandsmeistarana heim á laugardaginn
7. október 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur HK og Akureyrar í beinni á RÚV á laugardag
Nú hefur verið ákveðið að leikur HK og Akureyrar í 4. umferð N1-deildarinnar verði leikinn laugardaginn 13. október og verði jafnframt sýndur í beinni útsendingu hjá RÚV. 4. umferðin hefst miðvikudaginn 10. október með leik Aftureldingar og Hauka, á fimmtudag mætast annars vegar ÍR og FH í Austurbergi og hins vegar Valur og Fram í Vodafone Höllinni. Umferðinni lýkur síðan eins og áður segir með sjónvarpsleik HK og Akureyrar en sá leikur hefst klukkan 15:45 á laugardaginn í Digranesi.