Dómarar: Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Það er ljóst að Oddur er ekki með í hóp í dag
8. nóvember 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins í beinni textalýsingu
Þá er komið að heimaleik þar sem gestir okkar eru Valsmenn.
Leikurinn hefst að vanda klukkan 19:00 í Íþróttahöllinni og nú reynir á okkar menn og stuðningsmenn að sýna sínar bestu hliðar til að ná fram hagstæðum úrslitum.
Heimasíðan verður að venju með beina textalýsingu frá leiknum bæði er hægt að fylgjast með lýsingunni í sjálfstæðum glugga með ítarlegum upplýsingum um allan gang leiksins auk þess sem staðan og það allra nýjasta uppfærist á forsíðunni einnig og sama gildir um farsímavefinn okkar, þar uppfærist staðan einnig. Smelltu hér til að opna lýsingarsíðuna.
Leikurinn hefst eins og áður segir klukkan 19:00 en fyrir leikinn er handhöfum Gullkorta boðið upp á heitan mat. Líkt og á undanförnum leikjum verður maturinn framreiddur í nýstækkaðri aðstöðu félagsins sem er við anddyri Hallarinnar (á vinstri hönd þegar gengið er inn). Maturinn verður framreiddur upp úr klukkan 18:00.
Fyrir leik verður danssýning frá POINT Dansstúdíói þannig að það er um að gera að mæta nokkuð tímanlega til að fylgjast með sýningunni þeirra.
Gaman fyrir börnin Á síðustu heimaleikju hefur verið opið sérstakt leiksvæði fyrir börn, í gamla stuðningsmannaherberginu. Þar eru sett upp nokkur lítil mörk og margir mjúkboltar þar sem krakkarnir geta leikið sér af hjartans list. Að sjálfsögðu er gæsla í herberginu en þessi nýbreytni hefur mælst ákaflega vel fyrir.
Alltaf líf og fjör í kringum heimaleikina
6. nóvember 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Danssýning fyrir leik Akureyrar og Vals
Það verður ýmislegt til gamans gert í tengslum við leik Akureyrar og Vals á fimmtudaginn. Áður en leikurinn hefst verður danssýning frá POINT Dansstúdíó. POINT dansstúdíóið er með kennslu í Þrekhöllinni og eru nemendur á ýmsum aldri þannig að þetta verður örugglega mjög skemmtilegt.
Einnig minnum við á leikherbergið fyrir krakka sem nýtur mikilla vinsælda. Það er í gamla stuðningsmannaherberginu en þar er komið fyrir litlum handboltamörkum og mjúkboltum þannig að þar er mikið líf og fjör. Að sjálfsögðu er gæslufólk sem fylgist með allt fari vel fram.
Að vanda verður heitur matur í boðið fyrir handhafa Gullkortanna og ekki um annað að ræða en skella sér í Höllina og styðja við sína menn.
Í þessum leik verður ekkert gefið eftir
6. nóvember 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Heimaleikur gegn Val á fimmtudaginn
Eftir býsna langt hlé er loksins komið að heimaleik Akureyrar Handboltafélags og að þessu sinni eru andstæðingarnir hinir fornu erkifjendur úr Val. Liðin hafa ávallt boðið upp á jafna og spennandi leiki og öruggt að þar verður engin breyting á að þessu sinni.
Akureyri freistar þess að komast á sigurbraut á ný eftir tvo tapleiki í röð og þrátt fyrir ýmiss skakkaföll í undanförnum leikjum er klárt að liðið mætir af fullum krafti til leiks.
Valsmenn hafa leikið vel í deildinni en úrslit leikja hafa ekki fallið með þeim en að loknum sex umferðum eru þeir með einn unninn leik og tvö jafntefli.
Nokkrar breytingar hafa orðið hjá Valsmönnum frá því í fyrravetur. Stærsta breytingin er líkast sú að nú er nýr þjálfari í brúnni, enginn annar en landsliðsþjálfari Austurríkis, Patrekur Jóhannesson. Patti er einn af helstu reynsluboltum íslensks handbolta og þarf væntanlega ekki að kynna frekar fyrir áhugamönnum um handboltann.
Valsmenn misstu nokkra leikmenn í sumar, þar á meðal Sturlu Ásgeirsson sem nú leikur með ÍR, Anton Rúnarsson og Orri Gíslason leika í Danaveldi í vetur. En Valsmenn fengu líka menn til baka eins og markvörðinn Lárus Helga Ólafsson og Þorgrím Ólafsson sem báðir komu úr Gróttu og Vigni Stefánsson úr ÍBV.
Þegar litið er yfir Valsliðið eru þar nokkrir gamalreyndir og frábærir leikmenn sem alltaf skila sínu. Galdramaðurinn Valdimar Fannar Þórsson er einn mikilvægasti leikmaður liðsins, skorar mikið og skapar mikið fyrir aðra leikmenn. Finnur Ingi Stefánsson er þeirra markahæstur með 26 mörk, Þorgrímur Ólafsson með 18 og Agnar Smári með 15.
Valdimar Fannar í kunnuglegri stöðu
Í hjarta Valsvarnarinnar eru síðan Gunnar Harðarson og hinn síungi Sigfús Sigurðsson.
Enn er þó ótalinn einhver mikilvægasti leikmaður Valsliðsins sem er markvörðurinn Hlynur Morthens. Hlynur hefur í gegnum tíðina verið besti leikmaður liðsins og þegar hann er í ham getur hann unnið leikina upp á eigin spýtur. Lárus Helgi hefur einnig komið sterkur til leiks í vetur þannig að markvarslan er einn af sterkustu þáttum Valsliðsins.
Það er mikið undir í þessum leik fyrir bæði lið og hægt að lofa því að það verður fjör í Höllinni. Við hvetjum stuðningsmenn til að fjölmenna í stúkuna og taka virkan þátt í baráttunni, það skiptir ótrúlega miklu máli fyrir leikmenn að finna kraftinn og stuðninginn frá áhorfendum.