Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Góður sjö marka sigur á Fram í kvöld - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson. Eftirlit Kristján Halldórsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Alltaf líf og fjör á handboltaleikjum í Höllinni
23. nóvember 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Myndir frá sigri Akureyrar á Fram
Nú er kominn í hús dágóður myndapakki frá Þóri Tryggvasyni frá leik Akureyrar og Fram í gærkvöldi. Líkt og áður þá blandar Þórir skemmtilega saman myndum af leikvellinum og úr mannlífinu meðal áhorfenda. Sjón er sögu ríkari.
Geir Guðmundsson ræðst á Fram vörnina
Heimir Örn Árnason skorar gegn Fram
Oddur Gretarsson leggur sitt af mörkum og skráir tölfræði leiksins
23. nóvember 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hvað sögðu menn eftir Fram leikinn?
Menn voru ýmist með sælubros á vör eða hundsvekktir eftir leik Akureyrar og Fram í gærkvöldi enda skiljanlegt í ljósi úrslita leiksins og hvernig hann þróaðist. Hér er samantekt á ummælum leikmanna og þjálfara í gær. Einar Sigtryggsson blaðamaður Morgunblaðsins er fyrstur:
Bergvin Þór Gíslason: Vorum alltaf með leikinn
Bergvin Þór Gíslason var markahæstur hjá Akureyringum með átta mörk en félagar hans fyrir utan, þeir Guðmundur Hólmar og Geir, gáfu honum lítið eftir. Bergvin hefur spilað vel í síðustu leikjum og er orðinn fastagestur á síðum Morgunblaðsins. „Já, þetta var bara gott hjá okkur í kvöld. Mér fannst við alltaf vera með leikinn en þeir skoruðu mörk þegar við gleymdum okkur og klúðruðum einhverju í vörninni. Við komumst nokkrum sinnum vel yfir en eitthvert kæruleysi olli því að þeir náðu alltaf að minnka forskotið. Það var svo bara í lokin sem þetta kláraðist endanlega. Ég fann mig vel og mér fannst bara allt fara í markið. Ég er kannski ekki þessi hefðbundna stórskytta og er með öðruvísi skot. Það getur verið að mótherjarnir fari að passa mig betur í næstu leikjum, það verður bara að koma í ljós. Mér fannst við spila nokkuð vel en svo komu slakir kaflar inn á milli. Slíkt verðum við að laga fyrir næsta leik gegn ÍR,“ viðurkenndi Bergvin að lokum.
Bergvin sækir á Ólaf Magnússon
Guðlaugur: Skrokkurinn er hálf ónýtur
Jötuninn ógurlegi í vörn Akureyrar, Húsvíkingurinn Guðlaugur Arnarsson, hefur spilað frábærlega í hjarta varnarinnar í þremur síðustu leikjum og hafa þeir allir unnist. Var hann nokkuð hress eftir sigur Akureyrar gegn Fram í kvöld.
„Þetta er alltaf jafn rosalega skemmtilegt. Ég er náttúrulega hættur að spila en féllst á að spila með liðinu fram að jólum. Þetta verða líklega sjö leikir í allt með bikarnum svo kveð ég á ný.
Hópurinn er flottur hjá okkur og lítið mál fyrir mig að detta svona inn. Ég er búinn að æfa með þessum strákum í fjögur ár og mér finnst alltaf jafn gaman að hitta þessa gutta. Skrokkurinn er hins vegar hálf ónýtur og núna er ég ekki góður. Ég er orðinn 34 ára og ástæðan fyrir því að ég hætti var hvað líkaminn er orðinn slitinn.
Ég er búinn að vera í langri pásu, æfi nánast ekkert og er þ.a.l. ekki í nógu góðu formi. Ég spila bara vörnina og læt mér ekki detta í hug að hlaupa fram fyrir miðju ef við vinnum boltann. Ég hleyp bara beint út af,“ sagði Gulli eldhress.
Guðlaugur mætir einbeittur til leiks
Ólafur Jóhann: Mamma var í stúkunni
Ólafur Jóhann Magnússon er uppalinn á Brekkunni á Akureyri og spilaði með yngri flokkum KA og Akureyri áður en hann flutti suður til að fara í skipstjórnarnám. Hann tekur sig vel út í búningi Fram en var ekki sérlega hress með frammistöðu liðsins gegn sínum gömlu félögum
„Þetta gekk ekki nógu vel hjá okkur í kvöld. Við vorum alltaf undir en héngum í þeim lengi vel. Svo bara fór allt í klessu síðasta korterið og við hreinlega misstum hausinn. Varnarleikurinn var ekki burðugur og við fengum engin hraðaupphlaup. Akureyri var ekki að spila neinn glansleik en þeir voru klárlega betri en við.
Það var dálítið skrýtið að koma hingað og spila gegn gamla liðinu sínu. Það vandist þó strax. Mamma var í stúkunni, sagðist hafa haldið með Fram en hún klappaði samt alltaf þegar Akureyri skoraði. Nú eru komin þrjú töp í röð eftir góðan kafla og við ætlum okkur sigur í næsta leik gegn FH. Annað kemur bara ekki til greina.“
En hvernig var fyrir rétthendan Ólaf að spila í hægra horninu? „Ég hef svo sem gert það áður í yngri flokkunum svo þetta var ekkert nýtt. Þorri er meiddur svo ég fór í hægra hornið. Maður er ekki að skapa sér mikið en verður bara að nýta færin sem koma,“ sagði Ólafur Jóhann að lokum.
Ólafur skorar mark úr hægra horninu
Þá færum við okkur yfir á Visir.is þar sem Birgir H. Stefánsson fann nokkra viðmælendur:
Bergvin Þór: Leiðinlegt að bíða eftir boltanum
„Ég er hrikalega ánægður og það er virkilega sterkt að klára þetta hér á heimavelli .Við erum búnir að vera lélegir á heimavelli undanfarið þannig að það er gott að geta sýnt fólkinu okkar hvað við getum.“
Bergvin sjálfur var þó allt annað en lélegur á heimavelli í kvöld enda markahæstur og maður leiksins.
„Já, ég er bara mjög ánægður. Það er náttúrulega bara liðsheildin sem skilaði þessu. Við vorum allir góðir í dag sama hvort að það var vörn, sókn eða markvarsla.“
Bergvin spilaði sem hornamaður upp yngri flokka en fer nú hamförum fyrir utan, var hann þá bara misskilinn hornamaður öll þessi ár?
„Ég tók vaxtakipp svo seint að ég spilaði alla yngri flokka í horni þangað til að ég hækkaði í loftinu og færði mig út í skyttuna. Það er fínt að vera í boltanum, leiðinlegt að vera niður í horninu og bíða eftir boltanum. Betra að geta gert þetta bara sjálfur.“
Bjarni Fritzson: Virkilega ánægður
„Ég var virkilega ánægður með þetta,“ sagði Bjarni Fritzson eftir leik. „Æðislegt að ná að klára þetta. Þeir gáfust upp þarna undir lokin en voru að koma til baka allan leikinn. Við vorum eiginlega með leikinn en þeir gáfu okkur aldrei séns á að klára sig fyrr en þegar svona um fimm mínútur voru eftir.
Við vorum þéttir í vörn og að vinna vel saman. Liðsheildin er áberandi í sóknarleik okkar. Beggi er að klára færi sem er verið að opna fyrir hann, Geir góður og Guðmundur aftur góður eins og í síðasta leik. Í raun og veru erum við bara að spila vel sem heild og að taka réttar ákvarðanir.“
Bjarni Fritzson var ánægður með sína menn
Einar Jónsson: Allt of sjaldan sem við gefum allt í þetta
„Maður er sár og svekktur,“ sagði Einar Jónsson eftir leik kvöldsins. „Við vorum bara ógeðslega lélegir, baráttulausir, andlausir og þetta var bara rosalega dapurt.
Við erum inni í leiknum þangað til að það voru um tíu mínútur eftir þannig séð. Við gátum reynt að fá eitthvað út úr þessu en síðustu fimm til átta mínúturnar voru bara fáránlegar og óafsakanlegar. Þetta er auðvitað óþolandi að menn ljúki ekki leiknum allavega að berjast. Munurinn á Fram og Akureyri er það að þeir eru með um 20 leikmenn sem allir eru tilbúnir að leggja líf, sál og limi í þetta á meðan það er bara allt of sjaldan sem við gefum allt í þetta.“
Akureyringar virtust eiga erfitt með að klára leikinn þangað til að leikmenn Fram gerðu það nánast fyrir þá.
„Já, Akureyri var ekkert að spila frábærlega en við bara köstum boltanum endalaust frá okkur. Það þarf örugglega tölfræðisérfræðing til að ná að taka þann fjölda saman. Við vorum bara andlausir.“
Er óhætt að halda því fram að þetta sé algjör spegilmynd frá síðasta leik?
„Já, þetta er bara tvennt ólíkt. Ég var rosalega ánægður með síðasta leik þrátt fyrir að hafa ekki fengið neitt út úr honum. Ég var ánægður með frammistöðuna og karakterinn sem menn sýndu en svo komum við hér í dag og sýnum bara allt annað. Þetta er rosalega rokkandi hjá okkur upp og niður.“
Einar reynir að hvetja sína menn áfram
Vídeóviðtöl
Að þessu sinni eru tvö vídeóviðtöl frá Sport.is og fjögur frá Handbolti.org en þar er það Hákon Ingi Þórisson sem mundar hljóðnemann.
Sævar Árnason: Höfum verið slakir á heimavelli
Einar Jónsson: Menn þurfa að læra af þessu
Geir Guðmundsson: Full harkalegt „downswing“
Sævar Árnason: Þeir áttu ekki séns
Einar: Þvæla að taka Sigga og Robba með
Haraldur: Vorum í vandræðum með að skora
Við bjóðum Fram velkomna norður yfir heiðar
22. nóvember 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri – Fram
Þá er runninn upp leikdagur þar sem Safamýrarpiltarnir í Fram koma í heimsókn. Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi leiksins enda hvert stig ofurdýrmætt í deildinni þar sem öll liðin (nema eitt) hafa verið að reyta stig hvert af öðru.
Við verðum að sjálfsögðu með okkar textalýsingu frá leiknum en hún nýtur gríðarlegra vinsælda. Til marks um áhorfið þá fengum við 7.213 heimsóknir á síðustu lýsingu sem var útileikurinn gegn FH.
Að sjálfsögðu kemur ekkert í staðinn fyrir að vera í Íþróttahöllinni og taka þátt í stemmingunni en fyrir þá sem ekki eiga heimangengt bjóðum við upp á textalýsinguna í staðinn.
Einnig ætlar SportTV.is að sýna leikinn á sinni heimasíðu, sjá hér en sú útsending er í boði BK-Kjúklings.
Það duga engin vettlingatök gegn Frömmurum
20. nóvember 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Heimaleikur gegn Fram á fimmtudaginn
Það er óhætt að segja að allir leikir N1-deildarinnar séu úrslitaleikir þar sem öll liðin eru að reita stig hvert af öðru, nema þá kannski Haukar sem hafa siglt býsna þægilega í gegnum deildina til þessa. Haukarnir lentu þó í tölvuverðu brasi í síðasta leik gegn baráttuglöðu liði Fram sem verða einmitt gestir okkar á fimmtudaginn.
Fram var reyndar án nokkurra lykilmanna í Haukaleiknum en með skynsömum leik og baráttu sýndu þeir að það er heilmikið spunnið í liðið og ungu strákarnir fullklárir í að skila sínu. Ólafur Jóhann Magnússon og Elías Bóasson fóru fyrir liðinu í markaskorun gegn Haukunum en báðir skoruðu fimm mörk í leiknum. Ólafur er okkur að góðu kunnur en hann var í Íslandsmeistaraliði Akureyrar í 2. flokki í fyrravor.
Ólafur kemur engum vörnum við gegn Bjarna Fritzsyni í fyrri leik liðanna
Annar fyrrum liðsmaður okkar, Hákon Stefánsson (frá Fagraskógi) er farinn að leika með Framliðinu á nýjan leik.
Í bland við þessa ungu pilta eru reynsluboltar eins og t.d. markvörðurinn Magnús Gunnar Erlendsson sem var frábær í Hauka-leiknum, Haraldur Þorvarðarsonar á línunni og Stefán Baldvin Stefánsson hornamaður en allir áttu þeir góðan leik gegn Haukunum.
Væntanlega verða síðan stórkanónurnar, Jóhann Gunnar Einarsson og Róbert Aron Hostert komnar til baka úr meiðslum svo og galdramaðurinn Sigurður Eggertsson en þessir ásamt Þorra Birni Gunnarssyni hafa verið aðalmarkamaskínur Fram liðsins í vetur.
Jóhann Gunnar, Róbert Aron, Þorri Björn og Elías
Liðin mættust í 2. umferð deildarinnar og þá náði Akureyrarliðið frábærum leik og vann góðan fimm marka sigur í Safamýrinni. Liðið sýndi einnig frábæra stemmingu í síðasta leik gegn FH og óhætt að lofa frábærri stemmingu í Höllinni á fimmtudagskvöldið.
Það er rétt að benda á að þetta er næstsíðasti heimaleikur Akureyrarliðsins í N1-deildinni á árinu þannig að bæði leikmenn og stuðningsmenn gera örugglega sitt besta til að halda uppi fjörinu.