Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Æsilegur sigur á FH í Höllinni í kvöld - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Hafsteinn Ingibergsson og Hlynur Leifsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Alltaf stemming hjá stuðningsmönnum Akureyrar
27. febrúar 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Frábær stemming í stúkunni gegn FH – myndir
Það er óhætt að segja að áhorfendur sköpuðu flotta stemmingu í Íþróttahöllinni þegar Akureyri vann fimm marka sigur á sjóðheitu liði FH. Þórir Tryggvason sendi okkur fjölmargar ljósmyndir sem gefa góða mynd af stemmingunni.Smelltu hér til að sjá allar myndirnar
Bergvin og Heimir voru kátir í leikslok
26. febrúar 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hvað sögðu menn eftir leikinn gegn FH í gær?
Eftir æsispennandi leik í gær voru menn ýmist í skýjunum eða hundfúlir eins og gengur. Tíðindamenn fjölmiðlanna tóku púlsinn á mönnum og hér fer á eftir samantekt á því sem birst hefur á hinum ýmsu miðlum:
Andri Yrkill Valsson var mættur til leiks fyrir hönd mbl og náði tali af Heimi Erni og Bergvin frá Akureyrarliðinu og Einari Andra þjálfara FH.
Heimir: Þetta er mikill léttir
„Jú þetta er mikill léttir, en fyrir það fyrsta er frábært að vera með örugga innbyrðis sigra á FH sem er eiginlega ótrúlegt miðað við gengið í vetur. Þessir sigrar á móti þeim eru því bara frábærir,“ sagði Heimir Örn Árnason við mbl.is eftir sigurinn á FH, 29:24, og vitnar í sigurleik liðsins á Hafnfirðingum um miðbik nóvembermánaðar.
Það var einmitt síðasti sigurleikur Akureyrar í deildinni og skiljanlega þungu fargi létt af liðinu. En hvað gekk upp í þessum leik sem ekki hefur gengið upp síðan í nóvember?
„Það er góð spurning. Bara smá spennulosun og ekki alltaf þetta stress sem hefur fylgt okkur. Loksins gátum við haft gaman af þessu,“ sagði Heimir og hélt áfram. „Það var flott stemning í liðinu og þetta þjappar okkur bara saman fyrir framhaldið eftir öll áföllin sem við höfum lent í. En þetta er alls ekki búið og það er stutt í báðar áttir deildarinnar ennþá.“
Heimir með mark af línunni
Bjarni Fritzson er ennþá meiddur í kálfa. Ekki sagði Heimir það þó hafa verið lykillinn að sigrinum að hafa Bjarna á hliðarlínunni.
„Nei alls ekki. Þó það sé reyndar alltaf gaman að taka víti og svona, ég viðurkenni það alveg. Það er smá spenna í því og ég skil af hverju Bjarni hefur haft svona gaman að því síðustu ár.“
Deildin er mjög jöfn og aðspurður um möguleika Akureyrar um sæti í úrslitakeppninni sagði Heimir: „Við töluðum um að næst tveir leikir væru algjörir úrslitaleikir fyrir okkur, þessi á móti FH og svo á móti ÍR á laugardaginn. Við erum komnir í hálfa leið og stefnum auðvitað á fjórða sætið. En við getum svo loksins fagnað núna og erum mjög sáttir,“ sagði Heimir Örn Árnason, leikmaður og annar þjálfari Akureyrar.
Bergvin Þór Gíslason: Alltaf hægt að gera betur
Hvort það var vorloftinu að þakka eða ekki þá er alveg greinilegt að þungu fargi er létt af liðinu eftir sigur 29:24, á FH. „Það er alveg satt, enda langt síðan við unnum síðast,“ sagði Bergvin Þór Gíslason, leikmaður Akureyrar, og hitti þar sannarlega naglann á höfuðið, en þetta var fyrsti sigurleikur liðsins í deildinni síðan um miðbik nóvembermánaðar. Fögnuður liðsins var líka ósvikinn í leikslok og ómaði hið fræga meistaralag Queen um salinn þegar menn féllust í faðma.
Það var fagnað innilega Akureyrarmegin á vellinum í leikslok
Með Bergvin í broddi fylkingar og Jovan Kukubat í stuði í markinu gegn fullbráðum FH-ingum héldu heimamenn haus og fögnuðu eins og áður segir langþráðum sigri þegar lokaflautið gall. „Við höfum verið frekar óheppnir en það small allt í dag. Vörnin var góð í fyrri hálfleik, Jovan var öflugur í markinu og svo virtist ekki skipta máli hvert ég skaut, það endaði allt inni. Þetta var bara einn af þessum dögum,“ sagði Bergvin, en hann átti stórfínan leik í sókninni og var markahæstur með 9 mörk.
„Það er auðvitað alltaf hægt að gera betur. Við höfum lent í miklum meiðslum svo það hefur komið meiri ábyrgð á okkur ungu strákana en ég er búinn að vera þokkalega ánægður með mitt framlag,“ sagði Bergvin. Deildin er mjög jöfn þetta árið og þrátt fyrir brösugt gengi á tímabilinu og langt frá síðasta sigurleik hafa Akureyringar þó enn möguleika á sæti í úrslitakeppninni. „Ég held að öll lið horfi þangað. Næst á dagskrá hjá okkur er leikurinn við ÍR á laugardaginn og það er algjör úrslitaleikur fyrir okkur,“ sagði Bergvin í leikslok.
Einar Andri: Þetta var slæmt tap
„Þetta var slæmt tap. Það er auðvitað alltaf slæmt að tapa og í kvöld spiluðum við einfaldlega ekki nægilega vel til þess að sigra,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari FH, eftir ósigurinn gegn Akureyri 29:24. Liðið er í harðri baráttu við frændur sína úr Hauka um efsta sæti deildarinnar og hafði verið á miklu skriði fram að þessu.
Einar Andri og félagar fundu ekki lausnir undir lok leiksins
„Fyrri hálfleikur var mjög slakur hjá okkur frá upphafi til enda, hvort sem horft var til varnar eða sóknar. Í síðari hálfleik fannst mér við vera betra liðið á vellinum stóran hluta hálfleiksins og vorum komnir í stöðu til að klára leikinn en spiluðum alveg hörmulega síðustu mínúturnar sem kostuðu okkur sigurinn,“ sagði Einar Andri. Fyrir þennan leik hafði FH unnið 8 leiki í röð en telur Einar að erfitt verði að rífa menn upp eftir að hafa verið svona góðu vanir? „Það mun ekki vera neitt vandamál. Við erum með alvöru menn og við sættum okkur ekki við að spila fleiri leiki eins og þennan. Við eigum heimaleik í næstu umferð og það er ekkert annað að gera en að halda áfram. Þetta er erfið barátta og öll liðin í deildinni góð svo það þarf að undirbúa sig vel,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari FH, í leikslok.
Birgir H. Stefánsson fréttaritari visir.is ræddi við Bergvin og Bjarna Fritzson og FH-ingana Ragnar Jóhannsson og Einar Andra:
Bergvin Þór Gíslason: Okkur hefur gengið nokkuð vel með FH
„Ég er bara mjög ánægður,' sagði Bergvin Þór Gíslason brosmildur eftir leikinn. „Okkur hefur gengið nokkuð vel með FH á tímabilinu nema þá í deildarbikarnum.“
Hvað var það sem skildi liðin að hér í kvöld? „Ég held að það hafi verið markvarslan að mestu. Við vorum að spila góða vörn í fyrri hálfleik en Jovan var að taka mjög góða bolta sem skilaði sigrinum í dag. Við verðum að taka núna öll stigin sem eftir eru ef við ætlum í þessa úrslitakeppni, það er nokkuð ljóst. Við eigum líka Bjarna inni sem fer að koma og það styrkir hópinn. Fáum smá breidd hægra megin og hvílum Hreinsa aðeins.“
Bergvin fann ýmsar glufur á FH vörninni
Bjarni Fritzson: Við vitum að við getum þetta
„Bara ánægður með strákana,“ sagði Bjarni Fritzson eftir sigurleik gegn FH. „Fyrst og fremst var þetta liðsheildin. Sóknarlega erum við að spila vel, erum að fá lítið af hraðaupphlaupum þannig að við erum að gera vel úr uppstilltum sóknum. Við erum bara að spila mjög vel heilt yfir, auðvitað komu þessi klassísku nokkur ótímabæru skot sem maður er alltaf að biðja strákana um að hætta að framkvæma en það er bara eins og það er.“
Einhverjir voru að efast um gæði Jovan Kukobat fyrir áramót en hann hefur heldur betur bætt sinn leik núna eftir pásu. „Já, hann er búinn að vera alveg frábær í öllum leikjum nema leiknum gegn Haukum enda er það ekkert eðlilegt að leikmaður sé alltaf góður. Hann er búinn að vera stöðugur, er kominn með stöðugleika og skilar góðum leikjum. Við vissum að hann gæti þetta og við vissum að það tæki hann tíma að aðlagast. Hann átti nokkra góða leiki fyrir áramót en hann er líka að kynnast leikmönnum og læra hvar þeir eru a skjóta. Þetta er samspil margra þátta en hann er bara flottur og við erum gríðarlega ánægðir með hann. Vonandi heldur hann bara áfram.“
Þessi sigur í kvöld heldur lífi í þeim vonum að ná að komast í úrslitakeppnina, það er væntanlega stefna liðsins? „Já, það er alveg 100%. Við munum berjast fram á seinasta dag til þess og það verður mjög erfitt. Þó svo að við séum ekki búnir að vera að vinna of mikið upp á síðkastið þá hefur frammistaðan verið nokkuð góð. Höfum verið að lenda meira í slæmum köflum eins og á móti Fram og Haukum en við vitum að við getum þetta og við ætlum bara að halda áfram að sýna það eins og í kvöld.“
Bjarni hitaði upp fyrir leikinn en fékk sér sæti á þjálfarabekknum
Hvað með ástandið á þér, þorir þú að gefa einhverja dagsetningu á endurkomu? „Ég bara vinn þetta mjög markvist með sjúkraþjálfaranum. Þetta eru skrítnustu meiðsli sem ég hef lent í, rosalega þrautseig og leiðinleg meiðsli. Ég bara veit ekki meira en að ég tek bara eitt skref í einu og ég tók eitt slíkt hér í kvöld með að taka þátt í upphitun en við verðum bara að sjá til.“
Ragnar Jóhannsson: Hrikalega svekkjandi
„Þetta er bara hrikalega svekkjandi,“ sagði Ragnar Jóhannsson eftir tapleik kvöldsins. „Það fór bara of mikil orka í það að elta. Við erum með sterkt lið en það þýðir ekki að allir geti átt slæman dag, sóknarlega var það raunin í dag.“
Er öll von úti núna að ná efsta sætinu af Haukum? „Það er ekkert það sem við höfum verið að stefna að en ég held að það sé nú runnið okkur úr greipum núna. Við viljum fara í alla leiki til þess að vinna samt, það var hrikalega svekkjandi að tapa hér í bikarnum og þetta var held ég bara jafn svekkjandi hér í dag.“
Ragnar nær ekki að stöðva Bergvin
Einar Andri: Fyrri hálfleikurinn nánast afleitur
„Ég er bara svekktur með spilamennskuna hér í dag,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari FH strax eftir leik.
„Fyrri hálfleikurinn var bara nánast afleitur af okkar hálfu. Svo snérum við dæminu við í seinni hálfleik og mér þótti við yfirspila þá fyrstu 22 mínúturnar en svo gerum við bara einstaklingsmistök í sókn og vörn og því fór sem fór.“
Voruð þið heppnir að vera ekki nema fjórum mörkum undir í hálfleik? „Jújú, kannski en ég veit það þó ekki. Við fórum illa með nokkur færi í stöðu þar sem við áttum að gera betur. Það er stutt á milli í svona leikjum en spilamennskan í fyrri hálfleik var bara of slök. Hlutirnir sem við vorum búnir að gera fyrstu 22 mínúturnar í seinni hálfleik, við bara hættum að gera þá og eftirleikurinn var bara auðveldur fyrir Akureyringana.“
Sport.is tók vídeóviðtöl við þjálfarana Sævar Árnason og Einar Andra. Grunur leikur á að spyrillinn sé fyrrnefndur Birgir H. Stefánsson
Sævar Árnason: Þetta heldur lífi í úrslitakeppnisvonum
Sævar Árnason, aðstoðarþjálfari Akureyringa, var skiljanleg ánægður með sigur á FH í kvöld. Hann ræddi við fréttateymi Sport.is á Akureyri.
Einar Andri: Erum að berjast um að halda 2.sætinu
Einar Andri Einarsson, þjálfari FH, var svekktur eftir tap á Akureyri. Hann segir liðið stefna á að halda 2. sætinu.
Að endingu eru hér viðtöl sem Hákon Ingi Þórisson tók og birtust á handbolti.org
Heimir Örn: „Deja vu“ hjá Ragga
Heimir Örn var ánægður í leikslok þegar hans lið Akureyri sigraði FH með 5 mörkum, 29-25. Heimir Örn sem er einn spilandi þjálfari Akureyrar liðsins, ásamt Bjarna, skoraði 4 mörk en hann hefur spilað upp á síðkastið á línunni hjá Akureyri. Heimir segir að það sé algjör úrslitaleikur fyrir sitt lið á laugardaginn gegn ÍR.
Einar Andri: Mættum pirraðir og óeinbeittir
Einar Andri var að vonum svekktur eftir 5 marka tap gegn Akureyri fyrir norðan, 29-24. Einar Andri var ekki ánægður með spilamennsku síns liðs meiri hlutan af leiknum en sagði þó að í byrjun seinni hálfleiks höfðu þeir yfirspilað Akureyri, en því miður var sá kafli ekki nógu langur.
Enn einn baráttuleikurinn í dag
25. febrúar 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri – FH í Höllinni (lýsingar)
Það er enginn smáleikur sem við bjóðum upp á í Höllinni í kvöld þegar Akureyri tekur á móti FH-ingum í N1-deildinni. Það er ekki langt síðan liðin mættust hér á sama stað í bikarnum og þar fóru heimamenn með magnaðan sigur. Þessi tvö liði hafa trúlega mæst oftar en nokkur önnur á undanförnum árum og undantekningarlítið hafa leikirnir verið frábær skemmtun þar sem boðið er upp á spennu og dramatík.
Liðin hafa mæst tvisvar í deildinni í vetur, í fyrstu umferðinni lauk leiknum með jafntefli 23-23 en Akureyri sótti þriggja marka sigur í Hafnarfjörðinn,23 -26 þegar liðin mættust í 8. umferðinni. FH sigraði þegar liðin mættust í deildarbikarnum en eins og áður er nefnt þá sló Akureyri FH-liðið út úr bikarnum fyrir tæpum tveim vikum í frábærum leik þann 13. febrúar.
Eins og staðan er í dag þá er hver leikur í N1-deildinni úrslitaleikur fyrir Akureyri og FH-liðið mætir örugglega til að hefna fyrir ófarirnar í bikarnum. Það er því hægt að lofa frábærum leik og áhorfendur leggja klárlega sitt að mörkum en þeir hafa sýnt og sannað að þeirra framlag er gríðarlega mikilvægt.
Forsala á undanúrslit bikarsins Rétt er að minna á að forsala á undanúrslitaleik Akureyrar og Stjörnunnar í Símabikarnum hefst formlega í Höllinni í dag. Miðaverð á bikarleikinn er 1.000 krónur fyrir 13 ára og eldri. Sá leikur verður föstudaginn 8. mars klukkan 19:45 og hvetjum við alla til að verða sér úti um miða á leikinn á sölustöðum Akureyrar Handboltafélags.
Miðar á bikarleikinn seldir í Höllinni í dag, einnig fáanlegir á BK-kjúkling á Grensásvegi í Reykjavík.
Þeim sem eiga þess ekki kost að mæta á leikinn í dag bendum við á textalýsinguna okkar eða á útsendingu SportTV.is frá leiknum en leikurinn hefst klukkan 19:00.