ÍR og Akureyri mættust í lokaleik 18. umferðar N1 Deildarinnar í Austurbergi. Fyrir leikinn voru ÍR-ingar í 4. sæti og Akureyri í 5. sæti og munaði á þeim þremur stigum. Það var því ljóst að ef Akureyri myndi sigra yrði gríðarleg barátta um síðasta sætið í Úrslitakeppninni í síðustu þremur umferðunum.
Það var ljóst alveg frá upphafi að þetta yrði svakalegur leikur og baráttan myndi vera í aðalhlutverki. Einnig var mjög góð mæting frá báðum liðum á pöllunum og stemningin frábær. Akureyri hafði yfirhöndina fyrstu mínúturnar en eftir 10. mínútna leik kom góður kafli hjá ÍR og náði liðið þriggja marka forskoti 6-3, hinsvegar voru okkar menn ekki lengi að loka því með því að jafna í 7-7.
ÍR hélt þó áfram að leiða út fyrri hálfleikinn og að honum loknum var ÍR með 11-9 forskot. Geir Guðmundsson minnkaði muninn niður í eitt mark strax í byrjun síðari hálfleiks en ÍR-ingar voru snöggir að bregðast við og breyttu stöðunni í 13-10. Guðmundur Hólmar skoraði gott mark og þá komu tvö frábær hraðaupphlaup hjá Akureyringum sem jafnaði leikinn að nýju.
Þegar kortér var eftir af leiknum hafði ÍR yfir 17-15 og orðið langt síðan Akureyri hafði náð að komast yfir í leiknum. Hinsvegar kom þá frábær kafli hjá okkar liði sem einkenndist af hröðum leik, hvort sem það voru hraðaupphlaup eða seinni bylgjur og allt í einu var staðan orðin 17-18 fyrir Akureyri og Bjarki Sigurðsson þjálfari ÍR tók leikhlé. Þetta kveikti gríðarlega upp í stuðningsmönnum Akureyrar sem létu vel í sér heyra.
ÍR-ingar komu sterkir til baka eftir leikhléið og skoruðu næstu þrjú mörk í leiknum. Geir Guðmundsson minnkaði muninn niður í eitt mark, 20-19, þegar um 6 mínútur voru eftir af leiknum. Hinsvegar komu ekki fleiri mörk í leikinn, Heiðar Þór Aðalsteinsson fór inn úr vinstra horninu á lokasekúndunum en Kristófer í marki ÍR sá við honum og tryggði ÍR eins marks sigur og um leið nokkuð örugglega sæti í Úrslitakeppninni.
Leikurinn gegn ÍR var magnaður í alla staði, gríðarleg barátta og var mjög gaman að sjá liðið leggja allt í sölurnar. Því miður fór það svo að ÍR náði að landa sigrinum en jafntefli hefði líklegast verið sanngjörn niðurstaða.
Einna jákvæðast í leiknum var samt hversu vel vörnin náði að loka á hina öflugu sókn ÍR-inga og Jovan Kukobat var öflugur fyrir aftan hana. Það er allavega nokkuð ljóst að Akureyrarliðið kemur vel leikandi og með allt að vinna inn í Bikarúrslitahelgina. Eina sem við getum gert núna er að bíða spennt og fjölmenna svo í Laugardalshöllina á föstudaginn er Akureyri leikur gegn Stjörnunni í Undanúrslitunum. Áfram Akureyri!
Valið snýst um að sjá leikinn í Austurberginu eða í sjónvarpinu
2. mars 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: ÍR – Akureyri sæti í úrslitakeppninni í húfi
Akureyri mætir í Austurbergið og mætir þar ÍR í dag, 2. mars klukkan 15:00. Eftir sigurinn á FH er það ljóst að þessi leikur skiptir sköpum ef Akureyri ætlar að berjast um sæti í Úrslitakeppninni! Þessi leikur er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði liðin því þetta eru einmitt liðin sem eru í hörðustu baráttunni um 4. sætið í úrslitunum.
ÍR liðið er erfitt heim að sækja og hefur aðeins tapað einum leik á heimavelli á tímabilinu, það var gegn Haukum í fyrsta heimaleiknum í haust. ÍR vann Akureyri í 10. umferðinni með tveim mörkum 28-26 en Akureyri vann ÍR hér í Höllinni 32-23.
Frá leik liðanna í Höllinni í haust, spurning hvort Bjarni verður inni á vellinum eða í þjálfarahlutverfinu?
Fjöldi stráka úr 2. flokki er að spila fyrir sunnan um helgina og munu þeir örugglega setja svip á stúkuna í Austurbergi og hvetjum við alla stuðningsmenn á Höfuðborgarsvæðinu til að mæta í Austurbergið og kynda undir alvöru baráttustemmingu.
RÚV sýnir leikinn í dag í beinni sjónvarpsútsendingu þannig að þeir sem ekki komast á leikinn geta fylgst með þar.