Dómarar: Magnús Kári Jónsson og Ómar Ingi Sverrisson, eftirlit Kristján Halldórsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Patrekur mætir til Akureyrar sem þjálfari Hauka
24. október 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Akureyri tekur á móti Haukum í kvöld
Í kvöld klukkan 19:00 mæta Haukar í Íþróttahöllina og mæta þar okkar mönnum í leik í 6. umferð Olís deildarinnar. Fyrir leikinn eru Haukar með 6 stig en Akureyri er með 4 stig. Deildin hefur farið ótrúlega jafnt af stað ef frá er talið lið HK. FH er efst í deildinni með 7 stig en Akureyri og Valur eru í 6.-7. sæti með 4 stig þannig að það munar einungis 3 stigum á efsta liðinu og næstneðsta.
Hinsvegar er það alveg ljóst að þó deildin sé jöfn eftir þessar fyrstu 5 umferðir þá geta hlutirnir verið fljótir að breytast og nokkuð ljóst að leikurinn í kvöld er mjög mikilvægur. Með sigri nær Akureyri að halda sig við toppliðin en með tapi þá getur róðurinn orðið erfiður ef menn ætla sér í úrslitakeppnina. Fjölmennum nú í Höllina og hvetjum Akureyringa til sigurs!
Því miður verður leikur kvöldsins ekki í beinni textalýsingu hér á síðunni en við bendum á að mbl.is og visir.is bjóða yfirleitt upp á þá þjónustu frá leikjum okkar liðs.
Sterkir mótherjar í komandi leik
21. október 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Haukar – mótherjar Akureyrar í næsta leik
Það eru engir viðvaningar í handbolta sem mæta okkar mönnum á fimmtudaginn. Haukar úr Hafnarfirði hafa verið eitt sigursælasta lið landsins undanfarin ár, urðu t.d. deildarmeistarar fimm sinnum á síðustu sex árum, en það var einmitt Akureyri sem rauf sigurgöngu þeirra vorið 2011. Þeim hefur þó ekki tekist að landa Íslandsmeistaratitlinum undanfarin þrjú ár, töpuðu t.d. í vor fyrir Fram í úrslitaeinvíginu.
Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Hauka frá því í fyrra. Stefán Rafn Sigurmannsson fór reyndar frá liðinu á miðju síðasta tímabili og fór til Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi. Landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson fór til Svíþjóðar, Gísli Jón Þórisson til Kristiansund í Noregi sem Jónatan Magnússon þjálfar. Sveinn Þorgeirsson leikur með Fram í vetur og til viðbótar lögðu þrír jaxlar skóna á hilluna, þeir Gylfi Gylfason, Gísli Kristjánsson og Freyr Brynjarsson.
Í stað þeirra fengu Haukar Þröst Þráinsson frá Stjörnunni og Einar Pétur Pétursson sneri heim úr láni frá Selfossi. Einnig má segja að Haukar hafi endurheimt Sigurberg Sveinsson en hann glímdi við meiðsli lengst af í fyrravetur en virðist nú vera kominn í sitt besta form á nýjan leik.
Þá er nýr þjálfari hjá Haukum en það er enginn annar en Patrekur Jóhannesson, einn af mestu reynsluboltum íslenska handboltans. Patrekur er jafnframt landsliðsþjálfari Austurríkis og á langan og farsælan feril með íslenskum félagsliðum og landsliðinu.
Patrekur lék um tíma með KA og varð bikarmeistari með félaginu 1995 eftir einhvern æsilegasta úrslitaleik sögunnar þar sem KA vann Val í tvíframlengdum leik. Patrekur fór hamförum í leiknum og skoraði 11 mörk.
Patrekur í sigurvímu eftir bikarúrslitaleikinn 1995. Á þessum árum var Patti reyndar með hár en krúnurakaði sig fyrir leikinn af því að háralitunin í KA litunum misheppnaðist gjörsamlega.
En aftur að leiknum á fimmtudaginn, Haukar mæta væntanlega með sitt sterkasta lið, Sigurbergur meiddist á ökkla um daginn en verður væntanlega orðinn leikfær, sama gildir um Elías Má Halldórsson sem kemur inn í liðið á ný. Í síðasta deildarleik, gegn ÍR var Árni Steinn Steinþórsson gjörsamlega óstöðvandi með 8 mörk og í Evrópuleiknum gegn Benfica á sunnudaginn var það Adam Haukur Baumruk sem var atkvæðamestur með 7 mörk.
Leikmannahópur Hauka er mjög öflugur og rétt að benda á að til viðbótar við þá sem nefndir hafa verið hér að framan er t.d. línumaðurinn Jón Þorbjörn Jóhannsson einn sá öflugasti á landinu. Skyttan og leikstjórnandinn Tjörvi Þorgeirsson er gríðarlega lunkinn leikmaður og þá hefur nýliðinn Einar Pétur verið iðinn við markaskorun í deildinni.
Það sem af er deildinni hafa Haukar unnið þrjá leiki, þeir unnu ÍR í síðustu umferð og þar á undan unnu þeir sannfærandi sigra á FH og ÍBV. Hins vegar töpuðu Haukar fyrir Val og Fram.
Valþór Guðrúnarson leikmaður Akureyrar missir trúlega af leiknum þar sem hann er líklega á leið í leikbann eftir að hafa fengið beint rautt spjald í síðasta leik.
Leikir Akureyrar og Hauka hér í Höllinni hafa jafnan verið hin mesta skemmtun og fá lið hafa dregið að sér jafn marga áhorfendur og þegar þessi tvö lið mætast . Leikmenn Akureyrar færðu ýmsar fórnir í viðureignunum við Hauka í fyrravetur, þannig meiddist Oddur Gretarsson í útileik gegn Haukum í fyrsta hluta mótsins og missti af því sem eftir var. Línumaðurinn Hörður Fannar Sigþórsson sleit krossband í hné eftir örfáar mínútur í leik við Hauka hér í höllinni. Það var fyrsti leikur Harðar á tímabilinu og kom hann ekki meira við sögu það tímabil.
Við skulum vona að allir sleppi heilir frá þessum leik og hvetjum alla til að fjölmenna í Höllina og skapa magnaða stemmingu með frábærum liðum.