Dómarar: Magnús Kári Jónsson og Ómar Ingi Sverrisson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Heimir og Valli voru sérstaklega sáttir með fyri hálfleikinn
6. desember 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir deildarleik Akureyrar og HK
Hér á eftir fylgja viðtöl þeirra Ólafs Más Þórissonar á mbl og Birgis H. Stefánssonar hjá visir.is eftir leik gærdagsins þar sem Akureyri fór með sigur á HK, 27-21. Fyrri viðtölin tvö eru frá Ólafi Má en tvö þau seinni eru ættuð frá Birgi H.
Valþór: Eigum því miður skilið að vera þarna
„Jú ég myndi segja það, við bjuggumst við þeim ferskum og fínum eftir tvo síðustu leiki hjá þeim. Við vorum það reyndar líka þannig að við bjuggumst við hörkuleik,“ sagði Valþór Guðrúnarson leikmaður Akureyrar aðspurður hvort þessi leikur hafi ekki verið auðveldari en þeir áttu von á gegn HK. Valþór var markahæsti maður heimamanna með 10 mörk en lokatölur voru 27:21 en Akureyri var yfir í hálfleik 15:7.
Valþór var virkilega ánægður með fyrri hálfleikinn en hann skoraði sjálfur rétt tæpan helming markanna eða átta. „Við spiluðum náttúrulega frábærlega í öllum fyrri hálfleiknum. Fengum bara á okkur sjö mörk og sóknarleikurinn var frekar auðveldur fyrir okkur.“
Hann var svo raunsær og hreinskilinn aðspurður hvort Akureyri ætti heima í næst neðsta sæti deildarinnar. „Eins og við erum að spila núna ættum við klárlega að vera ofar. En eins og við spiluðum í byrjun og miðað við frammistöðuna sem við sýndum, þá eigum við því miður skilið að vera þarna. Síðustu þrír leikir hafa hinsvegar verið frábærir nema kannski seinni hálfleikurinn í dag. Við héldum kannski að þetta væri komið en auðvitað er það aldrei þannig, sama hversu góð staðan er,“ sagði Valþór.
Valþór var heldur betur atkvæðamikill í leiknum
Liðin mætast aftur á Akureyri á sunnudaginn, þá í 16-liða úrslitum í bikarnum. „Það getur verið strembið, þeir koma eflaust dýrvitlausir til leiks og vilja hefna strax. Við þurfum hinsvegar bara að einbeita okkur að því hvað við erum að gera. Ef við náum upp eins leik og í fyrri hálfleik í kvöld, þá eigum við að vinna, sagði Valþór. Svipað svar var við næstu spurningu, hvort Akureyri ætti möguleika að ná í eitt af fjórum efstu sætum deildarinnar og þar með sæti í úrslitakeppninni. „Ef við höldum áfram að bæta okkur og spila jafn vel eða betur og í fyrri hálfleik í dag, þá eigum við klárlega möguleika.“
Samúel Ívar: Allt annað en ég ætlaði mér
Samúel Ívar Árnason, þjálfari HK, var allt annað en sáttur eftir sex marka tap fyrir Akureyri 27:21 í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. Að eigin sögn var þetta í fyrsta skiptið í sjö ár sem hann heimsótti Íþróttahöllina á Akureyri þar sem hann sleit barnskónum við handboltaiðkun hjá Þór. Hann var ómyrkur í máli í garð leikmanna sinna sem honum fannst ekki leggja sig nógu mikið fram.
„Ég hafði klárlega hugsaði mér betri endurkomu í Höllina en þetta. Það var ekkert sem kom okkur á óvart í leik Akureyrar en við náðum ekki að mæta klárir til leiks. Fyrri hálfleikurinn var skelfilegur á að horfa af okkar hálfu. Það voru fáir fyrir utan Helga Hlynsson í markinu, klárir í slaginn. Færslan í varnarleiknum okkar var skelfileg og þeir að skora úr ýmsum færslum sem við vissum að væru að koma. Það er alltaf leiðinlegt þegar búið er að undirbúa sig fyrir það,“ sagði Samúel.
Hann hafði fátt betra um sóknarleikinn í fyrri hálfleik að segja. „í sókninni vorum við staðir og ekki mættir til leiks. Þeir spiluðu auðvitað mjög framarlega og þétt á okkur en menn voru við það ekkert að breyta fjarlægðinni í varnarmennina. Þeir reyndu bara að hnoða sig áfram og í gegn. Mér fannst menn missa hausinn við það þegar Akureyringarnir börðu svolítið á okkur.“
Samúel Ívar stjórnar sínum mönnum í leiknum
Spurður hvort ekki ætti að vera auðvelt að fá menn til að berjast í næsta leik sem er einmitt gegn Akureyri í bikarkeppninni á sunnudag, sagði Samúel. „Þetta er ekkert spurning um að ég, Óli [Ólafur Víðir Ólafsson spilandi aðstoðarþjálfari] eða aðrir standi á öskrinu á hliðarlínunni. Þetta er spurning um að menn finni það hjá sjálfum sér að berjast fyrir hvor annan og spila góðan handbolta. Það verður svo að koma í ljós á sunnudaginn úr hverju við erum gerðir. Það er hinsvegar sárt að tapa þessum leik því við hefðum þá getað minnkað forskot þeirra í eitt stig,“ sagði Samúel Ívar rétt áður en hann hljóp upp í rútu.
Heimir Örn: Ungu strákarnir frábærir
„Þetta var nánast skammarleg frammistaða í seinni hálfleiknum,“ sagði Heimir Örn Árnason annar þjálfara Akureyrar eftir leik þegar hann var spurður út í það hvort að liðið náði að klára leikinn í fyrri hálfleiknum. „Það munaði litlu að þeir komust almennilega inn í leikinn, komust alveg niður í fjögur en fyrri hálfleikurinn skóp þennan sigur.“
Gunnar Þórsson var sérstaklega öflugur varnarlega í fyrri hálfleiknum. „Já, hann er ungur og er að læra en þetta var frábær fyrri hálfleikur hjá honum. Þegar hann nær að gíra sig svona í það að vera mátulega klikkaður þá er hann alveg frábær þarna fyrir framan. Annars er ég mjög ánægður með fyrri hálfleikinn, frábærir ungu strákarnir. Bjarni meiddist hjá okkur í gær og Þrándur er tæpur þannig að ég vissi að þetta yrði erfitt en þetta nægði.“
Gunnar dró ekkert af sér í varnarleiknum
Núna er stutt í næsta leik gegn sama liði „Þetta er sérstakt en ég hef lent í þessu oft áður, man t.d. eftir svona leikjum við FH fyrir ekki svo löngu en þá byrjuðum við á bikarleik. En það þarf bara að gíra sig aftur upp eftir einhverja þrjá daga. Við höfum harma að hefna í þessari bikarkeppni og stefnum lengra en í 16 liða, skuldum fólkinu það.“
Þú vilt væntanlega hafa aðeins betri stemmingu í húsinu í bikarleiknum? „Ég er alveg ágætlega ánægður með mætinguna og sérstaklega ef við berum okkur saman við liðin fyrir sunnan. Akureyri er fræg fyrir það að árangur skilar mætingu og það myndast alltaf stemming þegar liðið fer að vinna. “
Heimir brá sér í nokkrar sóknir í leiknum
Samúel Ívar: Seinni hálfleikurinn var í lagi
„Fyrri hálfleikurinn var alveg skelfilega lélegur,“ sagði Samúel Ívar Árnason þjálfari HK eftir leik. „Það var verst hvernig við komum inn í leikinn. Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma þar sem mér finnst við ekki koma rétt stemmdir inn í leikinn og erum að berja illa frá okkur þegar á móti blæs. Ég hélt að við værum búnir með þetta en þetta var eitt skref afturábak fyrir okkur.
Seinni hálfleikurinn var alveg allt í lagi og menn sýndu það að þeir voru ekki komnir til að gera algjörlega í brók en við vorum búnir að tapa leiknum nánast í hálfleik. Það geta allir spilað vel þegar engin er pressan en menn þurfa að fara að vaxa upp í það að spila betur þegar pressan er á þeim.“
Þessi framliggjandi vörn með Gunnar Þórsson fyrir miðju reyndist ykkur erfið „Já, við vorum svolítið staðir í sóknarleiknum og vorum að bíða eftir boltanum. Hann er æstur, klár í slagsmálin og má eiga það að hann gerði það vel. Mér þótti samt nokkuð ótrúlegt að hann náði að hanga inná allan leikinn þar sem hann var oft í besta falli á hliðinni á mönnum eða aftaná mönnum en það er bara mitt mat. Fyrri hálfleikurinn var bara skelfilega slakur hjá okkur, sérstaklega sóknarlega en varnarlega einnig.“
Núna er stutt í næsta leik gegn sama liði, þú gerir væntanlega ráð fyrir að þínir menn svari fyrir sig? „Já, annað kæmi mér verulega á óvart. Ef að það er ekki raunin þá erum við bara ekki á réttum stað í að velja okkur íþrótt. Fyrri hálfleikurinn var algjör skömm og ég býst fastlega við því að menn mæti og svari fyrir sig.“
Andri er tilbúinn í slaginn
5. desember 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri-HK viðtal við Andra Snæ
Akureyri Handboltafélag mætir HK í kvöld í Olísdeild karla í handbolta. Leikurinn fer fram í Höllinni á Akureyri og hefst kl.19.15. Vefurinn Norðursport birtir í dag eftirfarandi viðtal við Andra Snæ Stefánsson, leikmann Akureyrar þar sem fjallað er um leik kvöldsins og gengi Akureyrar í vetur.
Leikurinn í kvöld er uppgjör botnliðanna í deildinni, Akureyri er í sjöunda sæti en HK í áttunda sæti. Með sigri í kvöld getur Akureyri hins vegar blandað sér af fullum þunga í baráttuna um úrslitakeppnina þrátt fyrir að hafa ekki gengið nægjanlega vel það sem af er tímabili. „Ég er fyrst og fremst mjög spenntur og hæfilega bjartsýnn. Þetta verður klárlega baráttuleikur þar sem við ætlum okkur að taka tvö stig á okkar heimavelli, engin spurning,“ segir Andri Snær um leik kvöldsins. Hann vill þó ekki meina að um neinn skyldusigur sé að ræða. „Nei alls ekki. Taflan sýnir svart á hvítu í hvaða stöðu við erum í. Við erum við botninn og höfum ekki efni á að setja okkur á háan hest gagnvart einum né neinum. HK eru bara þremur stigum á eftir okkur og hafa sýnt að þeir eru með mjög gott sóknarlið sem má alls ekki vanmeta. Ég býst við jöfnum og spennandi leik við gott HK lið.“
Akureyri vann ÍR í síðasta leik sínum í deildinni en þar á undan hafði liðið tapað fjórum leikjum í röð í deildinni. Andri segir sigurinn gegn ÍR hafa veitt liðinu mikinn meðbyr. „Við vorum búnir að tapa fjórum leikjum í röð og nokkrum illa. Það var vissulega gríðarlega jákvætt fyrir liðið að vinna sigur í svona jöfnum leik eins og gegn ÍR og það gefur okkur gott sjálfstraust sem við verðum að byggja ofan á. Við erum staðráðnir í að gera það á móti HK og munum mæta með kassann vel upp í leikinn.“
Andri Snær og Þrándur Gíslason fagna eftir sigurinn á ÍR í síðasta leik
Andri Snær segist ekki geta velt fyrir sér hlutum eins og úrslitakeppni í augnablikinu. „Eins og staðan er í dag þá er ég í raun ekkert að hugsa um það. Við erum búnir að vera gríðarlega óstöðugir í vetur og þurfum að vinna í því. Við getum unnið alla þegar við erum í stuði og jafnframt getum við gert hrikalega í brækurnar þegar við erum ekki rétt gíraðir. Ég held að það sé réttast að taka bara einn leik í einu og einbeita okkur alfarið að því, sjáum svo hverju það skilar okkur í vor.“
Akureyri hefur eins og þegar hefur komið fram ekki gengið nægjanlega vel í deildinni það sem af er vetri og er í sjöunda og næst neðsta sæti. Sigur gegn HK myndi hins vegar fara langt með að setja liðið af alvöru í baráttuna við liðin fyrir ofan um sæti í úrslitakeppni. Finnst Andra gengi liðsins hingað til endurspegla getu þess? „Auðvitað vildi ég að við værum ofar í deildinni og með fleiri stig því að við erum með flott lið. Það eru eflaust nokkrar ástæður fyrir þessu gengi hingað til en það er nóg eftir. Það er klárlega bara best fyrir okkur að berjast áfram sem lið og hafa gaman af því að spila handbolta þá koma stigin. Mín skoðun er sú að það býr mikið í liðinu og við munum sýna fram á það sem eftir lifir vetrar. Ég hvet alla Akureyringa til að mæta á leikinn á morgun og fá góða útrás, öskra sig hása og hvetja okkur áfram. Áfram Akureyri!“
Við bjóðum Kópavogsliðið velkomið í Höllina
4. desember 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Handboltaveisla framundan í Höllinni
Það verður heldur betur líf og fjör í handboltanum á Akureyri næstu dagana. Meistaraflokkur Akureyrar tekur á móti HK í tveim leikjum sem báðir eru gríðarlega mikilvægir. Liðin mætast fyrst í Olís deildinni á fimmtudagskvöldið klukkan 19:15 og aftur á sunnudaginn klukkan 16:00 en sá leikur er í 16 liða úrslitum Coca-Cola bikarsins.
2. flokkur Akureyrar leikur sömuleiðis tvo leiki um helgina, báða gegn Haukum. Fyrri leikurinn er á laugardaginn klukkan 14:00 og seinni leikurinn er á sunnudagsmorguninn klukkan 10:30.
Allir þessir leikir verða í Íþróttahöllinni og getum við lofað miklu fjöri í Höllinni.
Lið HK hefur verið að bíta hraustlega frá sér í síðustu leikjum eftir erfiða byrjun í deildinni og vann t.d. góðan sigur á Fram liðinu í næstsíðustu umferð. Síðasti leikur þeirra var útileikur gegn ÍR þar sem HK hafði yfirhöndina lengst af en gaf eftir á lokamínútum leiksins og missti þá ÍR ingana fram úr sér.
Í liði HK hafa þrír leikmenn verið langatkvæðamestir í markaskorun það sem af er vetri. Atli Karl Bachmann er þeirra markahæstur með 47 mörk, Leó Snær Pétursson með 45 mörk og Jóhann Reynir Gunnlaugsson sem kom til liðs við HK frá Víkingum er með 40 mörk.
Í sigurleik HK á Fram fóru þeir Atli Karl og Leó Snær á kostum og skoruðu 14 af 22 mörkum liðsins og voru báðir valdir í úrvalslið umferðarinnar hjá mbl, Leó Snær sem hægri hornamaður en Atli Karl sem vinstri skytta og jafnframt leikmaður umferðarinnar. Það er því ljóst að þeir tveir eru lykilmenn í HK liðinu. En það eru fleiri leikmenn sem hafa risið upp og heldur betur tekið af skarið. Þannig réðu Haukarnir ekkert við Jóhann Reyni sem raðaði inn 10 mörkum í þeim leik og gegn ÍR í síðustu umferð var skyttan Eyþór Magnússon markahæstur með 8 mörk.
Flestir leikmanna HK eru ungir og sprækir en reynsluboltinn Ólafur Víðir Ólafsson er liðinu gríðarlega mikilvægur enda hreint magnaður leikmaður.
Í markinu stendur annar reynslubolti, Björn Ingi Friðþjófsson og Helgi Hlynsson sem kom frá Selfossi fyrir þetta tímabil.
Nýr þjálfari tók við liðinu í sumar, Samúel Ívar Árnason en hann tók sín fyrstu handboltaskref á Akureyri en seinna lék hann með HK, Haukum og ÍBV og einnig erlendis þar sem hann sneri sér að þjálfun og kemur þaðan til HK.
Samúel Ívar í leikhléi með sínum mönnum í leik gegn Akureyri
Akureyrarliðið átti að leika gegn ÍBV um síðustu helgi en vegna veðurs var ekki flogið til Eyja og ljóst að sá leikur verður ekki settur á fyrr en undir lok janúar. Síðasti leikur Akureyrar var því sigurleikurinn gegn ÍR hér í Höllinni, það var í sömu umferð og þegar HK vann Fram og rétt að rifja upp að Morgunblaðið valdi einmitt þá Jovan Kukobat og Valþór Guðrúnarson úr Akureyrarliðinu í úrvalslið umferðarinnar. Það verða því fjórir leikmenn úr því liði á fjölum Íþróttahallarinnar á fimmtudaginn (og væntanlega á sunnudaginn líka).
Liðin mættust í Kópavoginum þann 10. október og þar fór Akureyri með sex marka sigur en HK liðið hefur sýnt í síðustu leikjum að það er sýnd veiði en ekki gefin og bæði lið munu örugglega leggja allt í sölurnar í þessum leik.
Eins og áhorfendur vita var stemmingin rafmögnuð í Höllinni í síðasta heimaleik og ástæða til að hvetja alla áhugamenn um að koma og skapa enn öflugri stemmingu enda hvert stig afar dýrmætt þessa dagana. Leikurinn hefst fimmtán mínútum seinna en vanalega eða klukkan 19:15 á fimmtudaginn.