Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Valsmenn fóru með stigin úr Höllinni - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson. Eftirlitsdómari Kristján Halldórsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Nú þarf bara að gíra sig upp fyrir næsta leik
2. febrúar 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir leikinn gegn Val á fimmtudaginn
Við höldum í hefðina og tínum til viðtöl við leikmenn og þjálfara eftir leik þó svo að við viljum kannski gleyma Valsleiknum sem fyrst. Einar Sigtryggsson blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Andra Snæ Stefánsson, fyrirliða Akureyrar og Ólaf Stefánsson þjálfara Valsmanna:
Andri: Þyrftum bara að kaupa Hlyn
Leikur Akureyringa var fínn lengi vel en svo hrundi allt. Sex marka forskot hvarf eins og dögg fyrir sólu og á endanum vann Valur átta marka sigur. Hvað gerðist eiginlega? „Úff, þetta var alveg svakalegt. Við byrjuðum virkilega vel og fengum fullt af opnum færum. Við náðum sex mörkum á þá en hefðum átt að hafa þau tíu. Hlynur var bara að verja eins og vitleysingur og við þyrftum bara að fara að kaupa hann hingað norður. Það var náttúrulega visst áfall að missa Bergvin en hann verður ekki meira með í vetur, skilst mér. Það er samt engin afsökun fyrir þessu hruni. Hann er góður leikmaður en liðið hefur verið án hans í allan vetur svo þetta átti ekki að skipta öllu. Við bara vorum eins og aular og Valsarar hreinlega völtuðu yfir okkur enda gáfum við þeim endalaus hraðaupphlaup.
Við vorum sjálfum okkur verstir í þessum leik, spiluðum óagað og allt of hægt. Við höfum svo sem ekki haft kost á æfingaleikjum en á æfingum höfum við reynt að spila mikið og tekið vel á því. Við vorum samt eitthvað ryðgaðir en þetta var ömurlegt. Við megum ekki bregðast svona á heimavelli. Við höfum tapað of mörgum stigum hérna og oft tapað illa. Þetta á bara ekki að gerast“ sagði stálmúsin við mbl.is og þrátt fyrir allt var Andri Snær ekki alveg bugaður og klár í næsta slag.
Andri Snær með mark úr hraðaupphlaupi
Ólafur: Ég sagði ekkert sérstakt
Ólafur Stefánsson, þjálfari Vals, var salírólegur allan leikinn gegn Akureyri í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld og örvænti greinilega ekki í fyrri hálfleik þegar staðan var 10:4 Akureyringum í hag. Þá tók hann leikhlé og eftir það gjörbreyttist leikurinn og Valur rúllaði yfir heimamenn með því að skora 22 mörk gegn 8 það sem eftir lifði leiks. En hvað ætli Óli hafi sagt við sína menn í leikhléinu? „Það var svo sem ekkert sérstakt. Við fórum bara aðeins betur yfir sóknarleikinn okkar og strákarnir náðu að laga stöðuna fyrir hálfleik. Menn fengu trúna og við fórum betur yfir málin í hálfleik og liðið bara tók sig á. Þetta var góður sigur en við vorum í vandræðum og náðum ekki upp neinu af viti lengi vel.
Þeir náttúrlega misstu Bergvin í meiðsli en okkur fannst þetta aldrei spurning þegar við vorum komnir yfir. Þetta var ekki auðvelt og lið Akureyringa er mjög sterkt. Þetta var aðallega spurning um að vinna í okkur og ná því fram sem búið var að setja upp. Það kom á endanum og ég hrósa liðinu fyrir það. Við héldum góðum hraða í seinni hálfleik og svo varði Hlynur mjög vel. Mér skilst að hann verji alltaf vel hérna fyrir norðan,“ sagði Óli kankvís og hvarf inn í klefa til sinna manna.
Ólafur fylgist með gangi mála í leiknum
Vísir.is birti viðtöl Birgis H. Stefánssonar við þjálfarana Heimi Örn Árnason og Ólaf Stefánsson ásamt viðtölumv við leikmennina Guðmund Hólmar Helgason og Hlyn Morthens.
Heimir Örn: Fáránlegur leikur
„Þetta var alveg fáránlegur leikur,“ sagði Heimir Örn Árnason annar þjálfari Akureyrar eftir leik. „Ég eiginlega bara skil þetta ekki. Við byrjuðum eins og ég hélt, sjálfstraust í botni og góð vörn. Við fengum svo bara eitthvað áfall við þessi meiðsli og ég man ekki eftir að hafa séð svona áður.“
Það var mikið um tapaða bolta hjá ykkur og sérstaklega í seinni hálfleiknum. „Já, þetta var bara hræðilegt. Við náðum líka varla skoti á marki og náttúrulega þegar við loksins náðum skoti þá varði Hlynur það.“
Veistu eitthvað varðandi Bergvin og hans meiðsli? „Þetta lítur bara ekki vel út, það eru þá komin þrjú krossbönd, tveir úr lið á öxl og eitthvað meira. Ég er orðinn alveg ógeðslega þreyttur á þessu.“
Heimir gengur vasklega fram í miðju varnarinnar
Ólafur Stefánsson: Leyfði þeim aðeins að hugsa sinn gang
„Ég veit það ekki,“ sagði Ólafur Stefánsson þjálfari Vals eftir leik þegar hann var spurður að því hvað það væri sem skildi að liðin. „Kannski var það eitthvað hugarfar og svona, létum koma okkur á óvart og vorum ekki tilbúnir í pakkann. Við vorum að sýna mjög flottan karakter eftir hálfleik en það voru síðustu forvöð, annars hefðum við bara getað pakkað og farið heim.“
Hálfleiksræðan virtist hafa virkað betur en þessi tvo leikhlé í fyrri hálfleiknum, var hún svona góð? „Það var nú minna að tala um, þeir sáu um þetta sjálfir. Ég kvaddi þá snemma í klefanum og leyfði þeim að hugsa sinn gang og ræða og það virkaði hjá þeim. Þeir gerðu þetta, ég fer ekkert inn fyrir hliðarlínuna þannig að það eru þeir sem gerðu þetta.“
Guðmundur Hólmar: Bubbi tekur alltaf körfuna
„Það er alltaf geggjað að koma norður,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason brosmildur eftir leik. „Það er alltaf samt svolítið skrítið að spila á móti Akureyri.“
Þetta virkaði nokkuð öruggt hjá ykkur í seinni hálfleik „Já en þetta er alveg glatað með Begga. Þetta er fyrsti leikur hans eftir löng meiðsli og ég vona það svo innilega fyrir hönd Begga og liðsins að þetta sé ekki alvarlegt. Hann er búinn að leggja mjög hart að sér að koma til baka. Þeir missa mikið bit í sóknarleik sínum við það að missa Begga en við vorum líka mikið þéttari bara sjálfir. Við mættum auðvitað ekki til leiks fyrr en eftir 25 mínútur og það er bara til skammar. Við ræddum það í hálfleik og bættum það í seinni.“
Þú ert væntanlega ágætlega sáttur við frammistöðu Bubba í markinu í dag? „Já, ég held að ég hafi bara aldrei verið ósáttur með Bubba, nema þegar ég hef spilað á móti honum. Hann á nánast alltaf góða leiki hér á móti Akureyri og tekur körfuna (verðlaun fyrir það að vera maður leiksins) með sér heim. Hann var alveg illa flottur og hann sem hélt okkur inni í leiknum.“
Guðmundur Hólmar heilsar við kynningu leikmanna
Hlynur Morthens: Líður best eftir sex tíma rútuferð
„Ég er farinn að halda það,“ sagði Bubbi glaður eftir leik þegar hann var spurður að því hvort að það væri alltaf svona gaman að koma norður. „Mér líður bara best eftir sex tíma rútuferð, það gæti verið uppskriftin. Mér hefur gengið alveg furðuvel hér síðustu ár og leikurinn í dag var ekki nein undantekning á því.“ „Ég verð að hrósa varnarleiknum en sóknin var alveg til skammar. Við fórum bara vel yfir það í hálfleik og menn stigu upp, það var allt annað að sjá liðið í seinni hálfleik. Við erum allir í góðu standi og ætlum að keyra á lið og gerðum það vel í dag. Við ætlum að vera í baráttu allstaðar, annars getur maður bara verið heima.“
Hlynur Morthens var erfiður í Valsmarkinu
Valsmenn koma öflugir til leiks
29. janúar 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Mótherjar Akureyrar á fimmtudaginn – Valur
Eftir dönsku handboltaveisluna í sjónvarpinu að undanförnu er nú komið að því að fá lifandi handbolta hér á heimavelli og tilhlökkun að verða aftur hluti af alvöru stemmingu. Það eru Valsmenn sem koma í heimsókn á fimmtudaginn, enginn annar en Ólafur Stefánsson sem mætir með sína kappa.
Þar eru fremstir í flokki frændurnir Guðmundur Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson sem gengu til liðs við Hlíðarendaliðið í sumar. Það er ekki ofsagt að þeir séu fremstir í Valsliðinu því þeir eru langmarkahæstir leikmanna Vals, Guðmundur Hólmar með 62 mörk og Geir með 45 eftir ellefu leiki í deildinni. Þar næstir eru Sveinn Aron Sveinsson með 38 mörk og Finnur Ingi Stefánsson með 31 mark.
Þetta eru allt leikmenn sem þarf að hafa góðar gætur á en í raun er Valsliðið mjög vel skipað. Þar nægir að nefna leikmenn eins og leikstjórnandann, Elvar Friðriksson, línumennina Orra Frey Gíslason og Ægi Hrafn Jónsson. Að ógleymdum markvörðunum, Hlyni Morthens og Lárus Helgi Ólafsson sem alltaf standa fyrir sínu og hafa reynst Valsliðinu drjúgir í gegnum tíðina.
Guðmundur Hólmar tekur harkalega á Sissa í leik liðanna fyrr í vetur
Aðstoðarþjálfari Ólafs er landsliðsmaðurinn fyrrverandi Ragnar Óskarsson, uppalinn ÍR-ingur en lék um árabil í Frakklandi áður en hann sneri heim í sumar. Margir áttu von á að Ragnar myndi klæðast keppnisbúningnum í vetur og aldrei að vita nema hann leiki sinn fyrsta leik með Val á fimmtudaginn.
Spurning hvort Ragnar Óskarsson tekur fram keppnisskóna á fimmtudaginn?
Fyrir leikinn er Valur með 11 stig í Olís-deildinni en Akureyri með 8 stig en eiga leik til góða, margfrestaðan leik gegn ÍBV sem raunar átti að fara fram síðasta laugardag en var frestað eina ferðina enn. Að þessu sinni var frestunin ekki vegna samgönguerfiðleika heldur vegna velgengni íslenska landsliðsins, sem virtist koma HSÍ heldur betur á óvart.
Akureyrarliðið hefur æft af kappi í þessu langa hléi og verður forvitnilegt að sjá hvernig menn spjara sig. Liðið hefur saknað Bergvins Þórs Gíslasonar það sem af er tímabilinu en hann hefur verið að jafna sig eftir aðgerð á öxl sem hann gekkst undir í sumar. Það kemur í ljós á fimmtudaginn hvort Beggi klæðist Akureyrarbúningnum í fyrsta sinn á tímabilinu en hann er sem betur fer allur að koma til á ný. Þá meiddist skyttan unga, Arnór Þorri Þorsteinsson í leik gegn HK í byrjun desember og hefur ekki getað æft af krafti síðan þannig að óvíst er með þátttöku hans að þessu sinni.
Leikurinn hefst klukkan 19:00 á fimmtudaginn og ekki þarf að efast um að leikmenn leggja allt í sölurnar enda í boði dýrmæt stig. Þar að auki hafa leikir liðanna ávallt verið æsispennandi og því sannkölluð veisla fyrir áhorfendur framundan í Höllinni.
Í stuðningsmannaherberginu verður að vanda heitur matur fyrir leik og á meðan leikurinn stendur er opið gæsluherbergi fyrir yngstu börnin þar sem þau geta leikið sér í ýmsum boltaleikjum.
2. flokkur liðanna mætist síðan á föstudaginn klukkan 16:30 í Höllinni og það verður ekki síður forvitnilegur leikur.