17. febrúar 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hvað sögðu menn eftir leik ÍBV og Akureyrar?
Að venju höfum við fundið nokkur viðtöl við leikmenn og þjálfara liðanna. Hér á eftir eru nokkur vídeóviðtöl en við byrjum á viðtölum Guðmundar Tómasar Vigfússonar tíðindamanns visir.is sem hann tók við þjálfarana Heimi Örn Árnason og Arnar Pétursson.
Heimir: Hefðum léttilega getað náð jafntefli
„Það er smá þreyta í okkur og smá þyngsli í rassinum. Ég er ánægður með strákana en ungu strákarnir fóru aðeins fram úr sér í lokin,“ sagði Heimir Örn Árnason, þjálfari Akureyrar, eftir þriggja marka tap sinna manna í Vestmannaeyjum í dag.
„Við hefðum léttilega getað náð jafntefli í lokin, þeir voru í stökustu vandræðum með að skora seinustu sjö mínúturnar,“ bætti Heimir við.
„Þessir leikir sem sitja í manni eru til dæmis leikurinn gegn Eyjamönnum heima og seinni hálfleikurinn gegn Val sem var afhroð,“ sagði Heimir en hann bætti við að það þyrfti einungis nokkra sigra til þess að blanda sér í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni.
Arnar: Batamerki á liðinu
„Þetta var hörkuleikur, Akureyringarnir eru á góðu róli og hafa verið að spila vel. Það er gott að landa góðum sigri eins og hér í dag,“ sagði Arnar Pétursson, annar þjálfara Eyjamanna, eftir sigur sinna manna gegn leikmönnum Akureyrar í dag.
„Við vorum að spila mjög vel í dag og við erum gríðarlega ánægðir með strákana, það eru batamerki í okkar leik sérstaklega eftir mjög erfiða tvo síðustu leiki. Það er mikilvægt og skemmtilegt að vera í þessu öðru sæti þó svo að allir vilji vera í því fyrsta,“ sagði Arnar en hann segir mætinguna í seinustu tvo leiki hafa verið frábæra.
„Mér fannst við helst vera að bæta okkur í sóknarleiknum, það var meiri hreyfing á okkur og margir hlutir sem gengu frábærlega upp, við leystum þetta allt ágætlega,“ sagði Arnar en hann segir að seinustu sjö leikirnir verði skemmtilegir og vonar að liðið haldi áfram að bæta sig eins og þeir hafa gert undanfarið.
Þá skiptum við yfir á viðtöl sem Júlíus G. Ingason blaðamaður mbl.is tók við leikmennina Þránd Gíslason og Grétar Þór Eyþórsson.
Þrándur: Þeir voru í því að kasta sér í gólfið
Þrándur Gíslason Roth, leikmaður Akureyrar, fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiks ÍBV og Akureyrar í Olísdeild karla í handknattleik í dag og var ósáttur við það.
„Þetta var fastur leikur frá byrjun til enda og langt frá því að vera grófasta brotið í leiknum. Þeir voru í því allan leikinn að kasta sér í gólfið og grípa um andlitið, sama hvort það var slegið í andlitið, bringuna eða hvað. Robbi gerði það og dómararnir létu plata sig. Vel leikið og vissulega sló ég fast í bringuna á honum en mér fannst þetta óverðskuldað rautt,“ segir Þrándur en nánar er rætt við hann á meðfylgjandi myndskeiði.
Grétar Þór: Betri sóknarleikur
Grétar Þór Eyþórsson fór fyrir sínu liði í markaskorun en hann lék mjög vel í dag, líklega sinn besta leik fyrir ÍBV þegar liðið vann Akureyri í Olísdeild karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag.
Hann var sáttur við sóknarleik ÍBV. „Það var margt sem við gerðum vel en margt sem við getum bætt. Við erum að fara að mæta þessu liði aftur og ágætt að þetta var ekki allt of auðvelt, eins og maður segir.“
Sóknarleikurinn gekk betur nú en áður? „Já, betur. Það voru tvö, þrjú kerfi sem virkuðu vel á þá. Við hefðum mátt spila þau meira yfirvegað. En það sem hélt þeim inni í leiknum samt sem áður voru daprar ákvarðanir sóknarlega sem færðu þeim auðveld mörk.“ Nánar er rætt við Grétar Þór á meðfylgjandi myndskeiði.
Loks fylgja hér videóviðtöl við Heimi Örn Árnason og Arnar Pétursson sem eru fengin af sport.is:
Heimir Örn: Misstum þetta niður á lokakaflanum
Arnar Pétursson: Batamerki í okkar leik
Það má búast við fjöri í Eyjum á sunnudaginn
15. febrúar 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Titringur í Eyjum fyrir sunnudagsleikinn
Leikmenn Akureyrar og ÍBV hafa nóg að gera þessa dagana en þegar liðin mætast á sunnudaginn verður það fimmti leikur leikmanna á sextán dögum. Leikurinn á sunnudaginn er margfrestaður en hann tilheyrir 10. umferð Olís-deildarinnar og hann hefur töluvert að segja um framhald deildarinnar fyrir öll liðin. Það verður sem sé ekki ljóst fyrr en eftir hann í hvaða röð liðin í Olís-deildinni mætast í síðasta þriðjundi deildarinnar og jafnframt hvaða leikir verða á heimavelli og hverjir á útivelli.
Frá leik liðanna fyrr í vetur
Akureyri lék tvo hörkuleiki gegn FH í vikunni, framlengdan bikarleik á mánudag og unnu síðan sætan sigur á lokasekúndum á fimmtudaginn. Eyjamenn lentu sömuleiðis í framlengdum bikarleik gegn Aftureldingu og töpuðu illa fyrir Val á heimavelli á fimmtudaginn.
Leikmenn ÍBV vilja biðja stuðningsmenn sína afsökunar á frammistöðunni í Valsleiknum sem þeir töpuðu með 10 marka mun 21-31 og hafa ákveðið að bjóða öllum Eyjamönnum á leikinn gegn Akureyri.
Leikmenn meistarflokks ÍBV sendu frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu sem birtist í Eyjafréttum:
Kæru stuðningsmenn og velunnarar. Við í meistaraflokki karla í handbolta viljum þakka kærlega fyrir frábæran stuðning sem við fengum frá ykkur áhorfendum á síðasta leik gegn Val. Leikmenn eru sársvekktir yfir sinni frammistöðu fyrir framan fullt hús af góðu fólki en verst þykir mönnum að hafa ekki náð að sýna betri gæði en raunin var. Við leikmenn höfum því ákveðið að bjóða frítt inn á næsta leik okkar sem er núna um komandi helgi eða á sunnudag nánar tiltekið. Það er enn mikið í húfi og getum við með sigri endurheimt annað sætið í deildinni. Við vonumst því eftir öðru tækifæri til að sýna stuðningsmönnum okkar betri leik. Með bestu kveðju, leikmenn meistaraflokks karla.