Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Akureyri knúði fram stigin mikilvægu - Akureyri Handboltafélag
18. febrúar 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Áhorfendur á leik Akureyrar og ÍR á dögunum
Það er óhætt að segja að áhorfendur á leik Akureyrar og ÍR síðastliðinn fimmtudag hafi fengið að upplifa spennu og dramatík, enda leikurinn spennuhlaðinn allt fram á síðustu sekúndur. Að vanda beindi Þórir Tryggvason myndavélinni að áhorfendum og smellti af fjölmörgum myndum.Hægt er að skoða hluta myndanna með því að smella hér.
12. febrúar 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir háspennusigurinn á ÍR
Spennustigið í lok leiks Akureyrar og ÍR í gær var hátt og menn ýmist í skýjunum eða hundsvekktir eins og gengur þegar úrslitin ráðast á lokaskotinu. Visir.is og mbl.is náðu viðtölum við nokkra leikmenn eftir leikinn. Byrjum á viðtölum Stefáns Guðnasonar sem birtust á visir.is en hann ræddi við varnarjaxlinn Ingimund Ingimundarson úr Akureyri og Daníel Berg Grétarsson úr liði Breiðhyltinga.
Ingimundur: Tvö dýrmæt stig
„Ég er heilt yfir ekkert sérstaklega hress með okkar spilamennsku. Við eigum að geta mun betur. Það er þó ákveðinn styrkleiki að klára samt tvö stig hérna í kvöld. Þau eiga eftir að reynast okkur vel. Við náum núna aðeins að fara að fókusa á liðin fyrir ofan okkur, fáum ákveðið svigrúm til þess núna,” sagði Ingimundur Ingimundarson Akureyringur.
Um miðjan síðari hálfleik leit út fyrir að Akureyri myndi sigla þægilegum sigri heim en það reyndist þó ekki ganga eftir og úr varð hörku spenna á síðustu mínútunum.
„Ég veit ekki hvort að spennustigið var svona rangt hjá okkur en við vorum okkar versti óvinur á þessum tímapunkti. Fáum réttilega tvo brottrekstra og köstum frá okkur boltanum nokkrar sóknir í röð. Það er hins vegar eins og ég sagði gríðarlega sterkt að klára samt leikinn með sigri. Þarna hefði verið auðvelt að brotna og missa leikinn frá sér en við gerðum það ekki og sýndum flottan karakter að klára þetta.“
Ingimundur var harður fyrir gegn sínu gamla liði
Danni Berg: Erum komnir í erfiða stöðu
Daníel Berg Grétarsson, hin gamalreynda kempa í liði ÍR, var frekar vonsvikinn eftir leikinn.
„Mér fannst við spila vel á löngum köflum í kvöld. Vorum agaðir sóknarlega og þegar við náum að stilla upp í vörnina áttu Akureyringar í bölvuðu basli með okkur. Sóknarlega vorum við klaufar í fyrri hálfleik en mér fannst við flottir í seinni hálfleik,“ sagði Daníel.
Ungu strákarnir í ÍR komu virkilega vel inn í síðari hálfleikinn og tóku oft á skarið þegar á þurfti.
„Þetta eru flottir strákar sem hafa bætt sig mikið. Svenni fiskaði að ég held þrjá út af og einhver víti, þetta var flott innkoma hjá þeim.”
Þetta tap þýðir að ÍR er komið sex stigum á eftir Akureyringum og staðan orðin erfið.
„Við vissum alveg fyrir leik hvað tap hérna í kvöld mundi þýða fyrir okkur. Við verðum samt bara að halda áfram að berjast, við höfum sýnt miklar framfarir í síðustu leikjum. Erum agaðari, ekki að kasta boltanum í sífellu frá okkur og gefum okkur tíma. Það vantar núna að ná fram meiri sigurvilja, klára leikina. Það vantar að fá inn lokahnykkinn ef svo má að orði komast. Það er nóg eftir en staðan er virkilega erfið, það er ekki hægt að neita því.“
Daníel Berg hefur verið mikið meiddur síðustu ár er þó farinn að sprikla að nýju. „Staðan á mér er svona týpísk eftir löng meiðsli. Maður er tognaður alls staðar hreinlega. Það gleymist þó alltaf þegar leikurinn byrjar en þetta verður vont á morgun.“
Á mbl.is eru síðan viðtöl Einars Sigtryggssonar við fyrirliðann hann Andra Snæ Stefánsson og Aron Örn Ægisson í liði ÍR.
Andri Snær: „Stutt í skítinn“
Andri Snær Stefánsson var léttur en móður eftir að hans menn í Akureyri voru búnir að leggja ÍR að velli í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 22:21.
Andri átti góðan leik, þá aðallega í vörninni þar sem hann hirti ófáa bolta. Fyrirliðinn hafði þetta að segja um leikinn.
,,Við vorum klaufar á lokakaflanum og gerðum þetta óþarflega spennandi. Kannski vorum við farnir að hugsa of mikið um pubquizið sem verður á eftir. Annars var þetta skrýtinn leikur, hægur og bara dapur fyrri hálfleikur hjá báðum liðum,“ sagði Andri við mbl.is í kvöld.
„Við keyrðum upp hraðann í seinni hálfleiknum og þá fóru hlutirnir að ganga betur. Við vorum búnir að kortleggja ÍR, reyna að finna veikleikana og gekk ágætlega að hirða af þeim boltann. Mér finnst bara að við hefðum átt að fá fleiri hraðaupphlaupsmörk í fyrri hálfleiknum.
„Það eina sem skiptir máli er sigurinn. Þessi tvö stig koma okkur í skemmtilega stöðu. Það er enn stutt í skítinn en líka í skemmtilegri hluti ofar í töflunni. Nú er bara annað stríð gegn FH í næstu viku. Við ætlum að taka tvö stig í þeim leik'' sagði Andri Snær áður en hann snaraðist í næstu keppni.
Andri Snær var öflugur í leiknum og var maður leiksins í liði Akureyrar
Aron Örn: „Hef ekki miklar áhyggjur“
Aron Örn Ægisson, leikmaður karlaliðs ÍR í handknattleik, var svekktur eftir 21:22 tap gegn Akureyri í Olís-deild karla í kvöld.
Eftir æsispennu í leik Akureyrar og ÍR í Olís-deild karla í kvöld voru það heimamenn sem fögnuðu eins marks sigri, 22:21.
Aron Örn Ægisson tók síðasta skot ÍR-inga og hefði getað jafnað en Tomas Olason sá við honum. Skotfærið var ekki gott en Aron Örn var búinn að vera heitur og átti alveg innistæðu fyrir skotinu. Hann var inntur eftir þessum leiðinlegu endalokum.
„Þetta var ekki planið eftir leikhléið okkar en ég hélt að það væri minna eftir. Líklega hefði ég mátt stimpla út í hornið. Það er gaman að spila hérna, hávaði og læti. Ég þrífst vel í hávaðanum. Það er rólegt í klefanum hjá okkur en svo fer allt á fullt þegar inn í salinn er komið,“ sagði Aron við mbl.is
Nú er ástandið fremur svart hjá ÍR. Hvernig líst Aroni á framhaldið?
„Við erum klárlega á uppleið. Spilamennskan er að batna með betri vörn og ég hef fulla trú á að stigin fari að detta inn. Það eru fjögur stig í FH og það eru tveir sigurleikir. Satt að segja þá hef ég ekki miklar áhyggjur,“ sagði Aron Örn að lokum.
Bjarni Fritz og lærisveinar mæta norður
11. febrúar 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Stórleikur gegn Breiðhyltingum
Akureyri tekur í kvöld á móti ÍR í sannkölluðum stórleik en fyrir leikinn eru Breiðhyltingar í fallsæti og 5 stigum á eftir Akureyri sem situr í 7. sætinu. ÍR vann fyrri leik liðanna í vetur í Austurberginu 25-23 en Akureyri svaraði vel fyrir sig í KA-Heimilinu og vann þá 32-20.
Athugið! Því miður getum við ekki boðið upp á beina lýsingu frá leiknum í kvöld en bendum á mbl.is og visir.is
Sigri okkar lið í kvöld kemst liðið 7 stigum á undan ÍR þegar einungis 7 umferðir eru eftir af deildinni. Að auki þá myndi liðið halda sér í baráttunni um hið merkilega 4. sæti en það er síðasta sætið sem gefur heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. ÍBV situr í 4. sætinu eins og er en einungis munar 2 stigum á Vestmannaeyingum og Akureyri.
Hinsvegar með tapi togar ÍR okkar lið niður í fallbaráttu og verður munurinn á liðunum þá einungis 3 stig sem er eitthvað sem við viljum að sjálfsögðu sleppa alfarið við. Það er því ansi mikilvægt að við fjölmennum í KA-Heimilið og hvetjum okkar lið til sigurs, áfram Akureyri!
Það verður ekkert gefið eftir á þriðjudaginn
9. febrúar 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Risaleikur gegn ÍR á fimmtudaginn
Það er sannkallaður stórleikur í KA-Heimilinu á fimmtudaginn þegar Akureyri tekur á móti ÍR.
Með sigri skilur Akureyri ÍR 7 stigum fyrir aftan sig og heldur sér í baráttunni um heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Með tapi færist ÍR hinsvegar nær okkur og dregur okkur niður í neðri baráttuna sem við viljum að sjálfsögðu sleppa alfarið við.
Við þurfum því á öllum að halda til að klára þennan mikilvæga leik, áfram Akureyri!