Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Magnaður sigur á Aftureldingu í kvöld - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2014-15

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Afturelding  27-23 (11-9)
Olís deild karla
Íþróttahöllin
Fim 6. nóvember 2014 klukkan: 19:00
Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Þorleifur Árni Björnsson
Umfjöllun

Tomas og Halldór Logi voru heldur betur í stuði í kvöld



6. nóvember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Magnaður sigur á Aftureldingu í kvöld

Það var spenna í lofti þegar topplið Olís-deildarinnar mætti í Íþróttahöllina í kvöld bæði til að sjá spútnik lið Aftureldingar en líklega ekki síður til að fylgjast með endurkomu Atla Hilmarssonar sem þjálfara Akureyrar og jafnframt endurkomu Heimis Arnar Árnasonar í leikmannahópinn.


Atli Hilmarsson og Sævar Árnason mættir til leiks

Það var líka þétt setið í stúkunni og strax í leikmannakynningunni ljóst að áhorfendur voru vel með á nótunum. Akureyrarliðið byrjaði af krafti, Elías Már Halldórsson gaf tóninn með fyrstu tveim mörkum leiksins og Tomas Olason lokaði markinu.

Heimir Örn hóf leikinn bæði í sókn og vörn og greinilegt að nærvera hans á vellinum hafði góð áhrif á leik liðsins sem var mun yfirvegaðri og öruggari en stundum áður. Akureyri náði mest fjögurra marka forystu, 8-4 í fyrri hálfleiknum en Afturelding klóraði í bakkann og minnkaði muninn í tvö mörk og sá munur var einmitt í hálfleik, 11-9.
Bæði liðin léku öflugan varnarleik, þó var Akureyrarvörnin öflugri og Tomas Olason frábær í markinu þar á bak við. Greinilegt var að bæði lið léku yfirvegaðan sóknarleik og urðu sóknirnar býsna langar.

Leikurinn varð allur hraðari í seinni hálfleiknum en barist af hörku í vörninni. Strax á þriðju mínútu sauð uppúr þegar Pétur Júníusson, leikmaður Atureldingar braut illa á Elíasi Má sem sparkaði í kjölfarið til Péturs. Elías fékk fyrir vikið að líta rauða spjaldið en Pétur slapp með tvær mínútur. Nokkru seinna varð mikill hasar í vítateig Akureyrar þar sem Ingimundur og Örn Ingi Bjarkason áttust við, vildu menn meina að Örn Ingi hefði verðskuldað kælingu eftir þau viðskipti en dómarar leiksons kusu að aðhafast ekkert.
Akureyringar voru ekki par sáttir með framgöngu dómaranna nokkru síðar þegar Andri Snær lá óvígur í vítateig Aftureldingar en leikurinn var látinn halda áfram, ekki einu sinni stöðvaður þegar Afturelding fékk aukakast, heldur fengu þeir að framkvæma aukakastið og skora gegn fáliðaðri vörn heimamanna. Loks eftir markið stöðuðu dómararnir leikinn.

Vörn Akureyrar var áfram feykilega öflug og skilaði mörgum hraðaupphlaupum sem gáfu mörk þannig að forysta Akureyrar var orðin fimm mörk, 19-14 þegar þrettán mínútur voru til leiksloka.


Ingimundur vinnur boltann og leggur grunninn að hraðaupphlaupi

Aftureldingarmenn gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn í tvö mörk en komust ekki lengra. Gestirnir gripu til ýmissa ráða, t.d. að leika með aukamann í sókninni en Akureyri hafði svör við öllum þeirra tilraunum. Forskotið varð aftur fimm mörk 27-22 en Afturelding átti lokamark leiksins sem lauk með fjögurra marka sigri, 27-23.

Þetta var klárlega langbesti leikur Akureyrarliðsins á tímabilinu, vörnin small heldur betur saman og greinilegt að Tomas fann sig vel þar á bak við og varði marga gríðarlega mikilvæga bolta.

Sóknin var einnig í fínu lagi og sérstaklega gaman að sjá hvað komu mörg mörk af línunni og úr hornunum. Halldór Logi Árnason fór hamförum á línunni, með sjö mörk auk þess sem hann átti stórleik í vörninni. Andri Snær og Kristján Orri skiluðu mörgum mörkum úr hornunum þó svo að Kristján tæki reyndar stöðu hægri skyttunnar þegar Elías Már þurfti að yfirgefa völlinn.


Halldór Logi Árnason fagnar einu af sjö mörkum sínum í leiknum


Tomas Olason hafði svo sannarlega ástæðu til að brosa breitt í leikslok

En þetta var frábær sigur liðsheildarinnar og sannarlega góð byrjun hjá Atla og vonandi fáum við að sjá sömu stemmingu innan sem utan vallar í næstu leikjum.

Mörk Akureyrar: Halldór Logi Árnason 7, Kristján Orri Jóhannsson 6 (1 úr víti), Andri Snær Stefánsson 5, Sigþór Árni Heimisson 4, Elías Már Halldórsson 2, Bergvin Þór Gíslason, Daníel Örn Einarsson og Heimir Örn Árnason 1 mark hver.
Í markinu varði Tomas Olason 17 skot og þar af 1 vítakast.

Mörk Aftureldingar: Jóhann Jóhannsson 6 (1 úr víti), Jóhann Gunnar Einarsson 5, Elvar Ásgeirsson 3, Gestur Ingvarsson 3, Pétur Júníusson 2, Örn Ingi Bjarkason 2, Böðvar Páll Ásgeirsson 1 mark og Gunnar Þórsson Malmquist 1 mark úr víti.
Í markinu varði Davíð Svansson 15 skot.

Það var ekki auðvelt að velja mann leiksins hjá Akureyrarliðinu, Tomas Olason fékk körfuna en við viljum tilnefna bæði Tomas og Halldór Loga Árnason sem leikmenn Akureyrarliðsins að þessu sinni.
Hjá Aftureldingu varð Jóhann Jóhannsson fyrir valinu.

Framundan eru tveir heimaleikir hjá Akureyri, fimmtudaginn 13. nóvember kemur HK og mánudaginn 17. nóvember koma Haukar í heimsókn – það er full ástæða til að taka þá daga frá og upplifa sama fjörið og var í kvöld.


Það var svo sannarlega gaman í Íþróttahöllinni í kvöld


Tengdar fréttir

Ánægðir Akureyringar eftir leik





7. nóvember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Viðtöl eftir Aftureldingarleikinn í gær

Það var töluverð athygli fjölmiðla á leik Akureyrar og Aftureldingar í gærkvöld, ýmislegt búið að ganga á fyrir leikinn, nýr þjálfari hjá Akureyri og efsta lið deildarinnar í heimsókn. Leikurinn sjálfur var frábær skemmtun, mikil barátta og allt á suðupunkti á köflum.
Blaðamenn fjölmiðla tóku menn tali eftir leikinn og hér byrjum við á viðtölum Einars Sigtryggssonar hjá mbl.is en hann ræddi við Andra Snæ Stefánsson, fyrirliða Akureyrar og Einar Andra Einarsson þjálfara Aftureldingar.

Stálmúsin: Vorum frábærir í kvöld

Það var heldur betur uppi á mönnum typpið meðal leikmanna Akureyrar eftir að Akureyri hafði lagt topplið Aftureldingar í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Leikurinn var mjög jafn og æsispennandi þar sem hart var barist og á kafla lá við að syði upp úr. Að lokum vann Akureyri 27:23.
Fyrirliði Akureyringa, Andri Snær Stefánsson, átti frábæran leik og skoraði nokkur mörk að mikilli harðfylgni. Stálmúsin er hans viðurnefni og gat Andri Snær ekki leynt ánægju sinni í leikslok. Hann spilaði allan leikinn í fjarveru Heiðars Þórs Aðalsteinssonar sem staddur var á fæðingardeildinni.


Andri sáttur eftir eitt af fimm mörkum sínum í leiknum

„Það er ekki annað hægt en að vera kátur með þennan sigur. Það er bara gott hljóð í okkur og við náðum þessu með mikilli baráttu og svakalegri gamaldags vörn. Við gáfum fá færi á okkur og svo var Tomas frábær. Ekki nóg með að hann væri að verja vel heldur skilaði markvarslan okkur nokkrum hraðaupphlaupsmörkum en þau hefur skort í vetur.

Það var gott að fá Atla (Hilmarsson) inn í þetta hjá okkur. Hann hafði ekki mikinn tíma til að breyta hlutunum en smá áherslubreytingar komu inn í varnarleikinn. Það var ekki síðra að fá Heimi inn í leikmannahópinn . Hann gefur okkur sjálfstraust og reynsla hans er mikilvæg. Kallinn er náttúrulega algjör stríðsmaður og ótrúlega öflugur varnarmaður. Mér fannst við vera með þennan leik allan tímann og hver einasti var að skila sínu. Við vorum hreinlega frábærir í kvöld“ sagði Andri Snær að lokum áður en hann fékk að hlusta á langan pistil sjúkraþjálfara um hvernig hann ætti að fara að því að lifa af morgundaginn.

Einar: Svekkjandi að fara tómhentir

Þjálfari Aftureldingar, Einar Andri Einarsson, var ánægður með sína menn þrátt fyrir tap á Akureyri í kvöld. Afturelding tapaði þar sínum öðrum leik í röð í Olísdeildinni í handbolta karla.
Lið hans var allan tímann undir í leiknum en góð vörn, markvarsla Davíðs Svanssonar og mikil barátta héldu gestunum á hælum heimamanna. Aðeins vantaði herslumuninn til að snúa leiknum en að lokum var það Akureyri sem vann 27:23. Vörn Akureyringa var svakaleg á köflum í leiknum, töluvert þéttari og betri en í undangengnum leikjum.

„Það er svekkjandi að fara tómhentur héðan, við vorum svo nálægt þeim allan tímann. Vörnin þeirra var mjög föst fyrir og þeir fengu að spila hana allan leikinn. Þeir eru með mjög öfluga varnarmenn og það er klárt að í kvöld var eitthvað í varnarleiknum sem þeir voru að gera rétt. Það voru engar brottvísanir í fyrri hálfleik og það segir sína sögu.


Þorleifur dómari þurfti aðeins að róða Einar Andra niður í leiknum

Ég er mjög ánægður með baráttu minna manna og þeir hættu aldrei þrátt fyrir mótbyrinn. Við erum með skemmtilegt lið og mikla breidd og það verður að rúlla liðinu enda er mótið langt. Þrátt fyrir tvö töp í röð þá erum við þokkalega sáttir við stöðu okkar eftir þennan fyrsta hluta mótsins. Ég er mjög ánægður með starfið hjá Aftureldingu og þar er vel staðið að hlutunum þannig að ég er á góðum stað og með skemmtilegt lið í höndunum“ sagði Einar Andri.

Á Visir.is eru viðtöl Birgis H. Stefánssonar við Andra Snæ og þjálfarana Atla Hilmarsson og Einar Andra.

Andri Snær: 90´s varnarleikur

„Þetta var bara meiriháttar,“ sagði Andri Snær Stefánsson ánægður eftir leik. „Loksins small þetta, vörnin frábær og Tomas náttúrulega maður leiksins. Hann varði eins og skepna.“

Það var töluvert um átök í þessum leik
„Já, við höfum verið í basli og þurftum að þjappa okkur betur saman. Atli er að leggja áherslu á varnarleikinn og það bara skilaði sér her í dag. Þetta var gamaldags hörku 6-0 vörn, svona 90´s varnarleikur.“

Hversu mikilvægt er að fá Heimi af bekknum inn í vörnina?
„Það gefur okkur auðvitað mjög mikið. Heimir er einfaldlega frábær leikmaður en hann er einnig baráttumaður sem gefur okkur líka neista. Svo er hann auðvitað líka klókur, góður að bera upp bolta og kann leikinn.“


Andri Snær fagnar með sínum mönnum í leikslok

Atli Hilmars: Við spilum eins fast og dómari leyfir

„Ég vissi það frá gamalli tíð að hér er gott að spila fyrir framan þetta fólk,“ sagði Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar strax eftir leik.

„Þetta á allt að vera plús fyrir liðið og var það, það sást svo sannarlega í dag. Það naut sín hver einasti leikmaður og það var gaman að sjá hvernig liðið barðist um hvern einasta bolta.
Við byrjuðum leikinn frábærlega varnarlega, vorum komnir með einhver fjögur mörk á okkur eftir rúmlega tuttugu mínútur. Svo tökum við þarna smá slæman kafla undir lok fyrri hálfleiks.
Síðan er það bara varnarleikurinn sem er að búa þetta til fyrir okkur, við erum að fá hraðaupphlaup í kjölfarið. Við vorum að spila fast en það voru allir að spila jafn fast og við vorum ekki að láta henda okkur útaf fyrir klaufabrot. Það er búið að gagnrýna varnarleikinn en hann var ekki gagnrýniverður í dag.“


Atli og samstarfsmenn undrandi á framgöngu dómara leiksins

Það var töluverð harka hér í dag og menn virka misánægðir með það.
„Við bara spilum eins fast og dómarinn leyfir, það er bara þannig. Ég er mjög ánægður með það hvernig við komum inn í leikinn. Heimir átti t.d. frábæran leik, sýnir hvaða karakter hann hefur að geyma að koma núna hérna inn á völlinn og gefa allt sem hann á.

Einar Andri: Fengum ekki að spila okkar leik

„Tveir tapleikir í röð er ekkert stórmál fyrir okkur,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir leik þegar hann var spurður út í það að liðið hefur núna tapað tveimur í röð eftir að hafa farið sjö leiki án taps.

„Við erum ánægðir með frammistöðu leikmanna, fannst við vera að berjast eins og ljón og vera í stöðu á köflum til að gera betur.“

Sáttur við frammistöðu þinna manna í kvöld?
„Ég er sáttur með framlagið, með þann kraft og dugnað sem menn lögðu í verkefnið en því miður þá fengum við ekki að spila okkar leik eins og við erum vanir.“


Einar Andri leitar að úrræðum með sínum mönnum

Þú virtist ekkert sérstaklega ánægður með frammistöðu dómara á meðan á leik stóð.
„Nei, það voru sérstaklega mikil átök. Það var lögð hér lína sem myndi ekki ganga heilan vetur í handbolta. Það var ekki brottvísun á Akureyri í fyrri hálfleik og það var ekki kláraður spjaldakvóti, það finnst mér vera athugunarefni fyrir sig. Við bara fengum ekki aðstöðu til að spila okkar leik, hvort sem það var útaf góðri vörn hjá Akureyri eða eitthvað annað þá var þetta niðurstaðan.“

Á vefnum fimmeinn.is er vídeóviðtal við Atla Hilmarsson og leikur grunur á að það sé einmitt áðurnefndur Birgir H. Stefánsson sem tekur viðtalið.

Atli: Spilum eins fast og dómarinn leyfir

Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar var sáttur með að byrja á sigri á gamla heimavellinum sínum.




Á sport.is ræðir Siguróli Magni Sigurðsson við línumanninn sterka, Halldór Loga Árnason og þjálfarana Atla og Einar.

Halldór Logi: Þetta small í dag

Halldór Logi, leikmaður Akureyri, átti frábæran leik er Akureyri sigraði topplið Aftureldingar en hann skoraði sjö mörk úr sjö skotum.

Atli Hilmarsson: Þetta var ein heild

Atli Hilmarsson, nýráðinn þjálfari Akureyringa, var ánægður með sigurinn og segir sig hafa mjög gott lið í höndunum.

Einar Andri: Fengum ekki að spila handbolta

Einar Andri, þjálfari Aftureldingar, var að vonum vonsvikinn með að tapa gegn Akureyringum og sagði sína menn ekki hafa fengið að spila handbolta.

Myndband úr fréttum RÚV
Loks má geta þess að á vef RÚV er stutt myndband frá leiknum þar sem meðal annars má sjá atvikið þegar Elías Már fékk rauða spjaldið.



Afturelding er á toppi deildarinnar

4. nóvember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Afturelding – mótherjar okkar á fimmtudaginn

Eftir smá hlé í Olís-deildinni, sem hefur þó verið býsna viðburðaríkt hjá Akureyri Handboltafélagi, verður flautað til leiks á fimmtudagskvöldið þegar topplið deildarinnar, Afturelding kemur í heimsókn í Höllina. Það er óhætt að segja að Mosfellingar hafa heldur betur farið glæsilega af stað í deildinni en þeir léku í 1. deild á síðustu leiktíð eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni vorið 2013.

Mosfellingar unnu fyrstu sex leikina í deildinni, gerðu síðan jafntefli gegn Haukum en töpuðu býsna óvænt í síðustu umferð fyrir HK á heimavelli.

Lið Aftureldingar er að mestu skipað sömu leikmönnum og unnu 1. deildina í fyrra en vissulega hafa orðið nokkrar breytingar á liðinu síðan þá. Nýr þjálfari, Einar Andri Einarsson tók við liðinu í sumar, Einar er þó langt frá því að vera nýgræðingur í starfi því hann hefur þjálfað meistaraflokk FH undanfarin ár og því vanur að vera í toppbaráttu með sitt lið.


Einar Andri Einarsson þjálfari Aftureldingar. Myndir: Björgvin Franz fimmeinn.is

Uppistaðan í liði Aftureldingar eru ungir og fjölhæfir leikmenn en þeir fengu reynslubolta í sínar raðir í sumar þegar Jóhann Gunnar Einarsson tók fram skóna eftir eins árs hlé en Jóhann varð Íslandsmeistari með Fram vorið 2013. Annar reynslubolti, Pálmar Pétursson, marvörður tók sömuleiðis fram skóna á ný og gekk til liðs við Aftureldingu en Pálmar hefur meðal annars leikið með FH og Val. Frá Akureyri fengu þeir hornamanninn Gunnar Þórsson Malmquist en hann var í herbúðum Akureyrar síðasta tímabil.

Talandi um tengsl við Akureyri þá er gaman að geta þess að hægri hornamaður Aftureldingar, Árni Bragi Eyjólfsson er sonur Eyjólfs Guðmundssonar rektors Háskólans á Akureyri og því ekki ólíklegt að Eyjólfur mæti á leikinn á fimmtudaginn.


Árni Bragi Eyjólfsson


Gunnar Þórsson Malmquist

Einn af styrkleikum Aftureldingar er sterk liðsheild og markaskorun liðsins dreifist á marga leikmenn. Markaskorar þeirra það sem af er mótinu hafa verið sem hér segir:

Jóhann Gunnar Einarsson 36
Jóhann Jóhannsson 29
Örni Ingi Bjarkason 21
Elvar Ásgeirsson 19
Gunnar Þórsson 19
Pétur Júníusson 19
Árni Bragi Eyjólfsson 17
Böðvar Páll Ásgeirsson 16


Jóhann Gunnar Einarsson, Jóhann Jóhannsson og Örn Ingi Bjarkason

Öflugur varnarleikur hefur einkennt leik liðsins í vetur enda margir sterkir og hávaxnir menn þar á ferðinni. Þar fyrir aftan hafa markverðirnir Davíð Svansson og Pálmar Pétursson farið á kostum. Enda hefur liðið fengið á sig fæst mörk allra liða í deildinni eða 172.

Það er því ljóst að það verður við ramman reip að draga í Höllinni á fimmtudaginn, gestirnir telja sig örugglega þurfa að svara fyrir tapið gegn HK í síðasta leik og Akureyrarliðið sömuleiðis að sanna sig fyrir nýjum þjálfara og sýna stuðningsmönnum loks sitt rétta andlit.

Þess má geta að tveir af núverandi leikmönnum Akureyrar Handboltafélags hafa leikið með Aftureldingu en það eru þeir Sverre Andreas Jakobsson sem lék með Aftureldingu um tveggja ára skeið, tímabilin 2001-2002 og 2002-2003 og línumaðurinn Þrándur Gíslason sem einmitt kom til liðs við Akureyri frá Aftureldingu fyrir síðasta tímabil.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson