Heimasíðan
 Fréttir  -   Úrslit  -   Næstu leikir  -   Deildin

    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Brynjar og Patrekur létu að sér kveða í sókninni



17. mars 2017 - Akureyri handboltafélag skrifar

Vonbrigði á móti Selfossi - viðtöl

Það var mikil eftirvænting hjá Akureyringum að taka á móti Selfyssingum á fimmtudagskvöldið, með sigri hefði liðið spyrnt sér býsna vel frá botnsvæðinu, og raunar gilti það sama hjá Selfyssingum. Það voru einmitt gestirnir sem komu rétt stemdir í leikinn og virtust gjörsamlega ætla að ganga frá leiknum strax í upphafi.

Eftir að Igor kom heimamönnum yfir í 1-0 komu átta mörk í röð frá Selfyssingum og allt gekk upp hjá þeim á meðan leikur Akureyrar var í molum. Það þurfti að bíða í ellefu mínútur eftir öðru marki Akureyrar sem tókst í kjölfarið að lagfæra stöðuna dálítið. Brynjar Hólm Grétarsson kom með krafti inn í leikinn og með fjórða marki sínu minnkaði hann muninn í þrjú mörk, 9-12. En Selfyssingar héldu þó fjögurra marka forskoti, 11-15 í hálfleik.


Gangur fyrri hálfleiksins

Ekkert mark var skorað fyrstu fimm mínútur seinni hálfleiksins en Akureyri minnkaði muninn í tvö mörk, 14-16 og virtist vera að snúa leiknum sér í vil. En Selfyssingar svöruðu fyrir sig og juku forskotið í sex mörk, 15-21 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Þessar lokamínútur kviknaði á Akureyrarliðinu aftur og með harðfylgi minnkuðu þeir muninn niður í eitt mark, 24-25 en þá voru einungis 20 sekúndur eftir af leiknum. Selfyssingar stóðu af sér maður á mann Akureyrar og fengu opið færi á lokasekúndunni sem skilaði þeim lokamarkinu og þar með tveggja marka sigri 24-26 og bæði stigin dýrmætu sem voru í boði.


Gangur seinni hálfleiksins

Þessi hörmulega byrjun á leiknum gerði í raun út um leikinn líkt og heimaleikurinn gegn Fram í desember þá var liðið komið í of djúpan pytt til að ná að krafla sig upp þrátt fyrir hetjulega baráttu. Tomas Olason stóð svo sannarlega fyrir sínu í markinu og varði oft á tíðum frábærlega enda valinn maður leiksins í lokin.


Tomas Olason með mikilvæga vörslu í leiknum

Brynjar Hólm Grétarsson var ekki í byrjunarliðinu en kom af miklum krafti inn í sóknarleikinn með 6 mörk. Sama má segja um Patrek Stefánsson sem skoraði þrjú mörk og fiskaði þrjú vítaköst. Báðir nýkomnir til leiks eftir meiðslavanda.

Mörk Akureyrar: Brynjar Hólm Grétarsson 6, Mindaugas Dumcius 5, Igor Kopyshynskyi 3, Patrekur Stefánsson 3, Bergvin Þór Gíslason 2, Friðrik Svavarsson 2, Kristján Orri Jóhannsson 2 (bæði úr vítum)og Andri Snær Stefánsson 1 (úr víti).
Tomas eins og áður segir góður í markinu með 16 varin skot.

Mörk Selfoss: Elvar Örn Jónsson 10, Teitur Örn Einarsson 5 (3 úr vítum), Einar Sverrisson 4, Hergeir Grímsson 4, Guðni Ingvarsson 2 og Alexander Már Egan 1 mark.
Í markinu stóð Helgi Hlynsson og tók 10 skot flest úr opnum færum, þar á meðal vítakast.

Önnur úrslit í umferðinni voru ekki til að bæta hag Akureyrar en nú má segja að allir fjórir leikirnir sem eftir eru séu hálfgerðir bikarleikir þar sem ekkert nema sigur kemur til greina. Sá slagur hefst á sunnudaginn þegar liðið sækir topplið Hauka heim.

Viðtöl eftir leikinn

Það var Bjarni Jónasson sem fjallaði um leikinn af hálfu mbl.is og hann ræddi við gömlu félagana Andra Snæ Stefánsson og Stefán Árnason strax eftir leikinn:

Andri Snær: Algjört kjarkleysi af okkar hálfu

Fyrirliði Akureyringa, Andri Snær Stefánsson, var öllu brúnaþyngri en Stefán Árnason þegar hann gaf sig á tal við blaðamann eftir tap á heimavelli gegn Selfossi, 26:24. Akureyringar byrjuðu leikinn afar illa og voru lentir 6 mörkum undir eftir 15 mínútna leik. Aðspurður sagði Andri þetta um fyrri hálfleikinn:

„Það er erfitt að útskýra þetta upphaf okkar á leiknum öðruvísi, en að við erum bara algjörlega kjarklausir. Við mættum mjög tilbúnu Selfossliði, sem var bara einfaldlega miklu tilbúnara í slaginn en við. Þeir voru bara klárari í þetta frá upphafi,“ sagði Andri Snær við mbl.is.

Akureyringar sitja nú í 9. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir næsta liði. Andri sagði að sínir menn yrðu hreinlega girða sig í brók fyrir lokasprettinn í deildinni.
„Það er alveg ljóst að allir leikir í þessari deild eru mikilvægir. Við eigum fjóra mjög svo mikilvæga leiki eftir í deildinni og við verðum bara að sýna hvað í okkur býr og sýna meiri kjark og þor í þeim leikjum en við sýndum hér í kvöld. Þetta var hreinlega afhroð af okkar hálfu.“


Fyrirliðinn, Andri Snær hvetur sína menn áfram

Stefán Árnason: Dagsplanið að keyra á þá frá upphafi

Það var létt yfir Stefáni Árnasyni á bernskuslóðum þegar blaðamaður náði af honum tali eftir fallbaráttuslag í KA-heimilinu í kvöld en leiknum lauk með sigri Selfyssinga, 26:24. Selfyssingar byrjuðu leikinn af fítonskrafti og keyrðu hreinlega yfir Akureyringa í upphafi leiks.

„Við vorum búnir að ákveða það að mæta hér með mjög sókndjarfa nálgun á þennan leik, vera „aggressívir“ frá fyrstu mínútu og mæta þeim framarlega á vellinum. Við ætluðum að reyna að keyra á þá, ef við ynnum boltann, og það gekk vel í upphafi leiks. Við unnum marga bolta og uppskárum mörg ódýr mörk í kjölfarið. Það virkaði vel og gaf okkur gott veganesti.
Svo í seinni hálfleik spilum við gífurlega góða vörn, sex á móti sex, í raun mun betri vörn en í fyrri hálfleik. Mörkin sem þeir skora á okkur í seinni hálfleik voru mörk sem þeir skora þegar við erum manni færri. Þegar við náum að stilla upp í okkar varnarleik vorum við mjög öflugir. Þeir setja svo aukamann inn á í lokin og við fáum fullt af brottvísunum. Okkur tókst þó að sigla þessu í höfn, enda markvarslan hjá okkur til fyrirmyndar allan leikinn. Mér fannst við klókir undir lokin og það var eflaust það sem kláraði leikinn að lokum fyrir okkur.“

Spurður um framhaldið og þá baráttu sem framundan er, hafði Stefán þetta að segja:
„Við þurfum að taka tvo sigra í viðbót í þessum fjórum leikjum sem eftir eru. Við erum í baráttu fyrir lífi okkar áfram og á meðan liðin í kringum okkur eru að ná sér í stig verðum við að halda ótrauðir áfram þangað til yfir lýkur.“


Stefán Árnason tekur leikhlé

Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook

Efst á síðu

Umsjón og hönnun:
Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson