Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Jafntefli í seinasta leik - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2006-07

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla
Deild kvenna
Leikmenn meistarafl. kvenna




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - HK  27-27 (13-14)
DHL deild karla
KA-Heimilið
22. apríl 2007 klukkan: 16:00
Dómarar: Þorlákur Kjartansson og Valgeir Egill Ómarsson
Umfjöllun

Sá Gamli var hylltur fyrir leik og hefur sjaldan verið betri en gegn HK í gær





23. apríl 2007 - SÁ skrifar

Jafntefli í seinasta leik

Akureyri tók á móti HK í gær í seinasta leik tímabilsins. HK menn voru í séns á að vinna Íslandsmeistaratitilinn en til þess þurftu þeir fleiri stig en Valur í seinustu umferðinni. Akureyri sýndi flotta spilamennsku í leiknum og lauk leiknum með jafntefli 27-27 og Valur því Íslandsmeistari.

Akureyri kom á óvart og byrjaði á að taka tvo leikmenn HK úr umferð. Það gekk ekki alveg sem skildi þrátt fyrir að HK-menn ættu tiltiölulega erfitt að finna mörkin sín. Gestirnir fóru í 5-7 eftir 11 mínútna leik og fer þá Akureyri í 6-0 vörn. HK fer í þriggja marka mun en Akureyri komst svo alltaf nær og nær. Undir lok fyrri hálfleiks voru þeir búnir að ná að jafna 13-13 en HK skoraði seinasta mark hálfleiksins og staðan 13-14.

HK kom af krafti út úr búningsherbergjum og fór í 14-17. Akureyri kemur þá með frábæran leikkafla og fer 19-18 yfir. HK kemur til baka, skorar næstu þrjú mörk og fer í 19-21. Það forskot var ekki langlíft því Akureyri jafnar um hæl og kemst 24-22 yfir og svo aftur 26-23 þegar rúmar 5 mínútur voru eftir. Staðan orðin ansi vænleg en þá reka dómarar leiksins Goran Gusic útaf ranglega og drap það hreinlega leikinn fyrir okkar menn og vann eitt stig fyrir HK í þessum leik. Gestirnir skoruðu næstu þrjú mörk og jafna 26-26. Leiknum leik svo með 27-27 jafntefli eftir að Akureyri hefði átt tækifæri á að skora í seinustu sókninni.

Spilamennskan var flott í gær og leiðinlegt að taka ekki tvö stig þegar liðið leikur svona vel. Hins vegar var liðið slakt einum leikmanni færri og þessi fáránlegi brottrekstur á Goran það sem kom HK aftur inn í leikinn. Leikmenn Akureyrar börðust frábærlega og var í heildina bara gaman að sjá liðið. Varnarleikurinn var flottur þó það vantaði upp á markvörsluna. Í sókninni virtust menn vera farnir að leika betur saman en oft áður en það að gera jafntefli við næst besta lið landsins er ekki slakt.

Aigars Lazdins lék sinn seinasta leik á Íslandi í það minnsta en hann fer til Lettlands að þjálfa og til fjölskyldunnar. Sá Gamli lék stórkostlega í leiknum og þessi leikur frábær endir á ferli hans hérna heima. Hann sýndi í raun allt sem hann hefur verið að gera á þessum árum en útsjónarsemin og klókindin hafa aldrei verið meiri en það er bara ótrúlegt að sjá mann sem hefur hægst svona mikið á leika jafn vel og Aigars gerði í dag.

Lið Akureyrar sýndi það sem það getur í þessum leik, engin vafi er á því. Það er bara leiðinlegra að þeir skyldu ekki gera það oftar í vetur og enda einhverjum sætum ofar því liðið er klárlega með getu fyrir eitthvað af efstu fjórum sætunum. Menn verða nú að styrkja sig og fyrst og fremst ná að spila leikinn allar 60 mínúturnar.

Maður leiksins: Aigars Lazdins

Tengdar fréttir

Rúnar segir liðið ætla að spila um eitthvað á næsta ári

24. apríl 2007 - SÁ skrifar

Rúnar: Stefnan að vera í titilbaráttu

Heimasíðan tók viðtal við Rúnar Sigtryggsson þjálfara Akureyrar og spurði hann m.a. úti í tímabilið í heild sinni. Rúnar var nokkuð sáttur við árangur vetrarins en alls ekki með hvernig Akureyrarbær hefur staðið að málum gagnvart nýsameinaða liðinu.

SÁ: Varstu sáttur við seinasta leik tímabilsins?
Rúnar: Nei, ég hefði viljað vinna úr því sem komið var. Það veldur manni áhyggjum að þegar við erum að setja upp eitthvað í svona leik þar sem pressan er ekki á okkur heldur öll á andstæðingnum að við getum ekki haldið haus og gert hlutina eins og við eigum að gera þá.
Maður spyr sig spurninga hvort við þurfum ekki aðeins að fara að taka til í hausnum á nokkrum leikmönnum. Vegna þess að þegar við erum að leggja eitthvað upp og einn brýtur sig út úr því og veit ekki hvað er um að vera þá lítur þetta helvíti illa út.

SÁ: Varstu samt ánægður með spilamennsku liðsins?
Rúnar: Já, að hluta. Menn verða samt að hafa meiri trú á sjálfum sér og það þýðir ekkert að ætla alltaf að ýta ábyrgðinni yfir á næsta mann. Við verðum að halda áfram og spila á fullu gasi allan tímann. Ef menn fá færin þá verða menn að taka færin og þá menn klikki eða fái á sig ruðning annað slagið þá bara skiptir það ekki máli því menn verða að halda áfram alltaf á fullu og það er það sem vantar hjá okkur.

SÁ: Gamli Maðurinn lauk keppni um helgina, Aigars Lazdins...
Rúnar: Já, ég held að þeir sem yngri eru geta lært mikið af honum. Þetta er leikmaður sem er útbrunninn með skot af níu metrunum og svo framvegis en hann finnur alltaf samherjana sem eru í kringum sig og reynir að þá uppi og hann áttar sig alveg á því hverjir sínir styrkleikar eru. Það sem við þurfum að koma inn hjá leikmönnum sem eiga ekki sinn besta dag að það þýðir ekki að þú getir ekki spilað með liðinu. Þú verður að geta spilað fyrir hina.

SÁ: Nú er tímabilið búið og 5. sætið staðreynd, ertu sáttur við það?
Rúnar: Þegar við töluðum saman seinasta sumar þá var stefnan á að halda sér uppi. Ég var mjög ánægður með hvernig þetta þróaðist fram af áramótum og mér fannst virkilegur stígandi í þessu hjá liðinu. Þá missum við Kuzmins sem hafði eiginlega tekið rússíbanann með okkur, byrjaði mjög vel, fór alveg niður og var svo farinn að stjórna leik liðsins mjög vel. Við höfðum engan sem gat komið jafn sterkur inn og hann.
Einar Logi kom inn í febrúar og því miður þá bara fann hann sig ekki. Við vonuðumst til meira af honum en það er erfitt að koma inn á miðju tímabili.

SÁ: Ertu sammála því að liðið hafi oft getað mun betur en það sýndi í vetur á köflum?
Rúnar: Já ég er það en það er það sem við rekum okkur á líka að við vorum með nýtt lið og mér finnst að við höfum ekki haft neinn stuðning frá bænum eða bæjarbúum þannig lagað. Ég þakka reyndar þeim sem mæta og styðja okkur. Við höfum alltaf verið að berjast á móti straumnum og menn voru fljótir þegar illa fór að ganga eftir áramót að koma upp úr skotgröfunum. Strákarnir sýndu þó karakter að jarða það þá strax og þeir sýndu að það var margt í þá spunnið.

SÁ: Næsta ár?
Rúnar: Ég talaði um það seinasta sumar að fyrsta árið verður til þess að halda sér frá falli og á næsta ári ættum við að fara að spila meðal þeirra bestu. Það er bara stefnan að vera í titilbaráttu og til þess var farið í þessa sameiningu. Ég verð samt að hrósa þeim sem stóðu í kringum liðið, stjórn, ykkur, heimaleikjaráði og fleirum sem að þessu koma, þessi kjafni sem stendur næst liðinu stóð sig mjög vel. Ytri umgjöð, varðandi Akureyrarbæ þá, skilst mér að þeir hafi svikið nánast allt sem þeir lofuðu gagnvart liðinu og mér finnst þá bara frábært að menn gátu haldið haus þrátt fyrir það.


Aigars heldur heim til fjölskyldunnar á næstu dögum eftir alls fimm ár hér á Akureyri



23. apríl 2007 - SÁ skrifar

Aigars: Mér líkar vel á Akureyri

Heimasíðan tók Aigars Lazdins í viðtal eftir leikinn gegn HK en Sá Gamli var að leika sinn seinasta leik sinn á Akureyri eftir 5 ár hérna. Hann heldur til Lettlands þar sem fjölskyldan bíður hans en hann mun að öllum líkindum fara að þjálfa lið í heimalandinu.

SÁ: Varstu ánægður með leikinn gegn HK?
Aigars: Mér fannst við spila vel en ég er ekki nógu ánægður að gera bara jafntefli. Ég vildi auðvitað vinna síðasta leikinn en þrátt fyrir að leikurinn hafi endað með jafntefli þá spiluðum við mjög vel. Allir leikmenn spiluðu vel.

SÁ: Þetta var seinasti leikur þinn hérna á Akureyri, munt þú hætta alveg að leika handknattleik?
Aigars: Kannski mun ég spila örlítið í Lettlandi, þá einhverjar mínútur en alls ekki fyrir atvinnu. Ég fer að öllum líkindum að þjálfa lið í Lettlandi sem er núna í 2. sæti.

SÁ: Þú ert búinn að spila hérna á Akureyri í fimm ár samanlagt. Hvernig fannst þér að vera hér á Akureyri?
Aigars: Mér líkar vel hérna en það er eitt vandamál, konan mín og dóttir eru úti í Lettlandi. Það er alls ekki auðvelt. Mér líkar vel að vera hérna og þetta er góður bær en bærinn verður að styðja betur við Akureyrar liðið í handbolta. Ef það kæmi meiri peningur gæti liðið orðið þekkt um alla Evrópu eins og KA var fyrir nokkrum árum en mér finnst bærinn verða að hjálpa Akureyri.

SÁ: Hvað finnst þér um íslenskan handbolta eftir allan þennan tíma?
Aigars: Mér finnst íslenskur handbolti góður fyrir unga leikmenn og svo gamla leikmenn. Þeir í miðjunni held ég að verði að fara í atvinnumennsku að spila fyrir meiri pening því hér er ekki mikið borgað fyrir handbolta og menn verða að vinna allan daginn.

SÁ: Hvað finnst þér um tímabilið í heild sinni hjá Akureyri?
Aigars: Okkar markmið var að halda okkur uppi því þetta var fyrsta árið hjá liðinu og liðið hafði lítinn tíma í undirbúningi fyrir tímabilið en ég er ekki alveg nógu ánægður því mér finnst að við eigum að geta verið númer 4. Við áttum þrjá leiki heima og fjóra úti í seinustu sjö leikjunum, ef við hefðum fengið fjóra heimaleiki þá hefðum við klárlega farið í topp 4.

SÁ: Hvað þarf til að liðið berjist á toppnum?
Aigars: Mér finnst við vera með gott lið en við verðum að fá aðeins meira frá sumum en þetta er fínn hópur. Liðið þarf tíma og ég er bjartsýnn.

SÁ: Síðasta spurning, hvað ertu gamall í raun og veru?
Aigars: 27 ára gamall, í alvöru 27. Ég er að fara til Barcelona að spila í næstu viku!

Við þökkum Aigars kærlega fyrir spjallið og allt það sem hann hefur gefið til handboltans á Akureyri. Þetta er einn af betri leikmönnum sem spilað hefur á Akureyri en hann er ótrúlega vanmetinn leikmaður að mínu mati. Við Akureyringar kynntust honum einungis í seinni tíð þegar hægst hafði töluvert á honum en alltaf bætti hann það upp með klókindum og útsjónarsemi. Það er leiðinlegt að horfa á eftir honum fara en við fengum þó að sjá hversu vel hægt er að spila þessa íþrótt ef hausinn er til staðar.


Akureyri mun ekki leyfa HK að fagna Íslandsmeistaratitli í KA-Heimilinu, fylgist með

22. apríl 2007 - ÁS skrifar

Bein Lýsing: Akureyri - HK

Akureyri Handboltafélag leikur í dag sinn síðasta leik á tímabilinu. Það er ekki mikið í húfi fyrir liðið en auðvitað vilja menn kveðja með stæl. Andstæðingarnir eru lið HK sem verður að sigra leikinn til að geta orðið Íslandsmeistari. Það verður virkilega gaman að sjá hvernig liðin koma til leiks og má búast við hörkuleik. Heimasíðan býður upp á Beina Textalýsingu frá leiknum en hvetur þá sem geta að fara í KA-Heimilið og hvetja liðið til sigurs. Það er virkilega auðvelt að fylgjast með leiknum í gegnum Beinu Lýsinguna. Þá bendum við á að hægt er að sjá leikinn í beinni útsendingu á RÚV á sama tíma og leikur Vals og Hauka er sýndur.

Smellið hér til að opna Beina Lýsingu

Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist af sjálfu sér á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 16:10 en við hvetjum alla til að fylgjast vel með.


Sá Gamli leikur sinn seinasta leik á ferlinum á morgun

21. apríl 2007 - SÁ skrifar

Seinasti heimaleikur Akureyrar á morgun

Á morgun sunnudag fær Akureyri Handboltafélag HK-inga í heimsókn í seinustu umferð DHL-Deildarinnar. HK eru enn í möguleika á að verða Íslandsmeistarar og mæta því vafalaust klárir í leikinn á meðan Akureyri fer aldrei úr sínu 5. sæti. Leikurinn hefst klukkan 16:10 á morgun.

HK-ingar eru eins og áður kom fram í séns á að verða Íslandsmeistarar. Þeir eru jafnir Val að stigum á toppnum en Valsmenn hafa betri innbyrðisviðureignir núna þegar aðeins þessi seinasta umferð er eftir. HK þarf því að sigra og Valsmenn að misstíga sig svo HK verði meistari.

Lið HK hefur verið að leika afar vel í vetur og vel stjórnað að Miglius þjálfara sínum. Þeir leika öflugan sóknarleik og eru með líklega bestu vörn deildarinnar. Bakvið hana stendur Egidijus Petkevicius sem er að mínu mati besti markvörður deildarinnar. Landsliðsmaðurinn Valdimar Þórsson stjórnar sókn Kópavogsmanna og gerir það listavel en skot hans þarf ekkert að fara nánar í. Auk hans eru leikmenn eins og skyttan Augustas Strazdas og Sergey Petraytis á línunni ansi öflugir svo einhverjir séu nefndir.

Það er ljóst að við erum að fá topplið í KA-Heimilið á morgun og lið sem er jafnt efsta liði deildarinnar að stigum. HK-menn munu mæta gríðar stemmdir í þennan leik og ætla að vinna. Okkar menn verða að mæta að sama krafti en annars verða þeir kaffærðir svo um munar á eigin heimavelli. Þetta er seinasti leikur tímabilsins, og heimaleikur, og á engu að skipta þó maður hafi ekki að neinu að keppa. Það er klár krafa á okkar menn að klára þetta almennilega en þeir eiga vel að geta unnið þetta HK lið.

Heimasíðan hvetur Akureyringa sem og aðra að mæta og sjá seinasta handboltaleikinn á Akureyri í einhverja mánuði. Þetta verður magnað held ég.

Akureyri - HK, sunnudaginn 22. apríl klukkan 16:10 í KA-Heimilinu

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson