Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Sæt hefnd Akureyrar fyrir tapið í bikarnum - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2010-11

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Valur  23-20 (9-9)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
Fim 3. mars 2011 klukkan: 19:00
Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Valgeir Ómarsson, eftirlitsmaður er Helga Magnúsdóttir
Umfjöllun

Guðmund Hólmar var magnaður í seinni hálfleik í kvöld

3. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Sæt hefnd Akureyrar fyrir tapið í bikarnum

Akureyri náði fram hefndum gegn Valsmönnum eftir tapið í bikarnum á dögunum með því að leggja þá að velli í deildarleik í kvöld á heimavelli í N1-deild karla í handbolta. Akureyri vann með þremur mörkum, 23:20.

Hér á eftir fer umfjöllun Þrastar Ernis Viðarssonar blaðamanns Vikudags:

Bæði lið spiluðu skelfilegan sóknarbolta í fyrri hálfleik og voru markverðir beggja liða í aðalhlutverki.
Enginn var þó betri en Hlynur Morthens sem varði 19 skot í fyrri hálfleik í marki Vals. Hann hafði hins vegar hægar um sig í seinni hálfleik. Oddur Gretarsson og Guðmundur Hólmar helgason stigu upp í sóknarleik Akureyrar, Stefán Guðnason átti flotta innkomu í markið og norðanmenn fögnuðu innilega í leikslok.

Akureyri er því komið með átta stiga forystu í deildinni með 27 stig, en Valsmenn eru með 12 stig í sjötta sæti og eru sennilega úr leik í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Heimamenn byrjuðu leikinn skelfilega. Hlynur Morthens lokaði markinu hjá Val strax í byrjun en hann átti magnaðan leik í fyrri hálfleik með hvorki meira né minna en 19 skot varin. Akureyri skoraði ekki mark utan af velli fyrsta korterið, hreint ótrúlegt hjá toppliði deildarinnar og voru þeir heppnir að Valsmenn voru að spila álíka illa í sókninni.

Staðan eftir korters leik var 3:1 fyrir Valsmenn, sem segir allt um sóknartilburði liðanna í byrjun leiks. Fyrsta mark Akureyrar utan af velli kom á 16. mínútu og það gerði Bjarni Fritzson eftir hraðaupphlaup. Það mark virtist vekja leikmenn Akureyrar til lífsins og náðu norðanmenn fljótlega tveggja marka forystu, 5:3.

Sóknarleikurinn beggja liða skánaði þegar leið á hálfleikinn og í hálfleik stóðu leikar jafnir, 9:9.

Leikurinn var í járnum síðari hálfleik framan af og aldrei munaði meira einum til tveimur mörkum á liðinum. Staðan var 15:15 þegar hálfleikurinn var hálfnaður en Akureyri náði þriggja marka forystu, 20:17, þegar átta mínútur voru eftir. Hlynur Morthens hafði hægar um sig í marki Vals og Stefán Guðnason átti fína innkomu í mark Akureyrar um miðjan síðari hálfleikinn og varði 7 skot.

Oddur Gretarsson og Guðmundur Hólmar Helgason fóru á kostum í sóknarleik Akureyrar og báru hann uppi og sýndi Oddur m.a. ágætis takta í stöðu vinstri skyttu. Heimamenn náðu svo fimm marka forystu, 22:17, þegar fjórar mínútur voru eftir og sigurinn svo gott sem í höfn.

Valsmenn reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn og skiptu meðal annars Hlyni í markinu út fyrir Heiðar Þór Aðalsteinsson og spiluðu með sjö sóknarmenn þegar mínúta var eftir. Munurinn var hins vegar of mikill og lokatölur, 23:20.

Mörk Akureyrar: Guðmundur Hólmar Helgason 7, Bjarni Fritzson 6, Oddur Gretarsson 5, Heimir Örn Árnason 4, Daníel Einarsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 13, Stefán Guðnason 7.

Mörk Vals: Sturla Ásgeirsson 6 (3 úr vítum), Ernir Hrafn Arnarsson 4, Anton Rúnarsson 4, Valdimar Fannar Þórsson 1, Orri Freyr Gíslason 2, Finnur Ingi Stefánsson 1, Heiðar Þór Aðalsteinsson, Fannar Örn Þorbjörnsson 1.
Varin skot: Hlynur Morthens 24 (2 víti)

Í leikslok var Hlynur Mortens er valinn maður leiksins hjá Val og Guðmundur Hólmar Helgason maður leiksins hjá Akureyri og fengu báðir matarkörfu frá Norðlenska í viðurkenningarskyni.

Í kvöld fóru fram tveir aðrir leikir þar sem Afturelding sigraði Hauka og Selfyssingar gerðu góða ferð í Kópavoginn og unnu HK.

Staðan í deildinni eftir leiki kvöldsins er því þannig:
Nr. FélagLeikir  U  J  TMörkHlutfallStig-
1.  Akureyri161312461 : 4134827:5
2.  Fram15915480 : 4364419:11
3.  FH15915431 : 3953619:11
4.  HK>16907477 : 486-918:14
5.  Haukar16736417 : 410717:15
6.  Valur166010412 : 445-3312:20
7.  Afturelding164012406 : 442-368:24
8.  Selfoss162212447 : 504-576:26

Tengdar fréttir

Jákvæðni og samstaða geta gert kraftaverk

4. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Myndasyrpa frá deildarleik Akureyrar og Vals

Það er ekki að spyrja að Þóri Tryggvasyni sem er mættur með myndavélina á hverskyns íþróttaviðburði þar sem Akureyringar eru að berjast. Í kvöld var í ýmsu að snúast því eftir að hafa skotið nokkrum myndum á handboltann þá brá hann sér í Skautahöllina og myndaði þar Skautafélag Akureyrar fara með sigur yfir Skautafélagi Reykjavíkur.

Við sjáum hér svipmyndir úr Höllinni og neðst er hægt að skoða allar myndirnar.

Smelltu hér til að sjá allar myndir Þóris frá leiknum.

Einnig er umfjöllun og myndir frá leiknum á sport.is, smelltu hér til að skoða þær.


Stefán Guðnason var vinsæll meðal blaðamanna eftir leikinn

4. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir Valsleikinn?

Að venju tökum við saman viðtölin sem tekin voru við þjálfara og leikmenn liðanna. Eins og venjulega sjá menn hlutina ekki í sama ljósi. Valsmenn kenna lélegum sóknarleik sínum um ófarir sínar en þá mætti reyndar spyrja á móti hvort þeir hafi ekki bara einfaldlega mætt geysisterkri vörn sem þeir réðu hreinlega ekki við?

Atli Hilmarsson: Náðum að hefna ófaranna

„Við náðum að hefna fyrir ófarirnar í bikarslagnum og ég er mjög ánægður með að við séum komnir aftur á sigurbraut,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, í viðtali við Andra Yrkil Valsson, blaðamann mbl eftir að hans menn báru sigurorð af Val 23:20, í N1-deild karla.

„Við höfðum ekki áður tapað tveimur leikjum í röð svo það var nýtt fyrir okkur og þeim mun mikilvægara að koma til baka. Við vorum lengi í gang en mér fannst strákarnir vera rosalega einbeittir og það er gaman að upplifa svona baráttusigur.

Við spiluðum ágætis sóknarleik á köflum og sköpuðum okkur fín færi en klikkuðum mikið af dauðafærum þar sem Hlynur var mjög góður í markinu hjá þeim í fyrri hálfleik. Vörnin hélt sínu striki allan tímann og það er frábært að fá ekki meira en tuttugu mörk á sig á móti Val. Við eigum náttúrulega að skora meira en það er fyrst og fremst varnarleikurinn sem mér fannst frábær.“


Atli Hilmarsson hissa á einhverju í leiknum, kannski dómgæslunni?

Akureyri fékk viðurkenningu fyrir bestu umgjörð í kringum leiki í síðustu umferð N1-deildarinnar og Atli er mjög ánægður með stuðninginn sem hans menn hafa fengið í allan vetur.

„Við fengum flottan stuðning frá áhorfendum og þeir yfirgefa okkur svo sannarlega ekki þrátt fyrir tapið í bikarnum. Umgjörðin er mjög flott og það var gaman að fá viðurkenningu fyrir hana þar sem fólkið á það svo sannarlega skilið sem mætir á leikina og stendur á bak við okkur. Við erum ennþá efstir og nú geta hin liðin farið að tína stig af hvort öðru á meðan við þurfum að halda okkar striki. Það eru ennþá fimm leikir eftir svo við þurfum að halda einbeitingu og gera okkar besta til að ná í titil,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari toppliðs Akureyrar.

Stefán Guðnason: Röfl um litla breidd

Næstur á vegi Andra Yrkils var Stefán Guðnason markvörður Akureyrar sem átti flotta innkomu í markið:
„Það er ekki oft sem maður fær að koma inn á með Sveinbjörn fyrir framan sig og þetta er mjög gaman. Ég skildi ekki af hverju í ósköpunum hann vildi skipta sjálfum sér út af þar sem hann hafði átt mjög flottan leik og var búinn að vera einn af okkar bestu mönnum. En hann er alveg frábær persóna og við náum virkilega vel saman. Mér er slétt sama þótt ég spili ekki eina einustu mínútu nokkra leiki í röð svo framarlega sem við vinnum, það eru allir í þessu saman og það var mjög sætt að ná að hefna fyrir ófarirnar um síðustu helgi.


Stefán Guðnason hefur bæði hæðina og breiddina

Ég vil einnig koma því á framfæri að ég skil ekki röflið sem er í gangi um að við séum með litla breidd. Við erum með fjórtán leikmenn á skýrslu eins og önnur lið og erum efstir.“

Sturla Ásgeirsson: Hræðilegur sóknarleikur

Andri Yrkill Valsson ræddi sömuleiðis við Sturlu Ásgeirsson fyrirliða Vals:
„Það var fyrst og fremst hræðilegur sóknarleikur sem varð okkur að falli. „Sóknin var skelfileg nánast allan leikinn að frátöldum tíu eða fimmtán mínútum enda segir markatalan það skýrt hvað við vorum lélegir sóknarlega. Hlynur varði í kringum 25 skot í markinu og að geta ekki nýtt sér það með hraðaupphlaupum og skynsemi í sókninni er með ólíkindum. Við létum boltann ekki fljóta nægilega mikið og létum þá stöðva okkur alltof oft svo við komum okkur ekki í færi. Við skutum úr erfiðum stöðum og þeir náðu að nýta sér vandræðin hjá okkur. Þeir eru með frábæra menn í hraðaupphlaupum sem þeir nýttu vel svo heilt yfir var þetta ekki nægilega gott hjá okkur,“ sagði Sturla.


Sturla í öruggum höndum Hödda og Bjarna Fritzsonar

Valsmenn eru í mikilli baráttu um að ná einu af fjórum efstu sætunum sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. „Við þurfum að reyna að halda okkar striki og vinna alla leiki sem eftir eru ef við ætlum að eiga möguleika að ná í úrslitakeppnina. En ég veit það ekki, við gætum þurft einhvers konar kraftaverk,“ sagði Sturla Ásgeirsson, fyrirliðið Vals, eftir tapið á Akureyri í kvöld.

Óskar Bjarni: Bikarþreyta í okkur

Andri Yrkill hélt áfram og spjallaði við Óskar Bjarna Óskarsson, þjálfara Vals:
„Það var einhver bikarþreyta í okkur en ég hélt alltaf að við mundum ná að hrista það af okkur. „Hlynur var ótrúlegur í markinu og það er óskiljanlegt að við höfum ekki verið yfir í hálfleik miðað við hans spilamennsku. Við áttum alla möguleika að taka leikinn í okkar hendur í síðari hálfleik en við nýttum okkar færi illa og það fer svolítið á mig hvað ég var ragur að skipta mönnum inn, ég var alltaf að bíða eftir að við mundum hrökkva í gang. En það gerðist ekki svo ég klúðraði því. En það má segja að heilt yfir hafi sóknarleikurinn orðið okkur að falli. Við vorum ekki að taka nægilega vel af skarið í sókninni og þegar leikurinn spilast svona jafnt skiptir það öllu máli.“


Óskar Bjarni og Heimir Ríkharðsson hugsi yfir stöðunni

Óskar Bjarni var ekki ánægður með dómgæsluna í leiknum og fannst dómararnir halla mjög á sitt lið. „Mér fannst dómgæslan langt frá því að vera góð í leiknum þótt ég þurfi kannski að skoða einstaka atvik betur. Það er erfitt að vinna leiki þegar andstæðingurinn fær að spila miklu frjálslegra en við. Mér fannst höndin koma alltof fljótt upp á okkur og við fengum á okkur ódýr aukaköst. Heilt yfir fannst mér ekki vera neitt samræmi í dómgæslunni svo þetta var ekki góður dagur fyrir dómarana. En á móti var þetta heldur ekki góður dagur fyrir okkur, en þannig er það bara í boltanum,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari bikarmeistara Vals.

Stefán Guðnason: Þyngdaraflið vinnur með mér

Hjalti Þór Hreinsson blaðamaður visir.is og Fréttablaðsins tók vígreifan Stefán Guðnason tali eftir leikinn en Stefán var einn af þremur leikmönnum sem kláruðu Val í leiknum. Stefán varði vel undir lok leiksins en hinir mennirnir tveir eru Oddur Gretarsson og Guðmundur Hólmar Helgason.

„Ég er bara svo snöggur, þyngdaraflið vinnur með mér,“ sagði Stefán um tvær markvörslur þar sem hann sat á gólfinu og greip boltann. Stefán var hinn hressasti en hann hrósaði kollega sínum Hlyni Morthens í hástert.

„Við vorum að fá góð færi í upphafi leiks en Hlynur var ótrúlegur. Hvar er lyfjaeftirlitið núna?“ grínaðist Stefán. „Hann er að verja eins og vitleysingur. Við skjótum fimmtán sinnum og skorum einu sinni fyrsta korterið.

Þetta dró aðeins úr okkur tennurnar. Við lentum í basli einar 45 mínútur en við komumst í gírinn þegar korter er eftir,“ sagði Stefán og Bjarni Fritzson skaut inn: „Segðu honum að við höfum tekið þetta á breiddinni!“ – „Ég var að koma að því!“ svaraði Stefán og hélt svo áfram.

„Við tókum þetta á breiddinni. Margir segja að við séum með lítinn hóp en það eru margir hérna sem hafa komið inn og staðið sig mjög vel. Við erum greinilega í betra formi en aðrir,“ sagði Stefán kaldhæðinn.

Hann viðurkenndi að hefndin væri sæt.

„Ég vildi rústa þessum leik. En Valur hefur verið að spila mjög vel og það var bara ekki hægt. Vörnin hjá þeim var góð en ég vil meina að við séum betri en þeir,“ sagði Stefán að lokum.

Atli Hilmarsson: Þurfum að halda okkur á tánum

„Hefndin er sæt. Það er fyrir öllu að vera áfram í efsta sætinu. Leikurinn var kannski ekki fallegur, en vörnin okkar var góð. Að fá á sig 20 mörk er frábært. Ég var ekkert hræddur þar sem við vorum að fá góð færi, hann gat ekki varið svona allan leikinn. Það kom enda á daginn að hann varði varla skot í seinni hálfleik. Vörnin okkar hélt vel og Guðmundur og Oddur stigu vel upp í lokin. Við eigum fimm leiki eftir og þurfum að halda okkur á tánum en tveggja vikna pásan núna er kærkomin,“ sagði Atli.

Hlynur Morthens: Mjög svekktir að tapa

„Sóknarleikurinn varð okkur að falli“, sagði Hlynur í spjalli við Hjalta Þór Hreinsson. „Vörnin var allt í lagi en ég veit ekki hvað var í gangi fram á við. Líklega ekkert. Þeir brutu tempóið okkar í ræmur og stoppuðu allt. Bæði lið voru þreytt, leikurinn hægur og eflaust ekki ýkja skemmtilegur. Við erum mjög svekktir að tapa, við nýttum þetta ekki nógu vel. Við máttum ekkert við því að tapa fleiri stigum,“ sagði Hlynur, sem varði ótrúlega í fyrri hálfleiknum. „Þetta var orðið hálf hlægilegt. Þegar maður dettur í gírinn þá bara ver maður allt. Að sama skapi er svekkjandi að sóknin skuli ekki hafa fylgt þessu eftir,“ sagði Hlynur.


Hlynur ekki árennilegur í markinu

Óskar Bjarni: Skandall að nýta ekki markvörsluna

Næstur á vegi Hjalta Þórs var Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals sem var fremur óhress með niðurstöðu leiksins og vildi meina að markvarsla Hlyns Morthens hafi átt að koma liðinu í góða stöðu. Sókn liðsins hafi bara verið svo léleg að það gekk ekki eftir.
Þetta er kórrétt hjá Óskari. Hlynur varði frábærlega í fyrri hálfleik í 23-20 tapinu gegn Akureyri í kvöld en samt var staðan 9-9 í hálfleik.

„Það er skandall að það hafi verið jafnt í hálfleik. Við áttum að vera þremur eða fjórum mörkum yfir. Hann datt aðeins niður í seinni hálfleiknum, eðlilega, en sóknin var bara léleg.

Akureyringar risu upp í lokin. Lykilmenn beggja liða voru þreyttir. Við misstum þetta frá okkur í yfirtölunni í seinni hálfleik. Bæði lið spiluðu lélega sókn en góðar varnir,“ sagði Óskar sem var ekki ánægður með dómgæsluna.

„Mér fannst dómgæslan léleg, höndin kom snemma upp á okkur og þeir fengu ódýr aukaköst. Þegar þeir ráku útaf, sem þeir áttu að gera mun oftar hjá þeim, hentu þeir okkur líka útaf í næstu sókn fyrir einhver smáræði. Ég á þó eftir að skoða þetta betur. Dómgæslan lagaðist í seinni hálfleik en það er varla hægt að kvarta þegar sóknin var svona léleg,“ sagði Óskar.

Stefán Guðnason: Nýti tækifærið þegar það gefst

Loks eru hér viðtöl Þrastar Ernis Viðarssonar á Vikudegi en hann ræddi við Stefán Guðnason og Valdimar Fannar Þórsson
„Maður fær svo sjaldan eitthvað að gera þannig að það er um að gera að nýta það þegar tækifæri gefst. Það kom mér á óvart að Bubbi (Sveinbjörn) skipti sér útaf þar sem hann var búinn að spila vel. Hann er bara svo klikkaður að maður má alltaf eiga von á þessu,“ segir Stefán í léttum tón.

„Þetta var svakalega sætt. Það er rétt svo farið að glitta í tennurnar á mér núna, maður er búinn að vera grautfúll síðan eftir bikarleikinn. Við vorum lengi í gang og ekki að spila vel en við sýndum það að þetta var slys á laugardaginn í bikarnum. Það eru tveir titlar eftir og við ætlum að taka þá báða,“ sagði Stefán.

Valdimar Fannar: Dómgæslan skandall

Valdimar Fannar Þórsson leikmaður Vals var fámáll í leikslok í spjalli við Vikudag og var ósáttur við dómgæsluna í leiknum.
„Ég er bara gáttaður. Það var leyft mikið í þessum leik og mér fannst dómgæslan vera skandall. Sóknarleikurinn var slakur en frábærir markmenn á báðum endum vallarins. Ég veit ekki hvað ég á að segja, tvö góð lið og tveir slakir dómarar,“ sagði Valdimar.


Valdimar átti ekki séns í Bjarna Fritzson í þessu hraðaupphlaupi



Fyllum Höllina og sýnum að við erum bestu áhorfendur landsins

3. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Akureyri – Valur í beinni textalýsingu

Í kvöld verður fram haldið baráttu Akureyrar og Vals en leikur dagsins er liður í N1 deildinni. Það má búast við þrumustemmingu á vellinum, Akureyringar mæta brjálaðir til leiks eftir tapið í bikarkeppninni á laugardaginn en Valur ætlar klárlega að reyna bæta stöðu sína í deildinni.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 og að sjálfsögðu vonumst við til að bæjarbúar flykkist í Höllina og styðji sína menn til sigurs, svörtu bolirnir og lúðrarnir hleypa klárlega fjöri í mannskapinn.

Fyrir þá stuðningsmenn sem ekki eiga heimangengt bendum við á beina textalýsingu hér á heimasíðunni. Eins og vant er þá opnast hún í sérstökum glugga og uppfærist sjálfvirkt með 15 sekúndna millibili.

Smelltu hér til að fylgjast með textalýsingunni!




Þetta verður trúlega síðasta viðureign okkar við Val á tímabilinu

2. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Mikilvægur leikur gegn Val á fimmtudaginn

Það eru engir aðrir en nýkrýndir bikarmeistarar Vals sem mæta í Íþróttahöllina á fimmtudaginn. Það þarf ekki að hafa mörg orð um síðustu viðureign liðanna en það er alveg klárt að Akureyrarliðið mætir af fullum krafti í leikinn enda strákarnir staðráðnir í að bæta fyrir frammistöðuna í bikarúrslitaleiknum.

Liðin hafa mæst tvisvar í deildinni í vetur og í bæði skiptin sigraði Akureyrarliðið. Valsmenn sýndu það hins vegar á laugardaginn að þeir eru stórhættulegir og því brýnum við hina frábæru stuðningsmenn Akureyrar að mæta galvaskir og standa á bak við sitt lið með sama glæsibrag og þeir gerðu í Laugardalshöllinni um síðustu helgi.

Mætum öll í svörtu bolunum með alla lúðrana og látum duglega í okkur heyra.



Við þekkjum orðið vel til Valsmanna en liðin mættust hér í Höllinni 3. febrúar og fyrir þann leik fórum við lauslega yfir leikmannahópinn. Smelltu hér til að skoða þá kynningu.

Leikurinn á fimmtudaginn hefst klukkan 19:00 í Íþróttahöllinni.
br />

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson