Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 FH vann fyrsta leikinn eftir spennuþrungnar lokasekúndur - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson. Eftirlitsdómari Kristján Halldórsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Ekki allir sáttir við úrslitin
27. apríl 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl við leikmenn eftir fyrsta leik úrslitanna
Eins og gefur að skilja voru Akureyringar hundsvekktir í lok leiks þegar þeir voru í viðtölum við fjölmiðlamenn. Dramatík lokasekúndnanna sat í mönnum og þá ekki síst brottvísun Guðmundar Hólmars enda verður mönnum tíðrætt um þann dóm og yfirvofandi leikbann sem ýmsir sáu þá fram á.
Andri Yrkill Valsson blaðamaður Morgunblaðsins á fyrsta skammt viðtalanna:
Oddur Gretarsson: Gríðarleg orka í að elta þá
„Það tekur gríðarlega orku að elta andstæðinginn allan leikinn eins og við þurftum að gera í þessum leik, en við hættum aldrei og vorum nálægt því að koma leiknum í framlengingu,“ sagði Oddur Gretarsson, hornamaður Akureyrar, eftir ósigurinn gegn FH.
„Það skipti sköpum að við fengum þetta fáránlega rauða spjald undir lokin. Það skipti miklu fyrir framhaldið en þeir fengu galopið færi þar sem við vorum fámennir í vörninni og því fór sem fór. Það var mikill vendipunktur en við getum auðvitað sjálfum okkur um kennt þar sem sóknarleikurinn náði sér aldrei á strik, en það er auðvitað alltaf svekkjandi að tapa á síðustu sekúndunum. En það þýðir ekki að sitja við þetta tap. Við munum bara stilla okkur saman og koma einbeittir til leiks á föstudaginn enda er það alveg nýr leikur.“
Oddur skorar í leiknum
Heimir Örn: Spiluðum einfaldlega illa
„Þetta var alls ekki nógu gott hjá okkur,“ sagði Heimir Örn Árnason, leikmaður Akureyrar, en hann var fámáll eftir ósigurinn gegn FH, 21:22, í fyrsta leika liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld.
„Við spiluðum einfaldlega spila illa og náðum okkur aldrei á strik, en þrátt fyrir það vorum við grimmilega nálægt þessu. Við nýttum færi okkar illa. Daníel má eiga það að hann varði oft mjög vel en við vorum samt oft að skjóta alveg hrikalega illa og það drap okkur í þessum leik.“
Heimir kominn í gegnum FH vörnina
Akureyringar virtust vera svolítið taugaspenntir í byrjun leiks en Heimir vildi ekki fara út í þá sálma. Hann kenndi þó ekki undirbúningnum um. „Nei það var ekkert að undirbúningnum fyrir leikinn, en ég ætla ekki að fara út í þetta. Þeir áttu þetta einfaldlega skilið.“
FH-ingar tryggðu sér sigurinn með marki á lokasekúndunni, en örskömmu áður hafði Guðmundur H. Helgason fengið beint rautt spjald fyrir brot. Heimir var orðlaus yfir þeirri ákvörðun. „Mér finnst þetta vægast sagt alveg fáránlegt rautt spjald. Þar sem ég er nú í dómgæslunni sjálfur þá finnst mér að menn ættu að meta þetta betur. Þetta var vissulega brot og ef til vill tveggja mínútna brottvísun, en þó langt frá því að vera gróft. Það er rosalegt einvígi á milli frábærra liða og svo eru menn útilokaðir fyrir svona saklaust brot.“
Heimir segir að liðið muni mæta einbeitt til leiks þegar liðin mætast öðru sinni næstkomandi föstudag fyrir sunnan. „Já, við gerum það. Þetta verður hörku einvígi, það er ekki spurning. Við ætlum ekki að gefast upp núna, það þýðir ekki,“ sagði Heimir.
Sveinbjörn Pétursson: Gerist ekki sárara
Það gerist ekki sárara en að tapa svona, en við verðum að læra af þessum leik,“ sagði Sveinbjörn Pétursson markvörður Akureyrar eftir naumt tap gegn FH fyrir norðan í kvöld. FH gerði sigurmarkið á lokasekúndunni. En Sveinbjörn lagði áherslu á að einvígið væri rétt að byrja. „Við mætum tvíefldir til leiks á föstudaginn,“ sagði markvörðurinn. Sjá vídeóviðtal
Sveinbjörn ráðfærir sig við Stefán Guðnason
.
Atli Hilmarsson: „Báðu mig að lesa reglurnar“
Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar var vonsvikinn eftir tapið gegn FH í kvöld en ánægður með að leikurinn skyldi vera í járnum þótt hans menn sýndu ekki sínar bestu hliðar. Og hann var óhress með rauða spjaldið sem Guðmundur Hólmar fékk í lokin. „Mér fannst þetta ekki mjög gróft brot en dómararnir voru vissir í sinni sök - og báðu mig að lesa reglurnar,“ sagði Atli við Fréttavef Morgunblaðsins. Sjá vídeóviðtal.
Guðmundur fær að sjá rauða spjaldið
Hjalti Þór Hreinsson á Fréttablaðinu og visir.is á nokkur viðtöl einnig:
Heimir Örn: Tökum þetta á föstudaginn
Akureyringar voru virkilega óánægðir með dómara leiksins undir lokin. „Þetta er rosalega stór ákvörðun sem breytir öllu. Þetta á að heita einhver regla en það verður að meta leikinn og aðstæður, hvað leikmaðurinn hefur tekið mörg skref, hvar hann er og svo framvegis. Hann var ekki rifinn niður í neinu dauðafæri,“ sagði Heimir Örn.
„En þetta er ekkert flókið. Við spiluðum fína vörn eins og yfirleitt og tókum skytturnar sérstaklega vel. Þó opnuðust hornin og sá í því hægra átti sennilega leik lífs síns. Það verður ekki af honum tekið. En svona er þetta bara, nú er það bara bólgueyðandi stíll, ísbað, og svo tökum við þetta á föstudaginn,“ sagði Heimir.
Þröstur Ernir Viðarsson á Vikudegi ræddi við Heimi Örn og Baldvin Þorsteinsson eftir leikinn:
Heimir: Áttum ekki mikið skilið úr þessum leik
Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar var ekki hressasti maðurinn á svæðinu í Höllinni á Akureyri eftir leikinn „Við áttum bara ekki mikið skilið úr þessum leik. Þeir voru bara betri en við í kvöld, ég verð bara að viðurkenna það,” sagði Heimir í leikslok.
„Við fenguð tvö eða þrjú færi til þess að komast marki yfir og hefðum ekki þurft meira en það. Hefðum við náð að yfirvinna þann þröskuld að þá hefðum við örugglega náð að klára þetta. Við fengum dauðafæri á línu, horni og svo fékk ég dauðafæri líka. Hann var hrikalegur erfiður í markinu hjá FH í kvöld og varði þetta allt,” sagði Heimir en Daníel Freyr Andrésson átti stórleik í marki FH með 19 skot varin.
„Við vorum rosalega taktlausir í byrjun og alltof margir rólegir í sókninni. Við áttum bara ekki góðan dag,” sagði Heimir. Erfitt verkefni býður Akureyringa á föstudaginn kemur, er liðin mætast í Kaplakrika í öðrum leik liðanna. Það er ljóst að ýmislegt þarf að laga í leik Akureyrar ætli liðið sér eiga möguleika gegn FH á þeirra heimavelli en vinni FH þann leik eru þeir með pálmann í höndunum. Það er skarð fyrir skildi að Guðmundur Hólmar Helgason verður í leikbanni í næsta leik vegna rauða spjaldsins sem hann fékk á lokamínútunum í kvöld.
Aðspurður hvort ekki verði erfitt að rífa liðið upp fyrir næsta leik eftir svona tap á heimavelli segir Heimir: „Að sjálfsögðu verður það erfitt en ég ætla bara að vona að allir leikirnir verði svona jafnir og þetta detti okkar megin næst. Þetta er langt frá því að vera búið og við eigum alltaf eftir að koma aftur hingað. Það er engin spurning að við eigum eftir að bíta frá okkur og mætum klárir á föstudaginn,” sagði Heimir.
Baldvin Þorsteinsson: Reikna með að koma tvisvar aftur norður
Baldvin Þorsteinsson, einn af Akureyringunum í liði FH, var að vonum sáttur í leikslok. „Þetta var gríðarlega sætt. Þetta eru tvö mjög jöfn lið og þetta féll okkar megin í kvöld. Svona er þetta bara. Þetta er hins vegar bara rétt að byrja og ég reikna fastlega með að þurfa koma hingað tvisvar aftur. Þó við höfum alltaf verið skrefinu framar í kvöld að þá náðum við ekki að hrista þá af okkur og við bara rétt svo héngum á þessu. Ég hefði viljað sjá okkur gera út um leikinn fyrr en Akureyringarnir eru bara góðir, börðust eins og hundar og komu á óvart með Odd í skyttunni,“ sagði Baldvin, en hornamaðurinn Oddur Gretarsson sýndi fína takta í skyttuhlutverkinu í kvöld og skoraði nokkur góð mörk.
Baldvin hlustar á fyrilestur Hlyns dómara í leiknum
„Þetta eru bara jöfn lið og ég er ekkert hissa á þetta hafi ráðist á lokasekúndunum. Við bíðum bara spenntir eftir föstudeginum og það verður gott að spila á heimavelli,“ sagði Baldvin.
Þá er runninn upp fyrsti leikdagur í viðureign Akureyrar og FH um Íslandsmeistaratitilinn 2011. Leikurinn hefst klukkan 19:30 í Íþróttahöllinni og rétt að benda fólki á að koma tímanlega því reikna má með verulegum fjölda áhorfenda. Höllin verður opnuð klukkan 18:45 og hefst miðasalan þá við innganginn.
Ekki er vitað annað en að bæði lið stilli upp sínum sterkasta mannskap og eftirvænting leikmanna ekki minni en stuðningsmanna. Við bjóðum sérstaklega velkomna til leiks Akureyringana, Ásbjörn Friðriksson og Baldvin Þorsteinsson sem hafa verið lykilmenn í FH liðinu í vetur. En FH liðið hefur verið gríðarlega öflugt á lokakafla N1 deildarinnar og ljóst að það þarf að hafa góðar gætur á öllum leikmönnum, ekki síst stórskyttunum Ólafi Guðmundssyni og Ólafi Gústafssyni.
Þetta eru tvímælalaust tvö bestu lið landsins þannig að það verður sannkölluð veisla í Íþróttahöllinni í kvöld sem enginn ætti að missa af.
Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt er bent á að RÚV ætlar að sýna leikinn beint í sjónvarpinu og við hér á heimasíðunni verðum með beina textalýsingu frá leiknum. Smelltu hér til að fylgjast með textalýsingunni.
Þetta verða tvímælalaust frábærar viðureignir toppliða N1 deildarinnar
23. apríl 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðureignir Akureyrar og FH í vetur
Í upphafi keppnistímabilsins var birt spá forráðamanna og fyrirliða liðanna í N1 deildinni og ekki úr vegi að rifja hana upp svo og lokastöðuna í deildinni:
1. Akureyri 2. FH 3. Fram 4. HK 5. Haukar 6. Valur 7. Afturelding 8. Selfoss
Þess ber að geta að mest var hægt að fá 240 stig.
Eins og sjá má þá gengu spádómarnir engan veginn eftir og ekkert af liðunum hafnaði í því sæti sem spáin eignaði þeim. Bæði Akureyri og HK sneru hressilega á spádómana og enduðu tveim sætum ofar en þeim var spáð.
Nú er hinsvegar komið að lokabaráttu Akureyrar og FH um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn, fyrsti leikur úrslitarimmunnar er á þriðjudagskvöldið klukkan 19:30 í Íþróttahöllinni. Liðin hafa mæst nokkrum sinnum í vetur og viðbúið að báðir aðilar séu búnir að kortleggja hvorn annan býsna vel.
Fyrsta viðureigninLiðin mættust fyrst í 7. umferð deildarinnar þann 20. nóvember í Kaplakrika. Akureyrarliðið kom, sá og sigraði með miklum yfirburðum 25-33 eftir að hafa leitt með tveim mörkum í hálfleik 13-15. Akureyrarliðið átti hreint frábæran seinni hálfleik, líklega þann besta í sögu félagsins en hér er hægt að lesa umfjöllun um leikinn.
Önnur viðureigninLiðin mættust næst í úrslitaleik deildarbikarsins þann 28. desember og var leikið í Hafnarfirði. Akureyri leiddi þann leik lengst af en á lokamínútunum tókst FH að síga framúr og hirtu bikarinn að lokum en leiknum lauk með sigri þeirra 29-26. Lesa umfjöllun um leikinn.
Þriðja viðureigninÍ febrúar kom upp sú sérkennilega staða að liðin mættust þrisvar á átta dögum. Þann 14. febrúar mættust liðin í undanúrslitum Eimskipsbikarsins og var leikið hér í Höllinni fyrir fullu húsi. Eftir töluverðar sviptingar fór Akureyri með þriggja marka sigur 23-20 og komst þar með í úrslitaleikinn. Lesa umfjöllun um leikinn.
Fjórða viðureigninAðeins þrem dögum seinna mættust liðin aftur á sama stað en sá leikur tilheyrði 14. umferð N1 deildarinnar. Kenningin segir að þegar lið mætast með þessum hætti í bikar og deild þá snúist dæmið ávallt við, enginn vinni tvo slíka leiki í röð. En Akureyri afsannaði þá kenningu með því að vinna eins marks sigur 25-24 í hádramatískum leik þar sem Sveinbjörn Pétursson tryggði sigurinn með ótrúlegri markvörslu á lokasekúndum leiksins. Lesa umfjöllun um leikinn.
Fimmta viðureigninÞriðji leikurinn í þessum þríleik var síðan í Kaplakrika þann 21. febrúar og þar náði FH hefndum og unnu sjö marka sigur 30-23. Segja má að Akureyrarliðið hafi ekki leikið af sínum vanalega krafti í þessum leik á meðan FH liðið þurfti heldur betur að sanna sig eftir töpin tvö þar áður. Lesa umfjöllun um leikinn.
En úrslit þessara fyrri leikja segja ósköp lítið um það sem framundan er, staðan er 0-0 og það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki hampar Íslandsmeistaratitlinum. Líkt og svo oft áður þá þarf sameiginlegt átak leikmanna og stuðningsmanna til að knýja fram hagstæð úrslit. Með troðfulla höll af öflugum stuðningsmönnum eru okkur allir vegir færir, ef einhverntíma var ástæða til að koma á leik þá er það núna!