Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Mikilvægur sigur á HK í kvöld - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2011-12

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - HK  31-28 (12-14)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
Fim 8. mars 2012 klukkan: 19:00
Dómarar: Arnar Sigurjónsson og Svavar Ó Pétursson. Eftirlitsmaður Kristján Halldórsson
Umfjöllun

Heimir, Bjarni og Geir áttu frábærarn leik í kvöld





8. mars 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Mikilvægur sigur á HK í kvöld

Það var heldur betur stuð í Íþróttahöllinni í kvöld þegar Akureyri tók á móti HK. Fyrir leikinn var HK í 3. sæti deildarinnar einu stigi á undan Akureyri sem var í 4. sætinu. Heimir Örn Árnason fór fyrir sínum mönnum í byrjun og skoraði tvö af fyrstu þremur mörkum liðsins en jafnt var á öllum tölum upp í 3-3. Í kjölfarið kom góður kafli HK eða öllu heldur slakur kafli hjá Akureyri og HK náði fjögurra marka forystu 4-8.

Akureyri með Bjarna Fritzson fremstan í flokki gaf þó ekkert eftir og jafnaði í stöðunni 9-9. HK náði í kjölfarið tveggja marka forystu og hélt henni til leikhlés, staðan þá 12-14.

Fyrri hálfleikurinn var ekki nægilega vel leikinn af hálfu Akureyrar, það vantaði festu í sóknina sem varð til þess að HK fékk fjölmörg hraðaupphlaupsmörk. Vörnin var heldur ekki nógu grimm og í kjölfarið átti Sveinbjörn ekki sinn besta leik, aðeins fimm varin skot í fyrri hálfleik

En það hefur greinilega verið farið vel yfir málin í hálfleik því það virtist vera allt annað lið sem hóf seinni hálfleikinn. Það tók ekki nema tvær og hálfa mínútu að jafna leikinn í 15-15 og í kjölfarið að ná tveggja marka forystu 17-15. HK jafnaði og þannig gekk leikurinn næstu mínúturog liðin skiptust á að hafa forystuna en þó jafnt á flestum tölum upp í 21-21.

En þá skildu líka leiðir, Heimir, Bjarni og Geir sáu um næstu þrjú mörk leiksins og staðan orðin vænleg 24-21. Munurinn varð fjögur mörk 26-22 þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Þetta varð of mikill munur fyrir HK sem náðu reynar að klóra í bakkann og minnka muninn í tvö mörk 27-25 en Geir Guðmundsson var atkvæðamikill á lokasprettinum og fóru leikar svo að Akureyri vann sannfærandi að lokum 31-28 og liðin höfðu þar með sætaskipti, Akureyri fór í 3. sætið með 22 stig en HK í það fjórða einu stigi á eftir.

Seinni hálfleikur var frábær hjá Akureyrarliðinu hvar sem á var litið. Heimir Örn Árnason var valinn besti maður liðsins en Tandri Már Konráðsson hjá HK og fengu báðir matarkörfu frá Norðlenska að launum.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 9 (3 úr vítum), Geir Guðmundsson 8, Heimir Örn Árason 5, Guðmundur Hólmar Helgason 3 en Bergvin Gíslason, Hörður Fannar Sigþórsson og Oddur Gretarsson 2 mörk hver.
Sveinbjörn stóð í markinu allan tímann og varði 17 skot, þar af 12 í seinni hálfleik.

Mörk HK: Bjarki Már Elísson 8 (2 úr vítum), Leó Snær Pétursson 5, Tandri Már Konráðsson 5, Atli Ævar Ingólfsson 4, Ólafur Bjarki Ragnarsson 3, Atli Karl Backman, Bjarki Már Gunnarsson og Vilhelm Gauti Bergsveinsson 1 mark hver.
Í markinu stóð Arnór Freyr Stefánsson lengst af og varði 14 skot en Björn Ingi Friðjónsson varði 4 skot, þar af 1 vítakast.

Þau óvæntu úrslit urðu einnig í kvöld að botnlið Gróttu lagði topplið Hauka og sömuleiðis tapaði FH fyrir Val og því er staðan í deildinni þannig þegar fjórar umferðir eru eftir að Akureyri er í 3. sæti aðeins einu stigi á eftir hafnfirsku toppliðunum Haukum og FH.

Staðan í deildarkeppni karla
Nr. FélagLeikir U J TMörkHlutfallStig-
1. FH171034454 : 4243023:11
2. Haukar171115412 : 3753723:11
3. Akureyri171025469 : 4195022:12
4. HK171016469 : 4422721:13
5. Fram17917429 : 429019:15
6. Valur17746450 : 4321818:16
7. Afturelding173113395 : 461-667:27
8. Grótta171115388 : 484-963:31

Tengdar fréttir

Heimir Örn hrósar Geir Guðmundssyni fyrir frábæran leik

9. mars 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir leik Akureyrar og HK?

Eftir magnaðan leik Akureyrar og HK í gærkvöldi voru fjölmiðlamenn að sjálfsögðu virkir í að ræða við leikmenn og þjálfara liðanna. Við rennum hér yfir viðtöl frá Mbl, Vísi og Vikudegi ásamt Sport.is. Andi Yrkill Valsson blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við mann leiksins, Heimi Örn Árnason, Atla Hilmarsson og Ólaf Bjarka Ragnarsson leikmann HK.

Heimir Örn: Rifum okkur loks upp

„Við rifum okkur loksins upp og fórum að spila eins og menn enda uppskárum við samkvæmt því. Eftir slakan fyrri hálfleik tókum við okkur saman í andlitinu í þeim síðari þar sem við vorum duglegri að taka af skarið og skjóta á markið. Þá fóru kerfin að ganga upp og það sem meira er, við spiluðum sem lið og þá tel ég að við séum mjög góðir. Við fundum þennan kraft sem hefur vantað.“

Heimir Örn segir að menn megi þó ekki missa einbeitinguna. „Við erum mjög meðvitaðir um að það er stutt í ruglið aftur ef við misstígum okkur. Það er langt síðan ég man eftir því að deildin hafi verið svona jöfn svo við megum ekkert slaka á. Þetta verður blóðug barátta allt til enda þar sem smá mistök eru dýrkeypt. Það er alltaf gaman þegar Bubbi [Sveinbjörn Pétursson] kemst í stuð og fer að rífa kjaft, það heldur okkur á tánum og ég vona bara að hann haldi því áfram,“ sagði Heimir Örn Árnason léttur í leikslok.

Atli Hilmarsson: Sjáum afraksturinn

„Við erum komnir í þriðja sætið og nú sjáum við afraksturinn af því sem við höfum verið að gera,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, eftir að lærisveinar hans unnu góðan sigur á HK-ingum fyrir norðan, 31:28. Með sigrinum höfðu liðin sætaskipti í deildinni og baráttan um sæti í úrslitakeppninni mun vera hörð allt til enda.

„Við lentum í erfiðleikum í fyrri hálfleik en frábær síðari hálfleikur skóp sigurinn. Við töluðum um í hálfleik að það vantaði herslumuninn, við bættum því hugarfarið og það skilaði sér. Við vorum ragir í fyrri hálfleik þar sem við fengum auðveld mörk á okkur og vorum ekki nægilega grimmir í sókninni. Við bættum það í síðari hálfleik þar sem við fengum hraðaupphlaupsmörk sem hafa verið okkur mikilvæg og bætt einbeiting fylgdi í kjölfarið. Það hangir allt saman; vörn, markvarsla og hraðaupphlaup og það gekk vel upp í síðari hálfleik. Liðsheildin var því heilt yfir gríðarlega góð.“


Atli var ekki alltaf sáttur við dómgæsluna og fékk að líta gula spjaldið

Þrátt fyrir góðan sigur er Atli meðvitaður um að enn er ekkert öruggt um sæti í úrslitakeppninni, enda deildin jöfn og spennandi. „Næst tökum við á móti Haukum og við munum bara halda áfram á þessari braut, annað kemur ekki til greina. Við eigum fjóra leiki eftir og erum ekki komnir í úrslitakeppnina ennþá svo við munum ekkert slaka á,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, í leikslok.

Ólafur Bjarki Ragnarsson: Þurfum að taka til hjá okkur

„Við gerðum þeim alltof auðvelt fyrir í síðari hálfleiknum og þurfum greinilega að taka vel til hjá okkur fyrir næsta leik og koma sterkir inn,“ sagði Ólafur Bjarki Ragnarsson, leikmaður HK, sársvekktur við mbl.is eftir ósigurinn gegn Akureyri fyrir norðan, 31:28.

Eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik datt allt niður hjá HK-ingum í þeim síðari og þeir réðu illa við heilsteypt lið Akureyringa. „Við virtumst ekki mæta nægilega tilbúnir í síðari hálfleik eftir að hafa spilað vel á köflum í þeim fyrri. Þetta datt niður hjá okkur í sóknarleiknum þegar líða tók á. Það gengu engin leikkerfi hjá okkur og menn voru hræddir við að skjóta. Svo sóknarleikurinn í síðari hálfleik varð okkur að falli má segja.“

HK er nú í fjórða sæti deildarinnar og er baráttan um sæti í úrslitakeppninni gríðarlega hörð. „Nú eru þeir komnir upp fyrir okkur svo núna er allt undir til þess að vera með í úrslitakeppninni. Til þess þurfum við að vinna alla þá leiki sem eftir eru og það er auðvitað markmiðið enda ætlum við okkur í úrslitakeppnina,“ sagði Ólafur Bjarki Ragnarsson, leikmaður HK, í leikslok.

Hjalti Þór Hreinsson blaðamaður Vísir.is og Fréttablaðsins ræddi við Atla Hilmarsson og Heimi Örn frá Akureyri svo og Tandra Konráðsson leikmann HK og Kristinn Guðmundsson þjálfara HK.

Atli Hilmarsson: Lærðum af reynslunni

„Við vorum slakir í vörn í fyrri hálfleik. Þeir skoruðu og skoruðu án þess að við næðum svo mikið sem að trufla þá. Þeir skora einhver fimm hraðaupphlaupsmörk sem er mjög óvanalegt fyrir okkur að lenda í. Við vorum alltof seinir til baka.

En við spiluðum við þá fyrir nokkrum vikum og það var svipuð staða í hálfleik. Þá lentum við sjö eða átta mörkum undir. Við vorum minnugir þess og tókum bara eitt mark í einu. Við ætluðum að klára þá á tveimur mínútum þá en tókum okkur tíma í þetta núna. Við lærðum af reynslunni.

Við erum á góðu skriði núna en við erum ekkert komnir í úrslitakeppnina ennþá. En við erum á góðu róli og stemningin í hópnum er góð.“ Sagði Atli að lokum.




Heimir Örn Árnason: Stoltur af Geir

„Ég er afskaplega stoltur af liðinu, sérstaklega Geir Guðmundssyni. Hann steig upp og sýndi pung í seinni hálfleiknum. Þetta er glæsilegt fyrir framhaldið hjá honum,“ sagði fyrirliðinn.

„Ég er líka feyki ánægður með Gulla í vörninni. Hann var tveggja manna maki með mig á einum fæti við hliðina á sér. En liðsheildin var frábær, allir stigu upp og það hefur svolítið vantað. Það voru allir jafn fastir fyrir í vörn og sókn, svona á þetta að vera.

Þetta var kannski kaflaskipt. Oddur er að læra nýja stöðu og er að verða betri og betri. Svo er gaman að sjá Bubba svona klikkaðan í markinu,“ sagði Heimir og brosti áður en þeir Guðlaugur höltruðu saman og þökkuðu stuðningsmönnum fyrir góðan stuðning í kvöld.

Tandri Konráðsson: Maður er aldrei sáttur með dómarana

„Við byrjuðum vel en fórum afar illa með færin okkar. Þetta hefði getað endað hvoru megin sem var um miðjan seinni hálfleik en það var ýmislegt sem féll ekki með okkur í lokin.

Meðal annars nokkrir dómar,“ sagði Tandri en HK-menn kvörtuðu mikið í dómurunum undir lokin. „Maður er aldrei sáttur með dómarana,“ sagði Tandri og brosti.


Heimir Örn kominn framhjá Tandra Konráðssyni

„Svona er þetta. Við unnum síðast hér en það vantaði skynsemi í okkar leik í lokin. Það er skemmtilegast að spila hérna, allir á móti manni og mikil stemning. Framundan eru fleiri bikarúrslitaleikir bara,“ sagði Tandri.

Kristinn Guðmundsson: Sjálfum okkur verstir

„Spilamennskan var góð á löngum köflum. En við slökuðum á í seinni hálfleik og það fóru of mikið af góðum færum í súginn, sérstaklega maður á mann.

Við vorum alltof lengi að keyra til baka og þeir skora mikið af hröðum mörkum. Þeir voru snöggir en við eigum samt að koma í veg fyrir þetta. Sveinbjörn hélt þeim inni í leiknum á löngum köflum en það vantaði ákveðin klókindi og skynsemi í okkar leik.

Við skoruðum eftir gott kerfi en svo líða þrjár sóknir áður en við tökum það kerfi aftur. Við vorum sjálfir okkur verstir. En við verðum bara að laga það sem miður fór og halda áfram, það er blóðug barátta framundan,“ sagði Kristinn.


Kristinn messar yfir leikmanni sínum (mynd frá leik liðanna í febrúar)

Þröstur Ernir Viðarsson blaðamaður Vikudags ræddi við Sveinbjörn Pétursson markvörð Akureyrar og Vilhelm Gauta Bergsveinsson fyrirliða HK manna. Þröstur tók einnig vídeóviðtöl við þá sem birtust á sport.is.

Sveinbjörn Pétursson: Langþráður sigur

Sveinbjörn Pétursson átti frábæran seinni hálfleik í marki Akureyrar sem lagði HK að velli í kvöld, 31-28, á heimavelli sínum í N1-deild karla í handknattleik. Sveinbjörn hafði hægt um sig í fyrri hálfleik en reis upp í þeim seinni og varði tólf skot, en alls varði hann sautján skot í leiknum. Hann var að vonum ánægður með sigurinn í kvöld er Vikudagur ræddi við hann eftir leik, en þetta var fyrsti sigur Akureyringa á HK í vetur í þremur leikjum.
„Það er óhætt að segja að þetta hafi verið langþráður sigur og það hefði verið ömurlegt að fara í gegnum deildarkeppnina með þrjú töp á móti HK. Við sýndum það í kvöld að við getum vel unnið þetta lið en það var fyrst og fremst góð frammistaða í seinni hálfleik sem skilaði sigri,“ sagði Sveinbjörn, sem var sáttur með sinn leik.

„Ég er ánægður með seinni hálfleikinn hjá mér. Það gekk alveg nógu vel í þeim fyrri þar sem HK var einfaldlega skrefinu framar. En við tókum okkur allir í gegn í hálfleik og það var mjög ánægjulegt að geta boðið upp fína frammistöðu hérna í restina fyrir framan frábæra áhorfendur,“ sagði Sveinbjörn, en 924 áhorfendur í Höllinni létu vel í sér heyra.

Hér má svo sjá og heyra viðtalið við Sveinbjörn



Vilhelm Gauti Bergsveinsson: Frábær stemming í Höllinni

„Það hefði verið gaman að vinna alla þrjá leikina gegn Akureyri í deildarkeppninni en því miður hafðist það ekki. Dómarar leiksins fá ekki háa einkunn hjá mér en við verðum fyrst og síðast að líta í okkar eigin barm. Við vorum skrefinu á undan í fyrri hálfleik en það fór allt í baklás í þeim seinni. Ég verð samt að hrósa áhorfendum í Höllinni fyrir frábæra stemmningu. Ég tek það sem mesta jákvæða hlutinn úr leiknum hvað stemmningin hér var góð. Ég vona bara að við mætum Akureyri í úrslitakeppninni,“ sagði Vilhelm að lokum.

Og hér er einnig vídeóviðtal við Vilhelm Gauta



Það er mikið undir hjá Atla og félögum í dag

8. mars 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Akureyri - HK baráttan um 3. sætið

Í dag fer fram einn af úrslitaleikjum N1 deildarinnar þegar Akureyri og HK mætast. Ljóst er að sigurvegarinn í leiknum situr í þriðja sæti deildarinnar.

„Þessi leikur leggst vel í mig. Við erum búnir að vera á fínu róli en höfum hins vegar verið að spila við tvö neðstu liðin. Núna taka erfiðari liðin við,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, í samtali við Vikudag. „Þetta er mjög mikilvægur leikur og við erum staðráðnir í því að láta HK ekki vinna okkur í þriðja sinn í vetur“.

Leikurinn verður í beinni textalýsingu hér á síðunni
Smelltu hér til að fylgjast með textalýsingunni.

Einnig hyggst SportTV.is sýna leikinn smelltu hér til að fylgjast með útsendingu þeirra.


HK liðið hefur leikið afar vel í vetur

7. mars 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Heimaleikur gegn HK á fimmtudaginn

Eftir langa bið eftir heimaleik er hún loksins á enda því að á fimmtudaginn fáum við HK í heimsókn. Þótt ótrúlegt megi virðast þá er þetta einungis annar heimaleikur Akureyrar á þessu ári en andstæðingarnir í síðasta heimaleik voru einmitt líka HK.

Eftir sigra í síðustu þrem síðustu leikjum (öllum á útivöllum) er Akureyri komið í 4. sæti N1 deildarinnar, stigi á eftir HK sem er í 3. sætinu. Baráttan um sæti meðal fjögurra efstu liða er gríðarhörð og ekkert má gefa eftir til að halda því. Það má því líta á alla leikina fimm sem eftir eru í deildinni sem hreina úrslitaleiki.

Í síðasta leik liðanna má segja að allt hafi verið á suðupunkti en HK náði að knýja fram tveggja marka sigur á lokamínútu leiksins. Óhætt er að fullyrða að baráttan verður ekki síður í fyrirrúmi á fimmtudaginn og ljóst að Akureyri ætlar ekki að tapa tvisvar í röð fyrir HK á heimavelli.

Leikurinn hefst eins og venjulega klukkan 19:00 á fimmtudaginn, veitingar fyrir stuðningsmannaklúbbinn verða bornar fram um klukkan 18:15.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson