Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Glæsilegur sigur á ÍR í kvöld - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2012-13

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Myndband frá leiknum      Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - ÍR  32-23 (14-9)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
Fim 4. október 2012 klukkan: 19:00
Dómarar: Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson
Umfjöllun

Jovan fór hamförum í markinu í kvöld

4. október 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Glæsilegur sigur á ÍR í kvöld

Það var ekki laust við að það væri spenna í loftinu í Íþróttahöllinni í kvöld þegar Akureyri tók á móti ÍR-ingum sem eru til alls líklegir í baráttunni í vetur enda liðið búið að safna að sér hörkumannskap.
Ekki bætti úr skák að Heimir Örn Árnason og Ásgeir Jónsson voru báðir forfallaðir vegna meiðsla.

Það fór hins vegar svo að Akureyri tók öll völd á vellinum, eftir rúmlega níu mínútna leik var staðan 6-2 fyrir Akureyri. ÍR-ingar minnkuðu muninn niður í tvö mörk, 7-5 en þá gáfu heimamenn í og juku forskotið í 5 mörk eða 10-5. Aftur söxuðu ÍR-ingar muninn í tvö mörk eða 10-8 áður en heimamenn breyttu stöðunni í 14-9 sem urðu einmitt hálfleikstölurnar.

Jovan Kukobat var hreint út sagt frábær með 12 skot varin í hálfleiknum, sýndi og sannaði að hann er hreint frábær markvörður. Bjarni Fritzson skoraði sex mörk í fyrri hálfleik.


Oddur og Jovan gefa ekkert eftir í leiknum

Ekki vænkaðist hagur ÍR-inga í upphafi seinni hálfleiks því eftir fjögurra mínútna leik var munurinn kominn í átta mörk, 18-10 og Jovan áfram í gríðarlegum ham fyrir aftan frábæra Akureyrarvörn. Segja má að úrslit leiksins hafi eiginlega verið ráðin þar með enda ráðaleysi ÍR-inga algjört, Björgvin Hólmgeirsson var sá eini sem virtist hafa kraft til að gera eitthvað.


Bergvin og Hreinn með örugg tök á Björgvin Hólmgeirssyni

Munurinn jókst og varð mestur tíu mörk, 23-13 og 25-15 en leiknum lauk með öruggum níu marka sigri heimamanna 32-23.

Margir ungir leikmenn fengu að spreyta sig í leiknum, Friðrik Svavarsson lék lengst af á línunni en lokamínúturnar kom inná annar enn yngri, Daníel Matthíasson, 17 ára og stóð fyrir sínu. Sömuleiðis lék Valþór Guðrúnarson lokamínúturnar og setti mark sitt á leikinn með góðu marki. Einnig komu Ásgeir Jóhann Kristjánsson og Sigþór Heimisson inná og sýndu allir þessir ungu strákar að breiddin í liðinu er meiri en menn hafa gert sér grein fyrir.

Leikur liðsins var hreint frábær í kvöld, sóknarleikurinn hraður og fjölbreyttur, vörnin geysilega kröftug og Jovan frábær í markinu. Baráttan í liðinu var til fyrirmyndar og erfitt að taka einstaka leikmenn út úr, allir skiluðu sínu vel og ljóst að liðið er á fínu róli og mikilvægt að halda þessum dampi áfram í næstu leikjum.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 11 (3 víti), Oddur Gretarsson 6, Geir Guðmundsson 5, Andri Snær Stefánsson 4, Bergvin Gíslason 4, Guðmundur Hólmar Helgason 1 og Valþór Guðrúnarson 1.
Í markinu varði Jovan Kukobat 20 skot.

Hjá ÍR var Björgvin Hólmgeirsson yfirburðamaður með 11 mörk, Guðni Már Kristinsson 4, Jónatan Vignisson 3, Sturla Ásgeirsson 2 (1 úr víti), Ingimundur Ingimundarson, Jón Heiðar Gunnarsson og Sigurjón Friðbjörn Björnsson með 1 mark hver.
Markvarsla ÍR-inga var ekki mikil en Kristófer Fannar Guðmundsson varði 6 skot í leiknum.

Þeir Jovan Kukobat og Björgvin voru valdir bestu menn liðanna og fengu glæsilegar matarkörfur frá Norðlenska í viðurkenningarskyni.

Tengdar fréttir

Daníel Matthíasson, einn nýliðinn sem kom við sögu í leiknum

5. október 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Myndasyrpa frá leik Akureyrar og ÍR

Það var að venju mögnuð stemming í Íþróttahöllinni þegar ÍR kom í heimsókn enda áttu menn von á hörkuleik. Reyndin varð einmitt sú að heimamenn voru í miklum ham og sýndu allar sínar bestu hliðar. Fyrir vikið náðu gestirnir ekki því flugi sem búast mátti við.

Stuðningsmenn tóku að vanda virkan þátt í leiknum og skemmtu sér hið besta. Hér fylgja á eftir nokkar myndir Þóris Tryggvasonar sem fangaði stemminguna. Neðst á síðunni er hægt að skoða allar myndir Þóris frá leiknum.


Heimir tók ekki þátt sem leikmaður en stjórnaði af bekknum í staðinn


Þessir voru með á nótunum og tóku virkan þátt


Björgvin Hólmgeirsson og Bjarni Fritzson skoruðu báðir 11 mörk


Það voru mörg tækifæri til að fagna sínum mönnum


Oddur Gretarsson var einbeittur í öllum aðgerðum


Brotið á Hreini Haukssyni og vítakast dæmt

Smelltu hér til að skoða allar myndir Þóris frá leiknum.


Andri er búinn að spila vel í síðustu leikjum

5. október 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir ÍR leikinn?

Það var misjafnt hljóðið í leikmönnum og þjálfurum liðanna eftir leikinn í gær enda kannski ekki nema von. Akureyrarliðið átti afbragðsgóðan leik á meðan ÍR-ingar komust lítið áleiðis, nema þó Björgvin Hólmgeirsson. Við söfnum hér saman viðtölum af ýmsum miðlum, byrjum á Morgunblaðinu þar sem Einar Sigtryggsson ræðir við Andra Snæ Stefánsson leikmann Akureyrar og Bjarka Sigurðsson þjálfara ÍR.

Andri Snær: Jovan er yndislegur

Stálmúsin, öðru nafni Andri Snær Stefánsson átti mjög góða innkomu gegn ÍR í kvöld, skoraði fjögur mörk, þ.á.m. mark leiksins sem má segja að hafi slökkt endanlega á ÍR-ingum. Andri var ánægður í leikslok og kjaftaði á honum hver tuska.

„Það er gott að fá að spila en við erum að dreifa álaginu vel. Við erum náttúrulega með tvo úrvals menn í vinstra horninu, Odd og Bergvin, en þeir eru alltaf að þvælast eitthvað í öðrum stöðum svo ég spila töluvert.
Þetta var frábær sigur og það voru fyrst og fremst vörnin og markvarslan sem skópu hann. Vörnin okkar er frekar lágvaxin og það eru engin alvöru tröll í henni en við djöflumst bara þeim mun meira enda erum við í toppformi. Svo spilum við á öllu liðinu þannig að menn fá pásur.

Við náðum að stoppa þá en Björgvin var samt erfiður. Markvörðurinn okkar, hann Jovan, var yndislegur í kvöld en hann er frábær markvörður með sérstakan stíl, alvöru gæi. Hann á eftir að verja svona áfram. En ég sakna Bubba,“ sagði Andri Snær að lokum, greinilega sáttur með félaga sína.


Andri skorar úr horninu

Bjarki: Reyndir menn úti á þekju

Bjarki Sigurðsson, þjálfari ÍR, var ómyrkur í máli þegar mbl.is ræddi við hann eftir afhroðið sem lið hans beið gegn sprækum Akureyringum, 32:23, í N1-deild karla í handknattleik á Akureyri í kvöld.

„Þetta var lélegt hjá okkur og stór vonbrigði. Ég held að þetta hafi verið það lélegasta sem liðið hefur sýnt undir minni stjórn. Við mættum bara ekki til leiks. Reyndir menn voru úti á þekju og við hentum boltanum frá okkur hvað eftir annað. Það gaf þeim fullt af ódýrum mörkum.

Sóknarleikurinn var í molum og Jovan í markinu hjá þeim tók úr mönnum tennurnar. Það var aðeins Björgvin sem eitthvað sýndi af viti. Þetta er mjög svekkjandi og við verðum bara að setjast niður og grafa eftir lausnum. Þetta liggur þarna einhvers staðar og hver og einn verður að finna lausn og ná fram betri leik næst. Það er ekki þannig að sóknarleikur þeirra hafi komið eitthvað á óvart en þeir bara völtuðu yfir okkur.“

En ætlar Bjarki að taka fram skóna fyrir næsta leik fyrst leikmenn voru ekki að standa sig? „Takk fyrir að spyrja en ég er ekki í neinu standi til þess og það stendur ekki til,“ mælti Bjarki og þótti greinilega vænt um þessa spurningu.


Bjarki með sínum mönnum á bekknum

Næst kíkjum við á Vísir.is þar sem Birgir H Stefánsson ræðir við þjálfarana, Bjarna Fritzson og Bjarka.

Bjarni Fritzsson: Bestu áhorfendur á landinu

„Ég er alveg ótrúlega ánægður og gríðarlega stoltur af mínu liði,“ sagði Bjarni Fritzson einn þjálfari Akureyrar og markahæsti maður liðsins með 11 mörk. „Það voru allir að skila sínu og allir fengu að spila nema Stebbi því Jovan var brjálæðislega góður í markinu. Ég er bara svo stoltur af þessum ungu strákum hvað þeir eru að spila vel. Spila liðsbolta, leggja sig fram og gera allt sem við leggjum upp með. Við erum ekkert að stressa okkur á því hver skorar mörkin, við spilum bara sem lið.“


Bjarni í baráttu í horninu

Það var allt annað að sjá til liðsins í kvöld miðað við fyrsta heimaleik tímabilsins.
„Við erum með bestu áhorfendur á landinu og við vorum mjög ósáttir út í okkur sjálfa eftir fyrsta leikinn. Það var eitt af uppleggjum okkar hér í dag að sýna fólkinu að við værum að leggja okkur alla fram og gefa af okkur til þeirra, þá fáum við tilbaka í staðin.


Bjarni hrósar áhorfendur sem að vanda stóðu sig frábærlega

Við erum í mjög góðu líkamlegu standi þannig að við höldum áfram að keyra á liðin. Þá gerist það sama eins og á móti fram að þau gefa aðeins eftir á meðan við höldum okkar striki og erum að rúlla mönnum mikið.“

Bergvin Þór Gíslason hefur verið að spila virkilega vel það sem af er tímabils og komið mörgum á óvart.
„Við erum mjög ánægðir með hann. Við færðum hann í skyttuna til að auka breidd þar og við erum með allt of mikið af vinstri hornamönnum plús það að hann var að leysa skyttuna af í öðrum flokknum. Hann æfði virkilega vel í sumar og er í góðu standi. Svo stendur hann vörn eins og ég veit ekki hvað og við erum bara virkilega ánægðir með hann. Hann er í raun ekki að koma okkur neitt á óvart, hann er bara að sýna það sem hann hefur verið að gera á æfingum í sumar.“


Bjarni er ánægður með Bergvin sem átti mjög góðan leik

Bjarki Sigurðsson: Eins og við höfum bara skilið allt eftir fyrir sunnan

„Stór vonbrigði og mikil vonbrigði,“ sagði Bjarki Sigurðsson allt annað en ánægður með sína menn. „Það er eins og við höfum bara skilið allt eftir fyrir sunnan, þetta er eitthvað sem þarf að kryfja alveg niður í botninn. Þetta er það allra daprasta sem ég hef séð frá liðinu og þessum leikmönnum þótt að ég sé búinn að vera með þá núna í rúm tvö ár.“

ÍR-ingar áttu enn möguleika í hálfleik þrátt fyrir slaka frammistöðu en gerðu svo út um þá von með hræðilegri byrjun á seinni hálfleiknum.
„Reynslumiklir menn eru að senda boltann frá sér og sóknarlega vorum við bara út á þekju. Það má ekki taka það af Akureyringum að þeir spila fyrirmyndar vörn og stoppuðu okkar sóknarleik á köflum mjög vel. Þess á milli vorum við að gera ágætis hluti og opna þá en á endanum þá var það markmaðurinn sem stoppaði það. Síðan vorum við bara með allt of marga tekkníska feila og við fáum á okkur aragrúa af hraðaupphlaupum, mjög mikið af auðveldum mörkum. Leikmenn voru síðan ekki með varnarlega og markvarslan var bara hörmuleg, þetta er bara vægast sagt mjög svekkjandi og dapurlegt.“

Skildu menn hjartað bara eftir í Breiðholtinu?
„Það má halda það. Ég skil ekki hvað er að mönnum. Það sem við þurfum að gera núna er að setjast niður og menn þurfa að grafa djúpt til að sjá hvað er í gangi hjá hverjum og einum. Þetta liggur þarna einhversstaðar og það þarf bara að ná því fram.“

Vídeóviðtöl

Við endum viðtalaþáttinn á því að kíkja á vídeóviðtöl, annars vegar af sport.is og einnig af handbolti.org.

Bjarni Fritzson


Bjarki Sigurðsson


Hákon Þórisson tók eftirfarandi viðtöl við Heimi Örn og Bjarka Sigurðsson og birtust þau á handbolti.org.

Heimir Örn Árnason


Bjarki Sigurðsson


Það verður klárlega stemming í Höllinni

4. október 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Heimaleikur dagsins: Akureyri – ÍR

Þá er runninn upp leikdagur, meira að segja heimaleiksdagur. Við höfum kynnt mótherja okkar hér á heimasíðunni en fyrir þá sem ekki vita þá eru það vel mannaðir ÍR-ingar sem við spilum við í dag.
Sjá kynningu á ÍR liðinu.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 í Íþróttahöllinni og nú reynir á okkar menn og stuðningsmenn að gera sitt allra besta til að knýja fram hagstæð úrslit.

Heimasíðan verður að venju með beina textalýsingu frá leiknum bæði er hægt að fylgjast með lýsingunni í sjálfstæðum glugga með ítarlegum upplýsingum um allan gang leiksins auk þess sem staðan og það allra nýjasta uppfærist á forsíðunni einnig.
Smelltu hér til að opna lýsingarsíðuna.

Þess má til gamans geta að 7.375 notendur fylgdust með beinu lýsingunni okkar frá leik Akureyrar og FH og er það met þátttaka frá því að þessi þjónusta byrjaði.

Leikurinn hefst eins og áður segir klukkan 19:00 en fyrir leikinn er handhöfum Gullkorta boðið upp á heitan mat. Að þessu sinni verður maturinn framreiddur á öðrum stað en vanalega eða í stækkaðri aðstöðu félagsins sem er anddyri Hallarinnar (á vinstri hönd þegar gengið er inn). Maturinn verður framreiddur upp úr klukkan 18:00.
Þeir sem enn eiga eftir að verða sér úti um stuðningsmannaskírteini geta gert það í anddyri Hallarinnar og drifið sig síðan í matinn.

Loks má geta þess að SportTV.is ætlar að sýna leikinn í beinni útsendingu á netinu þannig að þeir sem ekki eiga heimangengt á leikinn geta fylgst með honum þar, auk textalýsingarinnar.
Smelltu hér til að fylgjast með á SportTV.


ÍR er örugglega komið til að vera í N1-deildinni

2. október 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Heimaleikur gegn ÍR á fimmtudaginn

Eftir góðan útisigur á Fram í síðustu umferð fær Akureyri verðugt verkefni á fimmtudaginn þegar spútnik lið ÍR kemur í heimsókn. ÍR liðið vann 1. deildina í fyrravetur með töluverðum yfirburðum og síðan hafa ÍR ingar fengið til liðs við sig fjölmarga þungavigtarmenn og fyrir vikið eru þeir með eitt öflugasta byrjunarlið deildarinnar í ár. Það er því ekki undarlegt að liðinu er spáð mikilli velgengni eða þriðja sæti deildarinnar af forráðamönnum N1-liðanna.

Þegar litið er yfir leikmannahóp ÍR sést að hér eru engir viðvaningar á ferð. Ólympíu-silfurhafarnir frá Peking þeir Ingimundur Ingimundarson og Sturla Ásgeirsson komu til liðsins í sumar, Björgvin stórskytta Hólmgeirsson og línumaðurinn Jón Heiðar Gunnarsson komu heim frá útlöndum auk þess sem hornamaðurinn Sigurjón Björnsson kom frá Íslandsmeisturum HK.


Björgvin, Sturla, Ingimundur, Jón Heiðar

Úr kjarnanum frá því í fyrravetur má nefna leikstjórnandann Guðna Má Kristinsson og örvhentu skyttuna Jónatan Vignisson en hann hefur verið mjög vaxandi leikmaður allt síðan að hann var valinn besti sóknarmaður Greifamótsins haustið 2008.

Í markinu hjá ÍR stendur ungur og gríðarlega efnilegur piltur, Kristófer Fannar Magnússon sem hefur staðið vel fyrir sínu í fyrstu tveim umferðum deildarinnar.

Tveir Akureyringar eru í leikmannahópi ÍR, hornamaðurinn Ólafur Sigurgeirsson og línumaðurinn Halldór Logi Árnason. Halldór glímir reyndar við meiðsli eins og er þannig að ólíklegt er að hann verði í leikmannahópnum á fimmtudaginn.


Kristófer, Jónatan, Ólafur og Halldór Logi

Þjálfari ÍR inga er einn mesti reynslubolti íslenska handboltans, Bjarki Sigurðsson en þetta er þriðja árið sem Bjarki þjálfar ÍR.

ÍR ingar hafa sýnt það í leikjum haustsins að þeir eru til alls líklegir. Þeir urðu Reykjavíkurmeistarar þar sem þeir unnu alla sína leiki, í sigurleik á Val var Sturla Ásgeirsson markahæstur með 12 mörk. Í fyrstu umferð N1 deildarinnar unnu þeir góðan útisigur á Aftureldingu þar sem Björgvin Hólmgeirsson fór á kostum og skoraði 12 mörk.
Á laugardaginn mættu þeir Haukum í sjónvarpsleik 2. umferðar og þar sýndu ÍR ingar prýðisleik þó þeir mættu sætta sig við fjögurra marka tap í lokin. Aftur var Björgvin Hólmgeirsson markahæstur, nú með 6 mörk en Jónatan Vignisson skoraði 4 mörk á stuttum tíma í seinni hálfleik.

Það er alveg á hreinu að leikurinn á fimmtudaginn hefur alla burði til að verða frábær skemmtun, tvö hörkulið og nú reynir enn og aftur á okkar mögnuðu stuðningsmenn að flykkjast í Höllina og láta duglega í sér heyra.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson