Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Eins marks tap fyrir ÍBV í spennuleik - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Magnús Kári Jónsson og Ómar Ingi Sverrisson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Heimamenn ekki kátir eftir leikinn
6. október 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir leikinn við ÍBV
Heimamenn voru að vonum svekktir eftir að tapa fyrir ÍBV í gær eftir fína byrjun á leiknum en Eyjamenn að sama skapi kátir með afraksturinn. Blaðamenn Morgunblaðsins, visir.is og fimmeinn.is tóku nokkra tali og fara viðtölin hér á eftir.
Byrjum á Einari Sigtryggssyni blaðamanni Morgunblaðsins sem ræddi við fyrirliða liðanna þá Andra Snæ Stefánsson, fyrirliða Akureyrar og Magnús Stefánsson frá Fagraskógi fyrirliða ÍBV:
Andri Snær: Erum algjörir aular
Ekki var gott hljóðið í Andra Snæ Stefánssyni, fyrirliða Akureyrar, eftir tap Akureyringa gegn ÍBV í Olís-deild karla í handbolta í dag. Akureyri tapaði sínum öðrum heimaleik á fjórum dögum og var leikur liðsins virkilega slappur á köflum. Átján tapaðir boltar í upplögðum sóknum segja sína sögu og asinn á heimamönnum var allt of mikill þegar þeir unnu boltann. „Við erum algjörir aular að tapa þessum leik, ég trúi því varla að við höfum kastað þessu svona frá okkur. Það vantar enn eitthvert samband og traust á milli varnarinnar og markvarðanna og svo var bara glórulaust hvað við gerðum marga feila í sókninni. Nær undantekningalaust fengum við á okkur mark eftir að hafa tapað boltanum og þannig gerðum við þetta allt of auðvelt fyrir ÍBV. Einnig klúðruðum við nokkrum ágætis færum á lokakaflanum, rétt eins og í síðasta leik á móti Val,“ sagði Andri Snær.
Menn héldu að þetta kæmi af sjálfu sér „Eyjamenn eiga hrós skilið fyrir sína baráttu en við vorum virkilega daprir. Mér fannst allan leikinn eins og menn héldu bara að þetta myndi koma af sjálfu sér, að við myndum síga fram úr á endanum en það er ekki nóg að halda að hlutirnir gerist. Við verðum sjálfir að láta þá gerast. Við eigum að klára svona dæmi á heimavelli,“ sagði Andri Snær. „Einhvernveginn þá bara gekk allt upp hjá Eyjamönnum og þeir voru að setja allt í markið úr nánast vonlausum færum. Stemningin datt þá þeirra megin á meðan við vorum að svekkja okkur. Það er súrt að tapa en Eyjamenn áttu bara skilið að vinna þennan leik,“ sagði Andri Snær og var honum greinilega mikið niðri fyrir.
Andri Snær vinnur hér vítakast í leiknum
Félagi hans Magnús Stefánsson, fyrirliði ÍBV, sagðist í viðtali eftir leik stefna á að enda ferilinn með Hömrunum en Andri Snær og Magnús hafa báðir spilað fjölmarga knattspyrnuleiki með þeim mæta klúbbi. Hefur Andri Snær sömu markmið? „Ja, ég er ekki farinn að hugsa um það, kannski eftir fimmtán ár,“ sagði hinn 28 ára gamli fyrirliði Akureyringa að lokum.
Magnús: Enda í markinu
Magnús Stefánsson frá Fagraskógi, fyrirliði Eyjamanna, var í nýju hlutverki í dag þegar hans menn unnu sigur á Akureyri fyrir norðan í 5. umferð Olís-deildarinnar í handbolta. Í meiðslavandræðum ÍBV fórnaði Magnús sér á línuna og stóð hann sig virkilega vel. Magnús sýndi að línumenn þurfa ekki endilega að vera tröllvaxin kjötfjöll sem eru eins og naut í flagi. Hinn langi og, ég leyfi mér að segja, renglulegi fyrirliði hafði þetta að segja í leikslok.
„Ég þurfti að leysa þessa línustöðu þar sem við erum með menn í meiðslum og það heppnaðist ágætlega hjá okkur. Maður leysir bara þau verkefni sem lögð eru fyrir mann. Ég er búinn að segja að þegar ég hætti að nenna að hlaupa þá endi ég í markinu,“ sagði Magnús. „Ég vil meina að þetta hafi verið sigur liðsheildarinnar. Markvarslan var engin lengi vel en svo steig Kolbeinn upp þegar á þurfti að halda. Hornamennirnir okkar voru líka frábærir og allir ungu strákarnir sem þurftu að spila voru eins og aldnir reynsluboltar. Þeir eiga mikið hrós skilið, allir saman. Við komum hingað hálfvængbrotnir svo menn áttu kannski ekki von á þessu en baráttan hjá liðinu skilaði okkur tveimur stigum. Við unnum hérna í fyrra og okkur líður greinilega vel á þessum velli. Hér er vinsamlegt andrúmsloft og gott að sækja Akureyringa heim.“
Magnús með mark af línunni
Meiriháttar að sjá Hamrana Kannski ekki hlutlaust mat þar sem Magnús spilaði um árabil með Akureyringum. En hvernig fannst Magnúsi að sjá eitt að sköpunarverkum sínum, lið Hamranna, spila áður en leikur ÍBV hófst? „Það var alveg meiriháttar að sjá þetta lið spila svona öflugan handbolta. Ég er einn af stofnendum liðsins og hef sett stefnuna á að enda handboltaferilinn í búningi Hamranna. Þetta er háleitt markmið. Maður verður að setja sér ný og ný markmið og þetta er eitt að þeim sem ég ætla að ná,“ sagði Magnús að lokum og stökk svo upp í stúku til að heilsa upp á fjölskyldu sína.
Birgir H. Stefánsson, tíðindamaður visir.is ræddi við þjálfarana, Sverre Andreas Björnsson og Gunnar Magnússon þjálfara ÍBV eftir leikinn:
Sverre: Ekki kjaftur sem vældi þá og ég ætla ekki að byrja á því núna
„Fyrsta korterið var alveg í lagi,“ sagði Sverre Andreas Jakobsson þungur á brún eftir leik. „Við vorum að leiða leikinn, með markvörslu og eitthvað þéttari en ég veit það ekki. Ég bara hreinlega skil það ekki svona strax eftir leik hvað klikkaði, það var í raun bara ekkert í gangi. Sama hvað við vorum að reyna þá gekk það illa upp. Það er lítið hægt að setja út á það að skora 32 mörk.“
Það er samt erfitt að vinna leiki þegar markvarslan er ekki til staðar. „Já, en ég ætla ekki að kenna markmönnum um, varnarleikurinn er greinilega ekki í lagi og við sem spilum hann verðum að taka ábyrgð á því. Það vantaði mikið upp á karakterinn sem á að vera í þessu liði, við duttum ærlega á rassgatið.“
Þrír dagar á milli leikja, getur það verið að hafa áhrif? „Nei, ég ætla ekki að nota það tromp núna. Við eigum alveg að geta undirbúið okkur andlega og líkamlega fyrir svona leiki. Við gerðum það um daginn og þá fórum við með rútu í báða leikina, það var ekki kjaftur sem vældi þá og ég ætla ekki að byrja á því núna. Ef þú ert að spá í okkur eldri þá er nú ekki margir mánuðir síðan við spiluðum á stórmóti og þá annan hvern dag. Ég ætla ekki á það lágt plan að kenna þreytu um, við vorum bara lélegir og mér þykir það afskaplega leitt fyrir félagið og þá áhorfendur sem komu og vildu sjá eitthvað allt annað.“
Mark úr hraðaupphlaupi í uppsiglingu hjá Sverre
Gunnar Magnússon: Vorum ekki í neinni krísu
„Auðvitað er þetta léttir en við vorum ekki í neinni krísu,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari ÍBV strax eftir leik. „Við vorum búnir að spila þrjá leiki góða af fjórum þannig að við vorum bara fókuseraðir og rólegir yfir þessu. Ég er alveg ótrúlega ánægður með strákana, allir sem komu inná voru frábærir þannig að þetta er bara virkilega ánægjulegt.“
Þú mættir norður með nokkuð vængbrotið lið hér í dag „Já en það voru allir frábærir. Maður er kannski ekki alveg nógu ánægður með markmennina en það var þannig báðu megin og þótt að gömlu refirnir hafi verið frábærir þá verð ég bara að nefna ungu strákana. Hákon Daði Styrmisson, Dagur Arnarsson og Svavar Kári Grétarsson voru alveg stórkostlegir í dag. Hvernig þeir spiluðu hér síðustu tíu eins og þeir væru með þvílíka reynslu. Strákar sem eru í 2. og 3. Flokki, er stoltur af þeim. Sama á við um karakterinn hjá mínum strákum í dag, við vissum að við værum vængbrotnir en við ætluðum ekkert að væla yfir því. Planið var að koma norður og sækja tvö stig, það tókst.“
Gunnar og Sigurður, þjálfarar ÍBV skilja ekki alveg hvað er í gangi á vellinum
Að lokum er hér viðtal við Heimi Örn Árnason sem birtist á vefnum fimmeinn.is:
Heimir Örn: Við vorum bara hræðilegir í dag
Heimir Örn Árnason þjálfari Akureyrar var ósáttur við margt í leik liðsins á móti ÍBV í dag þegar fimmeinn heyrði í honum eftir leikinn. Akureyringar töpuðu með einu marki og sagði Heimir meðal annars að menn gætu ekki endalaust verið að horfa í að það væri nóg eftir af mótinu. „Þetta var hræðilegur leikur að okkar hálfu og kannski lítið jákvætt sem maður getur tekið út. Fyrir það fyrsta er þetta bara hræðilegt uppstig á heimavelli og 4 stig eftir 5 umferðir er algerlega óásættanlegt. Við getum ekki endalaust verið að tala, eins og margir gera að það sé fullt af leikjum eftir, þeim fækkar með hverjum spiluðum leik og ef við ætlum okkur inn í þessa úrslitakeppni getum við ekki sýnt svona leik“.
Aðspurður um sóknarleikinn og það að Akureyri hafi ekki verið að nýta sér lélega markvörslu gestanna lengst af leik sagði Heimir að léleg markvarsla andstæðinga eigi ekki að sigra leiki liðsins. „Markvarslan var sjálfsagt bara litlu skárri okkar megin, ég held að þetta hafi verið 9 boltar hjá okkur og 7 hjá þeim. Við verðum einungis að horfa á okkar sóknarleik fyrst og fremst, hann var ekki nógu góður í dag og það var reyndar bara margt annað sem ekki var í lagi. Okkur vantar ennþá einhverja sterka leikmenn í okkar lið , en það vantaði líka allavega 4 leikmenn hjá þeim. það var fyrst og fremst okkar eigin frammistaða sem var léleg í dag“.
Heimir hugsi yfir gangi mála
Það hefur ýmislegt gengið á í leikjum liðanna
5. október 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Heimaleikur gegn Íslandsmeisturum ÍBV
Það er stutt á milli leikja þessa dagana, Íslandsmeistarar ÍBV mæta norður í dag, sunnudag. Leikurinn hefst klukkan 15:00 og við hvetjum alla til að mæta enda ætla strákarnir að koma sterkir til baka eftir síðasta leik. Í liði Eyjamanna er sem fyrr Magnús Stefánsson, kenndur við Fagraskóg og fyrrum leikmaður Akureyrar.
Fyrrum liðsfélagarnir Andri Snær Stefánsson og Magnús Stefánsson kljást í leik fyrir ári síðan
Leikir liðanna hafa oft verið sögulegir, þannig vann Akureyri sinn stærsta deildarsigur í sögu félagsins þegar liði mættust í Eyjum 15. mars 2008 en honum lauk með fimmtán marka sigri Akureyrar 28 – 43.
Vestmannaeyingar létu heldur betur finna fyrir sér hér í Höllinni fyrir nákvæmlega ári síðan og þá mátti Akureyri hins vegar sætta sig við sitt stærsta tap í deildinni, þrettán marka tap 22 - 35.
Liðin mættust síðast í Hafnarfjarðarmótinu í haust og þar sigraði Akureyri með einu marki. Það er ómögulegt að segja hvað gerist í dag, kíkjum í Höllina og styðjum strákana!
Hamrarnir - ÍH klukkan 13:00 Á undan leik Akureyrar og ÍBV er annar áhugaverður leikur í Höllinni en klukkan 13:00 mætast Hamrarnir og ÍH í 1. deild karla. Þetta er fyrsti heimaleikur Hamranna á tímabilinu og má búast við að Heimir Örn Árnason leiki með liðinu og jafnvel Hreinn Þór Hauksson en þeir léku báðir með Hömrunum á Opna Norðlenska í haust þar sem Hamrarnir unnu Fram.
Þær fréttir hafa borist að hinn magnaði markvörður Hamranna, Stefán Guðnason hafi lagt skóna á hilluna og verði því ekki með.