14. desember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir leik Akureyrar og Fram
Eftir að jafnræði hafði verið með liðunum í fyrri hálfleik tóku Akureyringar öll völd á vellinum og endurspeglast það í viðtölum fjölmiðla við þjálfara og leikmenn eftir leikinn. Byrjum á viðtölum Birgis H Stefánssonar tíðindamanns visir.is en hann ræddi við Atla Hilmarsson og Tomas Olason hjá Akureyri og Guðlaug Arnarsson þjálfara Fram:
Atli Hilmarsson: Verð að taka að ofan fyrir liðinu
„Við vorum í miklu basli í fyrri hálfleiknum,“ sagði Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar eftir leik. „Tómas hélt okkur í raun á floti með flottri markvörslu á ögurstundum. Eins og t.d. þetta víti þarna undir restina, það gaf okkur smá spark fyrir seinni hálfleikinn. Við lendum í því að missa Heiðar Þór Aðalsteinsson út og Andri Snær er ekki í hópnum þannig að enn einu sinni lendum við í því að þurfa að breyta.
„Þá koma menn í hornið sem eru ekki vanir að vera þar, við prófuðum þrjá þar í dag. Frábær byrjun á seinni hálfleik, seinni hálfleikurinn í heild var í raun bara mjög góður og það var það sem skóp þennan sigur. Ég verð að taka að ofan fyrir liðinu mínu sem er að berjast eins og ég veit ekki hvað þó að það sé ýmislegt sem er búið að ganga á.“
Er hópurinn að verða nokkuð þunnur fyrir þennan lokaleik fyrir frí? „Já, mér sýnist það. Við eigum einn leik eftir og við förum auðvitað inn í leikinn gegn FH til að ná í eitthvað en ég er mjög feginn að fá þessi tvö stig í hús. Við skulum sjá hvaða lið ég get verið, ég veit það ekki í dag.“
Þú ferð væntanlega fram á það að þínir menn séu ekki mikið að stunda jaðarsport yfir hátíðirnar? „Já, það verður held ég bara að senda mannskapinn í bómul en ég vona bara að menn nái sér þegar fríið kemur. Við unnum með sjö en auðvitað voru skakkaföll hjá þeim líka.“
Atli tekur á móti Heimi sem fékk hér brottvísun
Tomas Olason: Ógeðslega gaman að spila hér
„Þeir voru að narta í hælanna á okkur,“ sagði Tomas Olason eftir leik en hann var maður leiksins að öðrum ólöstuðum. „Það var mjög mikilvægt að fá þessi stig til að klóra okkur upp tölfuna aðeins í stað þess að hanga um miðja deild. Það er alveg ógeðslega gaman að spila hér og sérstaklega þegar mætingin er góð og fólk er að fagna og vera með læti með okkur.“
Hreiðar er væntanlegur að veita þér samkeppni eftir þetta hlé ef allt gengur upp hjá honum. „Já, það er bara betra að hafa meiri samkeppni. Ég held líka að það verði bara mjög góð samvinna hjá okkur þegar hann verður kominn í lag, við verðum gott teymi. Vonandi gengur bara sem best hjá honum með hnéið og ég held bara áfram að gera mitt besta þangað til. Það er mikið betri stemming í liðinu núna en var á síðasta tímabili, við erum þó enn að slást við þessar sveiflur í leik okkar og ég vona að við náum meiri stöðugleika í leik okkar eftir frí.“
Tomas kemur boltanum í leik eftir að hafa gripið skot Framara
Guðlaugur Arnarsson: Ógeðslega fúll
„Ég er eiginlega bara ógeðslega fúll út í okkur hvernig við komum inn í seinni hálfleikinn,“ sagði Guðlaugur Arnarsson þegar hann var spurður út í fyrstu viðbrögð eftir leik. „Við töpum þessum leik á fyrstu fimm mínútum seinni hálfleiks. Við köstum boltanum endurtekið frá okkur og förum inn í vörnina þar sem þeir eru sterkastir. Þeir náðu að þétta sína vörn og leiddu okkur í erfiðar ákvarðanir, ég tek ekkert af Akureyri þar sem þeir áttu skilið að vinna hér í dag.“
Kristinn Björgúlfsson virist vera helsti drifkraftur liðsins lengi vel í seinni hálfleiknum. „Kiddi er búinn að vera að spila vel hjá okkur undanfarið, hann er að nýta sína reynslu vel og sýna úr hverju hann er gerður en við þurftum að fá fleiri með inn í þetta. Það voru of margir sem voru farþegar, með lélegar ákvarðanir, hræddir og það bara gengur ekkert í okkar liði. Það verður hver og einn að taka ábyrgð á sínu hlutverki og þegar það gerist, þá erum við helvíti góðir en þegar við ætlum að láta aðra um hlutina þá erum við ekki góðir.“
Gulli reynir að drífa sína menn áfram
Einn leikur eftir fyrir frí, þú vilt væntanlega að þínir menn svari fyrir sig? „Klárlega, þetta er bara enn einn úrslitaleikur og núna gegn Stjörnunni. Þetta er svokallaður fjögurra stiga leikur í þessum pakka sem við erum í og við verðum bara að vinna þar. Ég þekki mína menn, við mætum brjálaðir á æfingu á mánudag og í næsta leik.“
Næst kíkjum við á viðtöl Einars Sigtryggssonar blaðamanns mbl en hann ræddi við leikmennina Andra Snæ Stefánsson, Elías Má Halldórsson og Ólaf Magnússon leikmann Fram.
Andri Snær: Sjúkraþjálfarinn er á extra bónus
Sjúkralisti Akureyrar Handboltafélags lengdist enn í sigri liðsins á Fram, 31:24, í Olís-deild karla í dag, en Heiðar Þór Aðalsteinsson meiddist í leiknum. Andri Snær Stefánsson fyrirliði sagði ástandið ekki gott. „Ég er alveg ónýtur í hælnum og Ingimundur [Ingimundarson] spilaði ekkert í dag. Sigþór [Heimisson], Heimir [Örn Árnason] og Bergvin [Gíslason] eru að spila meiddir eða tæpir,“ sagði Andri Snær við mbl.is og segir það hlé sem framundan er á deildinni vera kærkomið.
„Sjúkraþjálfarinn okkar hefur í nógu að snúast og er á extra bónus. Þetta er ekki gott en sem betur fer er að koma hlé í deildinni svo við getum vonandi komið mönnum í þokkalegt stand fyrir leikina eftir áramót,“ sagði Andri Snær, klárlega sáttur með sína menn eftir sigur dagsins.
Andri Snær fagnar glæsivörslu Tomasar
Elías Már: Staðráðinn að kveðja með sigri
Elías Már Halldórsson leikmaður Akureyrar spilaði sinn síðasta heimaleik með liðinu í dag þegar Akureyri vann Fram 31:24 í Olísdeild karla í handbolta. Eins og greint var frá á mbl.is í dag hefur Elías Már fengið sig lausan undan samningi sínum og mun kveðja liðið í Hafnarfirði á fimmtudag þegar FH fær norðanmenn í heimsókn. Elías stóð vel fyrir sínu í dag og kvaddi með átta mörkum.
Hann var sáttur í leikslok og gaf sér tíma í létt spjall við mbl.is á meðan hann svolgraði í sig kærkominn svaladrykk. „Þetta var ágætisleikur hjá okkur, mun betra en í síðustu leikjum. Ég fann mig vel og þegar við örvhendu mennirnir vorum að spila bæði vörn og sókn þá fannst mér ég finna betri takt í mínum leik og þá fór allt að ganga betur. Þetta var nánast í fyrsta sinn í vetur sem þetta hefur verið svona,“ sagði Elías.
„Mér hefur gengið best þegar ég fæ að spila vörnina líka. Ég var staðráðinn í að spila vel í dag og kveðja stuðningsmennina með sigri. Það gekk eftir. Það má segja að við höfum klárað leikinn fyrra kortérið í seinni hálfleik en við slökuðum full mikið á eftir það. Við höfum lítið verið að leiða í síðustu leikjum og þess vegna duttum við líklega aðeins niður. Það voru batamerki á liðinu í dag en ég held að menn þurfi virkilega að nota hléið sem kemur í deildinni í janúar til að tjasla mönnum saman, ef liðið ætlar sér eitthvað í deildinni eftir áramót.“
Um brottför sína vildi Elías sem minnst ræða. „Þetta hefur verið ágætt, svo sem. Ég er mest þakklátur fyrir að hafa kynnst öllum þeim frábæru strákum sem eru í liðinu en því miður þá virkaði þetta ekki og ég ætla ekkert að útskýra það neitt frekar. Nú er það bara lokaleikurinn fyrir jól gegn FH. Þar ætlum við að vinna.“
Elías skorar fyrsta markið sitt af átta í leiknum
Ólafur Magnússon: Klúðruðum okkar sénsum
Akureyringurinn Ólafur Jóhann Magnússon er nú á sínu þriðja ári í herbúðum Fram. Þar hefur hann lifað tímana tvenna, varð Íslandsmeistari fyrsta árið en stendur nú í miklu basli með liðsfélögum sínum. Eftir stutt spjall við móður sína gaf hann sig á tal við mbl.is eftir tap liðsins gegn Akureyri í Olís-deildinni í handbolta, 31:24.
„Við byrjuðum seinni hálfleikinn hörmulega og það má segja að tíu mínútna kafli hafi ráðið úrslitum. Við vorum allt í einu komnir 5-6 mörkum undir og eftir það þá vorum við allt of æstir. Við ætluðum að skora tvö mörk í hverri sókn og flýttum okkur full mikið. Akureyri spilaði ekki vel síðasta korterið en við klúðruðum bara okkar sénsum á að nálgast þá og gera leikinn spennandi í restina,“ sagði Ólafur, en Fram hafði unnið þrjá deildarleiki í röð í aðdraganda leiksins.
„Við erum búnir að vera flottir í síðustu leikjum, höfðum sótt sigra til Eyja og í Mosfellsbæ. Það var því ekkert annað í spilunum en að sigra hér í dag. Akureyringar hafa verið vængbrotnir í síðustu leikjum en leikur okkar var bara slakur og því áttum við ekki séns gegn þeim. Við vorum daprir í fyrri hálfleik en vorum samt bara marki undir. Við vorum að elta allan leikinn og það var erfitt. Við bara gáfum þeim þessi tvö stig. Nú er algjört lykilatriði að vinna Stjörnuna í lokaleiknum fyrir jólafrí,“ sagði Ólafur sem fer í heimahagana yfir hátíðarnar.
„Jú ég mun koma norður í fríinu og ætla að slappa vel af en reyna að halda mér í toppstandi með því að komast í eitthvað sprikl,“ sagði hinn geðþekki hornamaður að lokum.
Ólafur reynir að stöðva Halldór Loga á línunni
Það er mikið undir í þessum leik
13. desember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri – Fram, ekki textalýsing
Í dag leikur Akureyri síðasta heimaleik sinn á þessu ári. Það eru gríðarlega mikilvæg 2 stig í húfi og því mikilvægt að við fjölmennum í Höllina og styðjum okkar lið til sigurs! Við getum því miður ekki verið með beina textalýsingu hér á síðunni frá leiknum í dag. Við verðum því að þessu sinni að benda þeim sem ekki komast í Höllina á að fylgjast með textalýsingum á visir.is eða mbl.is sem hafa staðið vaktina vel.
Allir í Höllina í dag klukkan 15:00, áfram Akureyri!
Fram er búið að vera á góðu skriði upp á síðkastið
11. desember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Heimaleikur gegn Fram á laugardaginn
Eftir þrjá útileiki í röð, reyndar fjóra ef bikarleikurinn er talinn með, er loksins komið að heimaleik hjá Akureyri Handboltafélagi þegar Fram kemur í heimsókn á laugardaginn. Hjá Fram ræður ríkjum góðkunningi okkar Guðlaugur Arnarsson sem lék um nokkurra ára skeið með Akureyri.
Þetta er annað árið hjá Gulla sem þjálfari Fram en hann náði flottum árangri með ungt lið Fram í fyrra þrátt fyrir hrakspár. Framan af núverandi tímabili áttu Framarar í verulegum erfiðleikum, ekki síst vegna mikilla meiðsla lykilleikmanna. En Framarar hafa bitið frá sér í síðustu leikjum, þrír sigurleikir í röð, gegn HK og útisigur gegn Aftureldingu segja okkur að enginn skyldi vanmeta Framara. Þar að auki sóttu þeir nýverið tvö stig til Vestmannaeyja í frestuðum leik þannig að Fram hefur heldur betur safnað að sér stigum í síðustu leikjum.
Línumaðurinn og vítaskyttan Garðar Benedikt Sigurjónsson er þeirra markahæstur með 53 mörk í deildinni. Þar á eftir koma Sigurður Örn Þorsteinsson og Stefán Baldvin Stefánsson með 49 og 48 mörk og nokkuð á eftir þeim kemur Ólafur Jóhann Magnússon með 28 mörk. Í síðasta leik, gegn HK var Garðar með 8 mörk og Stefán Baldvin með 6 mörk. Þeir voru einnig drýgstir í sigrinum á Aftureldingu, Stefán með 6 mörk en Garðar með 5 stykki.
Sverre og Bergvin með góðar gætur á Garðari þegar liðin mættust í október
Það er rétt að hafa í huga að Fram sótti liðstyrk til ÍR inga eftir fyrstu sex umferðirnar og fengu til sín leikstjórnandann Kristinn Björgúlfsson sem hefur heldur betur reynst þeim dýrmætur í síðustu leikjum.
Akureyri og Fram mættust í Framheimilinu þann 11. október og þar fór Akureyri með góðan sex marka sigur eftir að hafa verið marki undir í hálfleik. Í þeim leik small vörnin heldur betur saman og Tomas var frábær í markinu. Það er allavega ljóst að þessir hlutir þurfa að vera í lagi á laugardaginn og menn albúnir að berjast frá upphafi því Fram liðið hefur einmitt sýnt það í síðustu leikjum að með ódrepandi baráttu þeirra sem eru inni á vellinum er allt hægt, þrátt fyrir meiðsli sterkra leikmanna.
Frábær barátta og stemming skilaði góðum sigri á Fram í október
Fram á reyndar áhugaverðan leik í kvöld í Coca Cola bikarnum þar sem þeir fá FH í heimsókn og verður örugglega barist af krafti í þeim leik.