Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Tap gegn FH í síðasta leik ársins - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2014-15

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    FH - Akureyri  26-23 (12-13)
Olís deild karla
Kaplakriki
fim 18. desember 2014 klukkan: 18:30
Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Þorleifur Árni Björnsson
Umfjöllun

Sissi var öflugur en það dugði skammt

20. desember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Tap gegn FH í síðasta leik ársins

Akureyri og FH mættust í 16. umferð Olís deildar karla á fimmtudaginn en leikurinn var sá síðasti fyrir jólafrí og HM frí þar sem Ísland leikur á heimsmeistaramótinu í Katar. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið enda er deildin að byrja að skiptast í topp-, miðju- og fallbaráttu.

Gríðarlegur hraði einkenndi leikinn í upphafi en staðan var 3-3 eftir rétt rúmar þrjár mínútur. Akureyri leiddi leikinn en FH jafnaði alltaf strax. Vörn Akureyrar small svo vel á meðan sóknin hélt áfram að ganga vel og Akureyri komst í 8-13 og Akureyri með gott tak á leiknum. Varnarleikurinn var búinn að líta vel út en þó var ánægjulegra að horfa á sóknina, Heimir og Sissi stjórnuðu spilinu vel og Kristján Orri byrjaði flott og skoraði 4 fyrstu mörk Akureyrar úr 4 skotum.

Hinsvegar náði Akureyri ekki að fylgja þessum kafla eftir og FH skoraði fjögur síðustu mörk hálfleiksins og munurinn var því einungis eitt mark í hálfleik. Síðari hálfleikur byrjaði svo eins og þeim fyrri lauk, FH gekk á lagið á meðan leikur Akureyrar hélt áfram að hiksta. FH komst í 20-16 sem þýddi að FH hafði náð 12-3 kafla.

Þá kviknaði líf í okkar mönnum en þegar 12 mínútur voru eftir hafði FH enn fjögurra marka forskot, Akureyri náði að skora fjögur mörk gegn einu og minnka muninn niður í eitt mark þegar fjórar og hálf mínúta var eftir. FH skoraði svo í næstu sókn en aftur minnkaði Akureyri muninn í eitt mark og rétt rúmar þrjár mínútur lifðu leiks. Nær komst Akureyri ekki og FH skoraði síðustu tvö mörk leiksins og unnu 26-23.

Leikur Akureyrar var gríðarlega kaflaskiptur, á tímum var liðið að spila glimrandi handbolta og stjórnaði gjörsamlega leiknum, hinsvegar datt liðið einnig í það að spila virkilega slakan leik og FH keyrði yfir okkar menn. Tomas Olason stóð í markinu allan leikinn og varði 17 skot, hinn ungi markvörður Arnar Þór Fylkisson var í fyrsta skiptið í hóp en hann er ungur og efnilegur og það styttist klárlega í það að hann fái spiltíma.

Sigþór Árni var markahæstur með 9 mörk en Sissi spilaði heilt yfir mjög vel en oft þurfti hann að taka á því og enda annaðhvort með skoti eða örlagasendingu. Akureyri fer því í jólafríið með 15 stig í 6. sæti. Nú tekur við virkilega mikilvægt frí fyrir liðið enda mikið um meiðsli undanfarið.

Tengdar fréttir

Atli er sáttur með að fá frí í deildinni

21. desember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Viðtöl eftir leik FH og Akureyrar

FH og Akureyri mættust í síðustu umferðinni fyrir jólafrí og eftir sveiflukenndan leik fóru heimamenn með sigur af hólmi, 26-23. Akureyri hefur verið í miklum meiðslavandræðum og eru menn fríinu fegnir. Það hafa oft verið fleiri fjölmiðlamenn heldur en voru á leiknum en Atli Hilmarsson var tekinn í video viðtal hjá bæði mbl.is sem og sport.is.

Guðmundur Hilmarsson á mbl.is tók viðtal við Atla Hilmarsson og Ágúst Elí Björgvinsson markvörð FH.

Safna kröft­um og heilsu
Atli Hilm­ars­son þjálf­ari Ak­ur­eyr­inga seg­ir fríið í deild­inni sem fram und­an er mjög kær­komið en norðanliðið hef­ur þurft að glíma við mik­il meiðsli. Atli sá sína menn tapa fyr­ir FH-ing­um í Kaplakrika í kvöld. 26:23.

Við vor­um klauf­ar í stöðunni 13:8 yfir. Við vor­um þá að klikka úr dauðafær­um og rétta bolt­ann í hend­urn­ar á þeim. FH gekk á lagið og skoraði sex mörk í röð. Við erum þunn­skipaðir eins og all­ir sjá en það er eng­in af­sök­un. Ég var ánægður með strák­ana á lokakafl­an­um en því miður dugði það ekki til, sagði Atli við mbl.is en allt viðtalið má sjá á mynd­skeiðinu.



Býr meira í liðinu
Ágúst Elí Björg­vins­son stóð vakt­ina vel í FH mark­inu í kvöld þegar FH-ing­ar unnu þriggja marka sig­ur á Ak­ur­eyr­ing­um í Olís-deild­inni.

Við byrjuðum leik­inn ekk­ert sér­stak­lega vel. Við fór­um illa með fær­in og vörn­in fór í gang fyrr en á 20. mín­útu. Við náðum sem bet­ur fer að laga okk­ar leik og erum á leið í deilda­bik­ar­inn sem var eitt af mark­miðum okk­ar. Við vild­um hins veg­ar hafa gert bet­ur á móti toppliðunum. Það býr meira í liðinu og nú þurf­um við bara að æfa vel í frí­inu og mæta sterk­ari til leiks eft­ir það, sagði Ágúst Elí við mbl.is eft­ir leik­inn en hann varði 17 skot í leikn­um og þar af tvö víta­köst.



Þorsteinn Haukur Harðarson tók viðtal við Atla Hilmarsson og Ísak Rafnsson leikmann FH fyrir sport.is.

Atli Hilmarsson: Fór með sex leikmenn til læknis fyrir leikinn
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyringa, var skiljanlega svekktur eftir tapið gegn FH í kvöld. Nú hefst langt frí í deildinni og Atli tekur fríinu fagnandi enda með marga leikmenn á meiðslalistanum.



Ísak Rafnsson: Ég er bara svo ánægður
Ísak Rafnsson, leikmaður FH, var hrikalega ánægður eftir sigurinn gegn Akureyri í Olís-deild karla í kvöld.



Stórleikur í Krikanum

18. desember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: FH - Akureyri verður í beinni textalýsingu

Lokaumferð Olís-deildar karla á árinu verður leikin í kvöld, þar mætast FH og Akureyri í Kaplakrikanum klukkan 18:30. Þeir sem gerðu sér vonir um að RÚV myndi sýna leikinn geta gleymt því þar sem RÚV valdi að sýna frá leik Fram og Stjörnunnar. Þar með fór síðasta tækifæri RÚV til að sýna leik með Akureyri á árinu.

Við verðum þess í stað með beina textalýsingu frá leiknum hér á heimasíðunni og hefst hún líkt og leikurinn klukkan 18:30.

Akureyrarliðið er þessa stundina á leiðinni suður með rútu SBA og gengur ferðin vel. Strákarnir báðu fyrir kveðjur til allra stuðningsmanna sinna og hvetja þá til að leggja sitt að mörkum gegn FH-ingum í kvöld.


FH ingar eru yfirleitt erfiðir heim að sækja

16. desember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Akureyri fer í Hafnarfjörðinn og mætir FH á fimmtudaginn

Nú er aðeins ein umferð eftir af Olís-deild karla fyrir áramót og verður hún leikin á fimmtudaginn. Akureyri heldur í Kaplakrikann og mætir þar FH-ingum. Líkt og í öllum leikjum eru dýrmæt stig í boði sem bæði liðin hafa augastað á.

Í síðustu umferð vann Akureyri góðan sigur á Fram og FH sótti nokkuð torsóttan sigur gegn HK í Kópavoginum. FH leikur undir stjórn Halldórs Jóhanns Sigfússonar og í liðinu eru góðkunningjar okkar, Ásbjörn Friðriksson og Daníel Matthíasson sem báðir hafa komið við sögu með Akureyrarliðinu.


Halldór fór mikinn á hliðarlínunni þegar liðin mættust síðast

Eftir 15 umferðir er FH með 18 stig en Akureyri með 15 stig þannig að ekki er langt á milli þeirra. Ef við rýnum í helstu markaskorara FH liðsins þá eru þar fimm leikmenn sem skera sig nokkuð úr: Ragnar Jóhannsson 69 mörk, Ásbjörn Friðriksson 66 mörk, Magnús Óli Magnússon 59 mörk, Benedikt Reynir Kristinsson 51 mark og Ísak Rafnsson með 50 mörk.

Eins og áður segir unnu FH-ingar HK í síðasta leik en þar á undan höfðu þeir tapað naumlega á heimavelli fyrir Aftureldingu 23-24 og fyrir ÍR á útivelli 29-27 og gert jafntefli við Hauka 22-22. Uppskeran sem sé þrjú stig úr síðustu fjórum leikjum sem er raunar nákvæmlega sama uppskera og hjá Akureyrarliðinu þannig að bæði liðin vilja klárlega krækja í stigin til að laga stigahlutfallið.

Í leiknum gegn HK voru Daníel Matthíasson, Andri Berg Haraldsson og Magnús Óli Magnússon allir með 5 mörk, Ragnar Jóhannsson hafði frekar hægt um sig með 2 mörk en Ásbjörn Friðriksson spilaði ekki leikinn.


Daníel Matthíasson stóð í ströngu í síðasta leik liðanna

Akureyri og FH mættust hér í Íþróttahöllinni sextánda október þar stefndi í jafnan og spennandi leik í upphafi. Um miðjan fyrri hálfleikinn fór hinsvegar allt í baklás hjá heimamönnum og FH náði ufirburðastöðu og vann að lokum sjö marka sigur 20-27 við lítinn fögnuð stuðningsmanna. Nú fá leikmenn kjörið tækifæri til að kvitta fyrir þann leik.

Eins og kunnugt er þá verður þetta væntanlega síðasti leikurinn sem Elías Már Halldórsson leikur með liðinu og ekki ósennilegt að hann vilji kveðja með stæl líkt og hann gerði gegn Fram á fimmtudaginn. Í Fram leiknum fór Heiðar Þór Aðalsteinsson meiddur af velli en við vitum ekki hversu alvarleg meiðsli hans eru en Atli Hilmarsson fær það vandasama verkefni að stilla upp liðinu í þessum lokaleik fyrir landsleikjahléið.

Strákarnir sýndu glimrandi tilþrif í seinni hálfleiknum á móti Fram og ef þeir halda sömu baráttu og stemmingu á fimmtudaginn getum við lofað hörkuskemmtun í Krikanum. Að sjálfsögðu hvetjum við alla stuðningsmenn á höfuðborgarsvæðinu til að fjölmenna á leikinn sem hefst klukkan 18:30 á fimmtudaginn.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson