Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Akureyri tryggði sér oddaleik á sunnudaginn - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson. Eftirlit: Einar Sveinsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Beggi var í hasar í leiknum
12. apríl 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Svipmyndir frá sigurleiknum gegn ÍR
Akureyri vann ÍR eins og frægt er orðið í síðasta leik liðanna á föstudagskvöldið og tryggði þar með oddaleikinn sem spilaður verður í dag klukkan 16:00. RÚV sýndi aðeins úr leiknum í fréttatíma sínum og má sjá þær svipmyndir hér að neðan.
Á sama tíma hvetjum við að sjálfsögðu alla til að mæta í Austurbergið og hvetja okkar lið til sigurs en þið sem ekki komist í Breiðholtið getið fylgst með Beinu Lýsingunni okkar hér á síðunni.
Við viljum benda á að villa er í frétt RÚV en oddaleikurinn fer að sjálfsögðu fram í dag (sunnudag) en ekki á mánudeginum.
Þá hefur Bjarni Fritzson beðist afsökunar á ummælum sínum um dómara leiksins og á hann skilið virðingu fyrir að sjá að sér.
Sævar og Bjarni á góðri stundu í Norðlenska kælinum
11. apríl 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hvað sögðu menn eftir sigurinn á ÍR?
Akureyri vann algjörlega nauðsynlegan sigur á ÍR á heimavelli sínum í gær 23-20 og tryggði þar með hreinan úrslitaleik um sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins á sunnudaginn. Mönnum var eðlilega nokkuð heitt í hamsi enda mikil spenna og mikið í húfi í leiknum. Við rennum hér yfir hvað menn höfðu við fjölmiðla að segja eftir leikinn.
Við byrjum á viðtölum Einars Sigtryggssonar, blaðamanns Morgunblaðsins sem ræddi við Sævar Árnason sem er reyndur í úrslitaeinvígum og einnig ræddi Einar við Ingvar Heiðmann Birgisson, einn Akureyringanna í liði ÍR.
Sævar: Réðst á markvörslunni
Sævar Árnason, aðstoðarþjálfari Akureyringa í handbolta karla hefur upplifað margt á ferli sínum sem leikmaður og þjálfari. Hann var fenginn í stutt spjall eftir að lið hans hafði unnið ÍR í kvöld, 23:20. Sigur Akureyringa þýðir að liðin þurfa að gera út um sín mál í oddaleik á sunnudag.
Verður það fjórði leikur liðanna á ellefu dögum. „Mér fannst þessi leikur vera dæmigerður fyrir leiki í svona úrslitakeppni. Það var alvöru barátta og sveiflurnar voru miklar. Þegar upp er staðið þá finnst mér markvarslan í seinni hálfleik hafa stjórnað þessum sveiflum. Tomas byrjaði á að verja vel og við komumst í kjörstöðu. Svo fór Arnór að verja fyrir ÍR-inga og við lentum í tómum vandræðum.Tomas kláraði svo leikinn í restina með nokkrum vörslum.
Það er stutt á milli leikja og við erum að róta mikið í mannskapnum. Maður verður að nýta hann á sem skynsamastan hátt og í seinni hálfleik þá munaði mikið um Nicklas sem fór meiddur af velli. Liðsspilið var ekki nógu gott í seinni hálfleiknum og við sköpuðum ekki nógu góð færi. Þeir komust þannig aftur inn í leikinn,“ sagði Sævar við mbl.is.
Um framhaldið sagði Sævar. „Nú er bara að sjá hverjir verða klárir á sunnudag. Það er algjör óvissa með Nicklas og svo eru alltaf einhverjir sem þarf að tjasla saman. Nú er staðan bara 1:1 og við búnir að spila við ÍR þrisvar á skömmum tíma. Oddaleikurinn mun ráðast á smáatriðum og því að taka skynsamar ákvarðanir. Við reynum að halda mistökum í lágmarki og þá er allt hægt“ sagði Sævar að lokum.
Sævar spáir í spilin á bekknum
Ingvar: Ótrúlega svekktur
Ekki kannast margir við handboltamanninn Ingvar Heiðmann Birgisson, leikmann ÍR. Hann er búinn að æfa handbolta með KA, Akureyri og ÍR í tæp fimm ár og er mjög vaxandi leikmaður. Var hann á sínum gamla heimavelli í kvöld þegar ÍR sótti Akureyri heim í úrslitakeppni Olís-deildarinnar. Ekki sótti hann gull í greipar gömlu liðsfálaganna því Akureyringar unnu að lokum, 23:20 eftir æsilegar lokamínútur.
Stóð Ingvar sig virkilega vel í leiknum og hrósaði Sturla Ásgeirsson honum sérstaklega. Sveitastrákurinn úr Gullbrekku í Eyjafirði var gripinn í viðtal eftir leik. „Ég er alltaf að bæta mig og fæ alltaf að spila meira og meira. Ég er líka með frábæra þjálfara og móttökurnar sem ég fékk þegar ég kom suður í haust hefðu ekki getað verið betri. Ég byrjaði að æfa þegar ég var 16 ára og fór í skóla inni á Akureyri. Í vetur er ég búinn að æfa mjög vel og það er að skila sér.“
Um leikinn sagði Ingvar „Við vorum alveg komnir með þá þarna í restina en síðustu sóknirnar voru ekki nógu vel nýttar og því fór sem fór. Í raun er ég ótrúlega svekktur að hafa ekki klárað dæmið. Þetta var bara enn einn hörkuleikurinn og við erum klárir í oddaleikinn. Við erum ferskir og í góðu standi svo við kvíðum engu fyrir sunnudaginn, jafnvel þótt það vanti Björgvin í hópinn. Við spilum bara á þeim sem eru klárir og það gengur bara vel.“
Norðanmaðurinn Ingvar Heiðmann skoraði tvö mörk fyrir ÍR í leiknum
Næst kíkjum við á Vísi en þar var Siguróli Magni Sigurðsson sem tók viðtöl við þá Heimi Örn Árnason leikmann Akureyrar og Bjarna Fritzson spilandi þjálfara ÍR. Þeir kumpánar voru einmitt saman við völd hjá Akureyrarliðinu en eigast nú við.
Heimir Örn: Með þessa vörn er allt hægt
Heimir Örn Árnason átti góðan leik í kvöld og var hann léttur í bragði þegar blaðamaður Vísis náði af honum spjalli:
„Við spilum frábærlega í 45 mínútur í kvöld og það dugði til. Þetta var ekki fallegasti sigurinn en þetta hafðist“ sagði Heimir léttur.
„Við skorum ekki alltof margar mínútur í seinni hálfleik, það kom svona klassískt stress, veturinn undir og allt það. Ég og fleiri vorum ekki að hitta og Arnór varði allt of mikið en við fáum annan séns og þurfum að spila betri sókn á sunnudaginn. Með þessa vörn er samt allt hægt," sagði Heimir.
ÍR-ingar voru án Björgvins Hólmgeirssonar í dag og munar um minna: „Auðvitað vantaði Bjögga en mér fannst samt Daníel frábær í fyrri hálfleik – það koma alltaf nýir menn inn í staðin“ sagði Heimir
„Það er allt eða ekkert á sunnudaginn. Við vorum gíraðari núna en á þriðjudaginn síðasta en samt vantar ennþá að ná upp geðveiki í fullar 60 mínútur. Það vantar aðeins meiri ástríðu, við eigum það inni“ sagði Heimir og bætti við: „Sumarfrí í snjó er ekki freistandi.“
Það hefur mætt mikið á Heimi í einvíginu gegn ÍR
Bjarni: Dómararnir bara með dónaskap
Bjarni Fritzson, spilandi þjálfari ÍR, var langt frá því að vera sáttur eftir að hafa þurft að þola þriggja marka tap á Akureyri í kvöld en norðanmenn tryggðu sér með því oddaleik í Austurberginu á sunnudaginn.
„Við vorum komnir með leikinn í okkar hendur en tökum slæmar ákvarðanir á þeim kafla og þannig tapast þetta. Þetta hefði alveg getað verið okkar dagur en þá hefðum við þurft að slútta betur. Við vorum að spila vel þar til það voru fimm mínútur eftir og þá förum við í einhverja steypu,“ sagði Bjarni.
Leikurinn var afar kaflaskiptur og skiptust liðin á að skora ekki í fleiri mínútur í einu. Bjarni taldi það vera sök dómaranna, að þeir væru að flauta leikinn kaflaskiptan:
„Ég hef bara ekki séð annað eins í allan vetur. Það voru dómar hérna sem ég skil ekki. Leikurinn er kaflaskiptur því að þeir taka í taumana. Það er ekkert samræmi milli helminga“ sagði Bjarni og hélt áfram:
„Þeir eru á tíma að flauta okkur út úr þessum leik. Þetta eru 8-liða úrslit sem að við höfum verið að berjast fyrir í allan vetur og svo fáum við svona. Þetta er ekki ásættanlegt. Það er ekki hægt að bjóða mönnum sem leggja svona mikla vinnu í veturinn upp á svona dómara," sagði Bjarni.
Jón Heiðar Gunnarsson fékk umdeilt rautt spjald og hafði Bjarni sína skoðun á því og hvernig dómararnir tóku á málinu:
„Síðan er ekki hægt að tala við þá [dómarana innsk. blm.]. Þeir eru bara með dónaskap og henda mönnum hérna útaf með rautt spjald þegar menn eru að reyna að fá útskýringu einhverju, sem er alveg ótrúlegt. Þetta var bara slæmur árekstur, þetta er bara einn dómur af fjölmörgum. Þetta er það ótrúlegasta sem ég hef séð. Þeir dæma eitthvað öðru megin, og allt annað hinum megin – ekkert samræmi. Það er mjög leiðinlegt að upplifa að maður sé að spila leik sem er ekki sanngjarn og heiðarlegur.“ sagði Bjarni gríðarlega svekktur.
Bjarni hressir sig í leikhléi undir lok leiksins
Siguróli Magni Sigurðsson stóð greinilega í ströngu í gær en ásamt því að lýsa leiknum fyrir Vísi tók hann Sverre Andreas Jakobsson í viðtal fyrir Sport.is, það má sjá hér:
Stærsti leikur tímabilsins
10. apríl 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri – ÍR 2. leikur úrslitanna
Það styttist í stórleikinn, hann hefst klukkan 19:00 og væntanlega hefur ekki farið framhjá neinum að Akureyri verður að sigra í kvöld og þarf stuðning til að klára verkið. Áhorfendur eru okkar áttundi maður á vellinum og gefa leikmönnum svakalegan aukakraft! Þannig að nú treystum við á að handboltaáhugamenn norðurlands flykkist í Höllina og leggi sitt lóð á vogarskálarnar til að við fáum alvöru handbolta lengra fram á vorið!
Fyrir þá stuðningsmenn sem ekki eiga heimangengt verðum við með beina textalýsingu sem birtist hér á heimasíðunni vel fyrir leik. Eins og áður segir þá hefst leikurinn klukkan 19:00 í Höllinni í kvöld, ekki láta þig vanta!
Atli lofar baráttuleik á föstudaginn
9. apríl 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Einfaldlega allt undir á föstudagskvöldið
Nú er komið að okkur gott fólk! Akureyri tekur á móti ÍR í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins og verður að sigra!
Sigri Akureyri knýr liðið fram oddaleik en tapist leikurinn er tímabilið búið. Nú verðum við einfaldlega að troðfylla Höllina og sjá til þess að strákarnir sigri, áfram Akureyri!
Athugið að leikurinn hefst klukkan 19:00 á föstudaginn (ekki 19:30 eins og upphaflega var fyrirhugað).
Við fengum að kynnast því á þriðjudaginn að færð og veður getur truflað og því hvetjum við þig til að fylgjast með fréttum, t.d. hér á heimasíðunni ef veðurútlit á föstudaginn verður vafasamt!
Annars er óþarfi að hafa mörg orð um þennan leik, strákarnir eru komnir með bakið upp að vegg og ætla að leggja alla sína orku í leikinn og knýja fram þriðja leikinn á sunnudaginn.
Líkt og Atli Hilmarsson sagði eftir fyrsta leikinn: „Nú er að duga eða drepast á föstudaginn og ekkert annað að gera en treysta á okkur sjálfa og okkar frábæra stuðningsfólk. – Áfram Akureyri!