Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Ótrúlegur karakter skilaði stigi í Safamýri - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2015-16

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Myndband frá leiknum      Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Fram - Akureyri  26-26 (15-13)
Olís deild karla
Framhús
Fim. 26. nóv. 2015 klukkan: 19:00
Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Þorleifur Árni Björnsson
Umfjöllun

Hörður dró sóknarvagninn í síðari hálfleik og Hreiðar varði eins og berserkur



26. nóvember 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Ótrúlegur karakter skilaði stigi í Safamýri

Akureyri sótti Framara heim í kvöld í 15. umferð Olís deildar karla. Framarar hafa verið sjóðandi heitir að undanförnu og komið sér vel fyrir í toppbaráttu deildarinnar. Eftir frábæran leik þar sem heimamenn voru komnir í lykilstöðu kom frábær endasprettur og Akureyri náði jafntefli á lokasekúndunum.

Akureyri byrjaði leikinn af krafti og leiddi fyrsta kortér leiksins og virtist vera með leikinn nokkurnveginn í hendi sér. Framarar gerðu þó vel í að refsa fyrir öll mistök og komu sér betur og betur inn í leikinn er leið á fyrri hálfleikinn. Akureyri gaf aðeins eftir hinsvegar þegar nær dró hléið og Framarar gerðu vel í að ná forystunni og leiddu 15-13 í hálfleik.

Síðari hálfleikur hófst ekki nægilega vel en Akureyri kom sér þó yfirleitt í góð færi en stangirnar og Kristófer komu í veg fyrir að boltinn endaði í netinu. Framarar nýttu sér þetta með því að keyra áfram vel í bakið á okkar mönnum og voru fljótlega komnir með 5 marka forskot.

Þetta 5 marka forskot hélst uns 15 mínútur lifðu leiks en þá kom flottur kafli hjá okkar mönnum og náðu að minnka muninn niður í tvö mörk þegar rúmar 10 mínútur voru enn eftir. En heimamenn gáfu aftur í og juku muninn í 4 mörk. Þegar tæpar 5 mínútur voru eftir leiddu Framarar 25-22 og ekki margt sem benti til þess að Akureyri væri að fara að fá stig útúr leiknum.

En það býr svakalegur karakter í okkar liði og það skein úr andlitum manna að menn ætluðu að gefa allt í þetta. Menn hentu sér á opnanir í vörn heimamanna og Hreiðar Levý hélt áfram að verja algjör dauðafæri. En þegar tækifærið á að jafna fór misgörðum og munurinn aftur tvö mörk þegar rétt rúm mínúta var eftir var vonin orðin lítil.

Hörður Másson þrumaði hinsvegar strax á markið og minnkaði muninn niður í eitt mark. Friðrik Svavarsson stal síðan boltanum listilega og var brotið á honum. Akureyri var því manni fleiri með boltann þegar rúmlega 20 sekúndur voru eftir. Hreiðar Levý kom útaf og Akureyri lék því með aukamann í sókninni. Sigþór Árni fintaði sig svo vel í gegn og jafnaði metin, 9 sekúndur eftir!

Framarar brunuðu í sókn en Bergvin Þór Gíslason kastaði sér fyrir skot þeirra og á endanum fengu heimamenn aðeins aukakast og tíminn búinn. Skotið beint í varnarvegginn og okkar menn fögnuðu því vel og innilega enda ótrúlegt stig í hús sem fáir reiknuðu með miðað við stöðuna skömmu áður.

Það er ekki laust við að maður sé stoltur af liðinu okkar enda þvílíkur karakter sem liðið sýndi að knýja fram stig gegn jafn sterku liði. Miðað við alla neikvæðnina sem einkenndi alla umræðu í kringum liðið eftir fyrstu 5 umferðirnar þá er virðingarvert að sjá hvert liðið er komið í dag.

Hreiðar Levý Guðmundsson var gjörsamlega frábær í markinu í dag, Hreiðar varði eitthvað um 22 skot í leiknum en ansi mörg af þeim voru algjör dauðafæri. Ef ekki hefði verið fyrir þessa frammistöðu Hreiðars hefði Akureyri aldrei verið nægilega nálægt heimamönnum til að geta komið til baka.

Hörður Másson dró vagninn sóknarlega fyrir okkar lið í síðari hálfleik en Höddi þurfti oft að láta vaða á markið upp úr nánast engu. Hörður hefur verið að leika mjög vel í vetur og langt fram úr björtustu vonum manna, en það skemmtilegasta við Hörð er að hann heldur alltaf áfram og er ekki hræddur við að taka ábyrgð í sókninni.

Friðrik Svavarsson fékk að leika töluvert í dag og eftir brösuga byrjun var Frikki algjör lykilmaður í endurkomunni. Setti tvö mörk og stal svo boltanum frábærlega í lokasókn Framara.

Brynjar Hólm Grétarsson átti nokkra flotta spretti, það fer ekki á milli mála að Binni getur orðið þrusu skytta enda skoraði hann 3 mörk með neglum fyrir utan. Erfitt að stoppa hann þegar hann fær flugbrautina en enn þarf að slípa betur til leikskilninginn en það kemur.

Kristján Orri Jóhannsson setti 4 mörk í dag en hann var óheppinn með nokkur skot sem enduðu í rammanum og hefði því hæglega getað verið með fleiri mörk.

Vörnin hefur verið betri í vetur en þó voru Framarar í miklum vandræðum með að finna opnanir úr uppstilltum sóknarleik lengst af, þeir fundu flestar opnanir þegar þeir sóttu hratt á. Ingimundur Ingimundarson og Róbert Sigurðarson eru farnir að finna sig æ betur saman í hjarta varnarinnar og vonandi heldur það áfram.


Andri Snær flýgur inn í teig Framara. Mynd Eggert Jóhannesson mbl


Tengdar fréttir

Sissi og Beggi komu við sögu á lokakaflanum



27. nóvember 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Myndband frá lokakafla leiks Fram og Akureyrar

Það var háspenna og dramatík í lok leiks Fram og Akureyrar í gær þegar Akureyri sneri að því er virtist töpuðum leik í jafntefli á síðustu stundu. Á myndbandinu má sjá stutta frétt RÚV um leikinn svo og hamaganginn í lokin sem er brot af upptöku frá fimmeinn.is. Þar sést hvar Akureyri lendir tveim mörkum undir og í kjölfarið gerðust hlutir sem ollu töluverðu fjaðrafoki. Brotið er á Friðriki í hraðaupphlaupi spurning um rautt í kjölfarið, jöfnunarmarkið í lokin og glæsileg varsla Bergvins sem er augljóslega ekki innan teigs þegar hann ver boltann. En sjón er sögu ríkari.



Hreiðar og Sverre höfðu í miklu að snúast að svara spurningum eftir leik



27. nóvember 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Viðtöl eftir jafnteflið gegn Fram

Það var greinilegt að fjölmiðlar höfðu áhuga á leik Fram og Akureyrar í gærkvöldi enda varð hann hin besta skemmtun, dramatík og háspenna fram á síðustu sekúndu leiksins. Hér fara á eftir viðtöl frá mbl.is, visir.is, fimmeinn.is og sport.is.

Gefum fyrst Hjörvari Ólafssyni blaðamanni mbl orðið en hann ræddi við þjálfara liðanna, þá Sverre Andreas Jakobsson og Guðlaug Arnarsson:

Sverre: Við gefumst aldrei upp sama hvað gerist

Akureyri sýndi gríðarlegan karakter og jafnaði metin í síðustu sókn sinni þegar liðið mætti Fram í 15. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.
Akureyri var fimm mörkum undir þegar lítið var eftir af leiknum, en náði með mikilli baráttu og góðri markvörslu Hreiðars Leví Guðmundssonar að jafna leikinn. Leik liðanna lyktaði með 26:26 jafntefli.

Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var ánægður í samtali við mbl.is efir leikinn.
„Við höfum verið að sýna karakter í allan vetur og þetta kom mér ekkert á óvart. Þetta er bara lýsandi dæmi um það sem hefur verið að gerast hjá leikmannahópnum. Þrátt fyrir að hafa lent í mótvindi hefur liðið sýnt mikla baráttu í undanförnum leikjum og uppskorið eftir því,“ sagði Sverre í viðtali við mbl.is.
„Þó svo að staðan hafi verið orðin slæm þá héldum við bara áfram og misstum ekki hausinn. Við leggjum mikið upp úr því að fá eins mikið og við getum út úr öllum leikum og það er frábært að fá stig hér í kvöld,“ sagði Sverre glaðbeittur.


Sverre gefur sínum mönnum góð ráð

Guðlaugur: Skýtur ekki af hálfum hug á Hreiðar

Fram missti eitt stig í hendurnar á Akureyri þegar liðin mættust í 15. umferð Olís deildar karla í handknattleik í kvöld. Leiknum lyktaði með 26:26 jafntefli, en Fram hafði fimm marka forystu þegar skammt var eftir af leiknum.

Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, var svekktur þegar mbl.is náði tali af honum eftir leikinn.
„Ég er hundsvekktur með hvernig málin þróuðust í þessum leik. Við vorum komnir með góð tök á leiknum, en þá gefum við færi á okkur og þeir nýta sér það. Við vorum óskynsamir undir lok leiksins og okkur var refsað fyrir það,“ sagði Guðlaugur súr í samtali við mbl.is eftir leikinn.

„Hreiðar (Hreiðar Leví Guðmundsson, markvörður Akureyrar) var að verja hjá okkur í dauðafærum og menn verða að skjóta almennilega á svona sterkan leikmann. Það jákvæða sem við tökum úr þessum leik er kaflinn í upphafi seinni hálfleiks þar sem við stjórnum leiknum, en við verðum að skoða hvað fór úrskeiðis hjá okkur undir lok leiksins,“ sagði Guðlaugur enn fremur.


Guðlaugur messar yfir sínum mönnum

Á visir.is eru viðtöl Antons Inga Leifssonar við Hreiðar Levý Guðmundsson markvörð Akureyrar svo og Guðlaug Arnarsson þjálfara Fram:

Hreiðar Levý: Bognuðum en brotnuðum ekki

„Ég sætti mig við þetta stig allan tímann. Þetta var frábært stig. Þetta var hrikalega flottur karakter gegn hörkuliði,“ sagði Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður Akureyrar, í samtali við Vísi í leikslok. Hreiðar átti stórleik í markinu.

„Við vorum hérna á útivelli og ég tek þessu stigi. Þetta var orðið helvíti erfitt, en við bognuðum en brotnuðum ekki. Góð klisja, en við brotnuðum ekki. Við héldum áfram allan tímann og gáfumst ekkert upp.

Svo var þetta komið í járn þarna síðustu tíu mínúturnar og þeir urðu dálítið stressaðir Framararnir. Þeir urðu passívir og reyndu dálítið að halda sínu fannst mér og það er hættulegt.
Þá vorum við orðnir graðir að ná í punktinn og komnir með blóð á tennurnar og komnir með sjálfstraustið. Þetta var erfitt stig, en mjög gott.

Mér fannst þetta að mörgu leyti frábærlega spilaður leikur hjá okkur. Við fórum vel yfir þetta og fórum vel yfir hvernig við ætluðum að spila. Það gekk frábærlega fyrstu tuttugu mínúturnar og þá gekk bara allt upp.

Þeir eru með hörkulið og þetta hikstar aðeins hjá okkur. Við vorum að gera dýr mistök og við fengum alltaf hraðaupphlaupsmörk í bakið, en mér fannst þetta mjög jákvæður leikur. Þetta var frábært.

Þetta er hrikalega mikilvæg stig. Hvert einasta stig er mikilvægt og þetta er botn- og miðjubarátta. Þetta er hrikalega jafnt og hver punktur telur hrikalega mikið,“ sagði Hreiðar í samtali við Vísi í leikslok.


Hreiðar Levý lokaði markinu eins og svo oft áður

Guðlaugur: Erum að láta Hreiðar taka alltof mörg dauðafæri

„Ég er svolítið ósáttur að fá bara eitt stig út úr þessum leik,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, sár og svekktur við Vísi í leikslok.

„Við fórum að klára færin okkar illa og við vorum í smá vandræðum mest allan leikinn varnarlega. Við erum að láta Hreiðar taka alltof mörg dauðafæri þegar við eigum bara að klára færin. Við vorum að skjóta á hausinn á honum og skjóta á axlarhæð og hann var að taka of mörg færi.

Þeir leystu okkar varnarleik mjög vel. Inn á milli vorum við þó að loka vel, en ég er ekki nægilega ánægður með þennan leik.“

Hann sagðist ekki hafa séð atvikin undir lok leiksins nægilega vel til að tjá sig um það, en Framarar vildu meina að varnarmann gestanna hafi verið inn í teig þegar Ólafur Ægir skaut að marki þeirra þegar tvær sekúndur lifðu leiks. Ekki var dæmt víti heldur aukakast við litla hrifningu marga Framara.

„Ég sá lokaatvikið ekki nægilega vel hvort það sé eitthvað annað, en þeir fá bara gott færi og klára það vel. Við höfðum smá tíma til að keyra á þá og við hefðum átt að nýta okkur það. Ég veit ekkert hvort að hann hafi verið inn í teig þegar hann varði boltann eða ekki.

Jákvæðu hlutirnir eru þegar við tökum leikinn í síðari hálfleik og erum að sigla honum nokkuð vel, en það neikvæða er að við erum of fljótir að missa það frá okkur og erum að láta þá refsa okkur því við erum að klára færin illa. Við tókum slæmar ákvarðanir og við förum mjög illa með síðustu sóknina þar sem við setjum upp í eitthvað og spilum ekki það sem við ætlum að spila.“

Fram vann sjö leiki í röð, en hefur einungis fengið eitt stig úr síðustu tveimur leikjum. Það veldur Guðlaugi ekki áhyggjum.

„Nei, það eru engar áhyggjur af því. Þetta er hörkudeild og Akureyri er hörkulið. Þetta var hörkuleikur allan tímann þrátt fyrir að við höfum náð góðu forskoti. Það eru engar áhyggjur að hafa fengið bara eitt stig úr síðustu tveimur leikjum, en þetta er langt mót og það eru margir leikir. Við þurfum bara að vinna í okkar málum,“ sagði Guðlaugur við Vísi að lokum.

Fimmeinn.is sýnir vídeóviðtöl sem Lúther Gestsson tók við þjálfarana Sverer og Guðlaug:

Sverre: Dómararnir útkljá sín mál saman

Sverre Andreas Jakobsson þjálfari Akureyrar var nokkuð sáttur með eitt stig úr leiknum gegn Fram í kvöld. Hann sagði að miðað við hvernig staðan hefði verið orðin væri gott að fá stig.
Hann sagði að karakterinn og það að liðið hefði ekki gefist upp væri jákvætt. Um atvikið sem gerðist í lokin þegar leikmaður þeirra hefði stolið boltanum og var stöðvaður á leið í hraðaupphlaup næri hann á því að samkvæmt nýju reglunum væri um rautt spjald að ræða og vítakast en hann treysti dómurunum til að skoða þetta saman og finna rétta niðurstöðu.



Gulli: Menn virtust halda að þetta væri komið

Guðlaugur Arnarsson þjálfari Fram var svekktur með aðeins eitt stig úr viðureigninni við Akureyri í kvöld. Hann vildi ekkert taka af Akureyringum og þeirra baráttu sem þeir sýndu en fyrir sér væri þetta bara eitt tapað stig.
Hann sagði að sitt lið hefði átt að klára síðustu mínúturnar betur og að svo virtist sem menn hefðu litið á það undir lokin að þetta væri komið og sínir menn væri bara að bíða eftir klefanum.



Við endum svo með fleiri vídeóviðtölum Þorsteins Hauks Harðarsonar sem eru fengin af sport.is. Þar er rætt við Hreiðar Levý og þá Sverre og Guðlaug.

Hreiðar Levý: Verðum brosandi í rútunni

Markvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson var brattur eftir jafntefli Akureyringa gegn Fram í kvöld.

„Eftir þennan leik er hrikalega jákvætt að taka stig út úr þessum leik gegn frábæru Framliði. Við vorum undir allan seinni hálfleikinn og alltaf að elta. Þetta var karakterstig fyrir okkur,“ sagði Hreiðar eftir leikinn og hélt áfram.
„Þetta sýnir bara hvað býr í þessu liði og það er frábært.“

Þá segist hann heilt yfir ánægður með spilamennsku liðsins.
„Þessi leikur var mjög góður að mörgu leyti. Sóknarleikurinn var mjög góður fyrstu tuttugu mínúturnar. Þetta var með betri leikjum sem við höfum spilað held ég.“

Sjálfur stóð hann sig vel í markinu og varði 22 skot. „Þetta var fínt. Það eru auðvitað alltaf einhverjir boltar sem maður hefði vilja verja. Heilt yfir var þetta samt bara jákvætt.“

Hann segir að rútuferðin norður verði betri með stig í farteskinu. „Það skiptir öllu máli. Við verðum brosandi í rútunni.“

Sverre: Lýsandi dæmi fyrir liðið mitt

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyringa, var ánægður með jafnteflið gegn Fram í kvöld. Hann ræddi við okkur eftir leikinn.

„Orðið karakter á við um liðið mitt í kvöld eins og það hefur gert allt tímabilið. Þetta er bara lýsandi dæmi um hvað er að gerast í hópnum. Liðsheildin hefur haldið þrátt fyrir mótvinda,“ sagði Sverre eftir leikinn og bætti við.
„Við leggjum upp með það að fá sem mest út úr öllum leikjum og gefumst aldrei upp. Við höldum áfram og það er ekkert sjálfsagt mál.“

Umdeilt atvik kom upp þegar hálf mínúta var eftir. Framarar stöðvuðu sókn Akureyringa sem vildu eðlilega fá víti. „Ég er ekki ekki bestur á bókina en ég held það og ég ætla að halda því fram áfram. Dómararnir verða að ræða það sín á milli og útkljá málið. Við félagarnir getum verið sammála um að þetta hafi verið víti.“

Að lokum ræddum við um næsta leik liðsins, gegn Stjörnunni í bikarnum. „Við eigum tvö skref eftir í höllina. Næst er það flott verkefni gegn Stjörnunni og við búum okkur undir hörkuleik. Að fara í höllina er frábær minning fyrir alla og það er gulrótin fyrir okkur.“

Guðlaugur: Ég er hundsvekktur

Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, var ósáttur við sína menn eftir jafnteflið gegn Akureyri í kvöld. Hann ræddi við Sport.is eftir leikinn.
„Ég er hundsvekktur með okkur í þessum leik. Við vorum komnir með góð tök á þeim en gáfum þeim svo færi á okkur og þeir tóku punkt af okkur,“ segir Guðlaugur og heldur áfram.

„Við vorum óskynsamir og að skjóta illa. Við vorum að spila okkur í gegn en þá var Hreiðar Levý að verja frá okkur.“




Gulli tekur á móti sínum gömlu félögum

26. nóvember 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Útileikur gegn Fram

Akureyri sækir Framara heim í Safamýrina klukkan 19:00 í kvöld í leik í 15. umferð Olís deildarinnar. Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið en Framarar eru í toppbaráttu og þurfa á stigunum að halda til að fylgja Haukum og Val áfram. Okkar menn munu hinsvegar með sigri halda áfram að klífa töfluna og koma sér fyrir í baráttunni um miðja töfluna.

Akureyri hefur gengið vel gegn Fram að undanförnu en Akureyri hefur unnið síðustu fjórar viðureignir liðanna og nú er bara að vona að okkar menn haldi þessu taki áfram á góðu liði Framara.

Guðlaugur Arnarsson þjálfar lið Fram en hann lék með Akureyri á árunum 2009-2013 og þrátt fyrir að leika nær einungis vörn skoraði Gulli 50 mörk fyrir félagið í 91 leik. Tvö af þessum mörkum komu í leik gegn Fram árið 2010 og má sjá þau hér að neðan.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta á leikinn og styðja Akureyri til sigurs en ef þið komist ekki á leikinn þá verðum við að sjálfsögðu með beina lýsingu frá leiknum, áfram Akureyri!


Fram liðið hefur farið á kostum upp á síðkastið

25. nóvember 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Útileikur gegn Fram á fimmtudag

Akureyri mætir Fram í Safamýri á fimmtudaginn klukkan 19:00. Framarar, sem eru undir stjórn Guðlaugs Arnarssonar, hafa verið á miklu skriði undanfarið og eru í toppbaráttunni sem stendur. Fram tapaði raunar síðasta deildarleik sínum sem var á heimavelli gegn Haukum en þar á undan unnu þeir sjö leiki í röð eftir að hafa tapað fyrir Akureyri hér fyrir norðan.

Þetta verður án efa hörkuleikur þar sem bæði lið munu leggja allt undir. Þess má geta að Akureyri vann alla leikina þrjá gegn Fram í fyrra og hefur þar með unnið síðustu fjórar viðureignir liðanna. Nú er bara spurning hvort okkar drengjum tekst að stöðva Gulla og hans lærisveina?

Að vanda verðum við með textalýsingu frá leiknum hér á síðunni þannig að þið sem ekki komist í Safamýrina getið fylgst með gangi mála.


Hér má sjá atvik úr leik liðanna þann 9. febrúar 2008 þegar Hjörtur Hinriksson lét höggin dynja á Magnúsi Stefánssyni.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson