Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Akureyri missti niður sigurinn á lokamínútunni - Akureyri Handboltafélag
18. desember 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hvað sögðu menn eftir háspennuleikinn gegn ÍBV?
Það má með sanni segja að allt hafi verið á suðupunkti í leikslok og eftir leikinn í gærkvöldi. Leikurinn tók sinn tíma og rúmlega það þannig að Eyjamenn og dómarar sem voru að fara í flug suður voru á síðasta snúning að ná flugi og gáfu sér því ekki mikinn tíma í viðtöl.
RÚV var með mjög flotta umfjöllun um leikinn þar sem meðal annars er rætt við þjálfara beggja liða.
Ólafur Haukur Tómasson stóð vaktina fyrir visir.is og var snöggur niður á gólf til að ná mönnum í viðtöl.
Halldór Logi: Vorum óskynsamir í lokin
„Við vorum yfir allan leikinn og mér fannst við vera með þá en þeir eru baráttuglaðir og fara aldrei.
Þeir voru allan tíman þarna og það skilaði sér hjá þeim eins og í Eyjum um daginn nema við vorum með meiri forystu þar.
Þetta er annar leikurinn sem við missum í jafntefli á móti þeim og hrós á þá því þeir eru mjög baráttuglaðir og við kannski óskynsamir í lokin,“ sagði Halldór Logi Árnason, leikmaður Akureyrar í kvöld sem var að vonum ekki of sáttur með tapað stig í kvöld.
Akureyri byrjaði leiktíðina afar illa en hafa heldur betur unnið sig upp töfluna og eru í ágætis málum fyrir pásuna. Halldór er sáttur með stígandann í liðinu.
Ég er mjög ánægður. Við vorum mjög óánægðir með byrjunina hjá okkur og við vissum að þetta væri þarna og það hefur komið, við höfum verið stígandi og vonandi getum við nýtt pásuna til að bæta okkur enn frekar og koma enn sterkari til baka,“ bætti hann við.
Halldór Logi stóð í ströngu á línunni
Magnús: Hvert stig telur
„Þetta var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur. Eins og deildin er að spilast þá er hvert stig mikilvægt og gæti komið til með að telja þegar uppi er staðið,“ sagði Magnús Stefánsson leikmaður ÍBV eftir leikinn í dag.
Eyjamenn voru nær allan leikinn að elta heimamenn en barátta þeirra varð til þess að þeir gengu út með stig, Magnús er að vonum afar sáttur með stigið og hrósaði karakter liðsins.
„Það er karakter sem liðið er búið að tileinka sér, að gefast aldrei upp og vera alltaf á fullu sem hvað á dynur. Það er ekki hægt að taka neitt af Akureyringum því þeir eru með frábært lið og spiluðu langt undir getu fyrri hluta móts og eru að sýna hvað þeir geta núna.“
Magnús spilaði í yngri flokkum KA og með Akureyri um nokkurt skeið svo hann þekkir ágætlega til KA heimilisins. Hann lýsti yfir ánægju sinni við ákvörðun þeirra að færa heimavöllinn aftur þangað.
„Það verður að koma fram að mér finnst það frábær ákvörðun hjá Akureyri að færa sig aftur í KA heimilið og það er frábært að koma hingað aftur í það sem ég fullyrði að er erfiðasti heimavöllur landsins.
„Við erum ekki nógu sáttir.Við vitum það sjálfir að við eigum talsvert inni og við verðum að vinna í okkar málum í fríinu og koma sterkari til baka í seinni hlutann,“ bætti Magnús við þegar hann var spurður um hvernig hann meti frammistöðu Eyjamanna hingað til á mótinu.
Magnús sneri aftur á fornar slóðir
Einar Sigtryggsson sá um viðtölin fyrir Moggann en átti reyndar í smá erfiðleikum með að ná taki á Eyjamönnum sem þurftu að drífa sig á flugvöllinn.
„Hinn rólegi“: Tapað stig
Rólegi hlutinn af þjálfaratvíeyki handboltaliðs Akureyringa í Olís-deild karla er Sævar Árnason. Það er álit hins þjálfarans, en Sverre Andreas Jakobsson lýsti því yfir um daginn að þar sem hann yrði stundum dálítið æstur þá væri gott að hafa rólegan mann með sér.
Ekki draup af Sævari eftir einn æsilegasta leik sem spilaður hefur verið á Akureyri í háa herrans tíð. Eyjamenn voru í heimsókn og náðu þeir að kreista fram jafntefli með marki á síðustu sekúndu leiksins. Akureyringar leiddu allan leikinn en Eyjamenn jöfnuðu í tvígang undir restina. Sævar sagði þetta um leikinn og liðið sitt. „Við verðum að telja þetta tapað stig þar sem við vorum með leikinn allan tímann. Við gáfum þeim boltann tvisvar í restina en mér fannst brotið í fyrra skiptið á okkar manni. Eyjastrákarnir komu vel fram á völlinn og okkur tókst ágætlega að leysa það framan af. Við tökum hins vegar stigið og ég verð að vera gríðarlega ánægður með liðið. Við reynum bara að einblína á það jákvæða og það sem strákarnir hafa verið að sýna upp á síðkastið er mjög gott. Við fengum fimm stig í fyrstu umferðinni en tólf í annarri. Við erum mjög sáttir með það og förum bjartsýnir í langþráð frí. Við munum koma brattir inn í þriðju umferðina og heilt yfir erum við ánægðir með það sem af er. Strákarnir hafa gefið hjarta og sál í þetta og liðið er að þróast í réttan farveg. Þeir sýna frábær vinnubrögð og karakterinn er sterkur. Auðvitað er svekkelsi í hópnum að hafa misst þennan leik en það verður fokið þegar líður á kvöldið.“
En hvað finnst Sævari um að vera „hinn rólegi“? „Ja, ég er bara ánægður með það. Ég er nú það rólegur að ég þurfti nú að ganga á milli tímavarðarins og Arnars, ÍBV þjálfara, áðan þegar allt var að sjóða upp úr. Mér finnst við Sverre vera að ná vel saman og Ingimundur er með okkur í þessu. Sverre og hann sjá meira um varnarleikinn en ég um sóknarútfærsluna. Við vinnum vel saman og tölum mikið saman, líka á meðan á leik stendur, og finnum sameiginlegar lausnir.“
Nú þótti tilvalið að spyrja Sævar hvort hann noti sóknarkerfið „Sævar“ sem samkvæmt öruggum heimildum er kennt við hann. „Já það er til kerfi sem heitir Sævar. Það varð held ég til eftir að ég hætti að spila. Ég held að Jonni Magg hafi fyrst komið með þetta nafn. Annars er þetta bara kerfi þar sem hornamaðurinn kemur upp með vörninni og stekkur upp eins og skytta“ sagði Sævar alveg pollrólegur, greinilega ekki mikið upp með sér þrátt fyrir nafngiftina á þessu frábæra kerfi.
Sævar hinn rólegi fer yfir málin með hinum æsta Sverre
Arnar og Magnús: Nú drífum við okkur
Þjálfari og fyrirliði ÍBV, Arnar Pétursson og Magnús Stefánsson, voru á mikilli hraðferð eftir leik Akureyrar og ÍBV í Olís-deild karla í kvöld. Þurftu þeir að drífa sig í flug en leikurinn varð óvenjulangur þar sem töluvert var um tafir á honum, sökum endalausra pústra og fundarhalda.
Eftir æsilegan leik skiptu liðin með sér stigum í 25:25 jafntefli. Magnús var enn í keppnisgallanum en Arnar rauk í gegnum anddyrið og þakkaði gestum og gangandi fyrir leikinn og móttökurnar.
„Jæja, Maggi minn, nú drífum við okkur,“ var það eina sem blaðamaður fékk frá þjálfaranum og engin kurteisi í að tefja þá félaga frekar. Gangi þeim heimferðin sem best.
Nú þurfum við að fylla KA-Heimilið!
15. desember 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Akureyri þarf á þér að halda á fimmtudaginn!
Við þurfum að fylla KA-Heimilið á fimmtudaginn gott fólk! Lokaleikur Akureyrar fyrir jólafrí er rosalega mikilvægur en með sigri verður liðið í efri hluta deildarinnar fyrir lokaumferðina sem þýðir að liðið fær 5 heimaleiki í staðinn fyrir 4. Leikurinn hefst klukkan 18:00.
Strákarnir hafa verið að spila mjög vel að undanförnu og sýnt mikinn karakter að snúa genginu við og klífa upp deildina. Nú skulum við sameinast á pöllunum og sjá til þess að strákarnir sæki enn ein stigin í hús!
Handbolti er fjölskylduskemmtun, áfram Akureyri!
Leikir Akureyrar og ÍBV eru hörkuleikir
14. desember 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Lokaleikurinn fyrir jólafrí á fimmtudaginn
Akureyri tekur á móti ÍBV í síðasta leiknum fyrir jóla og EM frí. Akureyrarliðið hefur verið á mikilli siglingu eftir erfiða byrjun og mun með sigri á fimmtudaginn tryggja sér sæti í efri hluta deildarinnar þegar aðeins lokaumferðin er eftir.Það sem enn mikilvægara er, sæti í efri hlutanum fyrir tryggir 5 heimaleiki í stað 4 í lokaumferðinni. Það er því gríðarlega mikið undir í þessum síðasta leik í bili.
Það sem meira er, þá á liðið meira að segja enn möguleika á að enda í 4. sæti fyrir jól en það gæfi sæti í Deildarbikarnum og það er eitthvað sem enginn spekingur sá fyrir þegar liðið var á botninum eftir 5 leiki.
Gott fólk, nú þurfum við að fylla KA-Heimilið og fá upp alvöru stemningu. Strákarnir hafa sýnt magnaðan karakter að snúa genginu við og koma sér í þá stöðu sem liðið er í dag. Við sjáumst í svakalegri stemningu á fimmtudaginn, áfram Akureyri!