Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Akureyri lagði Stjörnuna (umfjöllun) - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2006-07

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla
Deild kvenna
Leikmenn meistarafl. kvenna




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Stjarnan - Akureyri  22-23 (14-9)
DHL deild karla
Ásgarður
12. nóvember 2006 klukkan: 16:00
Dómarar: Gísli Hlynur Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson
Umfjöllun

Aigars var mjög öflugur í dag ásamt Ásbirni



12. nóvember 2006 - HBH skrifar

Akureyri lagði Stjörnuna (umfjöllun)

Það var tiltölulega vel mætt í Ásgarð í dag þrátt fyrir að HSÍ hafi tekið þá upplýstu ákvörðun að hafa leikinn á sama tíma og leik Arsenal og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Í ljósi úrslita beggja leikja sé ég hinsvegar alls ekki eftir vali mínu á leik.

Það voru heimamenn sem tóku forystuna strax í upphafi og komust fljótlega í 3-1 og síðan 5-2. Var þetta raunar forysta sem þeir áttu aldrei eftir að láta af hendi svo lengi sem leiklukkan gekk.Vörn Akureyrar virkaði frekar róleg í upphafi og sóknarleikurinn stirður, eins og maður er raunar orðinn vanur. Eftir að Hreiðar kom í markið fór þó örlítið að ganga betur, og náðu okkar menn að jafna metin í 8-8. Þá kom hreint út sagt skelfilegur leikkafli þar sem heimamenn settu 6 mörk í röð áður en Höddi náði að svara fyrir Akureyri. Staðan í hálfleik því 14-9 Stjörnunni í vil, og fátt sem benti til annars en maður myndu snúa sneyptur heim að leik loknum. Fyrri hálfleikur var ákaflega lélegur hjá okkar mönnum. Sóknarleikurinn var hugmyndasnauður og innkoma Ásbjörns í stöðunni 9-8 virkaði alls ekki sem skyldi. Þá hefur varnarleikurinn oft verið betri og nær allt lak inn sem gat lekið inn í mark okkar manna. Það var því fátt annað en fría kaffið sem boðið var uppá í hálfleik sem gaf ástæðu til bjartsýni.

Í síðari hálfleik var sú breyting gerð á Akureyrarliðinu að Ásbjörn var kominn í leikstjórnandann á kostnað Kuzmins, sem hafði ekki átt góðan leik. Fljótlega kom síðan Goran Gusic einnig inná. Það er skemmst frá því að segja að allt annað var að sjá til okkar manna í seinni hálfleik. Baráttan geislaði skyndilega af hverjum manni og hinn ungi Ásbjörn dreif sína menn áfram eins og þaulreyndur leikstjórnandi. Smá saman saxaði Akureyri á forskot heimamanna og þegar staðan var orðin 21-20 lék húsið á reiðiskjálfi. Stuðningsmenn Akureyrar sem töldu eina tvo tugi tóku við sér svo um munaði og sköpuðu mikla stemmingu seinustu mínúturnar. Fyrir gang þessara lokamínútna er bent á Beinu Lýsinguna, en undirritaður lifði sig alltof mikið inní leikinn til þess að muna slík smáatriði. Raddleysi er t.a.m. skemmtileg og jákvæð afleiðing leiksins. Til að gera langa sögu stutta steig gamli maðurinn Aigars Lazdins upp á lokamínútunum og fiskaði tvö víti, auk þess að drífa sína menn áfram í stórkostlegri vörn seinustu 10 mínúturnar. Hreiðar lokaði gersamlega markinu á þessum kafla og þegar lokaflautan hafði gollið skoraði Goran af öryggi úr vítakasti og kom þ.a.l. Akureyri yfir í fyrsta og eina skiptið í leiknum. Stórkostlegur sigur á þessum erfiða heimavelli.

Í ljósi sigursins mun ég ekki segja einn einasta neikvæða hlut um leik okkar manna í dag, þó margt hafi að sjálfsögðu mátt betur fara, og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Hreiðar átti frábæran seinni hálfleik og Ásbjörn átti stórkostlega innkomu og er að stimpla sig inn sem lykilmaður í liðinu. Það eina sem kemur í veg fyrir að hann sé valinn maður leiksins er sú staðreynd að þegar mest á reyndi steig Aigars upp og tók af skarið og var að öðrum ólöstuðum sá sem tryggði okkar mönnum sigurinn. Frábær sigur sem setur okkar menn í fína stöðu í deildinni. Þá er bara að halda áfram á sömu braut!

Maður leiksins: Aigars Lazdins.


Tengdar fréttir

Rúnar kom inn í vörnina eftir tæpt korter og breyttist vörnin mikið til hins betra

13. nóvember 2006 - SÁ skrifar

Rúnar: Sætustu stig nýstofnaðs félags

Það var svo sannarlega ótrúlegur leikurinn í Ásgarði í gær og hreinlega einn sá mest spennandi sem maður hefur séð lengi. Rúnar Sigtryggsson var gríðar ánægður í leikslok þegar heimasíðan ræddi við hann en hann og strákarnir sýndu ótrúlegan karakter annan leikinn í röð. Við skulum kíkja á hvað Rúnar hafði að segja um leikinn.

SÁ: Rúnar, það voru 2 stig hérna í Ásgarði í dag!
Rúnar: Örugglega þau sætustu í sögu nýstofnaðs félags, ég get alveg sagt þér það. Þetta var frábært.

SÁ: Þið spiluðuð ekki vel í þessum leik...
Rúnar: Nei. Það er eins og menn þurfi bara að klikka einu sinni úr skoti að þá missi menn alla trú á að þeir geti skotið utan af velli eða hvernig sem það er. Það verður bara einn hnoðbolti úr. Alls ekki skemmtilegt að horfa á hann.
Svo kom Ásbjörn þarna inná og byrjaði mjög illa í fyrri hálfleik og Stjörnumenn stungu okkur af en Ási sýndi frábæran karakter hvernig hann kom þarna inn í seinni hálfleik. Hann var beðinn að taka sig saman í andlitinu og það sjaldan sem 18 ára strákar gera það eins og hann gerði í dag.

SÁ: Karakerinn í liðinu, hann var ótrúlegur í dag.
Rúnar: Já. Það er miklu auðveldara að vera með lið sem er með karakter alveg pottþéttan eins og þetta er orðið hérna heldur en lið sem spilar glæsilegan handbolta og engan karakter. Þetta er miklu skemmtilegra og við eigum bara fullt inni.

SÁ: Er liðið að komast á skrið í deildinni með þessum sigrum að undanförnu?
Rúnar: Eins og við töluðum um í morgun þá var þetta í okkar höndum hvort við myndum bjóða upp á toppleik á Akureyri næsta sunnudag (gegn HK) eða ekki og við stóðum við það sem við sögðum við sjálfa okkur. Nú vonumst við bara að það fjölmenni fólkið.

SÁ: Er að skapast góð stemmning í hópnum?
Rúnar: Það er stemmning og einhugur. Menn skjóta á hvorn annan og þetta er allt eins og það á að vera.

Við þökkum Rúnari kærlega fyrir og persónulega þakka ég honum innilega fyrir þá skemmtun og spennu sem hann og Akureyrararliðið bauð upp á í þessum leik.


Ásbjörn skoraði 6 mörk í leiknum

13. nóvember 2006 - SÁ skrifar

Ásbjörn: Skemmtilegasta sem ég hef gert

Ásbjörn Friðriksson átti flotta innkomu í gær gegn Stjörnunni í ótrúlegum spennuleik. Ási hefur verið að koma sterkt inn í seinustu leikjum og verið óragur við að taka á skarið. Við ræddum við hann eftir leikinn en Ásbjörn var afar sáttur við að hafa tekið tvö stig á þessum erfiða heimavelli þennan daginn.

SÁ: Ásbjörn, það voru tvö sæt stig í Ásgarði hér í dag?
Ásbjörn: Já, gríðarlega mikilvæg eins og gefur að skila. Við byrjum mjög illa og spilum boltanum ekki nógu hratt og erum að sækja fáum alltof mörg fríköst í sókninni. Við náum ekki að halda boltanum á floti eins og töluðum um fyrir leikinn. Þegar við svo förum að spila í seinni hálfleik að skynsemi þá söllum við á þá mörkum en við áttum að geta unnið þennan leik mun auðveldara.

SÁ: Varstu sáttur við leik liðsins?
Ásbjörn: Ég er sáttur við stigin. Spilamennskan seinasta korterið var góð og vörnin var mjög góð í seinni hálfleik.

SÁ: Hvað viltu segja um þessa umbreytingu sem varð á liðinu í seinni hálfleik, þennan karakter?
Ásbjörn: Þetta er frábært. Við erum sennilega með eina sterkustu vörn á landinu. Getum stillt upp rosalega hárri 6-0 vörn og eins 5-1 og það er alltaf góður varnarmaður á bekknum.

SÁ: Það hlýtur að vera gaman að spila leik eins og þennan?
Ásbjörn: Skemmtilegasta sem ég hef gert.

SÁ: Hvað með liðið að undanförnu?
Ásbjörn: Það er rosalegur stígandi búinn að vera í seinustu leikjum. Við náttúrulega byrjuðum á núlli í ágúst annað en önnur lið og við verðum bara betri.

Við þökkum Ásbirni fyrir og óskum honum til hamingju með þennan sigur.


Goran tryggði Akureyri sigurinn

12. nóvember 2006 - ÁS skrifar

Akureyri sigrar Stjörnuna á síðustu stundu

Nú rétt í þessu var lið Akureyrar Handboltafélags að sigra stórkostlegan útisigur á Bikarmeisturum Stjörnunnar á útivelli 22-23. Leikurinn var í Beinni Lýsingu hér á síðunni og fylgdist fólk vel með. Akureyri var að tapa 14-9 í hálfleik en með góðum leik í seinni hálfleik náði liðið að laga stöðuna og á endanum jafna og fá víti þegar leiktíminn var búinn. Goran skoraði úr vítinu og tryggði Akureyri glæstan sigur 22-23.

Umfjöllun um leikinn og viðtöl koma væntanlega á morgun en við bendum fólki eindregið á að skoða Beinu Lýsinguna frá leiknum.


Leikurinn hefst klukkan 16:00

12. nóvember 2006 - ÁS skrifar

Bein Lýsing: Stjarnan - Akureyri

Leikur Bikarmeistara Stjörnunnar og Akureyrar fer fram í dag í Ásgarði klukkan 16:00. Þessi leikur skiptir ótrúlega miklu máli fyrir bæði lið en liðin hafa ekki efni á því að missa stig því topplið Vals virðist ætla að stinga af ásamt HK. Heimasíðan býður upp á beina textalýsingu frá leiknum og hvetur hún alla til að fylgjast grannt með þegar leikurinn hefst ef það kemst ekki á leikinn. Mjög auðvelt er að fylgjast með í gegnum Beinu Lýsinguna.

Smellið hér til að opna Beina Lýsingu

Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist af sjálfu sér á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 16:00 en við hvetjum alla til að fylgjast vel með.


Hvað gerist á morgun? Fylgist með hér á heimasíðunni

11. nóvember 2006 - ÁS skrifar

1 dagur í leik: Stjarnan-Akureyri í Beinni Lýsingu

Leikur Stjörnunnar og Akureyrar sem fer fram á morgun verður að sjálfsögðu í Beinni Lýsingu hér á síðunni. Leikurinn fer fram í Ásgarði, heimavelli Stjörnunnar, klukkan 16:00 og hvetur heimasíðan alla til að fylgjast með Beinni Lýsingu hér á síðunni enda er þessi leikur gríðarlega mikilvægur.

Staðan í deildinni
Nr. FélagLeikir  U  J  TMörkHlutfallStig
1.  HK6411154 : 138169
2.  Valur5401139 : 129108
3.  Akureyri4211119 : 11185
4.  Fylkir5212131 : 137-65
5.  Stjarnan5203141 : 142-14
6.  Haukar6123167 : 181-144
7.  Fram4112106 : 108-23
8.  ÍR5104133 : 144-112


Leikurinn verður í Beinni Lýsingu

10. nóvember 2006 - ÁS skrifar

2 dagar í leik: Allt um lið Stjörnunnar

Á sunnudaginn klukkan 16:00 leikur karlalið Akureyrar sinn leik í 6. umferð DHL-Deildarinnar. Leikur liðsins í 4. umferð sem er gegn Fram var frestað og verður leikinn 22. nóvember. Akureyri fer suður á sunnudaginn og mætir þar Stjörnunni. Bæði lið eru að gera góða hluti, Stjarnan hefur unnið tvo leiki í röð eftir slaka byrjun en við skulum hinsvegar kíkja aðeins á lið þeirra.

Bikarmeisturum Stjörnunnar var spáð 4. sætið í deildinni og þar með sæti í deildarbikarnum. Liðið byrjaði ekki vel, tapaði fyrstu þrem leikjum sínum en er komið á beinu brautina núna.

Tímabilið til þessa
Liðið varð Meistari Meistaranna með því að leggja Íslandsmeistara Fram örugglega að velli fyrir tímabilið.
Fram náði hinsvegar hefndum í fyrstu umferð deildarinnar er Fram lagði Stjörnuna 26-30 í fyrstu umferð deildarinnar. Stjarnan tapaði aftur á heimavelli í næsta leik og þá gegn HK, lokatölur 23-28. Liðið tapaði síðan þriðja leiknum á tímabilinu er liðið tapaði 30-29 fyrir Val. Þjálfarapar Stjörnunnar hætti eftir tapið gegn Val og eftir það hefur liðið sigrað ÍR, 30-25 og svo Hauka á Ásvöllum 29-33. Í millitíðinni sló liðið út HK í Bikarkeppninni á heimavelli HK.

Stjarnan tók þátt í Evrópukeppni Bikarhafa og mætti þar liði RK Agram Medvescak Zagreb frá Króatíu. Liðið tapaði stórt 36-29 í Króatíu en sýndi svo sínar bestu hliðar á löngum köflum í fyrri leiknum og vannst leikurinn 28-22. Liðið féll þar með úr leik en það var aðeins vegna þeirra eigin klaufaskap að liðið komst ekki áfram.

Árangur Stjörnunnar á síðustu leiktíð
Stjarnan varð Bikarmeistari í fyrra þegar liðið lagði Hauka í úrslitaleik.
Stjarnan endaði í 5. sæti í deildinni aðeins einu stigi frá sæti í Deildarbikarnum.

Helstu leikmenn liðsins
Patrekur Jóhannesson er allt í öllu í liði Stjörnunnar. Þessi fyrrum leikmaður KA er maðurinn sem bindur saman varnarleik liðsins og þá gengur allur sóknarleikur liðsins í gegnum hann. Til að sigur náist gegn Stjörnunni þarf að stöðva Patrek.

Tite Kalandadze er hrikalega öflugur í vinstri skyttunni hjá Stjörnunni. Tite getur skorað að vild þegar hann er kominn í gírinn og getur hann raðað inn mörkunum. Erfitt getur verið að stöðva hann þar sem hann skýtur mikið fyrir utan en hann á góðar fintur einnig.

Elías Már Halldórsson leikur í hægra horni Stjörnunnar og hefur verið iðinn það sem af er tímabilinu að skora. Elías er snöggur upp í hraðaupphlaup og þá klárar hann færin sín afar vel í horninu. Elías græðir vel á því hversu öflug stimplun Stjörnumanna er en hún byrjar í vinstra horninu og endar yfirleitt alltaf á því að gott færi fæst í því hægra.

David Kekelia hefur verið að leika í hægri skyttu fyrir Stjörnuna en hann er einnig frábær hornamaður. Kekelia er baneitraður leikmaður, sterkur og mjög seigur leikmaður. Hann klikkar ekki oft þegar hann kemst í færi og vinnur vel fyrir liðið.

Roland Valur Eradze er markvörður Stjörnunnar. Hann hefur verið að stríða við meiðsli en það hefur ekki komið í veg fyrir að hann sýni frábæra spilamennsku. Roland nýtur góðs af því hversu góða vörn Stjörnuliðið er að spila og það er víst að sóknarleikur Akureyrar gæti lent í vandræðum gegn Stjörnunni.

Til að Akureyri nái að leggja Stjörnuna að velli á sunnudaginn þá þarf liðið að spila agaðan sóknarleik til að finna glufur á frábærri vörn Stjörnunnar og helst að ná upp miklum hraða í leikinn þar sem lið Stjörnunnar leikur þungan bolta. Vörnin þarf svo bara að halda áfram þeirri vinnu sem hún hefur verið að sýna í síðustu leikjum.

Stjarnan - Akureyri, Ásgarður 12. nóvember klukkan 16:00

Heimasíðan hvetur alla Akureyringa sem staddir eru fyrir sunnan að kíkja á þennan hörkuleik. Aðrir geta fylgst með Beinni Lýsingu hér á síðunni frá leiknum en þetta er leikur sem skiptir gríðarlega miklu máli.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson