Að leik loknum tókum við viðtal við Goran Gusic. Goran er markahæsti maður DHL-Deildarinnar en ótrúleg vítanýting hans hefur sett ansi mörg mörk fyrir hann á töfluna. Goran nýtti 7 af 9 vítum sínum í dag en við spurðum hann meðal annrars hver "galdurinn" væri.
SÁ: Hvað getur þú sagt okkur um leikinn í dag? Goran: Þetta var mjög erfiðir leikur, sérstaklega vegna þess að þetta var gegn toppliði Vals og svona eru leikirnir alltaf á móti Val. Þegar maður horfir á allan leikinn þá vinnum við hann á spilamennskunni seinustu 5-6 mínúturnar. Við spilum mjög góða vörn. Við erum 18-20 mínútur einum leikmanni færri en samt spilum við mjög góða vörn og það er ástæðan fyrir því að við unnum þennan leik.
SÁ: Það er ansi stórt að vinna toppliðið í deildinni? Goran: Já, sérstaklega þegar við höfum tapað tveimur leikjum í röð. Gegn Fram úti og síðan spiluðum við á móti HK hér heima rosalega illa. Það var örugglega versti leikurinn okkar en við töpuðum samt bara með tveimur mörkum. Við verðum að spila í 60 mínútur. Á móti Fram vorum við 7 undir í hálfleik og við verðum að halda áfram að spila eins og við gerðum í dag.
SÁ: Þið hljótið að vera ansi sáttir þessa stundina? Goran: Já, eftir svona leiki þá fer mórallinn upp. Við töpuðum tveimur leikjum og unnum svo í dag og það eru allir að hugsa jákvætt. Þetta verður afar áhugavert ef við höldum svona áfram.
SÁ: Hvað fannst þér um stuðningsmenn Akureyrar í dag? Goran: Mjög góðir. Þeir voru okkar aukamaður inn á vellinum, okkar áttundi leikmaður. Ég vona að þeir haldi áfram að hvetja okkur því við þurfum það. Sérstaklega í svona erfiðum leik eins og í dag.
SÁ: Þú ert sjálfur markahæstur í deildinni. Hver er galdurinn við að skora úr öllum þessum vítum? Goran: Allir spyrja mig að þessu. Ég bara horfi á markmanninn.
Aigars Lazdins spilaði afar stórt hlutverk í sigri Akureyarar á toppliði Vals, þá sérstaklega í lokinn. Aigars virðist alltaf vera bestur á "peningamínútunum" en þegar mest á reynir virðist seiglan einungis verða meiri.
SÁ: Aigars, hvernig var þessi leikur? Aigars: Leikurinn var mjög erfiður. Ég held að við vinnum leikinn á vörninni. Við spilum mjög góða vörn. Á móti HK skoruðu þeir 22 en unnu og í dag skorar Valur 22 og við náum að vinna. Við berjumst í vörninni og erum að hjálpa hvorum öðrum.
SÁ: Þú sjálfur virðist alltaf vera bestur seinustu 10 mínúturnar, er úthaldið þitt svona gott? Aigars: Nei, þetta er bara heppni.
SÁ: Áhorfendurnir, skiptu þeir miklu í dag? Aigars: Ég held að við höfum unnið þennan leik út af áhorfendunum í dag. Í dag voru liðin mjög jöfn og við vinnum útaf fólkinu sem hjálpar okkur.
SÁ: Ertu sáttur við spilamennsku liðsins til þessa? Aigars: Já mjög ánægður. Við berjumst og þú getur alltaf trúað á manninn sem er næst þér. Við getum líka skipt mikið inná ef einhver er þreyttur og það þurfa ekki allir að spila alltaf 60 mínútur,
SÁ: Heldur þú að Akureyrarliðið geti orðið mun betra en það er nú? Aigars: Já, það er alltaf eitthvað hægt að bæta. Við þurfum að bæta okkur í sókninni og kannski þegar Goran er orðinn 100% aftur er hægt að nota hann fyrir utan en það er erfitt að hafa rétthentan mann í hægri skyttunni.
Menn Óskars náðu ekki í stig á erfiðaðsta útivelli landsins í dag Mynd: Valur.is
Eftir hinn magnaða sigur Akureyri á Val tók heimasíðan viðtal við Óskar Bjarna Óskarsson þjálfara Vals sem var uppi í stúku í dag vegna leikbanns. Óskar var ekkert alltof sáttur með spilamennsku sinna manna. Hér kemur viðtalið.
SÁ: Þú varst ekki á bekknum í dag, en hvernig fannst þér leikurinn? Óskar: Þetta var kaflaskipt. Mér fannst við ekki nógu góðir í dag og það vantaði eitthvað upp á. Við vorum að gera mikið af tæknimistökum, vorum lélegir einum fleiri og fengum ekki hraðaupphlaup og hraðamiðju eins mikið og ég hafði vonað á móti Akureyri sem verður að vera. Að því leyti er erfitt að stilla upp á móti þeim en ég var ekki alveg sáttur og fannst vanta pínu neista hjá okkur.
SÁ: Hvað fannst þér muna mest á liðunum? Óskar: Lykilatriði er náttúrulega að Hreiðar kemur með mjög góða innkomu inn í lokinn. Þegar það er spenna í lokinn er það oft markvarslan sem skiptir mjög miklu. Síðan fannst mér skipta miklu máli að þeir voru að spila vel einum færri og voru alltaf að enda með því að ná að skora þó að höndin væri kominn upp. Svo voru þeir einnig að nýta betur þá kafla sem þeir voru einum fleiri. Í deild sem er svona jöfn og spennandi skipta svona kaflar rosalega miklu máli; þá markvarsla og hraðaupphlaup, svo kaflarnir 5 á 6 og 6 á 5.
SÁ: Þið fáið tvö mörk á ykkur í restina eftir sirkus, hvað finnst þér um það? Óskar: Við fengum svona mark á móti þeim líka seinast. Í fyrra skiptið voru Markús og Fannar reyndar að biðja dómarann um að stoppa tímann en það er engin afsökun. Svo í seinna skiptið, einu sinni er meira en nóg og það var mjög mikið rothögg.
SÁ: Fannst þér áhorfendurnir skipta máli í dag? Óskar: Ég hefði viljað sjá aðeins fleiri og troðfullt hús. Leiðinlegt að vera með þetta þegar United-Chelsea er og það munaði um einhverja áhorfendur. Þetta er hin besta skemmtun og ég held að Akureyrarliðið sé það skemmtilegt núna í ár. Auðvitað hjálpar stemmningin en ég vil bara fleiri og þetta á að vera skemmtilegasti útivöllurinn að fara á. Ég á von á að það fari ekki mörg lið með tvö stig héðan.
Akureyri þarf á sigri að halda, tekst þeim að leggja Val?
Leikur Akureyrar og Vals í 8. umferð DHL-Deildar karla fer fram í dag í KA-Heimilinu klukkan 16:00. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Akureyri að sigra og komast þar með aftur í slaginn á toppnum eftir töpin gegn HK og Fram. Heimasíðan býður upp á beina textalýsingu frá leiknum í kvöld og hvetur hún alla til að fylgjast vel með gangi mála ef það kemst ekki á leikinn. Mjög auðvelt er að fylgjast með í gegnum Beinu Lýsinguna.
Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist af sjálfu sér á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 16:00 en við hvetjum alla til að fylgjast vel með.
Það verður hart barist á morgun, fylgist spennt með
Leikur morgundagsins milli Akureyrar og Vals sem fer fram í KA-Heimilinu klukkan 16:00 verður að sjálfsögðu í Beinni Lýsingu hér á heimasíðunni. Leikurinn skiptir miklu máli fyrir Akureyri en eftir tvo dapra leiki í röð þarf liðið á sigri að halda til að komst aftur í gang. Lið Vals sem er á toppi deildarinnar mun væntanlega gefa allt sitt í leikinn til að missa ekki toppsætið yfir til HK.
Heimasíðan hvetur alla til að mæta í KA-Heimilið og hvetja Akureyri til sigurs en þið hin sem komist ómögulega á leikinn þið getið fylgst með Beinu Lýsingunni.
Akureyri - Valur, KA-Heimilið 26. nóvember klukkan 16:00
Allir að mæta og hvetja Akureyri gegn Val á sunnudaginn klukkan 16:00 í KA-Heimilinu
24. nóvember 2006 - Pétur Már Guðjónsson skrifar
Pistill: "Svo einfalt er það"
Lið Akureyrar tók á móti HK síðasta sunnudag. Við töpuðum, ekki gott. Þegar við fáum 600 manns í húsið, verðum við að vinna, svo einfalt er það. Verðum við....segi ég. Já, við verðum. Hér kemur lítil saga af því "að verða":
Árið er 2002. Þetta ár komst lið K.A. alla leið í úrslitin og átti úrslitaviðureign við Val.
Valur vann fyrstu tvo leikina. Þriðji leikurinn var í Vals-heimilinu og ef Valur næði að sigra þann leik yrðu þeir Íslandsmeistarar. Það þýddi að Atli Hilmarsson þjálfari, sem var að hætta, stýrði liðinu aldrei aftur á heimavelli.
Þegar ég áttaði mig á þessu varð ég mjög ósáttur. Strákarnir í liðinu voru að fara að leika síðasta leik sinn með þjálfara sínum og áhorfendur á Akureyri gátu aldrei staðið upp og klappað fyrir Atla.
Ef hins vegar KA sigraði, þá færi fram fjórði leikurinn fyrir norðan.
Í öllum þessum þankagangi, kvöldi fyrir leik, hringdi ég í Jonna Magg og sagði honum frá áhyggjum mínum.
Ég sagði: "Jonni, mér finnst ömurlegt að hafa ekki náð að kveðja Atla. Ef þið vinnið á morgun í Valsheimilinu, þá fæ ég að minnsta kosti oddaleik hér heima og þá næ ég að kveðja Atla".
Þessu svaraði Jonni mjög fljótt: "Pétur, þetta er ekkert mál. Við bara vinnum á morgun í Vals-heimilinu og fáum oddaleik, ég lofa því"
"Ég lofa því"!!!
Þetta voru stór orð. En ég trúði þessu.
Allir vita hvernig fór, norðanliðið okkar náði að sigra leik nr. 3, 4 & 5 og varð Íslandsmeistari.
Við getum allt sem við viljum.
Ég held að nú sé viljinn fyrir hendi. Við höfum frábæra þjálfara fyrir Akureyrarliðið og mjög marga góða leikmenn. Við getum þetta, já, þrátt fyrir tapið á sunnudaginn.
Sýnum að Akureyri er handboltabær, mætum á leikina og höfum besta heimavöll á Íslandi.
Áhorfendur hafa þegar sýnt að þeir eru bestu áhorfendur landsins. Mér fannst frábært að sjá áhorfendur á leiknum á sunnudag. Höldum svona áfram.
Koma svo!!!
Að lokum. Pétur Már Guðjónsson
Akureyri - Valur, KA-Heimilið 26. nóvember klukkan 16:00
Valsmenn eru í fínum málum í deildinni en eru dottnir útúr Bikarnum
Á sunnudaginn mæta Valsmenn í KA-Heimilið og spila gegn liði Akureyrar. Eftir frábæra byrjun á mótinu hefur Akureyri tapað tveim leikjum í röð og leikurinn gegn Val er tilvalinn til að hefja endurkomu liðsins í toppbaráttuna. Valsmenn eru efstir í deildinni, hafa unnið sex leiki og tapað einum. Akureyri hefur hinsvegar unnið þrjá, gert eitt jafntefli og tapað þrem leikjum.
Leikurinn í fyrstu umferðinni Liðin mættust í Laugardalshöll í fyrstu umferð deildarinnar og þar fóru Valsmenn með sigur. Valsmenn leiddu mestallan tímann en Akureyringar voru aldrei langt undan. Staðan var 13-12 fyrir Val í hálfleik eftir að Akureyri hafði verið 7-4 yfir á tímabili. Lokatölur voru 26-22 fyrir Val og eitt er víst að lið Akureyrar mun hefna fyrir tapið.
Deildarleikirnir til þessa Valur
Dags.
Mótherjar
Staðsetning
Úrslit
30. sept
Akureyri
Laugardalshöll
26-22 (sigur)
7. okt
Fylkir
Fylkishöll
28-26 (tap)
14. okt
Stjarnan
Laugardalshöll
30-29 (sigur)
21. okt
HK
Digranes
25-27 (sigur)
5. nóv
Fram
Laugardalshöll
30-25 (sigur)
11. nóv
ÍR
Laugardalshöll
31-25 (sigur)
18. nóv
Haukar
Ásvellir
29-30 (sigur)
Akureyri
Dags.
Mótherjar
Staðsetning
Úrslit
30. sept
Akureyri
Laugardalshöll
26-22 (tap)
8. okt
ÍR
KA-Heimilið
33-24 (sigur)
15. okt
Haukar
Ásvellir
34-34
6. nóv
Fylkir
KA-Heimilið
30-27 (sigur)
12. nóv
Stjarnan
Ásgarður
22-23 (sigur)
19. nóv
HK
KA-Heimilið
20-22 (tap)
22. nóv
Fram
Safamýri
32-29 (tap)
Markús Máni Michaelsson er markahæsti leikmaður Vals til þessa í deildinni og hefur skorað 48 mörk í 7 leikjum (6,8 mörk að meðaltali í leik). Hinn ungi Ernir Hrafn Arnarson hefur skorað 30 mörk í 7 leikjum (4,2 að meðaltali). Fannar Þór Friðgeirsson hefur gert 20 í 7 leikjum (2,8 að meðaltali) en þá hefur Arnór Þór Gunnarsson gert 19 mörk í aðeins 5 leikjum (3,8 að meðaltali).
Ólafur Haukur Gíslason núverandi landsliðsmarkvörður og Pálmar Pétursson eru markverðir Vals og hafa þeir verið að skipta spilmínútum jafnt á milli sín. Báðir eru mjög góðir og er það mikill styrkur fyrir Val að eiga tvo eins sterka markmenn.
Heimasíðan hvetur alla til að mæta í KA-Heimilið á sunnudaginn klukkan 16:00 og sjá lið Akureyrar rífa sig upp úr þessum tveim tapleikjum í röð. Til að leggja topplið Vals þarf húsfylli og það er ekkert skemmtilegra en að vera á leik í KA-Heimilinu þegar fólk mætir vel og stemmningin er góð.
Akureyri - Valur, KA-Heimilið 26. nóvember klukkan 16:00