Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Magnaður útisigur Akureyrar á FH - Akureyri Handboltafélag
Það er óhætt að segja að spennustigið hafi verið hátt í Kaplakrikanum í gær þegar Akureyri vann afar mikilvægan sigur á FH. Blaðamenn visir.is og Morgunblaðsins tóku nokkur viðtöl eftir leikinn sem fara hér á eftir. Byrjum á viðtölum Guðmundar Marinós Ingvarssonar hjá visir.is sem ræddi við Heimi Örn Árnason og Magnús Óla Magnússon leikmann FH:
Heimir Örn: Bjóst enginn við okkar sigri
„Við ákváðum að hugsa ekki um stöðuna en eftir á er þetta rosalega flott stig. Komnir með innbyrðis á FH,“ sagði Heimir Örn Árnason þjálfari Akureyrar eftir sigurinn í kvöld. „Þetta Valsstig sem við héldum að yrði ekkert mikilvægt er allt í einu miklu mikilvægara en við héldum.
„Við eigum Hauka úti næst og förum þangað með enga pressu og menn búast ekki við miklu. Það bjóst enginn við því að við myndum vinna í kvöld, nema við sjálfir. Allt í kringum liðið og örugglega FH líka hafði enga trú á að þeir myndu tapa fyrir okkur í kvöld. Varnarlega í seinni hálfleik erum við frábærir. Við erum með hörku varnarmenn. Það sem hefur aftrað okkur eru þessi seinni tempó mörk sem mörg lið eru góð í. Við skipulögðum það betur í kvöld enda gekk það miklu betur.
Ég er stoltur af strákunum. Það er mikið búið að ganga á en samt er ég þokkalega stoltur eftir áramót. Við erum búnir að spila þokkalega,“ sagði Heimir sem vill forðast umspilið þó það líti allt út fyrir að það skipti aðeins HK máli fyrir liðin í Olís deildinni hvernig það spilast.
„Við þurfum tvö til fjögur stig í viðbót til að forðast umspilið. Maður veit ekkert í íslenskum handbolta. Kannski draga þrjú lið sig út og þá er þessi umspilskeppni mjög mikilvæg. Síðan er þetta stoltið að koma sér upp í fimmta, sjötta sætið.“
Óræður svipur á Heimi í fyrri leik liðanna
Magnús Óli: Dýr stig að tapa
„Þetta eru dýr tvö stig sem við misstum þarna. Þetta tvö stigin sem við þurftum til að komast í úrslitakeppnina,“ sagði Magnús Óli Magnússon sem óttast þó ekki að lenda í umspilinu. „Ég held að við klárum þessa síðustu tvo leiki og sleppum við það. Við getum enn komist inn í úrslitakeppnina. Við verðum klára okkar leiki og vona það besta.“
Ásbjörn Friðriksson gat ekkert beitt sér fyrir FH í dag fyrir utan að hann kom inn á til að taka vítin. FH saknaði hans sárlega í leiknum í kvöld. „Ásbjörn er heilinn í liðinu. Hann stjórnar sókninni. Við söknuðum leikstjórnar hans mikið. Við náðum að leysa vörnina þeirra þegar við fórum að rúlla boltanum, sækja á þá, fengum júgga og fengum smá færslur. Þá breyttu þeir um og fóru að taka Ragga (Ragnar Jóhannsson) út. Raggi var flottur í þessum leik. Þá opnaðist fyrir mig og fleiri,“ sagði Magnús Óli.
FH komst yfir í seinni hálfleik en fyrir utan að sóknin hikstaði þá hætti liðið að brjóta í vörninni og fyrir vikið gat Akureyri skorað auðveld mörk og komist aftur yfir. „Við hættum að brjóta og fá fríköst. Ef við brjótum og fáum tvö, þrjú fríköst á þá í sókn þá taka þeir ótímabær skot. Þeir eru bestir þegar þeir fá að rúlla boltanum endalaust í sókn, taka klippingar og tékka. Þá eru þeir flottir.“
Magnús Óli Magnússon í leik með FH í Höllinni
Guðmundur Hilmarsson blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Valþór Guðrúnarson og Ásbjörn Friðriksson eftir leikinn. Lengri útgáfur viðtalanna eru í myndböndunum sem fylgja með:
Valþór: Ótrúlegt að við eigum ennþá möguleika
Leikmenn Akureyrar fögnuðu vel og innilega eftir sigurinn gegn FH í Kaplakrika í kvöld en með sigrinum eygja nú norðanmenn möguleika á að komast úr 7. sætinu og sleppa þannig við að fara í umspil. „Við erum mjög ánægðir með þennan sigur og það var gott að klára þetta. Við eigum möguleika á að sleppa við að fara í umspilið sem í raun ótrúlegt miðað við hvernig við höfum spilað í síðustu leikjum,“ sagði Valþór Guðrúnarson skytta í liði Akureyrar við mbl.is eftir sigurinn gegn FH-ingum.
Ásbjörn: Langt frá því að vera í okkar höndum
Ásbjörn Friðriksson og félagar hans í FH-liðinu vorum að vonum súrir eftir tapið gegn Akureyri á heimavelli í Olís-deildinni í handknattleik í kvöld. Tapið þýðir að FH á afar litla möguleika á að komast í úrslitakeppnina og barátta liðsins það sem eftir er snýr meira af því að forðast að fara í umspil um að halda sæti sínu í deildinni. „Það er svolítið langt frá því að vera í okkar höndum að komast í úrslitakeppnina og það er aldrei góð staða. Þetta var vont tap og tapið á móti ÍBV fyrir tveimur umferðum var ömurlegt,“ sagði Ásbjörn við mbl.is eftir leikinn.
Það má búast við fjörugum leik gegn FH ingum
25. mars 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Akureyri fer í Kaplakrika á fimmtudaginn
Akureyri mætir í Hafnarfjörðinn og leikur gegn FH á fimmtudaginn. Rimma þessara liða hefur verið hrikalega hörð síðustu ár og verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þessi leikur fer. Síðustu tveir leikir liðanna voru hér í Íþróttahöllinni með nokkurra daga millibili. Fyrst í bikarnum en sá leikur fór í framlengingu þar sem FH knúði fram sigur.
Þrem dögum síðar mættust liðin í Olís-deildinni og þar var það Akureyri sem skoraði sigurmarkið þegar sjö sekúndur voru til leiksloka.
Bæði lið hafa fulla þörf fyrir stigin sem eru í boði í Krikanum og þarf ekki að efast um að þar verður allt lagt í sölurnar. Það er því ástæða fyrir alla stuðningsmenn að fjölmenna í Kaplakrikann og styðja okkar lið!
Eins og gefur að skila þá þekkja liðin vel inn á hvort annað, þær breytingar hafa þó orðið á FH liðinu frá því að þeir komu hér í Höllina að Kristján Arason er aftur kominn inn í þjálfarahópinn. Það virtist gefast vel í síðustu umferð þegar FH-ingar unnu langþráðan sigur í Fram heimilinu 25-28. Í þeim leik var hægri skyttan Ragnar Jóhannsson atkvæðamestur með 7 mörk og hornamaðurinn Benedikt Reynir og Magnús Óli með fimm mörk hvor. Magnús Óli Magnússon hefur verið einn albesti maður liðsins í vetur og þeirra markahæstur með 81 mark í deildinni. Ásbjörn Friðriksson er líka alltaf erfiður viðureignar en hann er með 75 mörk og hornamaðurinn Einar Rafn Eiðsson með 72 mörk.
Akureyrarliðið hefur verið á góðu róli undanfarið á heimavelli en átt erfitt uppdráttar á útivöllum, nú fer hver að verða síðastur að snúa því við þar sem einungis eru tveir útileikir eftir í deildinni, næsti slíkur verður einnig í Hafnarfirði gegn Haukum.