Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Þunnskipað Akureyrarlið engin mótstaða fyrir Val - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2014-15

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Valur - Akureyri  30-17 (17-8)
Olís deild karla
Vodafone höllin
Lau 29. nóvember 2014 klukkan: 16:15
Dómarar: Magnús Kári Jónsson og Ómar Ingi Sverrisson
Umfjöllun

Akureyri átti erfitt verkefni í dag



29. nóvember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Þunnskipað Akureyrarlið engin mótstaða fyrir Val

Akureyri mætti lemstrað til leiks í Vodafone höllina að Hlíðarenda þar sem meistarakandídatarnir í Val biðu eftir okkar mönnum. Beðið var með mikilli eftirvæntingu eftir leiknum enda höfðu bæði lið verið á góðu skriði. Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur þar sem Valsmenn leiddu tóku heimamenn öll völd á vellinum og keyrðu gjörsamlega yfir Akureyringa.

Valsmenn leiddu 7-5 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður en þá hrökk allt í baklás hjá Akureyri, sóknarleikurinn missti algjörlega marks og lið Vals keyrði hratt til baka og refsaði með hraðaupphlaupum sem og seinni bylgju. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan orðin 17-8 fyrir Val og öll spenna horfin útum gluggann. Varnarleikur Akureyrar var fínn þegar liðið náði að stilla upp, hinsvegar var engin markvarsla fyrir aftan vörnina en Tomas Olason var með 2 skot varin í fyrri hálfleik og Bjarki Símonarson náði ekki að verja skot þegar hann fékk tækifærið.

Síðari hálfleikur var í raun bara formsatriði enda var ekkert í spilunum að Akureyri gæti snúið leiknum við. Valsliðið hélt áfram að keyra á okkar menn og forskotið jókst jafnt og þétt. Þá var Stephen Nielsen gjörsamlega magnaður í markinu hjá þeim. Sóknarleikurinn var áfram erfiður enda mæddi mikið á þeim fáu sem gátu spilað og þurftu margir að spila útúr stöðu eða í gegnum meiðsli.

Lokatölur voru 30-17 fyrir Hlíðarendapilta og er þessi niðurstaða jöfnun á tveimur metum fyrir Akureyrarliðið. Stærsta tap félagsins sem og fæst mörk skoruð í leik.

Það er svo sem óréttlátt að vera of harðorður í garð Akureyrarliðsins enda er um þriðjungur liðsins alveg frá vegna meiðsla og annar þriðjungur er að spila í gegnum meiðsli. Valsliðið er líklegast besta liðið á landinu en engu að síður var sárt að horfa upp á þessa rassskellingu.

Nú þarf hinsvegar bara að rífa sig upp aftur og gleyma þessum leik, það er vika í næsta leik sem er útileikur gegn ÍBV. Vonandi verða menn orðnir klárari í slaginn þegar kemur að þeim leik enda er erfitt að hala inn stigum þegar staðan á mannskapnum er eins og hún hefur verið í síðustu tveimur leikjum.

Tengdar fréttir

Valsmenn eru á toppi deildarinnar með Aftureldingu

26. nóvember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Akureyri mætir Val fyrir sunnan á laugardaginn

Akureyri mætir suður á laugardaginn helgina og mætir þar stórliði Vals. Mikil barátta og spenna hefur einkennt leiki liðanna í gegnum tíðina og hvetjum við alla til að mæta á Hlíðarenda á laugardaginn klukkan 16:15, áfram Akureyri!

Valsmenn hafa heldur betur hrokkið í gang í síðustu leikjum og eru jafnir Aftureldingu að stigum á toppi Olís-deildarinnar. Eins og oft áður hafa frændurnir Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason verið fremstir Valsara í markaskorun Geir með 57 mörk og Guðmundur Hólmar með 53.


Geir Guðmundsson með Val í leiknum í Höllinni fyrr í haust


Guðmundur Hólmar sækir að Akureyrarvörninni í leiknum í Höllinni fyrr í haust

Þar á eftir koma Finnur Ingi Stefánsson með 46 mörk og á línumaðurinn Kári Kristján Kristjánsson með 43 mörk.

Guðmundur Hólmar missti reyndar af síðasta leik Vals sem var öruggur sigurleikur á HK en þar fór Geir á kostum með 9 mörk en næstur var Atli Már Báruson með 8 mörk. Þar á undan gerðu Valsmenn jafntefli við Aftureldingu þar sem Kári Kristján skoraði 8 mörk og Guðmundur Hólmar 6. Kári var svo enn fyrirferðarmeir í sigurleik gegn ÍR þar sem hann skoraði heil 10 mörk.


Kári hefur farið á kostum í síðustu leikjum Vals

Valsmenn misstu markvörðinn góðkunna Hlyn Morthens í meiðsli en á meðan hafa Stephen Nielsen og Kristján Ingi Kristjánsson staðið vaktina. Nielsen er enginn aukvisi og var t.d. valinn besti markvörður Olís deildarinnar á síðasta tímabili.

Þjálfarar Vals eru þeir Óskar Bjarni Óskarsson sem hefur reyndar áður komið við sögu sem þjálfari Vals og Jón Ríkharður Kristjánsson sem lengi lék með Val og þjálfaði fyrir nokkrum árum m.a. ÍR. Eins og við bentum á hér fyrr í vetur þá er Jón norðanmaður að upplagi, fyrir þá sem ekki vita þá er Jón bróðir Erlings Kristjánssonar og saman léku þeir bræður handbolta með KA og urðu jafnframt Íslandsmeistarar með KA í knattspyrnu 1989.

Liðin mættust hér í Íþróttahöllinni fyrr í haust og varð það hörkuleikur þar sem Valsmenn fóru með sigur að lokum. Í þeim leik voru frændurninr erfiðir, Geir Guðmundsson 8 mörk, Guðmundur Hólmar Helgason 6 og þvínæst Elvar Friðriksson með 4 mörk.

En leikir liðanna hafa í gegnum tíðina ekki bara verið sögulegir fyrir spennu og jafnræði liðanna heldur einnig athygliverðir hvað tölfræðisögu Akureyrar varðar. Þann 4. nóvember 2010 sigraði Akureyri 17 – 23 og hefur ekki fengið jafn fá mörk á sig í deildarleik þó svo að það hafi verið jafnað gegn Fram núna í október. Reyndar gerðist það 19. apríl 2008 að Valur sigraði 30-40 og hefur Akureyri hvorki fyrr né síðar fengið jafn mörg mörk á sig í deildarleik. Spurning hvort þessi met verði í hættu á laugardaginn?


Akureyri og Valur börðust hart um sæti í úrslitunum 2009-2010

23. nóvember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Myndband frá rimmu Akureyrar og Vals 09-10

Akureyri leikur næst gegn sterku liði Vals á útivelli. Akureyri og Valur hafa oft mæst í hörkuleikjum og því um að gera að rifja upp eina eftirminnilega rimmu liðanna. Tímabilið 2009-2010 mættust liðin í undanúrslitum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Oddur Gretarsson klippti myndband úr fyrsta leik rimmunnar til að kveikja í liðinu fyrir leik númer tvö í rimmunni. Sjón er sögu ríkari!

Smellið hér til að sjá myndbandið á facebook síðu Akureyrar Handboltafélags!

Því miður er myndbandið ekki lengur aðgengilegt á vefnum þar sem Facebook heimilaði ekki notkun Odds á tónlistinni með myndbandinu. En við minnum svo á að like-a Akureyri Handboltafélag á facebook enda margt skemmtilegt sem kemur þar inn.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson