Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Rafmagnaður sigur á Stjörnunni í kvöld - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2014-15

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Myndband frá leiknum      Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Stjarnan  31-27 (13-17)
Olís deild karla
Íþróttahöllin
Fim 25. sept 2014 klukkan: 19:00
Dómarar: Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson. Eftirlit Kristján Halldórsson
Umfjöllun

Tomas og Heiðar áttu magnaðan leik gegn Stjörnunni



25. september 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Rafmagnaður sigur á Stjörnunni í kvöld

Það var ekki laust við að það væri skjálfti í leikmönnum og stuðningsmönnum Akureyrar í fyrsta heimaleik tímabilsins. Það voru hins vegar Stjörnumenn sem komu baráttuglaðir til leiks og svo sannarlega voru þeir miklu betra liðið framan af, komust í 5-1 strax í byrjun og héldu fjögurra til fimm marka forskoti út allan fyrri hálfleikinn.
Staðan í hálfleik var 13-17 fyrir Stjörnuna og hafði Akureyrarliðið engan vegin náð sér á strik, það er óhætt að segja að Tomas Olason hafi með frábærri markvörslu haldið liðinu á floti.


Það var greinilega mikil spenna fyrir leiknum

Enn syrti í álinn í upphafi seinni hálfleiks því Stjarnan jók forskotið upp í sex mörk, 13-19 og 14-20. En þá loks vaknaði Akureyrarliðið, skoraði næstu fjögur mörk og spenna komin í leikinn á ný. Það var svo eftir rúmar 43 mínútur sem Akureyri náði loks að jafna og þegar tíu mínútur voru til leiksloka komst liðið loksins yfir í leiknum 26-25.
Stjörnumenn komust lítið áleiðis og Akureyri sigldi síðan ótrúlegum fjögurra marka sigri í höfn með síðustu þrem mörkum leiksins, lokatölur 31-27.

Það er óhætt að segja að fjölmargir áhorfendur hafi fengið sitthvað fyrir peninginn í kvöld, algjöran viðsnúning og taugatrekkjandi lokamínútur með farsælum endi og áttu stuðningsmenn svo sannarlega sinn þátt í því með frábærum stuðningi.

Eins og lesa má úr framansögðu þá var leikur liðsins frekar dapur fyrstu þrátíu og fjórar mínútur leiksins en að sama skapi hreint frábær það sem þá var til leiksloka. Þessar rúmar tuttugu mínútur vann liðið með tíu marka mun, skoraði 17 mörk gegn 7 mörkum Stjörnunnar. Friðrik Svavarsson átti flotta innkomu, var frábær í vörninni og skilaði jafnframt marki og víti á hinum endanum.

Sigþór Árni Heimisson var hreint út sagt frá bær í leiknum, Stjörnumenn réðu ekkert við hann og þegar yfir lauk hafði Sissi skorað 11 mörk. Heiðar Þór Aðalsteinsson átti sömuleiðis flottan leik í vinstra horninu og skoraði 9 mörk.

Mörk Akureyrar: Sigþór Árni Heimisson 11, Heiðar Þór Aðalsteinsson 9, Kristján Orri Jóhannsson 4 (2 úr vítum), Ingimundur Ingimundarson 3, Elías Már Halldórsson 2, Friðrik Svavarsson og Sverre Andreas Jakobsson 1 mark hvor.
Tomas Olason átti stórleik í markinu og varði 20 skot.


Sverre kveikti heldur betur í fólki með sínu fyrsta marki fyrir Akureyri

Mörk Stjörnunnar: Egill Magnússon 8, Hilmar Pálsson 4, Andri Hjartar Grétarsson, Starri Friðriksson, Víglundur Jarl Þórsson og Þórir Ólafsson 3 mörk hver, Ari Pétursson, Ari Magnús Þorgeirsson og Hrannar Bragi Eyjólfsson 1 mark hver.
Björn Ingi Friðbjörnsson varði skot í Stjörnumarkinu og Sigurður Ingiberg Ólafsson 1 skot.


Sigþór Árni var valinn besti maður Akureyrarliðsins


Tengdar fréttir

Sissi og Heiddi fóru á kostum gegn Stjörnunni

29. september 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Fimmeinn.is velur Sissa og Heidda í lið 3. umferðar

Handboltavefurinn fimmeinn.is hefur valið úrvalslið 3. umferðar Olís-deildar karla. Sigþór Árni Heimisson sem átti stórleik og skoraði 11 mörk gegn Stjörnunni er valinn besti miðjumaður umferðarinnar og Heiðar Þór Aðalsteinsson sem einnig átti skínandi leik og skoraði 9 mörk var valinn besti vinstri hornamaðurinn.

Þess má til gamans geta að Heiðar lýsti Sigþóri sem hröðum og dvergvöxnum eftir leikinn umtalaða, nánar hér.

Annars er lið 3. umferðarinnar þannig skipað að áliti tíðindamanna fimmeinn.is:
Markvörður: Hlynur Morthens Val
Vinstri skytta: Björgvin Þór Hólmgeirsson ÍR
Vinstra horn: Heiðar Þór Aðalsteinsson Akureyri
Miðja: Sigþór Heimisson Akureyri
Lína: Tryggvi Þór Tryggvason HK
Hægri Skytta: Jóhann Gunnar Einarsson Aftureldingu
Hægra horn: Theodór Sigurbjörnsson ÍBV



Þjálfararnir þakka stuðningsmönnum frábæran stuðning

26. september 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Skilaboð frá þjálfarateyminu eftir Stjörnuleikinn

Stuðningsmenn Akureyrar mættu vel á leikinn gegn Stjörnunni og héldu uppi frábærum stuðningi við liðið. Sverre Jakobsson sendi meðfylgjandi kveðju frá þjálfarateyminu til stuðningsmanna á facebook síðu Akureyrarliðsins:

Kæru stuðningsmenn - fyrir hönd liðsins langar okkur að þakka ykkur fyrir þann flotta stuðning sem þið sýnduð okkur í gær. Vonandi sjáumst við sem oftast í vetur og sköpum hér góða stemmningu í kringum liðið og handboltann í bænum.
Bestu kveðjur Sverre, Heimir og Sigurpáll.


Sverre og Sigurpáll á hliðarlínunni í gær. Heimir átti ekki heimangengt að þessu sinni


Stemmingin var flott í stúkunni í gær. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson

Það verður fjör í Höllinni í næstu viku því á fimmtudaginn klukkan 18:00 er leikur gegn Val og þrem dögum seinna, sunnudaginn 5. október klukkan 15:00 mæta Íslandsmeistarar Vestmannaeyinga í Höllina.


Heiðar Þór átti flottan leik

26. september 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir leik Akureyrar og Stjörnunnar?

Eftir æsispennu og dramatík í Höllinni í gærkvöld voru leikmenn og þjálfarar gripnir í viðtöl og eins og við er að búast voru menn ýmist alsælir eða svekktir. Hér eru samantekin viðtöl af mbl.is, visir.is og vídeóviðtöl af sport.is.

Byrjum á viðtölum Einars Sigtryggssonar, blaðamanns Morgunblaðsins en hann ræddi við Heiðar Þór Aðalsteinsson, leikmann Akureyrar og Skúla Gunnsteinsson þjálfara Stjörnunnar:

Heiðar Þór: Hann er hraður og dvergvaxinn

Heiðar Þór Aðalsteinsson er einn af þeim sem spilað hafa hvað lengst með liði Akureyrar í handboltanum. Hann hefur verið inn og út úr liðinu síðustu ár og spilaði nú heilan leik í fyrsta skipti í langan tíma. Hornamaðurinn fór hreint hamförum og skoraði mörk í öllum regnbogans litum. Á endanum komst hann í níu mörk en félagi hans, Sigþór Árni Heimisson, gerði enn betur og skoraði ellefu.

Hvað fannst Heiðari Þór um leikinn? „Við vorum í basli lengi vel og vorum að gera barnaleg mistök í vörninni allan fyrri hálfleikinn. Við þéttum okkur svo og náðum að stoppa í götin og smám saman kom þetta hjá okkur. Ég held að það hafi bara verið stress í okkur. Þetta var fyrsti heimaleikurinn og Höllin full af áhorfendum, sem bjuggust örugglega við miklu af okkur. Við hristum þetta af okkur á endanum og fórum að spila eins og menn, en þetta var erfið fæðing. Jú, ég er ánægður með minn leik en það voru skot sem ég hefði viljað setja í markið. Sissi (Sigþór Árni) var náttúrulega frábær og ég held að hann sé núna loksins að springa almennilega út. Menn hafa verið að bíða dálítið eftir því. Hann er svo fáránlega hraður að það stoppar hann enginn. Ótrúlegt hvað hann er hraður þrátt fyrir að vera dvergvaxinn“ mælti Heiðar Þór og tók skýrt fram að þessi síðustu ummæli hans yrðu að koma fram á mbl.is.


Heiðar Þór á flugi í horninu og boltinn lá í markinu

Skúli: Stoltur en svekktur

Skúli Gunnsteinsson, þjálfari Stjörnunnar, getur ekki annað en verið nokkuð ánægður með sína menn þrátt fyrir tap gegn Akureyri í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. Stjarnan leiddi lengi vel en á endanum skriðu heimamenn í Akureyri fram úr og lönduðu loks 31:27 sigri.

„Við vorum að spila vel í fyrri hálfleiknum, vorum búnir að kortleggja Akureyringa og héldum algjörlega okkar plani allan hálfleikinn. Vörnin var flott og markmaðurinn byrjaði á að verja nokkra bolta. Í seinni hálfleiknum varð þetta erfiðara og við fórum að taka verri skot og fylgdum ekki almennilega planinu sem lagt var upp með. Við urðum óþolinmóðir og smám saman brotnaði undan okkur. Það má segja að við höfum spilað frábærlega í 45 mínútur og það hlýtur að vera markmiðið að taka heilan leik svoleiðis. Ég er svekktur með tapið en virkilega stoltur af liðinu. Í fjórtán manna hóp eru tíu leikmenn sem hafa enga reynslu í efstu deild og þeir stóðu sig með sóma. Við eigum að geta unnið hvaða lið sem er ef allt gengur upp en 45 mínútur voru ekki nóg í dag. Akureyrarliðið er virkilega sterkt og heimavöllurinn frábær með mikinn stuðning áhorfenda. Ég bjóst því ekki beint við því að við myndum vera yfir lengstum í leiknum“ sagði reynsluboltinn geðprúði að lokum.

Ólafur Haukur Tómasson ræddi við Akureyringana Sverre Andreas Jakobsson og Sigþór Árna Heimisson svo og Skúla Gunnsteinsson. Viðtölin birtust á visir.is.

Sverre Jakobsson: Vonum að fólk kunni að meta þetta

„Sóknin var á pari í fyrri hálfleik þó við vildum hafa nýtt færin betur. Vörnin var aftur á móti skelfileg og við getum ekkert falið okkur á bakvið það. Sóknin verður svo yfir pari í seinni hálfleik, vörnin smellur og þá var ekki að sökum að spyrja,“ sagði Sverre Jakobsson leikmaður Akureyrar aðspurður hvað small hjá liði hans eftir fremur dapran leik vel fram í seinni hálfleik.

Mikil stemming var á pöllunum í Höllinni og mikill karakter var í liði Akureyrar. Sverre telur að áhorfendur geti haft mikil áhrif á liðið í vetur og vill að liðið sendi rétt skilaboð til þeirra sem á leikinn komu í kvöld.

„Við vorum búnir að ákveða að hafa stemmingu og við viljum að áhorfendur sjái að það sé sterkur karakter í þessum hóp. Eins og við sjáum í stöðu eins og hún var í dag að við gefumst ekki upp og erum með fýlusvip.
Við munum mæta með blóðbragð og reyna að ná í þessa punkta, það tekst líklega ekki alltaf en við munum alltaf reyna og það eru skilaboðin sem við vildum senda. Það tókst í dag með hjálp áhorfenda og það er frábært, við vonum að fólk skynji og kunni að meta það,“ sagði Sverre.

„Hægt og rólega erum við að bæta okkar lið. Við erum að slípa okkur saman, menn eiga eftir að koma inn, við höfum okkar markmið og þetta verður dúndur flottur hópur. Það þarf bara að gefa okkur séns, hvetja okkur og þetta verður ein stór heild,“ bætti Sverre við.


Sverre fer yfir málin í leikhléi

Sigþór Heimisson: Fólk á að vilja koma í Höllina!

Stjörnumenn voru mest allan leikinn með þægilega forystu gegn Akureyri, Sigþór Heimisson leikmaður Akureyrar sagði að hans menn hafi ákveðið að það gengi ekki upp að bjóða upp á svona spilamennsku á heimavelli.

„Það var einfaldlega ákveðið inni í klefa að þetta yrði ekki það sem við ætluðum að bjóða upp á hérna heima. Fólkið á að vilja koma aftur í Höllina og þetta er það sem við ætlum að bjóða upp á hérna,“ sagði Sigþór Heimisson, leikmaður Akureyrar sem fór hamförum í kvöld og skoraði ellefu mörk fyrir heimamenn og var lykilmaður í sigri sinna manna.

Sigþór fór á kostum í leiknum og skoraði ellefu mörk ásamt því að leggja upp fullt af færum og mörkum fyrir sína menn. Hann telur að það skipti ekki miklu máli hver skori svo lengi sem liðið vinnur vel.

„Það skiptir ekki máli hver skorar mörkin. Það er liðið sem vinnur leiki en ekki einstaklingurinn eins og við sýndum í seinni hálfleik þá er það liðið sem mætir saman og vinnur þetta. Í fyrri hálfleik var þetta aðeins meira einstaklingsframtök og slitótt vörn en í seinni þá smellur vörnin saman, Tomas tekur mikilvæga bolta og menn taka af skarið í sókninni,'

„Þetta er vígi sem við ætlum að byggja hérna á Akureyri,“ bætti Sigþór við.


Stjörnumenn voru í mesta basli við að stöðva Sigþór Árna

Skúli Gunnsteinsson: Spiluðum frábærlega í fjörtíu mínútur

Stjarnan virtist vera með leikinn í sínum höndum langt fram eftir leiknum en töpuðu því svo niður. Skúli Gunnsteinsson var ánægður með frammistöðu sinna manna en taldi reynsluleysi þeirra hafa sagt til sín þegar uppi var staðið.

„Ég held að ef við horfum mjög hlutlaust á þetta þá er ég með tíu af fjórtán mönnum í leikmannahópnum sem hafa aldrei spilað neitt hlutverk í efstu deild. Ég er með mjög ungt lið og við spiluðum frábærlega í svona fjörtíu mínútur.
Fyrri hálfleikurinn var mjög vel spilaður, við opnuðum þá trekk í trekk samkvæmt plani en síðan í seinni hálfleik hættum við að velja réttu færin og erum ekki að vanda okkur nógu mikið.
Við brotnum hægt og rólega, við höfðum ekki reynslu til að fylgja þessu eftir og nú þurfum við að einbeita okkur að því að lengja þennan kafla. Akureyri er frábært lið og það er engin skömm að tapa fyrir þeim“, sagði Skúli Gunnsteinsson, þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn.

„Við gátum unnið þetta og við sýndum að við höfðum alla burði í það. Við erum drullu svekktir. Okkur gekk illa að klára færi, vörnin lak og markvarslan var meiri þeirra megin svo það er á mörgu að taka en við eigum hrós skilið.
Eins og við spiluðum í fyrri hálfleik þá sýndum við að við getum mætt hverjum sem er, sóknin var flott, vörnin var góð og flott markvarsla,“ sagði Skúli sem taldi sig geta litið á jákvæðu punktana í leik sinna manna í kvöld.

Á sport.is eru komin vídeóviðtöl Siguróla Magna Sigurðssonar við markakónginn Sigþór Árna og markaskorarann Sverre. Skúli Gunnsteinsson fékk að sjálfsögðu að fylgja með hjá Siguróla líka.

Sigþór Heimisson: Íslenski heimilismaturinn stendur fyrir sínu

Sigþór Árni Heimisson var magnaður í liði Akureyrarar í kvöld. Hann skoraði 11 mörk og þakkaði hann staðgóðum mat á leikdegi þessa framistöðu. Hann ræddi við Sportvarpið eftir leik.

Sverre: Einn gamall skoraði þýðingarmikið mark

Sverre Andreas Jakobsson var sáttur með tvö stig í kvöld eftir afar dapran fyrri hálfleik síns liðs. Liðið sýndi þó mátt sinn og megin í síðari háflleik.

Skúli Gunnsteinsson: Ég reyni að vinna mína heimavinnu

Skúli Gunnsteinsson, þjálfari Stjörnunnar var að vonum svekktur eftir fjögurra marka tap á Akureyri í kvöld. Hann var þó stoltur af sínu liði.




Þjálfarar liðsins, Heimir og Sverre

25. september 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Heimaleikur gegn Stjörnunni

Þá er stóra stundin runnin upp, fyrsti heimaleikur Akureyrar á tímabilinu er í dag þegar strákarnir okkar taka á móti Stjörnunni úr Garðabæ. Akureyrarliðið hefur tekið töluverðum breytingum frá síðasta tímabili og margir bíða í óþreyju eftir að sjá liðið í alvöruleik.

Ef við rennum lauslega yfir breytingarnar þá eru komnir til liðsins þeir Sverre Andreas Jakobsson, Ingimundur Ingimundarson, Elías Már Halldórsson og Daníel Örn Einarsson auk markvarðarins Hreiðars Levý Guðmundssonar sem reyndar er á sjúkralistanum og verður ekki leikfær alveg á næstunni. Þá má nefna að Heiðar Þór Aðalsteinsson sem lék með Hömrunum í fyrravetur er kominn í leikmannahóp Akureyrar á ný.


Sverre og Ingimundur í hjarta varnarinnar

Farnir eru: Markvörðurinn Jovan Kukobat heim til Serbíu, hægri skyttan og þjálfarinn Bjarni Fritzson til ÍR. Vinstri hornamaðurinn Gunnar Malmquist Þórsson til Aftureldingar og varnarjaxlinn Daníel Matthíasson fór til FH.

Nokkrir úr æfingahópi Akureyrar munu hefja leik með 1. deildarliði Hamranna, t.d. Arnór Þorri Þorsteinsson og Kristján Már Sigurbjörnsson auk þess sem jaxlarnir Heimir Örn Árnason og Hreinn Þór Hauksson munu væntanlega klæðast Hamrapeysum í vetur.

Sverre og Heimir Örn Árnason eru þjálfarar liðsins en þeim til aðstoðar í leikjum er Sigurpáll Árni Aðalsteinsson sem lék á árum áður bæði með KA og Þór.

Sem kunnugt er þá eru Bergvin Þór Gíslason og Valþór Guðrúnarson að jafna sig eftir axlaraðgerðir, vonandi sjáum við mjög fljótlega til Bergvins í leik en Valþór þarf að bíða lengur.

Þá hafa ungir og kröftugir strákar fengið aukið vægi í liðinu, þar má t.d. nefna markvörðinn Tomas Olason sem nú er í stöðu aðalmarkvarðar og með honum er heimamaðurinn Bjarki Símonarson sem er nýkominn upp úr 2. flokki. Skyttan Brynjar Hólm Grétarsson þreytti frumraun sína í meistaraflokki í fyrravetur auk þess sem Sigþór Árni Heimisson er orðinn lykilmaður í sóknarleiknum. Allir koma þessir ungu strákar reynslunni ríkari frá því í fyrra og verður fróðlegt að sjá þá spjara sig.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 og má búast við því að fjölmargir noti tækifærið á þessum fyrsta heimaleik til að kaupa stuðningsmannaskírteinið, eða Gullkortið. Kortið verður selt og afhent í anddyri Íþróttahallarinnar frá klukkan 18:00. Það er ráðlegast að koma tímanlega til að ganga frá kortamálum því búast má við verulegum fjölda – og ekki spillir að handhafar kortsins geta fengið dýrindis máltíð í stuðningsmannaherberginu fyrir leikinn og veitingar í hálfleik.

Sjáumst í Íþróttahöllinni í kvöld!



Stjörnumenn eru væntanlegir norður

22. september 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Heimaleikur gegn Stjörnunni á fimmtudaginn

Fyrsti heimaleikur Akureyrar á þessu tímabili er á fimmtudaginn þegar Stjarnan úr Garðabæ mætir til leiks. Stjarnan vann sig upp í úrvalsdeild síðastliðið vor eftir að hafa leikið í 1. deild í fjögur tímabil þar á undan. Stjarnan var í harðri baráttu við Aftureldingu um toppsætið í 1. deild í fyrra en missti naumlega af efsta sætinu. Stjarnan tók í kjölfarið þátt í umspili um sæti í Olís-deildinni og vann þar sigur á Selfyssingum en töpuðu lokaeinvíginu við ÍR, sem kom þó ekki að sök þar sem fjölgað var í deildinni.

Akureyringum er að sjálfsögðu minnistætt tapið gegn Stjörnunni í fjögurra liða úrslitum bikarkeppninnar 2013 og ætla örugglega að kvitta fyrir þá niðurlægingu á fimmtudaginn.

Kjarninn í liði Stjörnunnar eru ungir leikmenn eins og Egill Magnússon, Andri Hjartar Grétarsson, Starri Friðriksson og Víglundur Jarl Þórsson. Í sumar hefur Stjarnan fengið til sín nokkra reynslubolta og þar skal fyrstan telja hægri hornamann íslenska landsliðsins, Þóri Ólafsson sem sneri heim frá Póllandi. Frá HK komu markvörðurinn Björn Ingi Friðþjófsson, skyttan Eyþór Magnússon og nú síðast kom galdramaðurinn Daníel Berg Haraldsson. Frá Val kom línumaðurinn Gunnar Harðarson eftir eins árs hvíld. Þannig að óhætt er að segja að Stjarnan sé með athyglisverða blöndu ungra og reyndari leikmanna.


Eyþór Magnússon, Björn Ingi, Þórir Ólafsson, Gunnar Harðarson ásamt Vilhjálmi Halldórssyni formanni meistaraflokksráðs Stjörnunnar Mynd: mbl.is

Nýr þjálfari, Skúli Gunnsteinsson tók við liðinu í sumar eftir að hafa stýrt kvennaliði Stjörnunnar með flottum árangri undanfarin ár en áður gerði Skúli karlalið Aftureldingar að Íslandsmeisturum 1999. Þórir Ólafsson er aðstoðarþjálfari Skúla.

Eftir tvær umferðir er Stjarnan með tvö stig, töpuðu í fyrstu umferð fyrir Aftureldingu 29-22 en unnu HK í annarri umferðinni 27-26.

Atkvæðamestir Stjörnumanna í þessum tveim leikjum hafa verið Andri Hjartar Grétarsson með 11 mörk, Egill Magnússon með 8 og Ari Magnús Þorgeirsson með 7 mörk.


Andri Hjartar Grétarsson í leiknum gegn Aftureldingu. Mynd: fimmeinn.is


Egill Magnússon í leiknum gegn Aftureldingu. Mynd: fimmeinn.is

Við bjóðum Stjörnumenn velkomna norður og ekki að efa að það verður mikið fjör á fjölum Íþróttahallarinnar á fimmtudaginn og um að gera fyrir fjölmarga stuðningsmenn Akureyrarliðsins að fjölmenna og taka virkan þátt í að skapa stemmingu í húsinu. Leikurinn hefst klukkan 19:00 á fimmtudaginn.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson