Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Fimm marka tap gegn Aftureldingu - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2014-15

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Afturelding - Akureyri  22-17 (11-10)
Olís deild karla
N1 höllin
Fim 12. febrúar 2015 klukkan: 19:30
Dómarar: Magnús Kári Jónsson og Ómar Ingi Sverrisson
Umfjöllun

Heiðar Þór var markahæstur í leiknum

13. febrúar 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Fimm marka tap gegn Aftureldingu

Mosfellingar komu fram hefndum fyrir tapið gegn Akureyri fyrr í vetur þegar liðin mættust í gærkvöldi. Byrjun leiksins var ekki sannfærandi hjá Akureyrarliðinu, sérstaklega ekki sóknarlega og eftir tuttugu mínútna leik var staðan 7-3 fyrir heimamenn í Aftureldingu en þá hafði Akureyri ekki skorað mark í tíu mínútur.


Sigþór Árni komst ekkert áleiðis gegn vörn Aftureldingar. Mynd: Krist­inn Ingvars­son mbl.is

Síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiksins var hins vegar allt annað að sjá til liðsins sem kom sér vel inn í leikinn og var munurinn aðeins eitt mark í hálfleik, 11-10.

Seinni hálfleikur fór vel af stað, Nicklas jafnaði í 11-11 og nokkru síðar kom Heimir Akureyri yfir 12-13. Skömmu síðar jafnaði Heimir í 14-14 og rúmar tíu mínútur liðnar af hálfleiknum. Í kjölfarið hrundi sóknarleikur Akureyrar og Afturelding gerði í raun út um leikinn með fimm mörkum í röð, staðan orðin 19-14. Lokatölur síðan býsna öruggur sigur Aftureldingar 22-17.

Eins og tölurnar bera með sér var sóknarleikur Akureyrar arfaslakur, fjölmargir tapaðir boltar, dauðafæri fóru forgörðum og þrjú vítaköst í súginn. Vörnin stóð fyrir sínu en maður liðsins var klárlega Tomas Olason sem átti frábæran leik í markinu, með um 20 varin skot hreinlega bjargaði hann liðinu frá niðurlægingu. Tomas varði tvö vítaköst og fjölmörg hraðaupphlaup heimamanna.

Mörk Akureyrar: Heiðar Þór Aðalsteinsson 5 (3 úr vítum), Nicklas Selvig 4, Heimir Örn Árnason 3, Kristján Orri Jóhannsson 3 (1 úr víti), Bergvin Þór Gíslason og Halldór Logi Árnason 1 mark hvor.
Tomas Olason 19 varin skot þar af 2 vítaköst.

Mörk Aftureldingar: Örn Ingi Bjarkason 8, Jóhann Jóhannsson 4, Birkir Benediktsson 3, Pétur Júníusson 3, Gestur Ingvarsson 2, Ágúst Birgisson og Böðvar Páll Ásgeirsson 1 mark hvor.
Davíð Hlíðdal Svansson varði 15 skot í markinu, þar af 1 víti.

Eftir leik kvöldsins er ljóst hvernig leikjaskipulag deildarinnar verður í framhaldinu og svo skemmtilega vill til að liðin mætast aftur í Mosfellsbænum á sunnudaginn og verðum við að vona að liðið nái þá að halda fullum dampi út heilan leik.


Þrándur í hörðum slag við Örn Inga markakóng Aftureldingar. Mynd: Krist­inn Ingvars­son mbl.is


Tengdar fréttir

Þrándur og Heimir í viðtölum



14. febrúar 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Ummæli eftir fimmtudagsleikinn gegn Aftureldingu

Á morgun, sunnudag mætast Akureyri og Afturelding á ný í Mosfellsbænum og vonandi verður sá leikur ekki endurtekning á leiknum frá því á fimmtudaginn þar sem Afturelding fór með sigur af hólmi eftir kaflaskiptan leik. Hér á eftir fara viðtöl blaðamanna eftir leik liðanna síðastliðinn fimmtudag.

Byrjum á viðtali Guðmundar Marinós Ingvarssonar af visir.is:

Heimir Örn: Eitthvað í hausnum á mönnum

„Horfum bara á töfluna, 17 mörk. Það er fáránlegt,“ sagði Heimir Örn Árnason aðspurður hvort sóknarleikurinn hafi orðið liðinu að falli í kvöld.

„Þeir hefðu getað refsað okkur meira. Við vorum allt of staðir og ekki að gera það sem við erum að gera á æfingum. Það er eitthvað hik í mönnum í þessari sókn. Þetta kemur vonandi.
Það er nóg eftir en við þurfum að fara að bæta í sóknina annars er þetta ekki hægt. 22 mörk fengin á sig eiga að skila einu til tveimur stigum.

Við erum að spila ágætis vörn en það skilar okkur engu.
Þetta er búið að gerast í fyrstu þremur leikjunum eftir áramót. Þetta var eiginlega copy/paste af ÍR og Vals leiknum. Við spilum vel og framan af og svo kemur tíu mínútna kafli þar sem við gjörsamlega klúðrum þessum leikjum á augabragði.
Þetta er eitthvað í hausnum á mönnum sem við þurfum að laga,“ sagði Heimir sem segir liðið aðeins taka eitt jákvætt út úr leiknum. Frammistöðu Tomas Olason í markinu.
„Hann var frábær. Hann var yndislegur. Ég veit að hans danske familie kom að horfa á þetta hjá honum. Þess vegna var hann alveg óður og varði eins og enginn væri morgundagurinn. Hann var eiginlega það eina jákvæða.“

Á sport.is er vídeóviðtal við Heimi Örn þar sem hann segir lélegan 10 mínútna kafla í seinni hálfleik hafi orðið hans mönnum að falli.



Áfram með viðtöl Guðmundar Marinós Ingvarssonar af visir.is:

Örn Ingi: Spiluðum tudda vörn

„Það var kraftur og seigla í okkur í kvöld. Akureyri er kraftalið og við vissum alveg hvað þurfti til. Við þurftum að spila af sömu hörku ef ekki meiri til að vinna,“ sagði Örn Ingi Bjarkason leikstjórnandi Aftureldingar.

„Við getum þetta. Við sýndum að við erum hörku lið. Við töluðum um það að þegar það líður að vori þá þurfum við að sýna alvöru leiki og halda dampi. Nú er allt upp á við hjá okkur.
Mér fannst við spila tudda vörn. Við náum að brjóta mikið. Náum að blokka og það sem mestu skiptir er að við vorum hreyfanlegir í vörninni. Við höfum verið staðir að undanförnu en núna færðum við allir sem einn og það gerði gæfu muninn varnarlega séð,“ sagði Örn Ingi sem segir það eina neikvæða við leikinn hve illa leikmenn fóru með dauðafærin.

„Við vorum svekktir með okkur í hálfleik og getum verið svekktir með okkur eftir leik að hafa ekki nýtt þessi færi. Það fóru nokkur víti og fullt af fyrsta tempói hraðaupphlaupum. Við eigum nóg inni en spiluðum samt vel.
Við vissum að ef við myndum halda einbeitingu og aga út allan leikinn þá erum við alltaf á góðu róli. Ef við skilum því þá skilum við yfirleitt alltaf góðum úrslitum,“ sagði Örn Ingi.



Ívar Benediktsson blaðamaður mbl.is ræddi við Þránd Gíslason Einar Andra, þjálfara Aftureldingar.

Þrándur: Strembið á köflum

„Þetta var strembið hjá okkur á köflum, ekki síst í sókninni,“ sagði Þrándur Gíslason Roth leikmaður Akureyrar og fyrrverandi leikmaður Aftureldingar eftir 22:17 tap Akureyrarliðsins gegn Aftureldingu á Varmá í kvöld í 18. umferð Olís-deildar karla í handknattleik.

„Við eigum erfitt uppdráttar í sóknarleiknum og verðum að bæta okkur á því sviði auk þess að fá fleiri mörk eftir hraðaupphlaup ef við eigum að vinna leiki. Okkur tókst þetta þokkalega á köflum.“

Akureyrarliðið skoraði aðeins fjögur mörk á fyrstu 20 mínútum leiksins og sama markafjölda síðustu 20 mínútunum. Á síðustu 20 mínútunum rann leikurinn úr höndum Akureyringar sem fengu á sig fimm mörk á stuttum kafla rétt fyrir miðjan hálfleikinn þegar staðan breyttist úr 14:14 í 19:14, Aftureldingu í vil.
„Mosfellingar hafa meiri breidd en við og um það munar,“ sagði Þrándur sem viðurkennir að lokaþriðjungur deildarkeppninnar geti orðið Akureyrarliðinu erfiður. „Við förum í úrslitakeppnina og verðum tilbúnir þegar hún hefst,“ sagði Þrándur sem segir það hafa verið léttara en hann grunaði að mæta á sinn gamla heimavöll.

„Það var ekki jafn vont að mæta gömlum samherjum og mig hafði órað fyrir. Það var gaman að koma hingað og hitta allt gamla draslið og fólkið hér sem eru eins mublur,“ sagði Þrándur Gíslason Roth en nánar er talað við hann á meðfylgjandi myndskeiði.



Vildum virkilega vinna

„Við vildum virkilega vinna í kvöld og kvitta fyrir leikinn við Akureyringa fyrir norðan skömmu fyrir jól,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar eftir fimm marka öruggan sigur Mosfellinga á Akureyringum í Olís-deildinni í handknattleik í kvöld.

„Það stefndi í að leikurinn yrði jafn til enda þar sem við fórum mjög illa að ráði okkar í mörgum góðum marktækifærum. Við verðum að laga það. Síðan kom frábær kafli hjá okkur rétt fyrir miðjan síðari hálfleik þar sem við skoruðum fimm mörk í röð og þá gerðum við út um leikinn,“ sagði Einar Andri sem var ánægður með varnarleikinn hjá Aftureldingu og frammistöðu Davíðs Svanssonar og Arnar Inga Bjarkasonar í sóknarleiknum.
Nánar er rætt við Einar Andra á meðfylgjandi myndskeiði.



Mosfellingar verða erfiðir heim að sækja

11. febrúar 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Útileikur gegn Aftureldingu á fimmtudaginn

Baráttan í Olís-Deildinni heldur áfram. Akureyri mætir í Mosfellsbæinn og leikur gegn spútnik liði Aftureldingar á fimmtudaginn klukkan 19:30. Liðin mættust í Íþróttahöllinni 6. nóvember sem var einmitt fyrsti leikur Akureyrar undir stjórn Atla Hilmarssonar á þessari leiktíð og Heimis Arnar Árnasonar sem leikmanns. Akureyrarliðið lék frábærlega í leiknum og vann verðskuldað 27-13.

Bæði liðin duttu út úr bikarkeppninni á sunnudaginn, Afturelding tapaði fyrir ÍBV þannig að þau einbeita sér væntanlega að Olís-deildinni í staðinn. Þar er Afturelding í 3. sætinu eftir að hafa lengst af tímabilinu átt toppsætið.

Leikurinn er liður í 18. umferð deildarinnar og að henni lokinni verða 2/3 hlutar deildarinnar að baki og þar með mun HSÍ raða upp leikjum síðasta þriðjungs deildarinnar. Akureyri er sem stendur í 6. sætinu og ljóst að liðið mun ekki verða neðar en það (vegna innbyrðis úrslita gegn Haukum). Liðið getur hins vegar náð 5. sætinu með sigri á fimmtudaginn að því gefnu að ÍBV tapi fyrir Fram.

HSÍ birtir væntanlega strax á föstudaginn leikjaniðurröðunina fyrir framhaldið en gert er ráð fyrir að tvær umferðir verði leiknar um helgina eða í næstu viku. Við vitum sem sé ekki enn hvort Akureyri fær heimaleik í þeim umferðum eða gegn hverjum verður leikið. En það skýrist allt á næstu dögum og þangað til einbeita menn sér að leiknum í Mosfellsbænum á fimmtudaginn.


Það gekk ýmislegt á þegar liðin mættust síðast


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson