Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Sendum góða strauma til strákanna

22. september 2007 - Akureyri Handboltafélag skrifar

Byggt á sterkri liðsheild

Þá er komið að fyrsta heimaleik karlaliðs Akureyrar á þessu keppnistímabili, þegar Framarar koma í heimsókn í dag en flautað verður til leiks í KA-heimilinu kl. 16. Akureyri vann sætan sigur á útivelli um síðustu helgi gegn nýliðum Aftureldingar og þá lögðu Framarar hina nýliðana í N1-deildinni, ÍBV, að velli í Eyjum.

Óhætt er að segja að Akureyri muni í vetur byggja á sterkri liðsheild. Í leikmannahópnum eru framúrskarandi einstaklingar, en engin ein stórstjarna sem mótherjarnir þurfa að leggja höfuðáherslu á að stöðva. Sem betur fer; þannig lið er mun skeinuhættara þegar á hólminn kemur en það sem byggir á einum eða fáum sterkum mönnum.

Í vinstra horninu byrjaði Heiðar Þór Aðalsteinsson í sókninni gegn Aftureldingu um daginn en Andri Snær Stefánsson lék þó þar meirihluta leiksins. Akureyringar vita að mikið býr í báðum; Heiðar Þór er mikið efni og skemmtilega lipur leikmaður; þriðji sonur Steina Sigurgeirs og Önnu Grétu sem leikur í þessari stöðu! Andri Snær var valinn leikmaður ársins í fyrravetur hjá Akureyrarliðinu og lék þá gríðarlega vel. Feykilega sterkur, snöggur og lipur leikmaður sem erfitt er að eiga við og verður áfram einn burðarása Akureyrarliðsins í vetur.

Og talandi um bræður; í leiknum gegn Aftureldingu um daginn var í fyrsta skipti í leikmannahópi Akureyrar Ágúst Stefánsson, fyrrverandi umsjónarmaður Heimasíðunnar og litli bróðir Andra Snæs. Stefán gítarleikari og tölvusérfræðingur Heimasíðunnar kann að búa til hornamenn ekki síður en Steini Sigurgeirs!

Helsta tromp Akureyrar á vinstri vængnum fyrir utan verður Magnús Stefánsson eins og í fyrravetur. Magnús er skytta mikil og góð eins og allir vita. Hann æfði ekki með félögum sínum í liðinu í sumar, heldur sinnti starfi og unnustu í Vestmannaeyjum en æfði duglega þar að sögn og spennandi verður að sjá hvernig hann kemur undan sumrinu. Þrumufleygarnir frá Fagraskógi eru án vafa á sínum stað.

Björn Óli Guðmundsson sem kom til Akureyrar frá Stjörnunni í sumar er ákaflega drjúgur leikmaður, traustur og fylginn sér og á án efa eftir að nýtast liðinu vel. Björn Óli hóf leikinn gegn Aftureldingu sem leikstjórnandi en getur einnig leikið í skyttustöðunni vinstra megin, og jafnvel í fleiri stöðum ef þörf er á. Þá finnst honum ákaflega gaman að taka þátt í varnarleiknum...

Rúnar Sigtryggsson byrjaði á bekknum um síðustu helgi en getur komið í stöðu skyttu vinstra megin eða spilað sem leikstjórnandi, þegar og ef þjálfarinn vill... Rúnar hefur engu gleymt og skoraði þrjú mörk gegn Aftureldingu. Ekki má heldur gleyma því hve gríðarlega mikilvægur hann getur reynst liðinu í varnarleiknum.

Jónatan Þór Magnússon er fáum líkur, ef nokkrum. Jonni snéri heim frá Frakklandi í fyrravetur, átti við meiðsli að stríða mánuðum saman og fór í aðgerð í sumar. Illa gekk þó að greina nákvæmlega hvað var að honum, en þrautseigju hans og dugnaði er viðbrugðið og hann var klár í fyrsta leik þótt engum dytti það í hug nokkrum vikum fyrr - ekki einu sinni honum sjálfum. Það er frábært að Jonni skuli vera kominn heim á ný; þessi ódrepandi baráttujaxl er ómetanlegur liðsmaður og þekktur fyrir að drífa félaga sína áfram.

Einar Logi Friðjónsson lék mjög vel gegn Aftureldingu um síðustu helgi. Einar Logi kom heim frá Þýskalandi í fyrravetur sem kunnugt er og hóf að leika með liðinu eftir jólafríið. Hann átti frekar erfitt uppdráttar framan af enda liðið í erfiðleikum, en Einar hefur sýnt í haust hvað í honum býr og nú er ljóst að hann fellur vel inn í liðið og mun örugglega verða mjög ógnandi í vetur. Það er auðvitað mjög mikilvægt að hafa svo sterkan örvhentan leikmann innanborðs. Þá skilar Einar Logi geysilega góðu hlutverki í vörninni.

Goran Gusic er frábær á góðum degi og var einmitt markahæstur Akureyringa gegn Aftureldingu. Goran leikur aðallega í hægra horninu en getur auðveldlega leyst Einar Loga af í skyttustöðunni. Ef Goran sleppur við meiðsli, sem hafa hrjáð hann annað veifið síðustu misseri, verður hann liðinu afar dýrmætur. Og ekki má gleyma vítaskyttunni Goran; þau eru ekki mörg skotin af vítalínunni sem hann hefur ekki skilað í markið.

Akureyringar eru ekki á flæðiskeri staddir þegar kemur að því að manna línumannsstöðuna. Hörður Fannar Sigþórsson hefur eflst með hverju árinu sem líður og ætti að geta blómstrað í vetur sem aldrei fyrr. Höddi verður ekki stöðvaður svo glatt ef hann nær að handsama boltann á línunni og þá er hann auðvitað ódrepandi baráttujaxl, hvort sem er í vörn eða sókn. Sömu rulluna er hægt að fara með um Þorvald Þorvaldsson, hraðinn er kannski ekki sá sami og í gamla daga en reynslan og baráttuandinn vega það upp.

Í markinu stendur Sveinbjörn Pétursson sem þrátt fyrir ungan aldur er kominn með töluverða reynslu og byrjaði tímabilið mjög vel gegn Aftureldingu um síðustu helgi. Nú er Hreiðar Levý farinn til Svíþjóðar og komið að Bubba að sýna hvað í honum býr og ekki ástæða til annars en vera bjartsýnn. Vert er að minna á frábæra frammistöðu hans framan af síðasta vetri þegar hann stóð í markinu á meðan Hreiðar var meiddur. Þá saknaði í sjálfu sér enginn landsliðsmarkvarðarins! Það segir meira um Sveinbjörn en mörg orð.

Vörn Akureyrarliðsins á að vera gríðarlega sterk í vetur; besta vörn landsins er markmið Rúnars þjálfara. Varnarlína skipuð einhverjum þeirra Magnúsi Stefánssyni, Herði Fannari, Einari Loga, Þorvaldi Þorvaldssyni, Rúnari eða Birni Óla hefði einhvern tíma verið kallaður ókleifur múr. Og þegar Jonni bætist við fyrir framan varnarvegginn og þeir Andri Snær, Heiddi eða Goran tilbúnir að skjótast fram í hraðaupphlaup úr hornunum, ættu æstir áhorfendur í KA-heimilinu að geta hlakkað til fjörugra viðureigna, glæsilegra marka og flottra tilþrifa.

Ótaldir eru margir ungir og bráðefnilegir leikmenn sem gætu komið inn í liðið í vetur en spreyta sig væntanlega að mestu með 2. flokki, sem ætti að geta orðið mjög sterkur í vetur. Nánar um þá síðar.

Að endingu hvetur Heimasíðan alla handknattleiksáhugamenn á Akureyri til þess að mæta á leikinn í dag og styðja okkar menn af miklum krafti. Áfram, til sigurs!
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson