ÓKEYPIS verður á leik Akureyrar og Stjörnunnar í N1 deild karla í KA-heimilinu á morgun. Það er fyrirtækið Vodafone sem hefur ákveðið að bjóða öllum á leikinn og vonandi þiggja Akureyringar gott boð og hvetja okkar menn.
Athygli skal vakin á því að leikurinn hefst á óvenjulegum tíma – flautað verður til leiks kl. 13.30. Upphaflega átti leikurinn að fara fram í kvöld, en vegna Evrópuleiks Vals um síðustu helgi var leikur okkar gegn Vodafone-liðinu frá Hlíðarenda færður til miðvikudagsins og þessum síðan seinkað um einn dag.
Akureyrarliðinu hefur ekki gengið vel í haust, en mikil batamerki voru á liðinu gegn Val í vikunni þrátt fyrir tap. Sóknarleikurinn var góður og liðið fékk mörg mjög góð færi, en þá tók Ólafur Gíslason markvörður Vals upp á þeim óskunda að verja eins og berserkur. Vonandi gengur betur að nýta færin á morgun.