Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Skemmtileg blanda ungra og reyndari leikmanna










27. september 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Kynning Morgunblaðsins á liði Akureyrar Handboltafélags

Nú styttist óðum í að keppnistímabilið hefjist fyrir alvöru, fyrsti leikur Akureyrar Handboltafélags er næstkomandi fimmtudag, útileikur gegn HK og viku síðar fyrsti heimaleikurinn, gegn Aftureldingu.
Það er því ekki seinna vænna að kaupa stuðningsmannaskírteini (ársmiða) fyrir veturinn, bæði er hægt að panta hér á síðunni og einnig eru leikmenn að selja.

Smelltu hér eða á myndina til að panta stuðningsmannaskírteini.










Í Morgunblaðinu í dag er ítarleg kynning og umfjöllun Ívars Benediktssonar iben@mbl.is blaðamanns á liði Akureyrar og fer hún hér á eftir:

Skemmtileg blanda af yngri og eldri

Akureyri handboltafélag hefur sent lið til keppni í úrvalsdeild karla frá haustinu 2006 eftir að liðum KA og Þórs var slegið saman. Nokkurn tíma tók að hrista hópana saman en undanfarin tvö ár má segja að verulegur kraftur hafi hlaupið í allt starf í kringum liðið. Árangurinn hefur batnað ár frá ári og umgjörðin í kringum liðið batnað mikið. Síðast en ekki síst þá hafa Akureyringar flykkst á leiki og félagið skapað umgjörð í kringum heimaleiki sína sem flest önnur lið N1-deildarinnar geta tekið sér til fyrirmyndar. Allt hefur þetta létt mönnum róðurinn við að byggja upp fullburða, alvöru handboltalið á Akureyri sem lætur til sín taka í keppni þeirra bestu.

Fyrir leiktíðina í fyrra fékk Akureyri handboltafélag til liðs við sig reynslumenn sem flestum hnútum eru kunnugir norðan heiða, þá Guðlaug Arnarsson og Heimi Örn Árnason. Með þeim kom kjölfesta í liðið. Það skilaði sér m.a. í því að leikmenn Akureyrar sýndu mikið þolgæði á endaspretti N1-deildarinnar í vor og tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni. Þar féll liðið í þriggja leikja hnífjöfnu einvígi fyrir Val þar sem aðeins vantaði herslumuninn hjá norðanmönnum að ná lengra.

Að þessu sinni er stefnt á að komast nær titlinum en í vor. Eins og hjá sex af átta liðum deildarinnar er nýr maður kominn í brúna. Atli Hilmarsson, sem þekkir vel til handknattleiksins á Akureyri og gerði KA á sínum tíma að Íslandsmeisturum, hefur tekið við af heimamanninum Rúnari Sigtryggssyni. Rúnar vann frábært starf við sameiningu og uppbyggingu liðsins en þótti tími til kominn að hleypa öðrum að í vor. Akureyri handboltafélag hefur á að skipa skemmtilegri blöndu yngri og eldri leikmanna sem eru til alls vísir undir stjórn Atla á vetri komandi. Einhvern veginn virðist flest vera fyrir hendi hjá Akureyri handboltafélagi til þess að gera harða hríð að Íslandsmeistaratitlinum að þessu sinni.

Gera betur en síðast

Akureyringar mæta vongóðir til leiks - Njóta mikils stuðnings heimamanna - Yngri menn hafa fengið smjörþefinn - Skemmtileg blanda leikmanna


Nýir menn í herbúðum Akureyrar: Frá vinstri: Daníel Einarsson, Atli Hilmarsson, þjálfari, Bjarni Fritzson og Sveinbjörn Pétursson.

Ívar Benediktsson ræddi við Heimi Árnason

„Okkur líst vel á keppnistímabilið sem er framundan. Markmiðið er einfalt og það er að gera ennþá betur en á því síðasta þegar við komumst í undanúrslit í úrslitakeppninni,“ sagði Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrar handboltafélags, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans.

„Við erum með svolítið skemmtilega blöndu leikmanna, annaðhvort eru menn í kringum þrítugt eða um tvítugt og lítið þar á milli. Ég er viss um að Atli þjálfari Hilmarsson finnur réttu blönduna.

Nokkrir af þeim yngri eins og Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason fengu smjörþefinn af þessu í fyrra og höfðu gott af því að vera með okkur í undanúrslitunum. Þeir læra með hverri vikunni eins og aðrir af þeim ungu með hverri vikunni og ég er viss um að þetta verður fínt hjá okkur öllum þegar líður aðeins á keppnistímabilið,“ segir Heimir Örn og bætir við að Akureyrarliðið muni leggja megináherslu á góðan varnarleik og markvörslu.

Talandi um markvörslu þá leikur hvorugur markvörður Akureyrarliðsins í fyrra með liðinu nú. Í stað Hafþórs Einarssonar, sem flutti suður, og Harðar Flóka Ólafssonar, sem hætti, hafa komið Sveinbjörn Pétursson og Stefán Guðnason. Sá síðarnefndi dró fram skóna á ný eftir hlé. Sveinbjörn þekkir vel til í herbúðum Akureyrar en hann lék með liðinu fyrir nokkrum árum. „Við fengum Akureyring í markið og erum ánægðir með það,“ segir fyrirliðinn.

Umgjörðin og stemningin í kringum Akureyrarliðið var afar góð í fyrra. Íþróttahöllin á Akureyri var fullskipuð á flestum leikjum. Heimir segir mikinn áhuga vera fyrir hendi meðal Akureyringa fyrir komandi keppnistímabili. Hann reiknar með að aðsóknin verði ekki síðri en í fyrra. „Menn voru farnir að spyrja mig í sumar hvenær við byrjuðum. Þannig að ég reikna með að áhuginn verði kannski meiri en í fyrra. Að minnsta kosti eru allir mjög áhugasamir um liðið,“ segir Heimir Örn.

Atli Hilmarsson tók við þjálfun Akureyrar í sumar af Rúnari Sigtryggssyni. Heimir þekkir Atla vel því hann lék undir stjórn Atla þegar hann stýrði KA til sigurs á Íslandsmótinu vorið 2002. „Ég var undir stjórn Atla í fjögur eða fimm ár. Atli hefur ekkert breyst. Hann er með sömu æfingarnar og í gamla daga,“ segir Heimir léttur en bætir við hlæjandi. „Nei, þetta er ekki alveg rétt hjá mér. Hann er kominn með tvær eða þrjár nýjan æfingar.“

Gott að flytja norður
Heimir Örn flutti norður sumarið 2009 eftir að hafa verið í sjö ár í burtu og leikið með Val, Fylki og Stjörnunni auk þess að vera í Danmörku og í Noregi um nokkurt skeið. Heimir segist vera ánægður með að vera fluttur heim á ný.

„Það er gott að vera á Akureyri. Ég eignaðist einn og hálfan tíma til viðbótar í sólarhringinn bara við það eitt að flytja hingað. Allar vegalengdir eru styttri og síðan er mikið minna stress,“ segir Heimir Örn sem er grunnskólakennari í nýjum skóla í Naustahverfinu. „Síðan er ég að þjálfa yngri flokkana í handboltanum með þessu. Það er nóg að gera, sem betur fer,“ segir Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrar.

Molar

Á tímabili í sumar stóðu Akureyringar í þeim vanda að hafa engan markvörð í liði sínu. Hörður Flóki Ólafsson og Hafþór Einarsson, sem stóðu í marki liðsins á síðustu leiktíð, voru ekki lengur fyrir hendi. Hörður Flóki lagði skóna á hilluna og Hafþór flutti suður til náms.

Eftir nokkra leit fékk Akureyri handboltafélag Sveinbjörn Pétursson að láni frá HK en Sveinbjörn þekkir vel til í herbúðum norðanmanna. Þá ákvað Stefán Guðnason að draga fram skóna á nýjan leik og vera Sveinbirni til halds og trausts. Síðan hefur Akureyri innan sinna raða ungan markvörð, Pál Jónsson.

Bjarni Fritzson, margreyndur landsliðsmaður, gekk til liðs við Akureyri handboltafélag í sumar eftir nærri tveggja ára veru hjá FH. Bjarni á að baki 39 landsleiki. Einnig fengu Akureyringar Daníel Einarsson til liðs við sig frá Stjörnunni.

Árni Þór Sigtryggsson hélt utan í sumar á nýjan leik eftir tveggja ára veru með Akureyri. Hann leikur nú með Rheinland í þýsku 1. deildinni. Fyrirliðinn á síðasta ári, Jónatan Þór Magnússon, fluttist til Noregs og leikur með Kristiansund og Andri Snær Stefánsson hélt til Danmerkur og gekk á dögunum frá samningi við Odder Handbold.

Ekki má heldur gleyma því að þjálfaraskipti urðu hjá Akureyri fyrir komandi leiktíð. Atli Hilmarsson leysti Rúnar Sigtryggsson af hólmi.

Leikmannahópurinn

Sveinbjörn Pétursson, 22 ára - markvörður
Stefán Guðnason, 26 ára - markvörður
Páll Jónsson, 19 ára - markvörður
Hreinn Þór Hauksson, 29 ára - vinstra horn
Oddur Gretarsson, 20 ára - vinstra horn
Bergvin Þór Gíslason, 19 ára - vinstra horn
Guðmundur Hólmar Helgason, 18 ára - vinstri skytta
Hlynur Matthíasson, 19 ára - vinstri skytta
Ásgeir Kristinsson, 18 ára - vinstri skytta
Heimir Örn Árnason, 31 árs - miðjumaður
Geir Guðmundsson, 17 ára - hægri skytta
Jón Heiðar Sigurðsson, 19 ára - hægri skytta
Jóhann Gunnarsson, 19 ára - hægri skytta
Valdimar Þengilsson, 23 ára - hægri skytta
Bjarni Fritzson, 30 ára - hægra horn
Daníel Einarsson, 21 árs - hægra horn
Guðlaugur Arnarsson, 32 ára - línumaður
Hörður Fannar Sigþórsson, 28 ára - línumaður
Halldór Logi Árnason, 21 árs - línumaður
Þorvaldur Þorvaldsson, 38 ára - línumaður

Ívar Benediktsson iben@mbl.is

Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson