Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Tómas kom sterkur í seinni hálfleikinn7. desember 2012 - Akureyri handboltafélag skrifarSlakur fyrri hálfleikur varð Akureyri að falli gegn HK Það var ekki mikil stemming yfir leikmönnum Akureyrar eða stuðningsmönnum í leikslok í gær. Fyrir leik benti allt til þess að þetta yrði frábært kvöld, dýrindis veisla fyrir stuðningsmannaklúbbinn og Ingó Hansen tók tvö lög af geisladiski sínum fyrir áhorfendur. Leikurinn byrjaði reyndar ágætlega, Akureyri með fyrstu tvö mörkin og leikurinn í járnum fyrsta korterið en að því loknu var staðan 7-7. Jovan með fína markvörslu á þeim tíma en þar með var líka draumurinn úti. Seinna korterið gekk bókstaflega ekki neitt hjá Akureyrarliðinu. Vörn HK tók nánast hvert einasta skot og þau fáu sem sluppu í gegn varði Arnór markvörður þeirra auðveldlega. Í kjölfarið fékk Bjarki Már Elísson hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru og skilaði þeim örugglega í netið. Þessar seinni fimmtán mínútur hálfleiksins vann HK með átta mörkum gegn einu og leiddu í hálfleik 8 – 15. Í seinni hálfleiknum fékk Tomas Olason að spreyta sig í markinu og ekki hægt að segja annað en hann hafi átt fína innkomu. Framan af gekk þó lítið að saxa niður forskot HK manna sem reyndar varð mest átta mörk 10 – 18 en með fjórum mörkum í röð kviknaði smávon hjá heimamönnum sem minnkuðu muninn í 14 – 18 og nokkru seinna í þrjú mörk 20 - 23. HK spýtti í aftur og jók forskotið í fimm mörk 20 – 25. Akureyri barðist áfram og minnkuðu muninn í tvö mörk 23 – 25 en það var bara of seint og Bjarki Már Elísson innsiglaði sigur HK manna með síðasta marki leiksins, 23 – 26. Þessi skelfilegi kafli í fyrri hálfleik fór gjörsamlega með leikinn og ljóst að honum vilja menn gleyma en vonandi verður hann mönnum víti til varnaðar um að láta slíkt ekki gerast aftur. Nú verða menn að hrista af sér vonbrigðin í næsta leik, sem er útileikur gegn Aftureldingu til að menn fari sæmilega sáttir í áramótahléið og eigi jafnframt von í að komast í deildarbikarinn.Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 7 (2 úr vítum), Guðmundur Hólmar Helgason 6, Bergvin Þór Gíslason 3, Geir Guðmundsson 2, Hreinn Þór Hauksson 2, Andri Snær Stefánsson 1, Friðrik Svavarsson 1 og Heiðar Þór Aðalsteinsson 1. Tomas Olason varði 7 skot í markinu og var valinn maður liðsins. Jovan Kukobat varði 5 skot í fyrri hálfleiknum.Mörk HK: Bjarki Már Elísson 9 (1 úr víti), Atli Karl Bachmann 7, Garðar Svavarsson 6 og Ólafur Víðir Ólafsson 4. Í markinu hjá HK átti Arnór Freyr Stefánsson flottan leik en hann var með 14 skot varin. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook