Ungmennalið Akureyrar mætti Ungmennaliði ÍBV í Víkinni í kvöld og vann góðan 26-25 sigur. Ákveðið var að báðir leikir liðanna yrðu spilaðir fyrir sunnan um helgina en liðin mætast aftur á morgun í Mosfellsbæ klukkan 12:00.
Strákarnir byrjuðu leikinn af krafti og náðu fljótt yfirhöndinni. Mikið af mörkum liðsins komu úr seinni bylgju og var varnarleikur liðsins góður. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 12-10 og útlitið gott.
En peyjarnir úr Eyjum komust betur í takt við leikinn er leið á síðari hálfleikinn og var leikurinn í járnum. Þeir brugðu á það ráð að taka Arnór Þorra Þorsteinsson úr umferð en Arnór hafði verið mjög skeinuhættur í sóknarleik Akureyrarliðsins.
Það tók smá tíma fyrir liðið að finna lausnir á varnarleik ÍBV liðsins með Arnór tekinn úr umferð en flottur karakter hélt leiknum í járnum.
Þegar ein mínúta lifði leiks leiddi Akureyri 25-24 og var með boltann. Eftir erfiða sókn þar sem höndin var komin upp brá Arnþór Gylfi Finnsson línumaður á það ráð að þruma að marki fyrir utan og boltinn fór rakleiðis í netið. Eyjamenn minnkuðu muninn en tíminn var ekki nægur og sætur 26-25 sigur staðreynd og liðið stekkur því upp í 8. sæti deildarinnar.
Glaðbeittur hópur eftir sigurinn á ÍBV-U.
Aftari röð frá vinstri: Arnþór Gylfi Finnsson, Daði Jónsson, Birkir Guðlaugsson, Jóhann Einarsson, Aron Tjörvi Gunnlaugsson, Benedikt Línberg Kristjánsson, Arnór Þorri Þorsteinsson, Andri Snær Stefánsson.
Fremri röð frá vinstri: Kristján Helgi Garðarsson, Garðar Már Jónsson, Páll Snævar Jónsson, Arnar Þór Fylkisson, Heimir Pálsson.
Mörk Akureyrar: Arnór Þorri Þorsteinsson 8, Garðar Már Jónsson 5, Jóhann Einarsson 4, Heimir Pálsson 3, Arnþór Gylfi Finnsson 2, Daði Jónsson 2, Benedikt Línberg Kristjánsson 1 og Birkir Guðlaugsson 1.
Arnar Þór Fylkisson stóð í markinu allan tímann og varði 16. skot.