Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Lagt á ráðin í leikhléi









3. október 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Lið Akureyrar á sigurbraut, baráttusigur á Stjörnunni

Það var stiginn stríðsdans á parketinu í Höllinni í gærkvöldi eftir magnaðan sigur Akureyrar á Stjörnunni enda var sigurinn mikilvægur fyrir sjálfstraust liðsins eftir vonbrigðin eftir fyrsta heimaleikinn. Það var ljóst strax í upphafi að liðið kom vel stemmt í leikinn og greinilegt að menn ætluðu ekki að lenda í eltingaleik. Hafþór Einarsson gaf tóninn með því að loka markinu í byrjun og þar með tóku fjölmargir áhorfendur sömuleiðis við sér.

Akureyri skoraði fyrstu tvö mörk leiksins en Stjarnan náði að jafna í 4-4 og komst reyndar yfir 4-5 en það var líka í eina skiptið í leiknum því Akureyri náði frumkvæðinu strax aftur og lét það ekki af hendi.

Varnirnar voru öflugar og markverðir beggja liða fóru á kostum enda var lítið skorað í fyrri hálfleik, þannig var staðan 6-6 eftir tuttugu mínútna leik. Þá kom fínn kafli þar sem Akureyri náði þriggja marka forystu 9-6, þar sem Heiðar Þór Aðalsteinsson tók til sinna ráða og skoraði tvö glæsimörk. Stjarnan átti hins vegar síðasta orðið í fyrri hálfleik og minnkaði muninn úr vítakasti þannig að hálfleiksstaðan var 9-7 Akureyri í vil.

Það var létt yfir mönnum í stuðningsmannaherberginu í hálfleik, enda virtist Akureyrarliðið stjórna leiknum, markvarslan sem hafði vantað í fyrri leikjunum í góðu lagi, eina áhyggjuefnið var hvað lítið hafði komið frá Árna Sigtryggssyni í hálfleiknum. Málið var reyndar að Árni var fárveikur og því ekki nema skugginn af sjálfum sér að þessu sinni.

Akureyri hélt 2-3 marka forystu framan af seinni hálfleik en í stöðunni 12-9 misstu menn einbeitinguna og Stjarnan náði að jafna í 12-12 og aftur í 13-13 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Það var vissulega farið að fara um áhorfendur á þessum tímapunkti enda hafði liðinu gengið illa að höndla lokamínútur síðustu leikja. En nú var annað uppi á teningnum, Oddur Grétarsson var öryggið uppmálað í hægra horninu og Elfar Halldórsson kom inná í vinstri skyttu og skoraði frábært mark úr sínu fyrsta skoti. Árni Sigtryggsson sýndi líka hvað hann getur og eftir glæsimark frá honum var staðan orðin 19-16 og einungis fimm mínútur eftir af leiknum.


Stefán Árnason fagnar Elfari Halldórssyni eftir markið góða

Á þessum tímapunkti fataðist dómurunum eitthvað flugið, Akureyrarsóknin fékk aukast en áður en að leikmaður Akureyrar komst út fyrir punktalínu til að taka aukakastið hrifsaði Stjörnumaður boltann úr höndum hans, geystist upp völlinn og skoraði án þess að nokkur gerði tilraun til að stöðva hann og dómararnir dæmdu þetta löglegt mark. Í næstu sókn mistókst sending sem kostaði annað hraðaupphlaupsmark og Stjarnan skyndilega búin að minnka muninn í 19-18. Trúlega hefur tveim kústastrákanna hitnað í hamsi þarna og látið einhver orð falla í garð dómarans því hann stöðvaði leikinn og lét vísa þeim út úr salnum!

Við þessi læti hljóp leikmönnum kapp í kinn og þeir kláruðu leikinn með stæl, Jónatan skoraði m.a. tvö mörk á síðustu mínútunni og innsiglaði kærkominn sigur. Stjarnan náði svo að minnka muninn í þrjú mörk á lokasekúndu leiksins sem endaði því með þriggja marka sigri Akureyrar 22-19.

Það var fyrst og fremst frábær dugnaður í vörninni og glæsileg frammistaða Hafþórs Einarssonar í markinu sem skópu þennan sigur. Sóknarleikurinn gekk ekki alveg eins og maður hefði viljað og munaði þar miklu að Árni Sigtryggsson gat ekki beitt sér af fullum krafti eins og áður segir. Hins vegar var ýmislegt sem gladdi augað mörkin dreifðust á marga leikmenn, Oddur gerði fína hluti í hægra horninu, Elvar Halldórsson átti flotta innkomu í vinstri skyttuna, Andri Snær kraftmikill að vanda og Jónatan sýndi að hann kann nokkur fintuafbrigði ennþá svo eitthvað sé nefnt.

Mörk Akureyrar: Jónatan Magnússon 6 (1 víti), Andri Snær Stefánsson 5 (1 víti), Árni Sigtryggsson 3, Oddur Grétarsson 3, Heiðar Þór Aðalsteinsson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 1, Elfar Halldórsson 1 og Gústaf Línberg Kristjánsson 1.

Hafþór Einarsson varði 23 skot í markinu.


Sigurhringurinn tekinn í leikslok

Mörk Stjörnunnar: Fannar Friðgeirsson 7/1, Ólafur Sigurjónsson 4, Guðmundur Guðmundsson 4, Ragnar Helgason 2, Hermann Björnsson 1, Jón Heiðar Gunnarsson 1.
Roland Valur Eradze átti góðan leik í markinu og varði 19 skot, þar af 2 víti.

Þetta var ótrúlega flott hjá okkur og lögðu sig 100% fram. Grunninn lögðum við með rosalega flottri vörn. Roland var mjög góður hinum megin svo við urðum að treysta á vörnina.
Það er mjög fínt að vera kominn aftur af stað. Stemningin í kringum liðið er frábær og andinn er með okkur í þessu. Við hugsum ekki lengra en að næsta leik og nú er bara að vinna Suðurnesjamenn í bikarnum um helgina. Við reynum að hafa gaman af þessu og bara spila okkar leik. Einn aðalkosturinn við liðið er hvað menn eru fjölhæfir og geta þannig bakkað hver annan upp,
sagði Hafþór kampakátur við blaðamann Morgunblaðsins eftir leikinn.

Þetta var hörkuleikur og við vorum alveg staðráðnir í að gera okkar besta og sýna okkar fólki að við erum góðir í handbolta. Ég viðurkenni alveg að þetta var ekki fallegasti handbolti sem hefur verið spilaður en baráttan var til staðar og við höfðum alveg rosalega gaman af þessu og ég held að það hafi skilað sér til áhorfenda. Ég vil líka taka það fram að ég stóð við stóru orðin sem ég lét falla í Vikudegi í dag, sagði Andri Snær við blaðamann Vikudags að leik loknum og bætti við: Við erum eitt besta varnarlið landsins þegar við eigum góðan leik og Haffi (Hafþór Einarsson) er enn að komast í sitt besta form en var frábær í kvöld. Svo loksins tókum við á skarið í kvöld í sóknarleiknum þegar á þurfti að halda eins og við höfðum talað um að gera. Það má segja að næstum allt hafi gengið upp í kvöld.

Það er nóg að gera hjá strákunum þessa dagana, æfing í kvöld, bikarleikur klukkan 16:00 á morgun (laugardag) í KA-Heimilinu og síðan hörkuleikur gegn HK í deildinni næsta fimmtudagskvöld.

Ekki má gleyma þætti áfhorfenda sem voru fjölmargir og stóðu sig frábærlega. Sjá myndir o.fl. af stúkunni.

Smellið hér til að skoða myndir frá leiknum.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson