Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Flóki grípur hér boltann frá Valdimari Þórssyni
og Oddur skorar úr horninu



25. nóvember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Sigur á HK í undarlegum leik

Akureyri Handboltafélag vann í kvöld sinn fjórða sigur í röð í N1-deild karla þegar liðið lagði Kópavogspilta í HK með 27 mörkum gegn 26 í undarlegum leik þar sem dómararnir léku stórt hlutverk.

Okkar menn byrjuðu leikinn illa og voru fjórum mörkum undir 3-7 eftir tæplega 15 mín leik. Þá hins vegar tóku menn sig saman í andlitinu og fóru að spila vörn. Ekki var að sökum að spyrja, Akureyri skoraði fimm mörk í röð og komst yfir 8-7. HK tók þá aftur við sér og var jafnræði með liðunum fram að hálfleik en þegar til flautað var til hans var staðan 16-16.


Jónatan á auðum sjó og skorar auðveldlega

Strákarnir byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og fékk maður á tilfinninguna að þeir myndu hreinlega rúlla yfir gesti sína í síðari hálfleiknum, því eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik var staðan orðin 21-17 Akureyri í vil. Því miður hélt sú forysta ekkert áfram en hún hélst þó hins vegar í 3-4 mörkum allt þar til í stöðunni 26-22 þegar um 10 mínútur lifðu leiks. Þá kom mikið bakslag í leik Akureyrar og var eins og menn ætluðu að verja forskotið í stað þess að klára af fullum krafti. HK skoraði 4 mörk í röð og jafnaði 26-26 þegar 3 mín voru til leiksloka. Ekki hjálpaði til að langbesti maður Akureyrar í leiknum, Oddur Gretarsson þurfti á þessum tímapunkti að fara af velli vegna höfuðmeiðsla er hann fékk olnboga frá Sverri Hermannssyni, leikmanni HK í höfuðið. Tekið skal hins vegar fram að atvikið virtist vera algjört óviljaverk hjá Sverri.

Akureyri hélt í sókn í stöðunni 26-26 og fékk Heimir Árnason vítakast ásamt því að Vilhem Gauta Bergsveinssyni leikmanni HK var vikið af velli. Jónatan fór á punktinn en lét Sveinbjörn „Bubba“ Pétursson verja frá sér. Ljóst er að það fór margan Akureyringinn í stúkunni þegar HK hélt í sókn. Hörður Flóki varði hins vegar glæsilega skot HK og náði Heimir frákastinu en þó verður að viðurkennast að hann leit út fyrir að hoppa innan teigs og grípa boltann. HK-ingar tóku hins vegar ekki skynsömustu ákvörðunina í bransanum og mótmæltu dóminum sem varð til þess að Ragnari Hjaltested var vísað af velli og HK því tveimur færri í eina og hálfa mínútu af þeim tveimur sem eftir voru þegar þetta gerðist.

Akureyri nýtti sér næstu sókn sína til fullnustu og var það Heimir sem skoraði og kom Akureyri yfir. Þegar rúm mínúta var til leiksloka. HK hélt í sókn og átti Sverrir Hermannsson bylmingsskot sem hafnaði í báðum stöngum Akureyrar marksins áður en Hörður Flóki náði boltanum. Akureyri fékk boltann þegar um 25 sekúndur voru til leiksloka og náðu að hanga á honum þar til tvær sekúndur voru eftir en sá tími reyndist HK ekki nægur til að jafna og hafnaði því sigurinn og stigin tvö norðan heiða.

Varnarleikur liðsins var á köflum mjög góður og sóknarleikurinn var lengst af fínn en hrundi algjörlega síðustu 10 mínúturnar. Akureyri var klárlega betra liðið í leiknum en strákarnir geta ekki verið ánægðir með að missa leikinn niður í jafna stöðu í stað þess að nýta þau fjölmörgu færi sem þeir höfðu til að afgreiða viðureignina á sannfærandi hátt. Í lokin var það hreinlega mikil heppni sem varð til þess að sigurinn komst í hús, en við sláum ekki hendinni á móti henni, því heppni fylgir sigurvegurum, sætur sigur í höfn.


Sigurhringurinn í leikslok

Hjá okkar mönnum var Oddur Gretarsson frábær eins og svo oft áður en einnig áttu þeir Jónatan og Hörður fínan leik, Árni og Andri Snær áttu einnig ágætis spretti inn á milli. Hörður Flóki stóð að vanda fyrir sínu í markinu og varði 19 skot, þar af eitt víti.


Árni Sigtryggsson kom með nokkrar gamalkunnar sleggjur í kvöld

Hjá HK var Valdimar Þórsson hreint óstöðvandi í sókninni en maður leiksins hjá þeim var þó án efa Akureyringurinn Sveinbjörn Pétursson sem varði frábærlega í markinu, sérstaklega í síðari hálfleik og reyndist sínum gömlum félögum því sem næst óþægilega erfiður í kvöld.

Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 6, Árni Þór Sigtryggsson 5, Jónatan Magnússon 5, Andri Snær Stefánsson 4, Heimir Örn Árnason 3, Hörður Fannar Sigþórsson 3 og Guðmundur Hólmar Helgason 1 mark.
Jón Stefán Jónsson
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson