Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Höddi, Oddur og Hafþór fóru fyrir frábæru liði í dag





22. apríl 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Frækinn útisigur á Val - heimaleikur á laugardagskvöldið

Lið Akureyrar braut blað í sögu félagsins í dag á margan hátt. Ekki nóg með að liðið sigraði í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni Íslandsmótsins heldur vann liðið sinn fyrsta útisigur á Valsmönnum og þetta var svo sannarlega góður dagur til slíkra hluta. Ekki hægt að gefa stuðingsmönnum betri sumargjöf.

Það leit reyndar ekkert alltof vel út í byrjun leiks og Valsmenn virtust hafa leikinn í hendi sér. Þeir skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins og eftir nokkurra mínútna leik var staðan 6-2 Val í vil. Vörn Akureyrar náði sér ekki á strik og Hörður Flóki átti ekki mikla möguleika í markinu. Á sama tíma varði Hlynur Morthens eins og berserkur í Valsmarkinu.

Munurinn varð 8-3 en þá loks vaknaði Akureyrarliðið til lífsins. Þrjú mörk í röð hleyptu lífi í leikinn og baráttan kom í varnarleikinn og þar með tók Flóki nokkra góða bolta í markinu.

Eftir rúmlega þrettán mínútna leik varð Árni Sigtryggsson fyrir fólskulegri árás þegar Ingvar Árnason hreinlega lamdi hann í andlitið. Á einhvern óskiljanlegan hátt slapp Ingvar með einungis tveggja mínútna brottrekstur en eins og kom greinilega fram í endursýningu sjónvarpsins var hér ekki um neitt óviljaverk að ræða. Árni varð að yfirgefa völlinn og kom lítið við sögu það sem eftir lifði leiks.

Valur hélt frumkvæðinu en það var ljóst að Akureyrarliðið var komið á skrið. Hörður Fannar var öflugur á línunni sótti ófá vítaköst sem Oddur skilaði af öryggi í netið. Geir Guðmundsson leysti Árna af hólmi í skyttunni og skoraði tvö mikilvæg mörk. Oddur svo til þess að forysta Vals var einungis eitt mark í hálfleik, 14-13.
Hafþór kom í markið í stöðunni 11-8 og fann sig fljótlega, varði þrjú skot undir lok hálfleiksins.
Valsmenn gátu fyrst og fremst þakkað Hlyni markverði sínum að hafa forystu í hálfleik en hann varði sextán skot í hálfleiknum og þar af mörg úr dauðafærum.


Það var vel tekið á því í vörninni,
Höddi og Oddur stobba Baldvin Þorsteinsson Mynd: mbl.is/Eggert

Akureyri hóf seinni hálfleikinn af miklum krafti, skoruðu fyrstu þrjú mörkin og komnir með tveggja marka forystu 14-16. Liðið hreinlega blómstraði og það geislaði af liðinu. Varnarleikurinn small saman og Hafþór í sínu besta formi þar fyrir aftan. Valsmenn virtust slegnir út af laginu og glutruðu frá sér boltanum hvað eftir annað.

Vissulega klúðraði Akureyri boltanum nokkrum sinnum líka en Hafþór kom oftar en ekki til bjargar á örlagastundu.

Akureyri hélt frumkvæðinu næstu mínútur en í stöðunni 17-18 kom frábær kafli þar sem Akureyri náði fjögurra marka forystu 17-21 og ljóst að strákarnir höfðu fulla trú á verkefninu.
Valsmenn neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í eitt mark, 21-22 en Guðmundur Hólmar Helgason svaraði með glæsilegu marki sem Jonni og Oddur fylgdu eftir með sínu markinu hvor, staðan 21-25 og skammt til leiksloka.

Síðustu andartök leiksins gerðu Valsmenn örvæntingarfulla tilraun til að hleypa leiknum upp en Akureyrarliðið var öryggið uppmálað og landaði glæsilegum sigri 24-27.

Eftir erfiða byrjun var það klárlega dugnaðurinn og baráttan í vörninni sem var lykillinn að sigrinum auk þess sem Hafþór átti einn sinn traustasta leik í markinu í seinni hálfleiknum. Allir skiluðu varnarhlutverkum sínum með sóma og sóknarlega komu margir fínir sprettir þó við eigum klárlega nokkuð inni þar.

Hörður Fannar lék eins og engill, skoraði sex mörk og fiskaði fimm vítaköst. Oddur var öruggur á vítalínunni að vanda.

Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 11 (6 úr vítum), Hörður Fannar Sigþórsson 6, Geir Guðmundsson 3, Jónatan Magnússon 3, Hreinn Hauksson 2, Árni Sigtryggsson og Guðmundur Hólmar Helgason 1 mark hvor.

Hörður Flóki Ólafsson varði 3 skot og Hafþór Einarsson 16 skot.

Mörk Vals: Arnór Þór Gunnarsson 10 (7 úr vítum), Fannar Þór Friðgeirsson 7, Baldvin Þorsteinsson 3, Elvar Friðriksson 2, Ingvar Árnason 1, Sigurður Eggertsson 1.
Hlynur Morthens varði 24 skot, þar af 1 vítakast.

Þrátt fyrir þennan glæsta sigur verður að hafa í huga að nú er einungis leikhlé í viðureigninni. Baráttan heldur áfram á laugardagskvöldið og með sömu baráttu og fullri höll af áhorfendum þurfa menn að taka saman og klára verkefnið.

Á vefinn sport.is eru komnar fjölmargar skemmtilegar myndir frá leiknum, umfjöllun Snorra Sturlusonar og videóviðtöl.


Sigurstemming í leikslok og kampakátir stuðningsmenn Akureyrar sem yfirgnæfðu ótrúlega fámenna sveit heimamanna - Mynd: Hilmar Þór/sport.is

Smelltu hér til að skoða myndir og umfjöllun á sport.is og hér til að horfa á viðal við Jónatan Magnússon.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson