Nú liggja fyrir niðurstöður í vali lesenda heimasíðunnar á kjöri leikmanns októbermánaðar. Alls bárust 450 atkvæði í kosningunni og fengu allir leikmenn liðsins atkvæði. Það er greinilegt að frammistaða markvarða liðsins í október hefur verið stuðningsmönnum að skapi því að þeir félagar Sveinbjörn Pétursson og Stefán Guðnason fengu afgerandi flest atkvæði.
Sveinbjörn Pétursson hlýtur titilinn að þessu sinni en hann fékk 138 atkvæði eða 30,7% en Stefán Guðnason var ekki langt undan með 113 atkvæði eða 25,1%. Í þriðja sæti hafnaði Bjarni Fritzson en hann fékk 50 atkvæði, Guðmundur Hólmar Helgason og Oddur Gretarsson urðu hnífjafnir í 4.-5. sæti með 35 atkvæði og Heimir Örn Árnason í 6. sæti með 24 atkvæði. Aðrir fengu minna.
Hér má sjá hvernig atkvæði sex efstu leikmanna dreifðust
Við óskum Sveinbirni til hamingju með titilinn sem hann er svo sannarlega vel að kominn.
Við þökkum að sjálfsögðu öllum sem tóku þátt í kjörinu, næsta verkefni verður svo að kjósa leikmann nóvembermánaðar en síðasti leikur mánaðarins er 25. nóvember, heimaleikur gegn HK og strax að loknum þeim leik hefst sú kosning.
Hér sjáum við svo nokkrar myndir af Sveinbirni í leikjum mánaðarins.
Sveinbjörn í þann mund að verja annað af tveim vítaköstum
gegn Aftureldingu 7. okt
Sveinbjörn brosmildur undir lok leiksins gegn Aftureldingu
Sveinbjörn fór á kostum í markinu gegn Haukum 22. október
Einbeittur Sveinbjörn stendur vaktina gegn Haukum
Sveinbjörn og Aron Rafn voru leikmenn sinna liða 22. okt
Sveinbjörn er búinn að eiga frábært tímabil það sem af er, þrisvar verið valinn maður leiksins og með flotta tölfræði. Hér má sjá tölfræði Sveinbjörns og fleiri myndir frá ferlinum með Akureyri.
Þrátt fyrir ungan aldur þá á Sveinbjörn magnaða sögu með Akureyrarliðinu en hann lék með liðinu fyrstu tvö árin eftir stofnun og á næstum öll markvarðamet í sögu félagsins og mun væntanlega eiga þau öll áður en þessu tímabili lýkur.
Sjá tölfræðiyfirlit liðsins.