Það er ekkert sem jafnast á við stemminguna á úrslitaleik þar sem húsið er gjörsamlega troðfullt af áhorfendum sem styðja sitt lið með ráðum og dáð. Við efumst ekki um að stemmingin verður rafmögnuð í Íþróttahöllinni í kvöld þegar Akureyri og FH mætast í fyrsta leiknum um Íslandsmeistaratitilinn 2011 og að Höllin verði troðfull.
Eflaust muna fjölmargir eftir stemmingunni sem var í Höllinni 19. nóvember 2001 en þá mættust Akureyrarliðin Þór og KA í deildarkeppninni sem þá hét ESSÓ deildin. Höllin var þétt pökkuð af fólki, samkvæmt leikskýrslu voru áhorfendur um 2.000 og stemmingin algjörlega meiriháttar enda leikurinn æsispennandi og endaði með jafntefli 28-28.
Í þá daga flykktist fólk í Höllina til að hvetja sína menn gegn höfuðandstæðingnum en nú hafa menn snúið bökum saman og standa sameinaðir í baráttunni. Leikurinn í dag er miklu þýðingarmeiri en þessi leikur frá 2001 og því heitum við á alla þá sem voru í Höllinni 19. nóvember 2001 að koma í kvöld og sameinast í baráttunni, Akureyrarliðið hefur svo sannarlega sýnt það í vetur að handbolti er skemmtun sem skorar.
Þórir Tryggvason sendi okkur þessar myndir frá leiknum og eins og sést þá var stemmingin mögnuð og ekki spillir að ýmsir af leikmönnunum eru enn í fullu fjöri:
Það er ekki amalegt að hafa slíkan áhorfendaskara með sér
Vonandi fáum við neðri stúkuna í gagnið fyrir næsta tímabil
KA menn sækja að Þórs vörninni
Þór sækir að KA markinu, trúlega Goran Cusic hér næstur á myndinni
KA menn sækja að Þórs vörninni
Hreinn Þór Hauksson skorar hjá Birni Björnssyni
Þorvaldur Þorvaldsson og Aigars Lazdins stöðva Halldór Jóhann Sigfússon, Arnór Atlason fylgist með
Eitthvað hefur gengið á og dómararnir skakka leikinn. Hér má þekkja Einar Loga Friðjónsson, Jóhann Gunnar Jóhannsson, Hafþór Einarsson, Pál Viðar Gíslason og Halldór Jóhann Sigfússon
Heimir Örn Árnason brýtur á Brynjari Þór Hreinssyni (sem lék um tíma með Akureyri) en í baksýn er enginn annar en Arnar Gunnarsson sem við höfum í vetur heyrt lýsa leikjum Akureyrar og Selfoss á útvarpi Suðurlands
Heimir Örn Árnason og Jónatan Magnússon leggja Aigars Lazdins að velli.
Þess má geta að Heimir fékk tvær brottvísanir í leiknum
Fyrir þá sem vilja kynna sér persónur og leikendur í þessum hörkuleik þá er hægt að nálgast leikskýrsluna með því að smella hér.