Guðmundur Hólmar, Stefán Guðnason og Bjarni settu heldur betur svip á leikinn
| | 23. nóvember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifarHáspennujafntefli hjá FH og AkureyriÞað var ljóst frá fyrstu mínútu leiksins í kvöld að Akureyri ætlaði að sýna landsmönnum að síðasti leikur liðanna á sama stað var eitthvað sem ekki yrði boðið upp á aftur. Akureyri fór af stað af miklum krafti og virtist ætla að valta yfir heimamenn. Sveinbjörn fór á kostum í markinu og bæði vörn og sóknarleikur til fyrirmyndar.
Hér á eftir fer umfjöllun Snorra Sturlusonar hjá sport.is ásamt myndum sem hann birti á vefnum sport.is.
Akureyringar hófu leikinn í Kaplakrika í kvöld af miklum krafti og höfðu greinilega lært ákveðna lexíu af stóru tapi á þessum sama stað í Eimskipsbikarkeppninni á dögunum. Norðanmenn voru frískir og fjörugir á upphafsmínútunum, keyrðu grimmt í bakið á FH-ingum og nýttu færin sín vel. Vörnin þeirra var í góðum gír og Sveinbjörn í miklum þar fyrir aftan og fyrr en varði höfðu Akureyringar náð fimm marka forystu, fyrst 9-4 og svo 10-5. Þá loksins virtust FH-ingar átta sig á óvenjulegri tímasetningu leiksins, ákváðu að mæta til leiks og létu þá hraustlega til sín taka. Vörnin small í lag og Daníel hreinlega lokaði markinu á löngum köflum, skotvalið varð álitlegra og nýtingin reyndar líka, en á sama tíma féll Akureyringum eldur í ketil. Þeir urðu bráðir, óðagotið mikið og véfengja má ákvarðanatökun á löngum köflum.
Takturinn var FH-inga á þessum kafla og fyrr en varði voru þeir búnir að jafna metin, 11-11, og skömmu síðar voru þeir komnir yfir, 12-11, höfðu þá tekið sprett þar sem þeir skoruðu sjö mörk gegn einu. Lokamínútur fyrri hálfleiksins voru jafnar, Akureyringar ákváðu að bogna en brotna ekki og staðan í hálfleik var jöfn, 14-14. Líklega má færa fyrir því haldbær rök að sú staða hafi verið sanngjörn, Akureyringar voru sterkari framan af fyrri hálfleiknum en FH-ingar réðu ferðinni síðari hlutann. Hörður Fannar er greinilega að komast á gott skrið eftir meiðslin sem hann hlaut einmitt í leik gegn FH í haust Sama jafnræðið var með liðunum framan af síðari hálfleiknum og glímutökin voru karlmannleg. Kappar eins og Ólafur Gústafsson og Guðmundur Hólmar Helgason létu talsvert að sér kveða, Andri Berg sýndi margfrægan baráttuvilja og Heimir Örn hjó á hnúta, ekki bara með mörkum heldur með því að spila félaga sína uppi. Þegar síðari hálfleikurinn var hálfnaður var staðan enn jöfn, 22-22, FH-ingar gerðu sig nokkrum sínum líklega til að rífa sig frá gestunum en barátta og vilji Akureyringar var til eftirbreytni, nokkuð sem virst hefur vanta í nokkrum leikja liðsins í vetur, einkum þegar á móti blæs. Heimir átti magnaðan leik en fékk þrjár brotvísanir í leiknum FH-ingar náðu tveggja marka forystu í fyrsta sinn í leiknum þegar þeir komust í 26-24 og rúmar tíu mínútur til leiksloka, þá hafði staðið jafnt á öllum tölum síðan í stöðunni 11-11. Akureyringar brugðust við þessari sveiflu með því að skora fjögur næstu mörkin í leiknum og breyta stöðunni í 28-26 sér í vil, ekki síst fyrir tilstilli Stefáns Guðnasonar sem tók sér stöðu á milli stanganna. FH-ingar fundu engar glufur á þessum kafla, en Ólafur Gústafsson braut loksins ísinn tæpum fimm mínútum fyrir leikslok, 27-28.
Lokamínúturnar voru hádramatískar, spennan nánast áþreifanleg. Títtnefndur Ólafur Gústafsson jafnaði metin, 29-29, rúmri mínútu fyrir leikslok, síðasta sókn Akureyringa rann út í sandinn þrettán sekúndum fyrir leikslok og Heiðar Þór Aðalsteinsson uppskar rautt spjald fyrir brot fimm sekúndum síðar auk þess sem FH-ingar fengu vítakast. Stefán Guðnason toppaði frábæra innkomu sína með því að verja vítið. Ari Magnús Þorgeirsson FH-ingur gerðist í kjölfarið brotlegur og fékk að líta rauða spjaldið, en sekúndurnar þrjár sem eftir lifðu nægðu ekki stórra verka. Niðurstaðan er jafntefli 29-29 og geta bæði lið unað nokkuð sátt við sitt.
Mörk FH: Þorkell Magnússon 8 (5 úr vítum), Ólafur Gústafsson 8, Andri Berg Haraldsson 6, Ari Magnús Þorgeirsson 3, Sigurður Ágústsson 2, Halldór Guðjónsson 1, Hjalti Þór Pálmason 1. Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 18 þar af 1 vítakast. Utan vallar: 14.mínútur.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 8 (2 úr vítum), Guðmundur Hólmar Helgason 8, Oddur Gretarsson 5, Hörður Fannar Sigþórsson 4, Heimir Örn Árnason 3, Bergvin Þór Gíslason 1. Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 17, Stefán Guðnason 4 þar af 1 vítakast. Utan vallar: 14 mínútur.
Sjá umfjöllun Snorra Sturlusonar og myndir á sport.is |